Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Gestir og útlendingar“ í illum heimi

„Gestir og útlendingar“ í illum heimi

„Gestir og útlendingar“ í illum heimi

„Allir þessir menn . . . játuðu að þeir væru gestir og útlendingar á jörðinni.“ – HEBR. 11:13.

1. Hvað sagði Jesús um stöðu fylgjenda sinna í heiminum?

„ÞEIR eru í heiminum,“ sagði Jesús um lærisveina sína en bætti við til skýringar: „Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum.“ (Jóh. 17:11, 14) Með þessum orðum gaf Jesús skýrt til kynna hver staða sannra fylgjenda hans ætti að vera í þessum heimi sem á Satan að guði. (2. Kor. 4:4) Þeir eiga ekki að vera af þessum illa heimi þó að þeir búi í honum. Þeir eiga að vera sem ,gestir og útlendingar‘. – 1. Pét. 2:11.

Þau voru sem „gestir og útlendingar“

2, 3. Hvers vegna má segja að Enok, Nói, Abraham og Sara hafi verið sem „gestir og útlendingar á jörðinni“?

2 Trúfastir þjónar Jehóva hafa alla tíð skorið sig úr fjöldanum í þessum óguðlega heimi. Enok og Nói ,gengu með Guði‘ á tímanum fyrir flóðið. (1. Mós. 5:22-24; 6:9) Báðir boðuðu þeir hugrakkir dóma Jehóva gegn illum heimi Satans. (Lestu 2. Pétursbréf 2:5; Júdasarbréfið 14, 15.) Enok og Nói gengu með Guði í óguðlegum heimi. Þess vegna var Enok „Guði þóknanlegur“ og Nói talinn „réttlátur og vandaður maður á sinni tíð“. – Hebr. 11:5; 1. Mós. 6:9.

3 Að boði Jehóva yfirgáfu Abraham og Sara þægindin í borginni Úr í Kaldeu og tóku þeirri áskorun að lifa eins og hirðingjar í ókunnu landi. (1. Mós. 11:27, 28; 12:1) Páll postuli skrifaði: „Fyrir trú hlýddi Abraham, er hann var kallaður, og fór burt til staðar sem hann átti að fá til eignar. Hann fór burt og vissi ekki hvert leiðin lá. Fyrir trú settist hann að í hinu fyrirheitna landi eins og útlendingur og hafðist við í tjöldum ásamt Ísak og Jakobi sem Guð hafði heitið því sama og honum.“ (Hebr. 11:8, 9) Páll sagði um slíka trúfasta þjóna Jehóva: „Allir þessir menn dóu í trú án þess að hafa öðlast fyrirheitin. Þeir sáu þau álengdar og fögnuðu þeim og játuðu að þeir væru gestir og útlendingar á jörðinni.“ – Hebr. 11:13.

Ísraelsþjóðin var vöruð við

4. Við hverju var Ísraelsþjóðin vöruð áður en hún settist að í landinu?

4 Afkomendur Abrahams, Ísraelsmenn, urðu fjölmennir og með tímanum gerði Guð þá að þjóð með eigin lagasáttmála og eignarland. (1. Mós. 48:4; 5. Mós. 6:1) Þeir áttu alltaf að muna að það var í rauninni Jehóva sem átti landið. (3. Mós. 25:23) Þeir voru eins og leiguliðar í landinu sem þurftu að virða kröfur eigandans. Ísraelsmenn áttu einnig að hafa hugfast að „maðurinn lifir ekki á einu saman brauði“ og máttu því ekki láta efnislega velsæld verða til þess að þeir gleymdu Jehóva. (5. Mós. 8:1-3) Áður en Ísraelsþjóðin settist að í landinu gaf Jehóva þeim þessa viðvörun: „Drottinn, Guð þinn, mun leiða þig inn í landið sem hann sór feðrum þínum, Abraham, Ísak og Jakobi, að gefa þér, land með stórum og fögrum borgum sem þú byggðir ekki, með húsum fullum af alls kyns góðum hlutum sem þú safnaðir ekki, úthöggnum brunnum sem þú hjóst ekki, víngörðum og ólífutrjám sem þú gróðursettir ekki. Þegar þú matast og verður mettur, gæt þess þá að þú gleymir ekki Drottni.“ – 5. Mós. 6:10-12.

