Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Láttu ekki veikindi ræna þig gleðinni

Láttu ekki veikindi ræna þig gleðinni

Láttu ekki veikindi ræna þig gleðinni

ÍMYNDAÐU þér að þú vaknaðir að morgni og óskaðir þess að dagurinn væri liðinn, áður en hann byrjaði. Þetta er enn einn dagurinn sem þú þarft að glíma við líkamlega eða tilfinningalega vanlíðan. Þér líður kannski eins og Job sem sagði: ,Ég kýs dauðann fremur en þessa þjáningu.‘ (Job. 7:15) Hvað ef þú upplifir þess konar þjáningar, jafnvel árum saman?

Mefíbóset hafði þá reynslu en hann var sonur Jónatans, vinar Davíðs konungs. Þegar Mefíbóset var fimm ára féll hann og „við það lamaðist hann“. (2. Sam. 4:4) Tilfinningalegt álag bættist svo ofan á þjáningarnar tengdar fötluninni þegar hann var ranglega sakaður um að hafa svikið konunginn og missti þá einnig miklar eignir. Hann þurfti að takast á við veikindi, rógburð og önnur vonbrigði, en í öllu reyndist hann samt vera okkur frábær fyrirmynd þar sem hann leyfði ekki erfiðleikunum að ræna sig gleðinni. – 2. Sam. 9:6-10; 16:1-4; 19:25-31.

Páll postuli er okkur líka til fyrirmyndar. Hann skrifar um ,flein í holdinu‘ sem hann þurfti að berjast við. (2. Kor. 12:7) Fleinninn, sem hann nefnir, gæti hafa verið varanleg fötlun eða það að sumir véfengdu stöðu hans sem postula. Hver sem fleinninn var hvarf hann ekki og Páll þurfti að takast á við heilsubrest eða það tilfinningalega álag sem fleininum fylgdi. – 2. Kor. 12:9, 10.

Langvinnir sjúkdómar eða tilfinningalegt álag hrjáir suma þjóna Guðs á okkar dögum. Magdalena var greind með rauða úlfa þegar hún var 18 ára, en það er sjúkdómur sem veldur því að ónæmiskerfi líkamans ræðst á eigin líffæri. „Ég var skelfingu lostin,“ segir hún. „Með tímanum ágerðist sjúkdómurinn, ég fékk meltingartruflanir, sár í munninn og skjaldkirtilsvandamál.“ Izabela þarf hins vegar að berjast við veikindi sem eru ekki eins augljós. Hún segir: „Ég hef átt við þunglyndi að stríða allt frá bernsku. Það veldur kvíðaköstum, öndunarerfiðleikum og magakrampa. Ég er yfirleitt alveg uppgefin eftir köstin.“

Að horfast í augu við veruleikann

Sjúkdómar og veikindi geta sett lífið úr skorðum. Þegar það gerist er gott að setjast niður og meta aðstæður sínar eins og þær eru. Það getur reynst erfitt að viðurkenna takmörk sín. Magdalena segir: „Mér fer stöðugt versnandi. Oft er ég of þreytt til að komast fram úr rúminu. Þar sem sjúkdómurinn er óútreiknanlegur er mjög erfitt að skipuleggja nokkuð fyrir fram. Það sem ergir mig mest er að ég skuli ekki geta gert eins mikið í þjónustunni við Jehóva og áður.“

Zbigniew segir: „Með hverju ári, sem líður, tekur liðagigtin æ meiri orku frá mér og skemmir einn liðinn á fætur öðrum. Stundum þegar bólgan er slæm get ég ekki einu sinni gert einföldustu verkin. Það dregur mig niður.“

Fyrir nokkrum árum greindist Barabara með heilaæxli sem fer vaxandi. „Heilsunni hefur hrakað mjög hratt,“ segir hún. „Ég er lystarlaus, er oft með höfuðverk og á erfitt með að einbeita mér. Þetta setur mér takmörk og ég hef því þurft að læra að meta hlutina alveg upp á nýtt.“

Þessir einstaklingar eru allir dyggir þjónar Jehóva og þeir láta vilja hans hafa forgang. Þeir leggja allt sitt traust á Jehóva og njóta góðs af stuðningnum sem hann veitir þeim. – Orðskv. 3:5, 6.

