Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hefurðu ánægju af „að mega taka þátt í samskotunum“?

Hefurðu ánægju af „að mega taka þátt í samskotunum“?

Hefurðu ánægju af „að mega taka þátt í samskotunum“?

KRISTNIR menn í Filippí voru þekktir fyrir að styðja sanna tilbeiðslu af miklu örlæti. Páll postuli skrifaði í innblásnu bréfi sínu til þeirra: „Ég þakka Guði mínum í hvert skipti sem ég hugsa til ykkar og geri ávallt í öllum bænum mínum með gleði bæn fyrir ykkur öllum vegna samfélags ykkar um fagnaðarerindið frá því þið tókuð við því og allt til þessa.“ (Fil. 1:3-5) Páll mundi vel eftir því þegar Lýdía og heimilisfólk hennar létu skírast, og hann minntist gestrisni hennar þegar hún fylgdi því fast fram að hann og trúboðsfélagar hans gistu á heimili hennar. – Post. 16:14, 15.

Það var skömmu eftir þetta sem hinn nýstofnaði söfnuður í Filippí sendi Páli tvívegis vistir um 160 kílómetra veg til Þessaloníku, en Páll dvaldist þar um nokkurra vikna skeið meðal trúsystkina sinna. (Fil. 4:15, 16) Nokkrum árum síðar varð mikil neyð og ,sár fátækt‘ meðal þjóna Guðs í Filippí og annars staðar í Makedóníu. En þegar þeir fréttu af ofsóknum á hendur trúsystkinum sínum í Jerúsalem og bágindum þeirra vildu þeir fyrir hvern mun hlaupa undir bagga með þeim. Páll nefndi að þeir hefðu gefið „umfram efni sín“ en bætti við: „Lögðu þeir fast að mér og báðu um að mega taka þátt í samskotunum til hinna heilögu.“ – 2. Kor. 8:1-4; Rómv. 15:26.

Kristnir menn í Filippí sýndu enn sama örlætið um það bil áratug eftir að söfnuðurinn var stofnaður þar í borg. Þeir höfðu frétt að Páll væri fangi í Róm og sendu Epafrodítus tæplega 1.300 kílómetra leið yfir land og sjó til að færa honum nauðsynjar. Það er ljóst að kristnir menn í Filippí vildu styðja Pál svo að hann gæti haldið áfram að styrkja söfnuðina og boða trúna, jafnvel meðan hann var í fangelsi. – Fil. 1:12-14; 2:25-30; 4:18.

Kristnir menn nú á tímum telja það heiður að mega styðja boðunina og kennsluna. (Matt. 28:19, 20) Þeir gera það með því að nota tíma sinn, krafta og fjármuni til eflingar starfinu. Í rammanum hér að neðan er að finna nokkrar ábendingar um hvernig hægt sé að styðja boðun fagnaðarerindisins.

[Rammi á bls. 22, 23]

LEIÐIR TIL AÐ STYÐJA BOÐUNARSTARFIÐ FJÁRHAGSLEGA

Bein fjárframlög: Margir leggja til hliðar í hverjum mánuði ákveðna fjárhæð og setja hana í baukinn sem er ætlaður fyrir framlög til alþjóðastarfsins. Söfnuðirnir senda síðan þessi framlög til næstu deildarskrifstofu Votta Jehóva.

Einstaklingar geta sent framlög beint til Votta Jehóva, Sogavegi 71, 108 Reykjavík, eða lagt þau inn á bankareikning 525-26-24564 hjá Íslandsbanka. Kennitala safnaðarins er 591072-0219. Þeir sem vilja styðja alþjóðastarfið með reglulegum fjárframlögum og hafa aðgang að netbanka eða heimabanka geta látið bankann millifæra ákveðna upphæð með reglulegu millibili. Ef sent er framlag með ávísun á að stíla hana á Votta Jehóva. Hvernig sem framlagið er sent væri gott að stutt skýring fylgdi með, þess efnis að um frjálst framlag sé að ræða.