5. Af hverju hafnaði Jehóva Ísraelsþjóðinni og hvaða þjóð valdi hann sér i staðinn?

5 Það var ekki að ástæðulausu að Jehóva gaf þjóðinni þessa viðvörun. Á dögum Nehemía minntist hópur Levíta þess með skömm sem gerðist eftir að þjóðin settist að í fyrirheitna landinu. Þegar Ísraelsmenn voru farnir að búa í þægilegum húsum og áttu meira en nóg af mat og víni ,átu þeir, urðu mettir og fitnuðu‘. Þeir gerðu uppreisn gegn Guði og drápu jafnvel spámennina sem hann sendi til að vara þá við. Það varð til þess að Jehóva leyfði óvinum þeirra að sigra þá. (Lestu Nehemía 9:25-27; Hós. 13:6-9) Síðar, þegar þjóðin var undir yfirráðum Rómverja, gengu ótrúir Gyðingar svo langt að drepa hinn fyrirheitna Messías. Jehóva hafnaði þeim og valdi sér nýja þjóð, hinn andlega Ísrael. – Matt. 21:43; Post. 7:51, 52; Gal. 6:16.

„Ekki af heiminum“

6, 7. (a) Útskýrðu orð Jesú um stöðu fylgjenda hans í heiminum. (b) Af hverju máttu sannkristnir menn ekki verða hluti af heimi Satans?

6 Bent var á fyrr í greininni að Jesús, sem er höfuð kristna safnaðarins, sagði skýrt að fylgjendur hans myndu vera aðgreindir frá þessum illa heimi Satans. Hann sagði við lærisveina sína stuttu áður en hann dó: „Væruð þér af heiminum mundi heimurinn elska sína. Heimurinn hatar yður af því að þér eruð ekki af heiminum heldur hef ég útvalið yður úr heiminum.“ – Jóh. 15:19.

7 Áttu kristnir menn að laga sig að heiminum og taka upp hætti hans þegar fram liðu stundir og kristnin breiddist út? Nei, þeir áttu að halda sig aðgreindum frá heimi Satans hvar sem þeir byggju. Um þremur áratugum eftir dauða Krists skrifaði Pétur postuli til kristinna manna víðs vegar um Rómaveldi: „Þið elskuðu, ég áminni ykkur sem gesti og útlendinga að halda ykkur frá holdlegum girndum sem heyja stríð gegn sálunni. Hegðið ykkur vel meðal þjóðanna.“ – 1. Pét. 1:1; 2:11, 12.

8. Hvernig lýsir sagnfræðingur sambandi frumkristinna manna við heiminn?

8 Sagnfræðingurinn Kenneth Scott Latourette staðfestir að frumkristnir menn í Rómaveldi hafi litið á sig sem „gesti og útlendinga“. Hann skrifar: „Það er þekkt staðreynd að á fyrstu þremur öldum kristninnar urðu fylgjendur hennar fyrir stöðugum og oft grimmilegum ofsóknum . . . Ásakanirnar voru af ýmsum toga. Þeir voru kallaðir guðleysingjar vegna þess að þeir neituðu að taka þátt í heiðnum siðvenjum. Þeir héldu sig frá mörgu sem þótti sjálfsagt í samfélaginu svo sem siðleysi, heiðnum hátíðum og skemmtunum, sem kristnum mönnum fannst gegnsýrðar af heiðnum kenningum, og frá heiðnum trúarathöfnum. Þess vegna voru þeir niðurlægðir og álitnir mannhatarar.“

Við gernýtum okkur ekki gæði heimsins

9. Hvernig sýnum við og sönnum að við séum engir „mannhatarar“?

9 Hvernig er staðan nú á dögum? Við höfum sömu afstöðu og frumkristnir menn gagnvart „hinni yfirstandandi vondu öld“. (Gal. 1:4) Þess vegna misskilja margir okkur og sumir hata okkur jafnvel. En við erum alls engir „mannhatarar“. Við förum hús úr húsi og reynum eftir fremsta megni að hitta alla til að færa þeim „fagnaðarerindið um ríkið“ vegna þess að okkur er annt um náungann. (Matt. 22:39; 24:14) Við gerum þetta vegna þess að við erum sannfærð um að ríki Jehóva undir stjórn Krists muni bráðlega binda enda á ófullkomnar stjórnir manna og koma á nýjum réttlátum heimi. – Dan. 2:44; 2. Pét. 3:13.

