Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Af hverju ættum við að láta anda Guðs leiða okkur?

Af hverju ættum við að láta anda Guðs leiða okkur?

Af hverju ættum við að láta anda Guðs leiða okkur?

„Þú ert Guð minn, þinn góði andi leiði mig.“ – SÁLM. 143:10.

1. Útskýrðu hvernig ósýnilegur kraftur getur leiðbeint fólki.

HEFURÐU einhvern tíma notað áttavita til að rata rétta leið? Áttaviti er einfalt tæki, yfirleitt ekki annað en skífa með segulnál sem vísar í norðurátt. Ósýnilegur kraftur, sem kallast segulmagn, hreyfir nálina. Stefna nálarinnar fylgir segulstefnunni milli norðurpóls og suðurpóls. Í aldaraðir hafa landkönnuðir og ferðamenn notað áttavitann til leiðsagnar á ferðum sínum yfir land og sjó.

2, 3. (a) Hvaða öfluga kraft notaði Jehóva fyrir óralöngu? (b) Af hverju ættum við að gera ráð fyrir því að ósýnilegur andi Guðs leiði okkur nú á dögum?

2 Til er annar ósýnilegur kraftur sem veitir okkur enn mikilvægari leiðsögn. Hver er hann? Það er krafturinn sem talað er um í fyrstu versum Biblíunnar. Í sköpunarsögunni í 1. Mósebók kemur fram hvað Jehóva gerði fyrir óralöngu. Þar segir: „Í upphafi skapaði Guð himin og jörð.“ Þegar hann gerði það notaði hann öflugan kraft því að í framhaldinu segir: „Andi Guðs sveif yfir vötnunum.“ (1. Mós. 1:1, 2) Hvað var að verki? Heilagur andi – hinn öflugi kraftur að baki sköpuninni. Við erum til af því að Jehóva notaði þennan anda við sköpun alls. – Job. 33:4; Sálm. 104:30.

3 Ættum við sem sköpuð erum af Guði að gera ráð fyrir að andi hans hafi einhver frekari áhrif á líf okkar? Sonur Guðs vissi að svo væri því að hann sagði við lærisveinana: ,Andinn mun leiða yður í allan sannleikann.‘ (Jóh. 16:13) En hvað er þessi andi og af hverju ættum við að vera fús til að láta hann leiða okkur?

Hvað er heilagur andi?

4, 5. (a) Hvað halda þeir sem trúa á þrenningarkenninguna að heilagur andi sé? (b) Hvernig myndir þú útskýra hvað heilagur andi sé?

4 Sumir sem þú hittir í boðunarstarfinu trúa líklega á þrenningarkenninguna. Þess vegna halda þeir að heilagur andi sé andavera sem er jöfn Guði, föðurnum. (1. Kor. 8:6) Af þessari ástæðu velja margir erlendir biblíuþýðendur að nota hástafi og skrifa „Heilagur Andi“. En það er athyglisvert að sumir þeirra hafa ákveðið að nota lágstafi. Það gera þeir af því að þeir vita að þegar talað er um heilagan anda í Biblíunni er ekki átt við persónu. *

5 En hvað er þá heilagur andi? Hebreska orðið ruach, sem er notað í 1. Mósebók 1:2, merkir „andi“ en má einnig þýða „vindur“, „stormur“ eða eitthvað annað sem táknar ósýnilegan kraft að verki. (Samanber 1. Mósebók 8:1; Jónas 1:4.) Það er kraftur í vindinum þótt hann sé ósýnilegur og á sama hátt kemur heilagur andi ýmsu til leiðar þótt hann sé ekki persóna og við sjáum hann ekki. Þessi andi er kraftur frá Guði sem orkar á fólk eða hluti í þeim tilgangi að vilji Guðs nái fram að ganga. Ætti að vera erfitt fyrir okkur að trúa að slíkur kraftur komi frá hinum heilaga og almáttuga Guði? Alls ekki. – Lestu Jesaja 40:12, 13.

6. Um hvað bað Davíð Jehóva?

6 Getur Jehóva haldið áfram að nota anda sinn með því að leiðbeina okkur í lífinu? Hann gaf sálmaritaranum Davíð eftirfarandi loforð: „Ég vil fræða þig, vísa þér veginn sem þú átt að ganga.“ (Sálm. 32:8) Vildi Davíð fá þessa leiðsögn? Já, því að hann bað til Jehóva: „Kenn mér að gera vilja þinn því að þú ert Guð minn, þinn góði andi leiði mig.“ (Sálm. 143:10) Við ættum að hafa sömu löngun og vera fús til að láta anda Guðs leiða okkur. Af hverju? Skoðum fjórar ástæður fyrir því.