Hvernig veitir Jehóva hjálp?

Við megum ekki leyfa okkur að hugsa sem svo að erfiðleikar, sem við eigum í, séu merki um vanþóknun Guðs. (Harmlj. 3:33) Hugsaðu um það sem Job þurfti að þola þótt hann væri „ráðvandur og réttlátur“. (Job. 1:8) Guð reynir engan með þjáningum. (Jak. 1:13) Allir sjúkdómar, þar með taldir langvinnir sjúkdómar og sálrænir, er nöturlegur arfur sem við höfum fengið frá forfeðrum okkar Adam og Evu. – Rómv. 5:12.

Jehóva og Jesús skilja samt ekki réttlátt fólk eftir hjálparvana. (Sálm. 34:16) Við kunnum að meta að Jehóva skuli vera ,hæli okkar og háborg‘, sérstaklega á erfiðum tímabilum í lífinu. (Sálm. 91:2) En hvað getur hjálpað okkur að halda gleði okkar þegar við tökumst á við erfiðleika sem engin einföld lausn er á?

Bænin: Eins og trúfastir þjónar Guðs til forna getum við varpað áhyggjum okkar á himneskan föður okkar, Jehóva, í bæn. (Sálm. 55:23) Þegar við gerum það finnum við fyrir ,friði Guðs sem er æðri öllum skilningi‘. Þessi innri friður ,mun varðveita hjörtu okkar og hugsanir‘. (Fil. 4:6, 7) Með því að biðja setur Magdalena traust sitt á Guð og þannig tekst hún á við veikindi sín. Hún segir: „Þegar ég úthelli hjarta mínu í bæn til Jehóva léttir mér og ég endurheimti gleðina. Núna skil ég af eigin raun hvað það þýðir að treysta á Jehóva dag frá degi.“ – 2. Kor. 1:3, 4.

Jehóva svarar bænum okkar og getur notað heilagan anda, orð sitt og bræðrafélagið til að styrkja okkur. Við getum ekki ætlast til að Guð lækni okkur með kraftaverki. Hins vegar getum við treyst að hann veiti okkur þá visku og styrk sem við þurfum til að þrauka hverju sinni. (Orðskv. 2:7) Hann styrkir okkur með því að gefa okkur ,kraftinn mikla‘. – 2. Kor. 4:7.

Fjölskyldan: Ef kærleikur og umhyggja ríkir á heimilinu getur það hjálpað þér að þrauka í veikindum. Hafðu þó í huga að þínir nánustu þjást líka. Þeir finna kannski til jafn mikils vanmáttar og þú. Samt eru þeir til staðar fyrir þig, jafnvel á erfiðum tímabilum. Það veitir ykkur hugarró að biðja saman. – Orðskv. 14:30.

Barbara segir um dóttur sína og aðrar ungar systur í söfnuðinum: „Þær hjálpa mér að taka þátt í boðunarstarfinu. Mér hlýnar um hjartarætur þegar ég sé ákafa þeirra.“ Fyrir Zbigniew er stuðningur eiginkonu hans ómetanlegur. „Hún sér um flest öll húsverkin. Hún hjálpar mér líka að klæða mig og ber töskuna fyrir mig þegar við förum á samkomur og í boðunarstarfið.“

Trúsystkini: Þegar við umgöngumst trúsystkini okkar fáum við uppörvun og hughreystingu. En hvað ef þú getur ekki sótt samkomur vegna veikindanna? Magdalena svarar því svona: „Söfnuðurinn sér til þess að ég fái hljóðupptökur af samkomunum. Bræður og systur hringja oft í mig og spyrja hvað þau geti gert fleira til að hjálpa mér. Þau senda mér líka uppörvandi bréf. Bara það að vita að þau muna eftir mér og þeim er umhugað um mig hjálpar mér að þrauka.“

Izabela, sem á við þunglyndi að stríða, segir: „Í söfnuðinum á ég marga ,feður‘ og ,mæður‘ sem hlusta á mig og reyna að skilja mig. Söfnuðurinn er fjölskylda mín og í honum finn ég innri frið og gleði.“