Auk þess að gefa bein fjárframlög er hægt að styðja boðunarstarfið með eftirfarandi hætti:

Líftrygging: Hægt er að tilnefna söfnuð Votta Jehóva sem rétthafa bóta. Tryggingartaki þarf að eiga samráð við tryggingafélag sitt um slíka ráðstöfun.

Hlutabréf og önnur verðbréf: Hægt er að afhenda söfnuði Votta Jehóva hlutabréf og ýmis önnur verðbréf að gjöf. Hið sama er að segja um aðra lausafjármuni.

Fasteignir: Hægt er að afhenda söfnuði Votta Jehóva seljanlegar fasteignir að gjöf. Hafa skal samráð við deildarskrifstofuna í Danmörku áður en fasteign er ráðstafað með þeim hætti.

Erfðaskrá: Hægt er að ánafna söfnuði Votta Jehóva fasteignir eða lausafé í erfðaskrá. Erfðaskráin þarf að fullnægja opinberum formskilyrðum.

Nánari upplýsingar er hægt að fá hjá deildarskrifstofu Votta Jehóva í Danmörku. Lesendur í öðrum löndum ættu að senda framlög sín til deildarskrifstofunnar í því landi þar sem þeir búa. Skrá um deildarskrifstofur og aðsetur þeirra má finna í ritum sem Vottar Jehóva gefa út.

BIBLÍAN HVETUR TIL ÖRLÆTIS

Örlátur maður er brjóstgóður. Hann er alltaf reiðubúinn að gera öðrum gott og láta eitthvað af hendi rakna til aðstoðar öðrum.

Jehóva er öllum öðrum örlátari og lætur sér annt um að „uppfylla allar . . . þarfir“ þeirra sem þjóna honum og hlýða. (1. Jóh. 5:14; Fil. 4:19) Allar góðar gjafir og fullkomnar gáfur eru frá honum komnar, þar á meðal óáþreifanlegar gjafir eins og viska. – Jak. 1:5, 17.

Móse hvatti Ísraelsmenn til að líkja eftir Guði og vera örlátir, einnig þegar þeir lánuðu fé gegn veði. „[Þú skalt] ekki loka hendi þinni fyrir fátækum bróður þínum með harðýðgi heldur skalt þú ljúka upp hendi þinni fyrir honum. Þú skalt lána honum það sem hann skortir . . . Þú skalt gefa honum fúslega en ekki með ólund . . . Þess vegna geri ég þér þetta að skyldu: Ljúktu upp hendi þinni fyrir meðbræðrum þínum, fátækum og þurfandi í landi þínu.“ – 5. Mós. 15:7-11.

„Örlátur maður hlýtur ríkulega umbun og sá sem gefur öðrum að drekka fær þorsta sínum svalað,“ segir í Orðskviðunum 11:25. Jesús Kristur orðaði það þannig að ,sælla væri að gefa en þiggja‘. (Post. 20:35) Hann sagði enn fremur: „Gefið og yður mun gefið verða. Góður mælir, troðinn, skekinn, fleytifullur mun lagður í skaut yðar. Því með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður aftur mælt verða.“ – Lúk. 6:38.

Páll postuli tók í sama streng og gert er í orðskviðnum hér á undan og sagði: „Sá sem sáir sparlega mun og sparlega uppskera og sá sem sáir ríflega mun og ríflega uppskera.“ Hann bætti svo við: „Sérhver gefi eins og hann hefur ásett sér í hjarta sínu, ekki með ólund eða með nauðung, því að Guð elskar glaðan gjafara.“ (2. Kor. 9:6, 7) Páll benti síðan á örlæti Jehóva. Hann gaf sáðmanninum sæði og brauð til fæðu og auðgaði jafnframt bræður og systur í Korintu svo að þau gætu „jafnan sýnt örlæti“. Þetta örlæti varð til þess að ,margir þökkuðu Guði fyrir gjafirnar‘. – 2. Kor. 9:8-13.

Páll hvatti einnig til örlætis í Rómverjabréfinu og sagði: „Sá sem gefur sé örlátur.“ (Rómv. 12:8) Og í Hebreabréfinu sagði hann: „Gleymið ekki velgjörðaseminni og hjálpseminni því að slíkar fórnir eru Guði þóknanlegar.“ – Hebr. 13:16.