Sannkristnir menn virða orð Guðs
Sannkristnir menn virða orð Guðs
„Þitt orð er sannleikur.“ – JÓH. 17:17.
TAKTU EFTIR ÞESSUM ATRIÐUM:
Hvaða áberandi munur var á fundinum sem haldinn var í Jerúsalem árið 49 og kirkjuþingum seinni tíma?
Nefndu nokkra sem vörðu orð Guðs kröftuglega á miðöldum.
Hvaða biblíunámsaðferð notuðu trúfastir kristnir menn á síðari hluta 19. aldar og hvers vegna var hún árangursrík?
1. Nefndu eitt mikilvægt atriði sem þú tókst persónulega eftir að aðgreinir votta Jehóva frá öðrum trúfélögum.
RIFJAÐU upp fyrsta skiptið sem þú ræddir við votta Jehóva. Hvað er þér minnisstæðast? Margir myndu segja að það hafi vakið hrifningu þeirra að sjá að vottarnir notuðu Biblíuna til að svara öllum spurningum þeirra. Það veitti okkur mikla ánægju að fræðast um fyrirætlun Guðs með jörðina, skilja hvað gerist við dauðann og fá að vita hvaða framtíð bíður látinna ástvina okkar.
2. Nefndu nokkrar ástæður fyrir því að þú lærðir að meta Biblíuna.
2 En þegar við kynntum okkur málin nánar komumst við að því að Biblían svarar ekki aðeins spurningum okkar um lífið, dauðann og framtíðina. Við skildum að Biblían er gagnlegasta bók sem til er. Leiðbeiningar hennar standast tímans tönn og þeir sem fylgja henni vandlega lifa innihaldsríku og ánægjulegu lífi. (Lestu Sálm 1:1-3.) Sannkristnir menn hafa aldrei tekið við orði Guðs „sem manna orði heldur sem Guðs orði – eins og það í sannleika er“. (1. Þess. 2:13) Stutt sögulegt yfirlit leiðir í ljós muninn á þeim sem virða orð Guðs í raun og þeim sem gera það ekki.
ERFITT DEILUMÁL ER ÚTKLJÁÐ
3. Hvaða deilumál ógnaði einingu kristna safnaðarins á fyrstu öld og af hverju var þetta erfitt mál?
3 Á þeim 13 árum, sem liðu frá því að fyrsti óumskorni heiðinginn, Kornelíus, var andasmurður, vaknaði deilumál sem ógnaði einingu kristna safnaðarins. Sífellt fleiri heiðingjar tóku kristna trú. Spurningin var sú hvort umskera ætti mennina, samkvæmt hefð Gyðinga, áður en þeir létu skírast. Gal. 2:11-14.
Það var ekki auðvelt fyrir Gyðing að svara þessari spurningu. Gyðingar, sem héldu lögmálið, fóru ekki inn á heimili heiðingja og þaðan af síður áttu þeir náinn félagsskap við þá. Kristnir Gyðingar voru þegar ofsóttir fyrir að yfirgefa sína fyrri trú. Ef þeir gengju svo langt að bjóða óumskorna heiðingja velkomna sín á meðal myndi það aðeins breikka bilið á milli þeirra sem iðkuðu gyðingatrú og kristinna manna og valda hinum kristnu frekari ofsóknum. –4. Hverjir komu saman til að leysa þessa deilu og hverju gætu sumir hafa velt fyrir sér?
4 Postularnir og öldungarnir í Jerúsalem, sem sjálfir voru umskornir Gyðingar, komu saman árið 49 „til að líta á mál þetta“. (Post. 15:6) Þessar umræður voru ekki þraskenndar guðfræðideilur um tæknileg smáatriði heldur lífleg umfjöllun um kenningar Biblíunnar. Fram komu sterkar skoðanir á báðum hliðum málsins. Myndi persónuleg skoðun einhvers eða fordómar ráða ferðinni? Myndu öldungar í ábyrðarstöðum fresta ákvörðuninni þar til aðstæðurnar í Ísrael yrðu þeim hagkvæmari? Eða myndu þeir fallast á einhvers konar málamiðlun, þar sem málsvarar beggja hliða mættust á miðri leið eftir gagnkvæmar tilslakanir?
5. Að hvaða leyti var fundurinn í Jerúsalem árið 49 mjög ólíkur kirkjuþingum sem haldin voru síðar?
5 Málamiðlanir eru algengar á kirkjuþingum nú á dögum. Sömuleiðis beita trúarleiðtogar oft þrýstingi til að fá skoðanir sínar í gegn. En á fundinum í Jerúsalem átti ekkert slíkt sér stað. Samt sem áður komust þeir að einróma niðurstöðu. Hvernig tókst þeim það? Þótt allir viðstaddir hafi haft mjög sterkar skoðanir virtu þeir allir orð Guðs og þar var að finna lausnina á þessari deilu. – Lestu Sálm 119:97-101.
