Guð blessaði okkur við breytilegar aðstæður
Guð blessaði okkur við breytilegar aðstæður
James A. Thompson segir frá
Þegar ég fæddist árið 1928 í suðurhluta Bandaríkjanna var aðskilnaður hvítra og svartra lögbundinn. Þeir sem brutu lögin máttu búast við fangelsisvist eða einhverju þaðan af verra.
Á ÞEIM tíma voru sér söfnuðir, farandsvæði og umdæmi fyrir hvíta og svarta votta Jehóva í sumum hlutum Bandaríkjanna. Árið 1937 varð faðir minn safnaðarþjónn (sem nú heitir umsjónarmaður öldungaráðsins) í söfnuði svartra í Chattanooga í Tennessee. Henry Nichols var safnaðarþjónn í söfnuði hvítra þar í bæ.
Ég á margar ánægjulegar minningar frá æskuárunum. Á kvöldin sat ég oft á veröndinni bak við húsið og hlustaði á pabba og Henry ræða málin. Ég skildi ekki allt sem þeim fór á milli en ég naut þess að sitja við hliðina á pabba á meðan þeir ræddu hvernig best væri að boða fagnaðarerindið við þáverandi aðstæður.
Nokkru fyrr, árið 1930, hafði fjölskyldan orðið fyrir miklum harmi þegar mamma dó aðeins tvítug að aldri. Það féll því í hlut föður míns að annast okkur systkinin, Doris og mig. Hún var þá fjögurra ára og ég aðeins tveggja ára. Pabbi hafði nýlega látið skírast og tók góðum framförum í trúnni.
Góðar fyrirmyndir mótuðu mig
Árið 1933 kynntist pabbi yndislegri trúsystur sem hét Lillie Mae Gwendolyn Thomas og það leið ekki á löngu áður en þau giftust. Bæði gáfu þau okkur Doris gott fordæmi í að þjóna Jehóva af trúfesti.
Árið 1938 voru söfnuðir Votta Jehóva beðnir um að styðja ályktun þess efnis að öldungar í söfnuðunum yrðu útnefndir í aðalstöðvum okkar í Brooklyn í New York í staðinn fyrir að vera kosnir hver á sínum stað. Þegar sumir í Chattanooga hikuðu við að fallast á breytingarnar lýsti faðir minn yfir skilyrðislausum stuðningi við þetta nýja fyrirkomulag. Hollusta hans, ásamt heilshugar samvinnu móður minnar, hefur verið mér til fyrirmyndar allt fram á þennan dag.
Skírn og brautryðjandastarf
Nokkrir úr söfnuðinum okkar leigðu sér rútu árið 1940 og fóru á mót í Detroit í Michigan. Fáeinir úr hópnum létu skírast þar. Það kom sumum á óvart að ég gerði það ekki þar sem ég hafði prédikað frá fimm ára aldri og tók mikinn þátt í boðunarstarfinu.
Þegar þeir spurðu mig út í það svaraði ég: „Ég skil ekki almennilega hvað skírnin felur í sér.“ Pabbi heyrði á tal okkar og varð hissa. Þaðan í frá lagði hann sig sérstaklega fram um að skýra fyrir mér hvað fælist í skírninni og hve mikilvæg hún væri. Ég lét skírast í tjörn fyrir utan Chattanooga fjórum mánuðum síðar í kalsaveðri, 1. október 1940.
Fjórtán ára gerðist ég brautryðjandi í skólafríunum á sumrin. Ég prédikaði í smábæjum í Tennessee og nágrannaríkinu Georgíu. Ég var vanur að fara snemma á fætur, útbúa nesti og ná í lest eða rútu klukkan sex að morgni. Ég kom heim um klukkan sex síðdegis. Nestið var oft búið löngu fyrir hádegi. Þótt ég væri með peninga á mér gat ég ekki farið inn í verslun til að kaupa meiri mat af því að ég var svartur. Einu sinni fór ég inn í búð til að kaupa mér ís en var beðinn um að fara út. En vingjarnleg hvít kona færði mér ís fyrir utan búðina.