Við erum ekki fær um að stýra skrefum okkar

7, 8. (a) Af hverju getum við ekki stýrt lífi okkar óháð Guði? (b) Lýstu með dæmi af hverju það er lífshættulegt að reyna að rata einn í gegnum þetta illa heimskerfi.

7 Í fyrsta lagi ættum við að vera fús til að láta anda Guðs leiða okkur af því að við erum ekki fær um að stjórna lífi okkar sjálf. Þegar talað er um „að leiða“ er átt við að ráða stefnu einhvers eða vísa veginn sem á að fara. En við erum ekki sköpuð með hæfileika til að stýra skrefum okkar, hvað þá núna þegar við erum ófullkomin. Jeremía spámaður skrifaði: „Ég veit, Drottinn, að enginn maður ræður för sinni, enginn stýrir skrefum sínum á göngunni.“ (Jer. 10:23) Af hverju ekki? Fyrir milligöngu Jeremía útskýrði Guð af hverju við erum ófær um að stýra skrefum okkar. Hann sagði um okkar innri mann: „Svikult er hjartað framar öllu öðru og forhert. Hver skilur það?“ – Jer. 17:9; Matt. 15:19.

8 Væri það ekki fífldirfska að hálfu óreynds manns að fara einn í göngu lengst út í ókönnuð öræfi án leiðsögumanns og jafnvel án áttavita? Ef hann kann ekki að bjarga sér við erfið skilyrði í óbyggðum og hefur ekki þekkingu til að komast örugglega á áfangastað er hann að stofna lífi sínu í hættu. Sá sem heldur að hann geti stýrt skrefum sínum í þessum illa heimi án þess að leyfa Guði að vísa sér rétta veginn er með svipuðum hætti að setja sig í lífsháska. Eina leiðin til að komast klakklaust í gegnum þetta heimskerfi er að hafa sama hugarfar og Davíð sem sagði í bæn til Jehóva: „Skref mín eru örugg á vegum þínum, mér skrikar ekki fótur.“ (Sálm. 17:5; 23:3) En hvernig getum við fengið leiðsögn frá Jehóva?

9. Hvernig getur andi Guðs veitt okkur örugga leiðsögn eins og sjá má á myndinni á bls. 17?

9 Ef við erum auðmjúk og fús til að reiða okkur á Jehóva veitir hann okkur örugga leiðsögn með heilögum anda sínum. Hvernig hjálpar þessi öflugi kraftur okkur? Jesús útskýrði það fyrir lærisveinum sínum: „Hjálparinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni mun kenna yður allt og minna yður á allt það sem ég hef sagt yður.“ (Jóh. 14:26) Þegar við lesum reglulega og ígrundum í bænarhug orð Guðs, þar á meðal kennslu Jesú Krists, mun heilagur andi skerpa skilning okkar á djúpri visku Jehóva svo að við getum fylgt leiðbeiningum hans nákvæmlega. (1. Kor. 2:10) Auk þess mun andinn sýna okkur hvaða stefnu við eigum að taka þegar líf okkar tekur óvæntum breytingum. Hann mun minna okkur á biblíulegar meginreglur sem við höfum þegar lært og sýna okkur hvernig við getum notað þær til að taka skynsamlegar ákvarðanir.

Jesús lét anda Guðs leiða sig

10, 11. Hvaða væntingar hafði einkasonur Guðs varðandi heilagan anda og hver varð reyndin?

10 Önnur ástæða fyrir því að við ættum að vilja að heilagur andi leiði okkur er sú að sonur Guðs lét andann leiða sig. Áður en einkasonur Guðs kom til jarðar vissi hann af þessum spádómi: „Andi Drottins mun hvíla yfir honum: andi speki og skilnings, andi visku og máttar, andi þekkingar og guðsótta.“ (Jes. 11:2) Hugsaðu þér hversu fúslega Jesús hefur þegið hjálp anda Guðs þegar hann tókst á við erfiðleikana sem mættu honum hér á jörð.