6, 7. Hvernig voru ritningarnar notaðar til að komast að niðurstöðu í deilunni um umskurn?
6 Ritningarstaðurinn, sem hjálpaði þeim að komast að niðurstöðu, var Amos 9:11, 12. Vitnað er í þessi vers í Postulasögunni 15:16, 17. Þar segir: „Eftir þetta mun eg aftur hverfa og endurreisa hina föllnu tjaldbúð Davíðs, og reisa við rústir hennar og gjöra hana upp aftur, svo að mennirnir, sem eftir eru leifðir, leiti Drottins, og allir heiðingjarnir, sem nafn mitt hefir verið nefnt yfir, segir Drottinn.“ – Biblían 1912.
7 Sumir gætu bent á að þessi vers tali ekkert um að heiðingjar, sem tóku trú, hafi ekki þurft að láta umskerast. Það er rétt. En kristnir Gyðingar hefðu samt skilið það þannig. Þeir litu ekki á umskorna menn af heiðnum uppruna sem ,heiðingja‘ heldur sem bræður. (2. Mós. 12:48, 49) Við sjáum það meðal annars í Esterarbók 8:17 samkvæmt Sjötíumannaþýðingunni í útgáfu Bagsters. Þar segir: „Margir heiðingjar létu umskerast og urðu Gyðingar.“ Þegar ritningarnar spáðu því að þeir sem eftir væru af Ísraelsþjóðinni (Gyðingar og umskornir trúskiptingar) og „allir heiðingjarnir“ (óumskornir heiðingjar) yrðu ein þjóð, sem bæri nafn Guðs, var boðskapurinn skýr. Heiðingjar, sem vildu taka kristna trú, þurftu ekki að láta umskerast.
8. Af hverju þurftu kristnir Gyðingar að vera hugrakkir til að komast að þessari niðurstöðu?
8 Orð Guðs og andi hans hjálpaði þessum einlægu kristnu mönnum að komast að einróma niðurstöðu. (Post. 15:25) Jafnvel þótt ákvörðunin myndi líklega valda kristnum Gyðingum frekari ofsóknum studdu trúfastir menn heilshugar þessa biblíulegu ákvörðun. – Post. 16:4, 5.
ÁBERANDI MUNUR
9. Hver er ein aðalástæðan fyrir því að sönn tilbeiðsla spilltist og hvaða kenning skaut upp kollinum?
9 Páll postuli spáði því að eftir dauða postulanna myndu falskar kenningar spilla kristninni. (Lestu 2. Þessaloníkubréf 2:3, 7.) Á meðal þeirra sem myndu ekki þola „hina heilnæmu kenningu“ yrðu menn í ábyrgðarstöðum. (2. Tím. 4:3) Páll gaf öldungum síns tíma eftirfarandi viðvörun: „Úr hópi sjálfra ykkar munu koma menn sem flytja rangsnúna kenningu til að tæla lærisveinana á eftir sér.“ (Post. 20:30) The New Encyclopædia Britannica nefnir eina helstu ástæðuna fyrir því að upp komu brenglaðar kenningar: „Kristnum mönnum, sem höfðu fengið einhverja menntun í grískri heimspeki, fannst þeir þurfa að tjá trúna með orðfæri hennar, bæði til að upphefja sína eigin kunnáttu og til að snúa menntuðum heiðingjum til trúar.“ Eitt af því sem fékk á sig heiðinn blæ var viðhorfið til Jesú Krists. Biblían kallar hann son Guðs en þeir sem aðhylltust gríska heimspeki héldu því fram að hann væri Guð.
10. Hvernig hefði verið hægt að leysa deiluna um það hver Kristur væri?
10 Þetta mál var oft tekið fyrir á kirkjuþingum. Auðvelt hefði verið að leysa deiluna ef allir viðstaddir hefðu tekið mið af því sem Biblían segir, en fæstir gerðu það. Flestir höfðu jafnvel gert upp hug sinn áður en þeir mættu á þingin og þeir fóru þaðan enn ákveðnari í að halda fast við sína skoðun. Í yfirlýsingum, sem gefnar voru út eftir þessi þing, var varla nokkurn tíma vísað í Biblíuna.