Þegar ég byrjaði í framhaldsskóla var kominn skriður á baráttuna um jafnan rétt hvítra og svartra í Suðurríkjunum. Samtök eins og NAACP (samtök sem berjast fyrir réttindum svartra) hvöttu námsmenn til aðgerða. Það var lagt að okkur að gerast félagar. Nokkrir skólar fyrir svarta, að meðtöldum skólanum mínum, settu sér það markmið að allir gengju í samtökin. Ég var hvattur til að „styðja kynstofninn okkar“ eins og komist var að orði. En ég neitaði og útskýrði að Guð færi ekki í manngreinarálit og tæki ekki einn kynþátt fram yfir annan. Ég lét í ljós að ég treysti Guði til að bæta úr slíku óréttlæti. – Jóh. 17:14; Post. 10:34, 35.
Stuttu eftir að ég lauk framhaldsskóla ákvað ég að flytja til New York. Á leiðinni kom ég við í Fíladelfíu í Pennsylvaníu til að heimsækja vini sem ég hafði hitt á móti. Þar kom ég í fyrsta sinn í söfnuð þar sem bæði svartir og hvítir voru saman komnir á safnaðarsamkomu. Farandhirðirinn, sem var þar í heimsókn, tók mig afsíðis og sagði að mér hefði verið úthlutað verkefni á næstu samkomu. Það átti sinn þátt í því að ég ákvað að vera þar um kyrrt.
Á meðal vina, sem ég eignaðist í Fíladelfíu, var ung systir sem hét Geraldine White eða Gerri eins og ég kallaði hana. Hún var vel að sér í Biblíunni og var leikin í að ræða við fólk í boðunarstarfinu hús úr húsi. Mér þótti sérstaklega mikilvægt að við áttum það sameiginlegt að stefna að því að verða brautryðjendur.
Við vorum gefin saman 23. apríl 1949.Boð frá Gíleaðskólanum
Markmið okkar var frá byrjun að sækja nám í Gíleaðskólanum og starfa erlendis sem trúboðar. Við vorum meira en fús til að laga okkur að þeim skilyrðum sem þurfti til að fá inngöngu í skólann. Fljótlega vorum við beðin um að fara til Lawnside í New Jersey, síðan til Chester í Pennsylvaníu og að lokum til Atlantic City í New Jersey. Meðan við störfuðum þar uppfylltum við skilyrðin til að sækja um skólavist í Gíleað þar sem við höfðum verið gift í tvö ár. En boð um skólavist dróst á langinn. Hver var ástæðan?
Upp úr 1950 voru margir ungir menn kvaddir til herþjónustu til að berjast í Kóreustríðinu. Herkvaðningarstofan í Fíladelfíu virtist hafa fordóma gagnvart vottum Jehóva vegna hlutleysis þeirra og vildi ekki undanþiggja mig herþjónustu. Að lokum upplýsti dómari mig um að Alríkislögreglan hefði staðfest hlutleysi mitt. Áfrýjunarnefndin veitti mér síðan undanþágu frá herþjónustu 11. janúar 1952, á þeirri forsendu að ég væri trúboði.
Í ágúst sama ár fengum við Gerri boð um að vera í 20. nemendahópi Gíleaðskólans. Kennslan átti að hefjast í september. Meðan á náminu stóð sáum við fyrir okkur að við yrðum send til útlanda. Doris systir hafði útskrifast með 13. nemendahópi skólans og starfaði í Brasilíu. Við Gerri urðum því meira en lítið undrandi þegar ég var útnefndur farandhirðir og við fengum það verkefni að heimsækja söfnuði svartra í Alabama. Við urðum fyrir svolitlum vonbrigðum því að okkur hafði langað svo mikið til að starfa erlendis.
