Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hugrökk boðuðu þau orð Guðs

Hugrökk boðuðu þau orð Guðs

Hugrökk boðuðu þau orð Guðs

Sannkristnir menn sýna hugrekki og dirfsku þrátt fyrir andstöðu af ýmsu tagi. Við líkjum eftir trúsystkinum okkar á fyrstu öld og biðjum Jehóva að gefa okkur anda sinn og hjálpa okkur að tala orð hans af djörfung. – Post. 4:23-31.

Bróðir nokkur skrifaði eftirfarandi um boðunarstarfið á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar: „Þjónar Guðs lögðu mikið kapp á að dreifa sjöunda bindinu af Studies in the Scriptures (Rannsóknir á Ritningunni) en það hét The Finished Mystery (Leyndardómurinn upplýstur). Útbreiðslan var með eindæmum mikil. Guðsríkisfréttir nr. 1 komu út árið 1918. Í Guðsríkisfréttum nr. 2 var fjallað um ástæðuna fyrir því að yfirvöld bönnuðu bókina The Finished Mystery. Í kjölfarið komu Guðsríkisfréttir nr. 3. Hinir andasmurðu dreifðu þessum ritum út um allt. Það kostaði trú og hugrekki að dreifa Guðsríkisfréttum.“

Þegar nýir boðberar bætast í hópinn nú á dögum er þeim yfirleitt kennt hvernig þeir eigi að bera sig að. En sú var ekki alltaf raunin. Pólskur bróðir, sem bjó í Bandaríkjunum, segir eftirfarandi um fyrstu reynslu sína af boðunarstarfinu árið 1922: „Ég hafði ekki hugmynd um hvernig ætti að kynna ritin og talað mjög litla ensku. Ég stóð aleinn á tröppum læknastofu og bankaði. Hjúkrunarkona kom til dyra. Ég gleymi þessu aldrei því að ég var bæði spenntur og dauðhræddur. Þegar ég opnaði töskuna mína missti ég allar bækurnar við fætur hjúkrunarkonunnar. Ég hef ekki hugmynd um hvað ég sagði en hún þáði rit hjá mér. Þegar ég kvaddi hafði mér aukist kjarkur og fannst ég njóta blessunar Jehóva. Þennan dag tókst mér að dreifa fjölda bæklinga í þessari verslunargötu.“

„Um 1933 voru margir bræður farnir að nota hátalarabíla til að útbreiða fagnaðarerindið,“ segir systir í söfnuðinum. Einu sinni var hún að boða trúna ásamt hjónum í söfnuðinum á fjallasvæði í Kaliforníu. „Bróðirinn ók bílnum hærra upp í fjallið en við urðum eftir niðri í bænum,“ segir hún. „Síðan fór hann að spila hljóðritaða ræðu og hún hljómaði næstum eins og hún kæmi af himnum ofan. Bæjarbúar reyndu allt hvað þeir gátu til að finna bróðurinn en tókst ekki. Þegar platan var á enda heimsóttum við fólk og vitnuðum fyrir því. Ég starfaði með tveim öðrum hátalarabílum og það var deginum ljósara að fólk langaði ekki til að heyra boðskapinn. En það komst ekki hjá því að heyra ræðurnar því að hljóðið frá hátalarabílunum smaug inn í húsin. Við sáum greinilega að Jehóva lét okkur nota réttu aðferðina á réttum tíma. Hver sem aðferðin var kallaði hún á allt það hugrekki sem við áttum til en hún skilaði alltaf árangri og var nafni Jehóva til lofs.“

Á fjórða áratug síðustu aldar og í byrjun þess fimmta voru notaðir grammófónar og hljóðritaðar ræður í boðunarstarfinu. Systir í söfnuðinum segir frá einni af ungu systrunum sem var að starfa hús úr húsi: „Hún var með grammófón og var nýbyrjuð að spila plötu á einum stað þegar húsbóndinn reiddist svo heiftarlega að hann sparkaði grammófóninum út af veröndinni. Það brotnaði ekki ein einasta plata. Þrír menn sátu í pallbíl þar skammt frá og voru að borða nestið sitt. Þeir urðu vitni að því sem gerðist, buðu systurinni að spila plötuna fyrir sig og þáðu rit hjá henni. Það voru góðar sárabætur fyrir vonskuna sem hún hafði orðið fyrir.“ Það kostaði hugrekki að takast á við slíkt mótlæti.

Systirin heldur áfram: „Ég man eftir því þegar við byrjuðum að bjóða blöðin á götum úti árið 1940. Áður höfðum við gengið um götur með upplýsingaskilti. Bræður og systur gengu þá í einfaldri röð eftir gangstéttinni með skilti sem á stóð: ,Trúarbrögðin eru snara og svikamylla‘ og ,Þjónaðu Guði og konunginum Kristi‘. Jafnframt var dreift ókeypis smáritum til fólks. Við þurftum að vera hugrökk til að taka þátt í þessu en það þjónaði þeim tilgangi að halda nafni Jehóva á lofti og gera þjóna hans sýnilega.“

„Það tók á að dreifa blöðum í smábæjum,“ segir önnur systir. „Það var mikil andstaða gegn okkur vottunum á þeim tíma . . . Við þurftum að vera hugrökk til að standa á götuhorni með blöðin á lofti og kalla slagorðin sem við vorum hvött til að nota. En við létum sjaldan einn einasta laugardag ónotaðan. Stundum var fólk vingjarnlegt en stundum safnaðist það í ógnandi hópa. Stöku sinnum urðum við að laumast burt til að forðast skrílsárásir.“

Vottar Jehóva héldu hugrakkir áfram þótt þeir væru ofsóttir á árum síðari heimsstyrjaldarinnar. Gert var sérstakt átak frá 1. desember 1940 til 12. janúar 1941. Um 50.000 boðberar í Bandaríkjunum tóku þátt í því og dreifðu næstum átta milljónum bæklinga. Þetta 43 daga boðunarátak var gert undir kjörorðinu „hugrekki“.

Margir af eldri kynslóðinni í söfnuði Guðs eiga ljóslifandi minningar um þær prófraunir sem urðu á vegi þeirra. Sumir minnast þess að um árabil fóru þeir með slagorðin: „Berjumst við borgarhliðin“ en þau bera glöggt vitni um hugrekki þeirra. Tíminn á eftir að leiða í ljós hvernig boðskapur Guðs, sem við færum fólki, verður fluttur áður en illur heimur líður undir lok. En við munum halda áfram að boða orð Jehóva með trú og hugrekki.

[Innskot á bls. 9]

Þeir sem boða fagnaðarerindið hafa alltaf þurft að vera hugrakkir.