10, 11. (a) Hvernig notum við gæði heimsins að vissu marki? (b) Hvernig geta gætnir þjónar Jehóva varast að gernýta sér gæði heimsins?

10 Þar sem endir þessa illa heimskerfis vofir yfir gerum við, sem þjónum Jehóva, okkur grein fyrir að nú er ekki tímabært að koma sér notalega fyrir í heiminum. Við förum eftir þessum orðum Páls postula: „En það segi ég, systkin, tíminn er orðinn naumur. Hér eftir skulu jafnvel þau . . . sem kaupa [vera] eins og þau héldu ekki því sem þau keyptu, og þau sem njóta heimsins gæða eins og þau færðu sér þau ekki í nyt. Því að heimurinn í núverandi mynd líður undir lok.“ (1. Kor. 7:29-31) En hvernig nota kristnir menn nú á tímum heimsins gæði? Þeir gera það með því að nota tækni og samskiptaleiðir nútímans til að fræða fólk um Biblíuna á hundruðum tungumála um allan heim. Þeir nota gæði heimsins að vissu marki til að sjá fyrir sér. Þeir kaupa nauðsynlega vöru og þjónustu sem heimurinn býður upp á. En þeir forðast að gernýta sér heiminn og láta ekki líf sitt snúast um veraldlegar eignir eða störf. – Lestu 1. Tímóteusarbréf 6:9, 10.

11 Gætnir þjónar Jehóva varast að gernýta sér gæði heimsins hvað varðar æðri menntun. Margir í heiminum líta á æðri menntun sem nauðsynlegan stökkpall til að komast áfram í lífinu og afla sér auðæfa. En við erum kristin og lítum á okkur sem gesti og útlendinga og höfum önnur markmið í lífinu. Við ætlum okkur ekki „mikinn hlut“. (Jer. 45:5; Rómv. 12:16) Við fylgjum Jesú og hlýðum viðvörun hans. Hann sagði: „Gætið ykkar og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum þótt auðugur sé.“ (Lúk. 12:15) Við hvetjum því unga fólkið í söfnuðinum til að setja sér andleg markmið og afla sér ekki meiri menntunar en nauðsynlegt er til að sjá fyrir sér, heldur einbeita sér að því að verða hæft til að þjóna Jehóva og gera það ,af öllu hjarta, sálu, mætti og huga‘. (Lúk. 10:27) Þannig geta þau orðið ,rík í augum Guðs‘. – Lúk. 12:21; lestu Matteus 6:19-21.

Látum ekki áhyggjur lífsins íþyngja okkur

12, 13. Hvernig gerir það okkur ólík fólki í heiminum að við skulum hlýða orðum Jesú í Matteusi 6:31-33?

12 Þjónar Jehóva hafa annað viðhorf til efnislegra hluta en fólk í heiminum. Jesús sagði fylgjendum sínum: „Segið því ekki áhyggjufull: Hvað eigum vér að eta? Hvað eigum vér að drekka? Hverju eigum vér að klæðast? Allt þetta stunda heiðingjarnir og yðar himneski faðir veit að þér þarfnist alls þessa. En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki.“ (Matt. 6:31-33) Mörg trúsystkini okkar hafa sannreynt að faðirinn á himnum sér þeim fyrir því sem þau þarfnast.

13 „Trúin samfara nægjusemi er mikill gróðavegur.“ (1. Tím. 6:6) Þetta stangast verulega á við ríkjandi viðhorf í heiminum. Mörgu ungu fólki finnst til dæmis sjálfsagt að það geti eignast allt um leið og það byrjar að búa. Það á að eiga hús eða íbúð með húsgögnum og öllum þægindum, góðan bíl og nýjustu tækin. En þjónar Guðs, sem líta á sig sem gesti og útlendinga, leyfa sér ekki eltast við óraunhæfa drauma. Það er mjög hrósvert að margir skuli fórna efnislegum þægindum til að geta helgað meira af tíma sínum og kröftum því að þjóna Jehóva og boða Guðsríki af kappi. Sumir eru brautryðjendur, í farandstarfi, trúboðar eða starfa á Betel. Við kunnum öll að meta heilshugar þjónustu trúsystkina okkar við Jehóva.