Þeir sem glíma við erfiðleika af ýmsu tagi ættu ekki að einangra sig. Félagsskapurinn, sem þeir eiga í söfnuðinum, er þeim mikils virði. Þeir veita líka öðrum mikla uppörvun. Til að byrja með hikarðu kannski við að segja trúsystkinum frá þörfum þínum. Þau kunna hins vegar að meta að þú segir þeim hvað þig vanhagar um. Það gefur þeim tækifæri til að sýna „hræsnislausa elsku“ sem við berum hvert til annars. (1. Pét. 1:22) Láttu þau vita að þú þurfir far á samkomur, að þig langi til að starfa með þeim eða bara spjalla og eiga ánægjulega stund með þeim. Við eigum auðvitað ekki að vera kröfuhörð heldur vera þakklát fyrir þá aðstoð sem við fáum.

Að vera jákvæður: Það sem skiptir mestu máli til að varðveita gleði í glímunni við langvinn veikindi er oft undir sjálfum þér komið. Depurð og vonleysi getur valdið því að við verðum neikvæð. Í Biblíunni stendur: „Kjarkur styrkir menn í sjúkleika en hver fær borið dapurt geð?“ – Orðskv. 18:14.

Magdalena segir: „Ég legg mig fram um að einblína ekki á eigin vandamál. Suma daga líður mér þokkalega og ég reyni að njóta þeirra. Mér finnst uppörvandi að lesa ævisögur þeirra sem hafa þjónað dyggilega þrátt fyrir langvinn veikindi.“ Izabelu finnst hughreystandi að hugsa til þess að Jehóva kunni að meta hana og elski. Hún segir: „Mér finnst ég hafa hlutverk og eitthvað til að lifa fyrir. Ég á líka stórkostlega framtíðarvon.“

Zbigniew segir: „Vegna veikindanna hef ég lært auðmýkt og hlýðni. Ég hef lært að sýna skilning og góða dómgreind og að fyrirgefa af öllu hjarta. Núna nýt ég þess að þjóna Jehóva og dett ekki niður í sjálfsvorkunn. Mig langar jafnvel til að halda áfram að taka andlegum framförum.“

Hafðu hugfast að Jehóva tekur vel eftir þolgæði þínu. Hann finnur til með þér og er annt um þig. „Hann gleymir ekki verki ykkar og kærleikanum sem þið auðsýnduð honum.“ (Hebr. 6:10) Hugleiddu vandlega hverju Jehóva hefur lofað öllum þeim sem óttast hann. Hann segir: „Ég mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.“ – Hebr. 13:5.

Ef þú ert niðurdreginn af og til skaltu beina huganum að þeirri dásamlegu von sem við höfum um nýja heiminn. Sá tími nálgast óðum þegar við fáum að sjá blessunina, sem Guðsríki færir, verða að veruleika.

[Rammi/⁠myndir á bls. 28, 29]

Þau halda áfram að prédika þrátt fyrir erfið veikindi

„Ég get ekki lengur gengið án fylgdar þannig að eiginkona mín eða önnur trúsystkini fara með mér í boðunarstarfið. Ég læri kynningar og ritningarstaði utan að.“ – Jerzy sem er sjónskertur.

„Auk þess að nota símann til að vitna skrifa ég bréf og skrifast á við nokkra sem sýna áhuga á Biblíunni. Þegar ég er á spítala er ég alltaf með Biblíuna og rit við rúmstokkinn. Þannig hef ég fengið mörg góð samtöl.“ – Magdalena sem er með rauða úlfa.

„Ég starfa gjarnan hús úr húsi en þegar mér líður ekki nógu vel til þess nota ég símann.“ – Izabela sem þjáist af alvarlegu þunglyndi.

„Mér finnst gaman að fara í endurheimsóknir og aðstoða við biblíunám. Suma daga líður mér betur og þá fer ég gjarnan hús úr húsi.“ – Barbara sem er með heilaæxli.

„Ég er með mjög létta starfstösku og starfa eins lengi og ég þoli liðverkina.“ – Zbigniew sem er með liðagigt.

[Mynd á bls. 30]

Fólk á öllum aldri getur uppörvað þá sem eru veikir.