Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Ég var óneitanlega svolítið áberandi“

„Ég var óneitanlega svolítið áberandi“

Úr sögusafninu

„Ég var óneitanlega svolítið áberandi“

Charlotte White, sem boðaði fagnaðarerindið í fullu starfi, vakti mikla athygli þegar hún kom til Louisville í Kentuckyfylki í Bandaríkjunum með ferðatösku á hjólum.

ÞETTA var árið 1908 og Charlotte vakti svo sannarlega eftirtekt heimamanna með þessari splunkunýju uppfinningu – Dawn-töskunni. Hún sagði síðar: „Þetta vakti umtal og ég var óneitanlega svolítið áberandi.“

Biblíunemendurnir, eins og Vottar Jehóva voru kallaðir á þeim tíma, voru ákafir í að segja öðrum frá mikilvægum biblíusannindum sem þeir höfðu lært með því að rannsaka Ritninguna kostgæfilega. Margir þeirra höfðu öðlast biblíuþekkingu með hjálp bókaraðarinnar Millennial Dawn eða „Dögun þúsundáraríkisins“ (síðar einnig nefnd „Rannsóknir á ritningunni“). Þessir kristnu einstaklingar, sem voru bæði færir og fúsir, ferðuðust vítt og breitt – til borga, bæja og sveita – til að bjóða áhugasömum lesendum þetta hjálparrit fyrir biblíunemendur.

Árið 1908 buðu Charlotte og aðrir kappsamir boðberar bókaröðina gegn vægu gjaldi, 1,65 dali sem dugði fyrir prentun þeirra. Bókaröðin var í sex bindum og í hörðu bandi. Teknar voru niður pantanir í stað þess að láta bækurnar strax í hendur húsráðanda. Síðan voru þær vanalega afhentar daginn sem fólk fékk útborgað. Maður sem var andsnúinn sannleikanum kvartaði undan því að bækurnar væru allt of ódýrar!

Malinda Keefer minntist þess að stundum voru pantaðar tvö til þrjú hundruð bækur á viku. En þessi mikli áhugi á bókaröðinni skapaði ákveðna erfiðleika. Hvernig þá? Sjötta bindið eitt og sér var 740 blaðsíður. „Fimmtíu bækur vógu 18 kíló,“ stóð í Varðturninum, og afhending bókanna „reyndi verulega á boðberana“, sérstaklega systurnar.

Til að leysa þennan vanda bjó James Cole, trúbróðir okkar, til hjálpartæki. Það var eins konar grind á tveimur hjólum sem hægt var að leggja saman. Í grindina var síðan sett ferðataska og hún fest með skrúfum. „Nú er þungri byrði af mér létt,“ sagði uppfinningamaðurinn sjálfur, feginn því að þurfa ekki lengur að bera þunga kassa fulla af bókum. Hann kynnti nýja búnaðinn fyrir ánægðum áhorfendum á móti sem biblíunemendurnir héldu árið 1908 í Cincinnati í Ohiofylki. Á hnöppum á hvorum enda grindarinnar var grafin áletrunin Dawn-Mobile (Dawn-taska), þar sem farmurinn var yfirleitt mörg bindi af bókaröðinni „Dögun þúsundáraríkisins“. Með smávegis æfingu gátu flestir auðveldlega rúllað töskunni, fullri af bókum, með annarri hendi. Hægt var að stilla hæðina á grindinni og draga hana eftir malarvegum. Eftir góðan dag í boðunarstarfinu voru gúmmíhjólin síðan lögð upp að hliðum töskunnar og haldið heim á leið, annaðhvort fótgangandi eða með sporvagni.

Systur, sem þjónuðu í fullu starfi, gátu fengið Dawn-tösku sér að kostnaðarlausu en annars var hún seld á 2,50 dali. Malinda Keefer, sem sést hér á myndinni, náði svo góðum tökum á Dawn-töskunni að hún gat rúllað henni fullri af bókum með annarri hendi og borið hliðartösku með bókum í hinni. Í námubæ einum í Pennsylvaníufylki hitti hún svo marga áhugasama að hún þurfti vanalega að fara þrjár til fjórar ferðir yfir Alleghenybrúna daginn sem bækurnar voru afhentar.

Síðla á níunda áratugnum fann flugmaður upp ferðatöskuna á hjólum sem er algeng sjón nú á dögum á flugvöllum og fjölförnum borgargötum. En fyrir um það bil hundrað árum nutu kappsamir biblíunemendur þess líklega að rúlla Dawn-töskunum um göturnar undir forvitnum augum fólks, og dreifa dýrmætum sannindum Biblíunnar.

[Innskot á bls. 32]

Malinda þurfti vanalega að fara þrjár til fjórar ferðir daginn sem bækurnar voru afhentar.

[Innskot á bls. 32]

Hjólataskan auðveldaði dreifingu bókanna.