Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Ég er fötluð núna en ekki að eilífu“

„Ég er fötluð núna en ekki að eilífu“

„Ég er fötluð núna en ekki að eilífu“

Sara van der Monde segir frá

Fólk segir oft við mig: „Sara, þú brosir svo fallega. Hvers vegna ertu alltaf svona glaðleg?“ Ég segi þeim að ég eigi mér sérstaka von. Í stuttu máli hljóðar hún svona: „Ég er fötluð núna en ekki að eilífu.“

ÉG FÆDDIST árið 1974 í París í Frakklandi. Fæðingin var erfið og síðar var ég greind með heilalömun. Ég hafði takmarkaða hreyfigetu og það var erfitt að skilja mig þegar ég talaði. Ég varð einnig flogaveik og var gjörn á að fá smitsjúkdóma.

Þegar ég var tveggja ára fluttumst við fjölskyldan til Melbourne í Ástralíu. Tveim árum síðar fór pabbi frá okkur mömmu. Ég minnist þess að þá hafi ég í fyrsta sinn fundið til nálægðar við Guð. Mamma var vottur Jehóva og fór reglulega með mig á safnaðarsamkomur þar sem ég lærði að Guð elskaði mig og bæri umhyggju fyrir mér. Sú vitneskja, ásamt kærleika og hughreystingu mömmu, veitti mér öryggiskennd þrátt fyrir breyttar aðstæður.

Mamma kenndi mér einnig að biðja til Jehóva. Mér finnst reyndar langtum auðveldara að biðja bæna en tala. Þegar ég bið þarf ég ekki að streitast við segja orðin heldur „heyri“ ég þau greinilega myndast í huganum. Og þar sem erfitt er að skilja það sem ég segi er hughreystandi til þess að vita að Jehóva skilur allt, hvort sem ég segi það í hljóði í huganum eða með óskýru tali. – Sálm. 65:3.

Baráttan við mótlæti lífsins

Þegar ég var fimm ára hafði lömunin náð því marki að ég þurfti að nota þungar spelkur til að geta gengið. Reyndar má segja að ég hafi frekar vaggað en gengið. Og 11 ára gat ég alls ekki gengið. Seinna varð ég ófær um að fara hjálparlaust úr rúminu og þurfti að notast við rafknúinn lyftara til að færa mig í vélknúna hjólastólinn minn. Ég stjórna honum með handstýringu.

Ég játa að ég verð stundum niðurdregin vegna þess að ég er fötluð. En þá man ég eftir einkunnarorði fjölskyldunnar: „Hafðu ekki áhyggjur af því sem þú getur ekki. Haltu bara áfram að gera það sem þú getur.“ Þetta hefur hjálpað mér að fara á hestbak, sigla, róa kanó, fara í útilegur og jafnvel aka bíl á afmarkaðri braut. Ég fæ útrás fyrir sköpunargáfuna með því að mála, sauma, vattera, sauma út og búa til leirmuni.

Vegna þess hve fötluð ég er hafa sumir efast um að ég sé fær um að taka eigin ákvörðun um að tilbiðja Guð. Þegar ég var 18 ára hvatti kennari mig til að flytjast að heiman og „losna undan“ trú móður minnar. Hún bauðst meira að segja til að hjálpa mér að finna húsnæði. En ég sagði henni að ég myndi aldrei yfirgefa trú mína og færi ekki að heiman fyrr en ég væri tilbúnari til að sjá um mig sjálf.

Stuttu eftir atvikið með kennaranum lét ég skírast sem vottur Jehóva. Tveimur árum síðar flutti ég í litla íbúð. Ég er ánægð af því að ég fæ bæði þann stuðning sem ég þarf og hef það sjálfstæði sem ég vil.

Óvænt bónorð

Um dagana hef ég orðið fyrir öðrum trúarprófraunum. Einn daginn varð ég meira en lítið hissa þegar skólafélagi minn, sem var líka fatlaður, bað mig um að giftast sér. Í fyrstu varð ég upp með mér. Eins og flestar ungar stúlkur langaði mig til að eignast lífsförunaut. En það er engin trygging fyrir farsælu hjónabandi að eiga það sameiginlegt að vera fötluð. Þar að auki var ungi maðurinn ekki sömu trúar og ég. Trú okkar, áhugamál og markmið voru gerólík. Hvernig gátum við þá átt hamingjuríka ævi saman? Ég var einnig ákveðin í að hlýða leiðbeiningu Guðs um að giftast aðeins manni sem væri sömu trúar og ég. (1. Kor. 7:39) Ég sagði því vingjarnlega við unga manninn að ég gæti ekki tekið bónorðinu.

Ég er enn sannfærð um að ég tók rétta ákvörðun. Og ég er ekki í vafa um að ég verði hamingjusöm í nýja heiminum sem Guð hefur lofað. (Sálm. 145:16; 2. Pét. 3:13) Þangað til er ég ákveðin í að reynast trúföst Jehóva og vera ánægð með núverandi aðstæður.

Ég þrái heitt þann dag þegar ég get hoppað úr hjólastólnum og hlaupið út um allt. Þá mun ég kalla upp yfir mig: „Ég var fötluð en núna er ég heilbrigð – að eilífu!“