11 Orð Jehóva rættust. Í Lúkasarguðspjalli er sagt frá því sem gerðist strax eftir að Jesús skírðist: „Jesús sneri aftur frá Jórdan, fullur af heilögum anda. Andinn leiddi hann . . . í eyðimörkinni.“ (Lúk. 4:1) Á meðan Jesús fastaði, bað og hugleiddi í eyðimörkinni fræddi Jehóva hann líklega og upplýsti um verkið sem beið hans. Starfskraftur Guðs verkaði á huga hans og hjarta og stýrði hugsunum hans og ákvörðunum. Þar af leiðandi vissi hann hvað hann ætti að gera við hverjar aðstæður og hann gerði nákvæmlega það sem faðir hans vildi.

12. Af hverju þurfum við að biðja um að andi Guðs leiði okkur?

12 Jesús mat mikils þau áhrif sem andi Guðs hafði á líf hans og þess vegna minnti hann lærisveinana á mikilvægi þess að biðja um heilagan anda og láta hann leiða sig. (Lestu Lúkas 11:9-13.) Af hverju er nauðsynlegt fyrir okkur að gera það? Af því að það getur breytt hugfari okkar svo að við endurspeglum huga Krists. (Rómv. 12:2; 1. Kor. 2:16) Ef við látum anda Guðs leiða okkur getum við hugsað eins og Kristur og líkt eftir fordæmi hans. – 1. Pét. 2:21.

Andi heimsins myndi leiða okkur afvega

13. Hvað er andi heimsins og hvaða áhrif hefur hann á fólk?

13 Þriðja ástæðan fyrir því að vera fús til að láta anda Guðs leiða sig er sú að án hans gætum við látið afvegaleiðast af óguðlegum anda heimsins sem flestir nú á dögum stjórnast af. Í heiminum er að verki kröftugt og mótandi afl sem ýtir undir lífsstefnu sem er í algerri andstöðu við það sem heilagur andi hvetur til. Í stað þess að hvetja fólk til að tileinka sér huga Krists fær andi heimsins fólk til að hugsa og hegða sér eins og Satan, höfðingi þessa heims. (Lestu Efesusbréfið 2:1-3; Títusarbréfið 3:3.) Þegar fólk lætur undan anda heimsins og fer að hegða sér í samræmi við holdsins verk hefur það alvarlegar afleiðingar og kemur í veg fyrir að það erfi Guðsríki. – Gal. 5:19-21.

14, 15. Hvernig getum við staðið gegn anda heimsins?

14 Jehóva gefur okkur það sem við þurfum til að standa gegn anda heimsins. Páll postuli sagði: „Styrkist í Drottni og krafti máttar hans . . . til þess að þið getið veitt mótstöðu á hinum vonda degi.“ (Ef. 6:10, 13) Jehóva notar anda sinn til að hjálpa okkur að standa gegn tilraunum Satans til að afvegaleiða okkur. (Opinb. 12:9) Andi heimsins er öflugur og við getum ekki forðast hann með öllu. En við þurfum ekki að láta hann spilla okkur. Heilagur andi er enn sterkari og hann mun hjálpa okkur.

15 Pétur postuli sagði um þá sem yfirgáfu kristna söfnuðinn á fyrstu öld: „Þeir hafa farið af rétta veginum og lent í villu.“ (2. Pét. 2:15) „Við höfum ekki hlotið anda heimsins heldur andann sem er frá Guði“ og fyrir það erum við innilega þakklát. (1. Kor. 2:12) Við getum staðið gegn anda þessa illa heims Satans með hjálp heilags anda og með því að nýta okkur til fulls allt sem Jehóva sér okkur fyrir til að halda okkur andlega sterkum. – Gal. 5:16.

Heilagur andi gefur af sér góðan ávöxt

16. Hvaða ávöxt gefur heilagur andi af sér í lífi okkar?

16 Fjórða ástæðan fyrir því að við viljum að andinn hafi áhrif á okkur er að hann gefur af sér góðan ávöxt í lífi þeirra sem láta hann leiða sig. (Lestu Galatabréfið 5:22, 23.) Hver okkar á meðal myndi ekki vilja verða kærleiksríkari, glaðari og friðsamari? Hver myndi ekki vilja einkennast af langlyndi, gæsku og góðvild? Hver myndi ekki njóta góðs af því að sýna meiri trúmennsku, hógværð og sjálfsaga? Andi Guðs eflir góða eiginleika í fari okkar og það er til góðs fyrir okkur sjálf, fjölskyldu okkar og aðra sem við umgöngumst. Það er stöðug vinna að þroska með sér þennan ávöxt þar sem hvorki eru takmörk fyrir því hversu mikið við getum fengið af honum né hve mikið við þurfum á honum að halda.