11. Hvaða vægi fengu skoðanir hinna svokölluðu kirkjufeðra og hvers vegna?
11 Af hverju var Ritningin ekki rannsökuð betur? Fræðimaðurinn Charles Freeman segir að þeir sem trúðu því að Jesús væri Guð „hafi átt erfitt með að hrekja öll þau orð Jesú sem gáfu til kynna að hann væri undir Guð, föðurinn, settur“. Það varð til þess að kirkjuhefðir og skoðanir manna voru teknar fram yfir guðspjöllin. Allt fram á þennan dag setja margir prestar orð hinna svokölluðu kirkjufeðra á hærri stall en innblásið orð Guðs. Ef þú hefur einhvern tíma rætt við guðfræðing um þrenningarkenninguna hefurðu líklega tekið eftir þessu.
12. Hvaða neikvæðu áhrif hafði keisarinn á kirkjuna?
12 Það er eftirtektavert að rómversku keisararnir höfðu töluverð áhrif á umræðurnar á þessum kirkjuþingum. Prófessor Richard E. Rubenstein segir varðandi kirkjuþingið í Níkeu: „Konstantínus hafði veitt [biskupum] meiri heiður og ríkidæmi en þá hefði geta dreymt um. Á innan við ári hafði nýi keisarinn skilað þeim nánast öllum kirkjunum eða endurbyggt þær og veitt þeim á ný þær stöður og þá titla sem þeir höfðu haft áður . . . Hann hafði gefið kristnu prestastéttinni forréttindi sem heiðnu prestarnir höfðu áður notið.“ Þar af leiðandi „var Konstantínus í aðstöðu til að hafa mikil áhrif á og jafnvel stjórna þróun mála í Níkeu“. Charles Freeman tekur í sama streng: „Nú var búið að gefa fordæmi fyrir því að keisarinn blandaði sér í málefni kirkjunnar, ekki aðeins til að styrkja stöðu hennar heldur líka til að hafa áhrif á kenningar hennar.“ – Lestu Jakobsbréfið 4:4.
13. Hvað heldurðu að hafi orðið til þess að kirkjuleiðtogar fyrr á öldum hafi hunsað skýrar kenningar Biblíunnar?
13 Þótt valdamenn kirkjunnar hafi átt erfitt með að komast að niðurstöðu um það hver Jesús Kristur væri átti almenningur ekki í neinum slíkum vandræðum. Þar sem fólk almennt var ekki að hugsa um gull keisarans eða að klífa
metorðastiga klerkastéttarinnar gat það dregið hlutlausa ályktun í ljósi Ritningarinnar. Og það gerði fólk svo sannarlega. Guðfræðingur frá þessum tíma, Gregoríus frá Nyssa, lét þessi niðrandi orð falla um almenning: „Þeir sem versla með föt, peninga og matvæli eru allir guðfræðingar. Ef þú spyrð um verðmæti peninga þinna útskýrir einhver spekingurinn að hvaða leyti sonurinn sé ólíkur föðurnum. Ef þú spyrð hvað brauðið kostar færðu svarið að faðirinn sé syninum æðri. Ef þú vilt vita hvort baðið þitt sé tilbúið lýsir einhver því yfir að sonurinn hafi verið skapaður úr engu.“ Já, ólíkt valdamiklum klerkum notuðu hinir lægri settu orð Guðs til að komast að niðurstöðu. Gregoríus og félagar hans hefðu betur hlustað á þá.HVEITIÐ OG ILLGRESIÐ VAXA SAMAN
14. Af hverju getum við ályktað sem svo að það hafi alltaf verið einhverjir andasmurðir kristnir menn á jörðinni frá og með fyrstu öldinni?
14 Jesús gaf til kynna í dæmisögu að frá og með fyrstu öldinni yrðu alltaf til einlægir andasmurðir kristnir menn á jörðinni. Hann líkti þeim við ,hveiti‘ sem óx meðal ,illgresis‘. (Matt. 13:30) Auðvitað getum við ekki sagt með vissu hvaða einstaklingar eða hópar tilheyrðu hinum andasmurðu sem hveitið táknaði. Hins vegar vitum við að það hafa alltaf verið einhverjir sem hafa hugrakkir varið orð Guðs og afhjúpað óbiblíulegar kenningar kirkjunnar. Skoðum nokkur dæmi.
15, 16. Nefndu nokkra menn sem virtu orð Guðs.
15 Agobard, erkibiskup í Lyon í Frakklandi (779-840), talaði gegn skurðgoðadýrkun, gegn því að kirkjur væru helgaðar dýrlingum og gegn óbiblíulegum helgisiðum og athöfnum kirkjunnar. Einn samtímamanna hans, Kládíus biskup, var líka andvígur kirkjuhefðum, bænum til dýrlinga og tilbeiðslu á helgum minjum. Á 11. öld var erkidjákninn Berengaríus frá Tours í Frakklandi bannfærður fyrir að hafna þeirri kaþólsku kennisetningu að brauð og vín breytist í hold og blóð Krists. Hann hélt því líka fram að taka ætti Biblíuna fram yfir kirkjuhefðir.
