Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Er hægt að vita nákvæmlega á hvaða tíma dags Jesús Kristur var staurfestur?

Þessi spurning vaknar vegna þess að í Biblíunni virðist vera misræmi í frásögum Markúsar og Jóhannesar postula af dauða Jesú. Markús skrifar: „En það var um dagmál [„orðrétt: þriðja stund, þ.e. kl. níu að morgni,“ neðanmáls] er þeir krossfestu hann.“ (Mark. 15:25) Samkvæmt Jóhannesi var það „um hádegi“ sem Pílatus seldi Jesú Gyðingum í hendur til að láta staurfesta hann. (Jóh. 19:14-16) Biblíuskýrendur hafa komið með mismunandi tilgátur til að reyna að útskýra misræmið sem hér virðist vera. Í Biblíunni fáum við ekki nægar upplýsingar til að geta skýrt muninn á þessum tveim frásögum. Hins vegar getur verið gagnlegt að skoða hvernig tímaskyn fólks var á dögum Jesú.

Hjá Gyðingum á fyrstu öld skiptist dagurinn í 12 stundir og hann hófst við sólarupprás. (Jóh. 11:9) „Þriðja stund“ var því einhvern tíma milli átta og níu að morgni og „hádegi“ var um þrem tímum síðar. Sólarupprás og sólarlag voru auðvitað ekki á sama tíma allan ársins hring þannig að dagsbirtan var mislöng eftir árstíma. Tíminn var líka mældur eftir stöðu sólar, svo af þessum ástæðum voru tímasetningar frekar ónákvæmar. Í Grísku ritningunum er oftast sagt að atburðir hafi gerst um þriðju stundu, hádegi eða níundu stundu og er þá tíminn yfirleitt lauslega áætlaður. (Matt. 20:3, 5; Post. 10:3, 9, 30, neðanmáls) Tímasetningar eins og „um tíundu stundu“ eða „um sjöundu stundu“ voru nákvæmari og voru gefnar upp aðeins þegar tíminn skipti máli í frásögunni. — Jóh. 1:39; 4:52, neðanmáls.

Frásögur guðspjallanna gefa upp sömu tímasetningar yfir atburði sem áttu sér stað á síðasta degi Jesú hér á jörðinni. Í þeim öllum er bent á að prestarnir og öldungarnir hafi hist eftir sólsetur og farið svo með Jesú til rómverska landsstjórans, Pontíusar Pílatusar. (Matt. 27:1; Mark. 15:1; Lúk. 22:66; Jóh. 18:28) Matteus, Markús og Lúkas segja allir frá því að um hádegi, þegar búið var að staurfesta Jesú, hafi orðið myrkur um allt land „til níundu stundar, þ.e. kl. þrjú eftir hádegi“. — Matt. 27:45, 46; Mark. 15:33, 34; Lúk. 23:44, neðanmáls.

Eitt atriði, sem gæti haft áhrif á hvernig staurfestinginn var tímasett, er að hýðing eða húðstrýking var álitin hluti af staurfestingunni. Hýðingin var stundum svo harkaleg að fórnarlambið dó meðan á henni stóð. Jesús var greinilega það illa haldinn eftir þessa harkalegu hýðingu að hann gat ekki borið kvalastaurinn sjálfur alla leið heldur þurfti að fá aðstoð. (Lúk. 23:26; Jóh. 19:17) Ef litið var á hýðinguna sem hluta af staurfestingunni hefur liðið einhver tími frá því að hún hófst þangað til Jesús var negldur á kvalastaurinn. Menn gætu því hafa tímasett staurfestinguna ólíkt eftir því hvað þeir miðuðu við.

Jóhannes postuli skrifaði niður frásöguna nokkrum áratugum á eftir hinum guðspjallariturunum og hafði því aðgang að frásögum þeirra. Satt er það að tímasetningarnar, sem Markús og Jóhannes gefa upp, virðast stangast á. Það sannar að frásaga Jóhannesar var ekki bara afrit af frásögu Markúsar. Jóhannes og Markús fengu báðir innblástur frá Guði. Enda þótt ekki séu nægar upplýsingar í Biblíunni til að útskýra þennan mismun getum við treyst frásögum guðspjallaritaranna.