Fyrsti söfnuðurinn, sem við heimsóttum, var í Huntsville. Þegar við komum þangað fórum við heim til trúsystur þar sem við áttum að halda til. Við vorum að bera inn farangurinn þegar við heyrðum hana segja í símann: „Krakkarnir eru komnir.“ Við vorum aðeins 24 ára og litum út fyrir að vera enn yngri. Viðurnefnið „krakkarnir“ loddi við okkur meðan við störfuðum á þessu svæði.
Suðurríkin voru oft nefnd Biblíubeltið vegna þess að þar var borin mikil virðing fyrir Biblíunni. Við hófum því oft samræður með kynningu sem var í þrem liðum:
(1) Fáein orð um ástandið í heiminum.
(2) Vonin sem Biblían veitir.
(3) Það sem segir í Biblíunni að við þurfum að gera.
Síðan buðum við fólki viðeigandi hjálpargagn til biblíunáms. Þessi aðferð bar svo góðan árangur að mér var úthlutað verkefni á móti í New York árið 1953. Þar sýndi ég þessa kynningu.
Síðar þetta sumar fékk ég það verkefni að starfa sem umdæmishirðir á svæðum svartra í Suðurríkjunum. Umdæmið náði yfir allt svæðið frá Virginíu til Flórída og alla leið vestur til Alabama og Tennessee. Það má því segja að farandumsjónarmenn hafi þurft að vera sveigjanlegir. Sem dæmi má nefna að við bjuggum oft á heimilum þar sem var hvorki vatns- né skólplögn. Við böðuðum okkur í blikkbala á bak við eldhúsofninn. Sem betur fór var það hlýjasti staðurinn í húsinu.
Erfiðleikar vegna kynþáttaaðskilnaðar
Starfið í Suðurríkjunum krafðist fyrirhyggju og hugvitssemi. Svörtum var til dæmis ekki leyft að nota almenningsþvottahús. Gerri var því vön að segja að þvotturinn væri fyrir „frú Thompson“. Margir virtust taka hana fyrir þjónustustúlku og héldu að „frú Thompson“ væri húsmóðir hennar. Þegar umdæmishirðarnir sýndu kvikmyndina The New World Society in Action hringdi ég í verslun og lét taka frá stórt sýningartjald fyrir „herra Thompson“. Ég fór síðan og sótti það. Við vorum alltaf kurteis og okkur tókst yfirleitt að boða fagnaðarerindið án vandræða.
Við áttum líka í höggi við annars konar fordóma. Þeir sneru að fólki frá Norðurríkjunum. Í dagblaði birtist einu sinni frétt um að James A. Thompson yngri, frá Biblíu- og smáritafélaginu Varðturninum í New York, myndi flytja ræðu á móti. Sumir skildu það svo að ég væri frá New York og riftu samningi okkar um afnot af salarkynnum í skóla einum. Ég fór þá til skólanefndarinnar og sagðist hafa gengið í skóla í Chattanooga. Við fengum þá leyfi til að halda svæðismótið.
Spennan jókst í samskiptum hvítra og svarta um miðjan sjötta áratuginn og stundum braust út ofbeldi. Sumir vottar tóku það illa upp að engir svartir ræðumenn skyldu vera á mörgum af umdæmismótunum árið 1954. Við hvöttum svarta bræður okkar til að vera þolinmóðir. Sumarið eftir var ég á mælendaskrá. Upp frá því fjölgaði svörtum bræðrum í Suðurríkjunum sem voru með dagskráratriði.
Með tímanum dró úr kynþáttaofbeldi í Suðurríkjunum og söfnuðirnir fóru smám saman að blandast. Sumir boðberar voru beðnir um að færa sig yfir í aðra söfnuði og starfssvæðum þurfti að breyta. Hið sama er að segja um verkefni bræðra sem höfðu umsjón á hendi. Sumir, bæði svartir og hvítir, voru lítt hrifnir af þessari tilhögun. Meirihlutinn var samt óhlutdrægur eins og Jehóva, himneskur faðir okkar. Margir voru nánir vinir óháð litarhætti. Fjölskylda okkar hafði upplifað það þegar ég var að alast upp á fjórða og fimmta áratugnum.
