Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Varðveisla dýrgripa frá liðnum tímum

Varðveisla dýrgripa frá liðnum tímum

Úr sögusafninu

Varðveisla dýrgripa frá liðnum tímum

ÞJÓNAR Jehóva eiga sér dýrmæta andlega arfleifð. Þessi hrífandi arfleifð felst ekki aðeins í safni af ritum okkar heldur einnig ljósmyndum, bréfum, frásögum einstaklinga og ýmsum munum sem tengdir eru tilbeiðslunni, boðunarstarfinu og sögu safnaðarins. En hvaða gagn höfum við af því að varðveita slíka gripi og fræðast um fortíðina? Fjölskyldufeður í Ísrael til forna áttu til að mynda að fræða syni sína um stórkostleg máttarverk Jehóva og kenna þeim lögmál hans svo að þeir gætu ,sett traust sitt á Guð‘. – Sálm. 78:1-7.

Rannsóknir á skjölum og öðrum heimildum hefur í gegnum tíðina átt þátt í að fyrirætlanir Jehóva næðu fram að ganga. Þegar andstæðingar reyndu að stöðva framkvæmdir við musterið í Jerúsalem fór til dæmis fram opinber leit að heimild fyrir framkvæmdunum í skjalasafninu í Ahmeta (Ekbatana), höfuðborg Medíu. Þar fannst skjal með úrskurði Kýrusar konungs sem leyfði framkvæmdirnar. (Esra. 6:1-4, 12) Musterið var því endurbyggt í samræmi við vilja Guðs. Guðspjallaritarinn Lúkas leitaði einnig heimilda og sagðist hafa „athugað kostgæfilega allt þetta frá upphafi“. – Lúk. 1:1-4.

Hið stjórnandi ráð hefur brennandi áhuga á sögu safnaðar Guðs. Einn af bræðrum okkar, sem situr í hinu stjórnandi ráði, hafði þetta að segja um að varðveita, skrásetja og segja frá andlegri arfleifð okkar: „Til að vita hvert við stefnum verðum við að vita hvaða leið við höfum farið.“ Þess vegna hefur nýlega verið sett á laggirnar safnadeild undir umsjón ritnefndarinnar við aðalstöðvarnar í Brooklyn í New York.

„FJÖLSKYLDUALBÚM“ OKKAR OG „ERFÐAGRIPIR“

Með tímanum fellur fortíðin í gleymsku og flest okkar vildu líklega að við hefðum haldið betur utan um sögu fjölskyldu okkar. Í safnadeildinni fer nú fram mikil og nákvæm vinna við að skrásetja og viðhalda okkar verðmætu og vaxandi arfleifð. Líta mætti á ljósmyndir, sem varðveittar eru í safninu, sem hluta af „fjölskyldualbúmi“ okkar. Fyrstu ritin sem gefin voru út, spennandi frásögur einstaklinga og ómetanlegir munir eru einnig á meðal þeirra dýrgripa sem varðveittir eru í safninu. Slík verðmæti eru „erfðagripir“ sem upplýsa okkur um sögulegan arf safnaðarins og hjálpa okkur að horfa fram á veginn í trausti þess að andleg fjölskylda okkar eigi sér bjarta framtíð.

Í nýju greinaröðinni „Úr sögusafninu“ gefst okkur tækifæri til að fá innsýn í safnadeildina. Greinarnar munu birtast öðru hverju í námsútgáfu Varðturnsins. Til dæmis er ráðgert að birta myndskreytta grein sem svarar eftirfarandi spurningum: Hvað var Dawn-taska? Hverjir notuðu hana? Hvenær var hún notuð og í hvaða tilgangi?

Sögusafnið er fullt af minningum um fortíð okkar og sögu safnaðarins, líkt og fjölskyldualbúm. Þar er sagt frá trúfesti og hugrekki þjóna Guðs fyrr á tímum, gleði þeirra og raunum í þjónustunni við ástríkan föður okkar á himnum, leiðsögn hans og tryggum stuðningi við fólk sitt. (5. Mós. 33:27) Við erum þess fullviss að Jehóva muni blessa viðleitni okkar til að varðveita sögu safnaðarins þannig að eining okkar eflist og við fáum aukinn styrk til að gera vilja hans.

[Rammi/​Mynd á bls. 31]

Vinnan að baki

Ritarar, listamenn og þeir sem vinna að rannsóknum og öðru slíku nota ýmsar heimildir og gögn þegar þeir vinna að ritum okkar, mynddiskum og öðru biblíutengdu efni. Safnadeildin leggur því mikla vinnu í að varðveita allt það sögulega efni sem fengið er frá deildarskrifstofum, ýmsum deildum á Betel, söfnuðunum, einstaklingum og veraldlegum stofnunum. Skoðum stuttlega hvað er fólgið í þessari vinnu.

Öflun og rannsóknir: Einstakir munir bætast sífellt í safnið. Margir þeirra koma frá einstaklingum sem eiga fjölskyldu með áratugalanga sögu í þjónustunni við Jehóva. Þeir hafa ýmist gefið eða lánað þá safnadeildinni. Með rannsóknum og samanburði á gögnum, sem berast, fáum við betri skilning á sögu safnaðarins og þeim sem á undan okkur hafa gengið.

Skráning: Í safnadeildinni eru þúsundir muna, sumir meira en aldargamlir. Þetta eru alls kyns munir af mismunandi stærðum og gerðum og halda verður nákvæma skrá yfir hvern þeirra svo að auðvelt sé að finna þá þegar á þarf að halda.

Viðgerðir og varðveisla: Notaðar eru faglegar aðferðir til að gera við og varðveita viðkvæmar bækur og muni. Skjöl, ljósmyndir, fréttaúrklippur, kvikmyndafilmur og upptökur eru einnig varðveittar í stafrænu formi. Þannig er hægt að hafa aðgang að gögnunum rafrænt og komast hjá því að meðhöndla upprunaleg skjöl eða aðra muni sem hafa sögulegt gildi.

Geymsla: Gögnin í skjalasafninu eru varðveitt með skipulögðum og öruggum hætti til að koma í veg fyrir að þau tapist eða verði fyrir skemmdum af völdum ljóss og raka. Verið er að koma upp gagnasafni til að auðveldara verði að fá aðgang að og rannsaka dýrgripi okkar frá liðnum tímum.

[Myndir á bls. 32]

1. Auglýsing fyrir „Sköpunarsöguna í myndum“. 2. Skrá yfir áskrifendur. 3. Hátalarabíll. 4. Forsíða Varðturnsins 15. apríl 1912. 5. Bókunarblað J. F. Rutherfords í fangelsi. 6. Hljóðnemi útvarpsstöðvarinnar WBBR. 7. Grammófónn. 8. Bókataska. 9. Minnispunktar. 10. Símskeyti til J. F. Rutherfords.