16 Pétur frá Bruys og Hinrik frá Lausanne voru uppi á 12. öld og höfðu báðir yndi af sannleika Biblíunnar. Pétur sagði af sér prestsembætti því að honum fannst kaþólska kenningin um barnaskírn, kennisetningin um að brauð og vín breytist í hold og blóð Krists, það að biðja fyrir hinum látnu og tilbeiðsla á krossinum ekki samræmast Biblíunni. Árið 1140 galt Pétur fyrir trúarskoðanir
sínar með lífinu. Hinrik, sem var munkur, talaði gegn spillingu innan kirkjunnar og óbiblíulegum helgisiðum hennar. Hann var handtekinn árið 1148 og varði því sem eftir var ævinnar í fangelsi.17. Hvaða mikilvægu skref stigu Valdès og fylgjendur hans?
17 Um það leyti sem Pétur frá Bruys var brenndur á báli fyrir að voga sér að andmæla kirkjunni fæddist maður sem átti síðar eftir að hafa mikil áhrif á útbreiðslu biblíusanninda. Eftirnafn hans var Valdès. * Hann var ólærður leikmaður, ólíkt Pétri frá Bruys og Hinriki frá Lausanne, en hann mat orð Guðs svo mikils að hann fórnaði efnislegum eigum sínum og lét þýða hluta Biblíunnar yfir á tungumál sem almennt var talað í Suðaustur-Frakklandi. Sumir voru svo ánægðir að heyra boðskap Biblíunnar á sínu eigin máli að þeir fórnuðu líka eigum sínum og helguðu sig því að segja öðrum frá sannleika Biblíunnar. Kirkjunnar mönnum leist afar illa á þetta. Árið 1184 voru þessir kappsömu menn og konur, síðar kölluð Valdensar, bannfærð af páfanum og síðan hrakti biskupinn þau af heimilum sínum. Þetta varð í raun til þess að boðskapur Biblíunnar náði til annarra svæða. Fylgjendur Valdès, Péturs frá Bruys og Hinriks frá Lausanne var með tímanum að finna víðs vegar um Evrópu ásamt öðrum utankirkjumönnum. Á síðari öldum komu fram fleiri menn sem vörðu sannleika Biblíunnar kröftuglega eins og John Wycliffe (u.þ.b. 1330-1384), William Tyndale (u.þ.b. 1494-1536), Henry Grew (1781-1862) og George Storrs (1796-1879).
„ORÐ GUÐS VERÐUR EKKI FJÖTRAГ
18. Hvernig rannsökuðu einlægir biblíunemendur á 19. öld orð Guðs og hvers vegna var það árangursrík leið?
18 Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hafa andstæðingar sannleikans í Biblíunni ekki getað stöðvað útbreiðslu hans. „Orð Guðs verður ekki fjötrað,“ segir í 2. Tímóteusarbréfi 2:9. Árið 1870 fór hópur einlægra biblíunemenda að leita sannleikans. Hvaða aðferð notuðu þeir? Einhver varpaði fram spurningu og rætt var um hana. Síðan flettu þeir upp öllum ritningarstöðum tengdum efninu. Þegar þeir voru sammála um það hvernig versin tengdust komust þeir að niðurstöðu og skráðu hana niður. Finnst þér ekki uppörvandi að vita að þessir trúföstu menn á 19. öld, andlegir forfeður okkar, voru staðráðnir í því að byggja trú sína algerlega á orði Guðs, rétt eins og postularnir og öldungarnir á fyrstu öld?
19. Hver er árstextinn fyrir árið 2012 og hvers vegna er hann viðeigandi?
19 Biblían er enn grundvöllur allra trúarskoðana okkar. Með það í huga hefur hið stjórnandi ráð Votta Jehóva valið eftirfarandi orð Jesú sem árstexta fyrir árið 2012: „Þitt orð er sannleikur.“ (Jóh. 17:17) Allir sem vilja njóta velþóknunar Guðs verða að ganga í sannleikanum. Við skulum því öll leitast stöðugt við að láta orð Guðs leiða okkur.
[Neðanmáls]
^ gr. 17 Valdès hefur stundum verið kallaður Pierre Valdès eða Peter Waldo en ekki er hægt að staðfesta fornafn hans.
[Spurningar]
[Innskot á bls. 8]
Árstextinn fyrir árið 2012 er: „Þitt orð er sannleikur.“ – Jóhannes 17:17.
[Mynd á bls. 7]
Valdès
[Mynd á bls. 7]
Wycliffe
[Mynd á bls. 7]
Tyndale
[Mynd á bls. 7]
Grew
[Mynd á bls. 7]
Storrs