Ný verkefni
Í janúar 1969 fengum við Gerri boð um að fara til Gvæjana í Suður-Ameríku og við þáðum það með glöðu geði. Við fórum fyrst til Brooklyn í New York þar sem ég fékk þjálfun í að hafa umsjón með boðunarstarfinu í Gvæjana. Við komum þangað í júlí 1969. Það var mikil breyting að vera á einum og sama staðnum eftir að hafa verið í farandstarfi
í 16 ár. Gerri notaði flesta dagana í boðunarstarfinu sem trúboði og ég vann á deildarskrifstofunni.Starf mitt var fjölbreytt. Ég sló gras, sendi bækur og rit til safnaðanna 28, átti í bréfaskiptum við aðalstöðvarnar í Brooklyn og allt þar á milli. Ég vann 14 til 15 klukkustundir á dag. Það var mikið að gera hjá okkur báðum en við höfðum ánægju af því. Þegar við komum til Gvæjana voru þar 950 boðberar. Núna eru þeir rúmlega 2.500.
Við nutum hlýja loftslagsins og höfðum ánægju af að borða framandi ávexti og grænmeti. En gleðilegast var þó að sjá auðmjúkt fólk læra um Guðsríki, fólk sem langaði til að kynnast Biblíunni. Oft var Gerri með 20 biblíunámskeið í viku og margir tóku framförum og létu skírast. Með tíð og tíma urðu sumir brautryðjendur og safnaðaröldungar, og fóru meira að segja í Gíleaðskólann til þess að verða trúboðar.
Heilsubrestur og aðrir erfiðleikar
Árið 1983 þurftu foreldrar mínir í Bandaríkjunum að fá aðstoð. Við Gerri og Doris hittumst til að ræða málin. Doris, sem hafði verið trúboði í Brasilíu í 35 ár, vildi fara og annast þau. Hún sagði: „Hvers vegna ættum við að taka tvo trúboða úr starfi þegar einn getur unnið verkið?“ Eftir dauða foreldra okkar hefur Doris verið í Chattanooga og starfar þar sem sérbrautryðjandi.
Ég greindist með krabbamein í blöðruhálskirtli árið 1995 og þurfti að flytja aftur til Bandaríkjanna. Við settumst að í Goldsboro í Norður-Karólínu því að það var miðja vegu milli fjölskyldu minnar í Tennessee og fjölskyldu Gerriar í Pennsylvaníu. Krabbameininu er nú haldið í skefjum. Við erum sérbrautryðjendur í söfnuðinum í Goldsboro og störfum eins mikið og heilsan leyfir.
Ég hef þjónað Jehóva í fullu starfi í meira en 65 ár. Við Gerri höfum þurft að laga okkur að breytilegum aðstæðum í þjónustu hans og hann hefur blessað okkur fyrir það. Við getum tekið undir orð Davíðs þegar hann segir við Jehóva: „Þú ert trúum trúr, ráðvöndum ráðvandur.“ – 2. Sam. 22:26.
[Myndir á bls. 3]
Faðir minn og Henry Nichols gáfu mér gott fordæmi.
[Myndir á bls. 4]
Við Gerri tilbúin að fara í Gíleaðskólann árið 1952.
[Myndir á bls. 5]
Að loknu námi í Gíleaðskólanum sinntum við farandstarfi í Suðurríkjunum.
[Mynd á bls. 6]
Farandumsjónarmenn og eiginkonur þeirra búa sig undir blandað umdæmismót árið 1966.
[Mynd á bls. 7]
Það var ánægjulegt starf að vera trúboði í Gvæjana.