14. Hvað getum við lært af dæmisögu Jesú um sáðmanninn?

14 Í dæmisögu sinni um sáðmanninn sagði Jesús að „áhyggjur heimsins og tál auðæfanna“ gætu kæft orð Guðs í hjarta okkar og orðið til þess að við bærum engan ávöxt. (Matt. 13:22) Við getum forðast þá gildru með því að lifa nægjusömu lífi eins og gestir og útlendingar í þessu heimskerfi. Og það gerir okkur kleift að vera með ,heilt auga‘ eða hafa Guðsríki í brennidepli og láta það hafa forgang í lífi okkar. – Matt. 6:22.

„Heimurinn fyrirferst“

15. Hvað sagði Jóhannes postuli sem hefur áhrif á viðhorf kristinna manna til heimsins?

15 Ein aðalástæðan fyrir því að við lítum á okkur sem „gesti og útlendinga“ í þessum heimi er sú að við erum sannfærð um að dagar hans eru taldir. (1. Pét. 2:11; 2. Pét. 3:7) Þetta viðhorf stýrir ákvörðunum okkar, löngunum og þrám. Jóhannes postuli ráðlagði trúsystkinum sínum að elska hvorki heiminn né þá hluti sem í honum eru vegna þess að „heimurinn fyrirferst og fýsn hans en sá sem gerir Guðs vilja varir að eilífu“. – 1. Jóh. 2:15-17.

16. Hvernig getum við sýnt að við tilheyrum eignarlýð Jehóva sem er aðgreindur frá heiminum?

16 Ísraelsþjóðinni var sagt að ef hún hlýddi Jehóva yrði hún „sérstök eign [hans], umfram aðrar þjóðir“. (2. Mós. 19:5) Þegar Ísraelsmenn voru trúfastir skáru þeir sig úr meðal annarra þjóða í tilbeiðslu og lífsháttum. Jehóva hefur á svipaðan hátt tekið frá fólk fyrir sig núna sem sker sig úr í heimi Satans. Okkur er sagt að „afneita óguðleik og veraldlegum girndum og lifa hóglátlega, réttvíslega og guðrækilega í heimi þessum, í eftirvæntingu okkar sælu vonar, að hinn mikli Guð og frelsari vor Jesús Kristur opinberist í dýrð sinni. Hann gaf sjálfan sig fyrir okkur til þess að hann leysti okkur frá öllu ranglæti og hreinsaði sjálfum sér til handa eignarlýð, kostgæfinn til góðra verka.“ (Tít. 2:11-14) Þessi ,eignarlýður‘ samanstendur af andasmurðum fylgjendum Krists og milljónum ,annarra sauða‘ hans sem hjálpa þeim og styðja. – Jóh. 10:16.

17. Hvers vegna munu hinir andasmurðu og félagar þeirra aldrei sjá eftir að hafa verið eins og gestir og útlendingar í þessum illa heimi?

17 Hinir andasmurðu hafa þá ,sælu von‘ að ríkja með Kristi á himnum. (Opinb. 5:10) Þegar von annarra sauða um eilíft líf á jörð verður að veruleika verða þeir ekki lengur sem gestir og útlendingar í illum heimi. Þeir eignast falleg heimili og hafa gnægð matar og drykkjar. (Sálm. 37:10, 11; Jes. 25:6; 65:21, 22) Ólíkt Ísraelsmönnum munu þeir aldrei gleyma að allt þetta kemur frá Jehóva sem er „Guð allrar jarðarinnar“. (Jes. 54:5) Hvorki hinir andasmurðu né aðrir sauðir munu sjá eftir því að hafa verið eins og gestir og útlendingar í þessum illa heimi.

Hvert er svarið?

• Hvernig voru trúfastir þjónar Jehóva til forna eins og gestir og útlendingar?

• Hvernig hegðuðu frumkristnir menn sér gagnvart heiminum?

• Hvernig varast þjónar Jehóva að gernýta sér gæði heimsins?

• Hvers vegna munum við aldrei sjá eftir því að hafa verið eins og gestir og útlendingar í þessum illa heimi?

[Spurningar]

[Mynd á bls. 18]

Frumkristnir menn forðuðust ofbeldisfulla og siðlausa skemmtun.