17. Hvernig getum við þroskað betur með okkur eiginleikana sem mynda ávöxt andans?

17 Það er viturlegt af okkur að líta í eigin barm til að fullvissa okkur um að orð okkar og verk beri þess merki að við látum heilagan anda leiða okkur og berum ávöxt hans. (2. Kor. 13:5a; Gal. 5:25) Ef við komumst að því að við þurfum að þroska betur með okkur einhvern þeirra eiginleika sem myndar ávöxt andans getum við reynt að fylgja leiðsögn andans í ríkari mæli til að tileinka okkur þennan eiginleika. Við gerum það með því að kynna okkur hvern eiginleika eins og honum er lýst á síðum Biblíunnar og í ritunum okkar. Síðan getum við hugleitt hvernig við getum sýnt hann í daglegu lífi og unnið að því að bæta okkur. * Þegar við sjáum hvaða áhrif andi Guðs hefur á líf okkar og trúsystkina okkar skiljum við nauðsyn þess að lúta leiðsögn hans.

Lætur þú anda Guðs leiða þig?

18. Hvaða fordæmi gaf Jesús okkur þegar hann fylgdi leiðsögn anda Guðs?

18 Jesús var „með í ráðum“ þegar Jehóva skapaði hinn efnislega alheim. Þess vegna vissi hann allt um segulsvið jarðar sem gagnast mönnum þegar þeir nota áttavita sér til leiðsagnar. (Orðskv. 8:30; Jóh. 1:3) Biblían segir aldrei frá því að Jesús hafi notað þennan kraft sér til leiðsagnar hér á jörð. Hins vegar segir hún að sem maður hafi hann upplifað hversu kröftug áhrif andi Guðs hafði á líf hans. Hann var fús til að lúta leiðsögn andans og þegar andinn knúði hann til verka breytti hann samkvæmt því. (Mark. 1:12, 13; Lúk. 4:14) Gerir þú hið sama?

19. Hvað verðum við að gera til að heilagur andi verði leiðandi afl í lífi okkar?

19 Starfskraftur Guðs verkar enn á hugi og hjörtu þeirra sem eru fúsir til að láta hann leiða sig. Hvernig getur þú leyft andanum að hafa áhrif á þig og leiða þig í rétta átt? Biddu Jehóva stöðuglega að gefa þér af anda sínum og hjálpa þér að lúta leiðsögn hans. (Lestu Efesusbréfið 3:14-16.) Breyttu í samræmi við bænir þínar með því að leita leiðbeininga í rituðu orði Guðs, Biblíunni, sem er innblásið með hjálp heilags anda. (2. Tím. 3:16, 17) Farðu eftir þeim viturlegu leiðbeiningum sem Biblían veitir og fylgdu síðan fúslega leiðsögn andans. Sýndu að þú trúir og treystir að Jehóva geti leitt þig farsællega í gegnum þetta illa heimskerfi.

[Neðanmáls]

^ gr. 4 Joan F. Mira, þekktur prófessor í grísku, útskýrði af hverju hann ákvað að skrifa „heilagur andi“ með lágstöfum í þýðingu sinni á guðspjöllunum. Í formálanum segir hann: „Lesendur á annarri og þriðju öld gátu ekki einu sinni ímyndað sér að þessi [ . . .] andi gæti verið guðleg vera, sjálfstæð og óháð föðurnum og syninum þar sem . . . þrenningarkenningin sem slík var ekki til á þessum tíma.“

Skildirðu aðalatriðin?

• Hvaða áhrif getur heilagur andi haft á líf okkar?

• Nefndu fjórar ástæður fyrir því að við ættum að vera fús til að láta anda Guðs leiða okkur.

• Hvernig getum við lagt okkar af mörkum til að hafa sem mest gagn af leiðsögn heilags anda?

[Spurningar]

[Mynd á bls. 15]

Andi Guðs var leiðandi afl í lífi Jesú.

[Mynd á bls. 17]

Andi Guðs hefur áhrif á hugi og hjörtu fólks og leiðbeinir því í lífinu.