Natan – dyggur talsmaður hreinnar tilbeiðslu
Natan – dyggur talsmaður hreinnar tilbeiðslu
Það er ekki hlaupið að því að sannfæra voldugan mann um að hann hafi brotið alvarlega af sér og þurfi að bæta sig. Myndir þú bjóða slíkum einstaklingi birginn ef þú vissir að hann hefði drepið mann til þess að forðast álitshnekki?
Davíð Ísraelskonungur hafði drýgt hór með Batsebu og hún orðið þunguð. Hann lét drepa eiginmann hennar til að leyna synd þeirra og tók sér hana síðan fyrir konu. Davíð lifði mánuðum saman tvöföldu lífi og hélt eflaust áfram að gegna opinberu starfi. En Jehóva lokaði ekki augunum fyrir synd konungsins. Hann sendi Natan, spámann sinn, til að vanda um við Davíð.
Þetta var erfitt verkefni. Settu þig í spor Natans. Hollusta við Jehóva og einbeittur vilji til að hlýða boðum hans hefur án efa verið Natan hvatning til að segja Davíð til syndanna. Hvernig gat spámaðurinn gert þetta og sannfært Davíð konung um að hann þyrfti að iðrast?
HÁTTVÍS KENNARI
Væri ekki tilvalið að eyða nokkrum mínútum í að lesa 2. Samúelsbók 12:1-25? Ímyndaðu þér að þú standir í sporum Natans þegar hann segir Davíð eftirfarandi sögu: „Í borg einni bjuggu tveir menn. Annar var ríkur en hinn fátækur. Ríki maðurinn átti fjölda sauða og nauta en sá fátæki átti aðeins eitt lítið gimbrarlamb sem hann hafði keypt. Hann fóðraði það og það dafnaði hjá honum og með börnum hans. Það át af brauði hans, drakk úr krús hans, svaf við brjóst hans og var eins og dóttir hans. Einhverju sinni kom gestur til ríka mannsins. En hann tímdi ekki að taka neinn af sauðum sínum eða nautum til að matreiða handa ferðamanninum sem kominn var til hans. Hann tók því lamb fátæka mannsins og matbjó það handa komumanni.“ – 2. Sam. 12:1-4.
Davíð hafði sjálfur verið fjárhirðir og trúði greinilega að um raunverulegar aðstæður væri að ræða. Biblíuskýrandi kemur fram með þá uppástungu að „Natan gæti hafa verið vanur að koma til Davíðs til að tala fyrir málstað þeirra sem höfðu verið órétti beittir en ekki getað fengið leiðréttingu á annan hátt. Davíð hafi því talið að það væri erindið.“ Þó svo hafi verið reyndi á hugrekki Natans og trúfesti við Guð að tala við konung eins og hann gerði. Davíð reiddist ákaflega þegar hann heyrði frásögu Natans. „Svo sannarlega sem Drottinn lifir er sá sem þetta gerði dauðasekur,“ hrópaði hann. En þá kom áfellisdómur Natans: „Þú ert maðurinn.“ – 2. Sam. 12:5-7.
Af hverju ætli Natan hafi tekið á málinu eins og hann gerði? Það er ekki auðvelt fyrir þann sem er tilfinningalega bundinn öðrum að sjá aðstæður sínar í réttu ljósi. Öll reynum við að afsaka okkur og réttlæta verk okkar ef þau orka tvímælis. En dæmisaga Natans varð til þess að Davíð dæmdi sjálfan sig óafvitandi fyrir það sem hann hafði gert. Konungurinn sá greinilega að það var með eindæmum röng hegðun sem Natan lýsti. En það var ekki fyrr en Davíð hafði fordæmt hana sjálfur að Natan heimfærði söguna upp á konunginn. Þá rann upp fyrir Davíð hve synd hans var mikil. Nú sá hann sjálfan sig í réttu ljósi og var tilbúinn til að taka ávítum. Hann viðurkenndi að hann hefði „smánað“ Jehóva með hegðun sinni í samskiptum við Batsebu og hann sætti sig við verðskuldaðar ávítur. – 2. Sam. 12:9-14; Sálm. 51, yfirskrift.
Hvaða lærdóm getum við dregið af þessu? Markmið biblíukennara er að hjálpa hlustendum að draga réttar ályktanir. Natan bar virðingu fyrir Davíð og nálgaðist hann af háttvísi. Natan vissi að Davíð unni ráðvendni og réttlæti. Með dæmisögunni höfðaði hann til þessara eiginleika. Við getum einnig hjálpað einlægu fólki að skilja sjónarmið Jehóva. Við getum gert það með því að höfða til réttlætiskenndar þeirra án þess að þykjast hafa siðferðilega eða trúarlega yfirburði. Afstaða okkar um hvað sé rétt og rangt byggist á Biblíunni en ekki eigin skoðunum.
Fyrst og fremst var það hollusta Natans við Jehóva sem gerði honum fært að ávíta voldugan konung. (2. Sam. 12:1) Svipuð hollusta gefur okkur hugrekki til að standa traustan vörð um réttlátar meginreglur Jehóva.
HVATAMAÐUR HREINNAR TILBEIÐSLU
Natan og Davíð virðast hafa verið góðir vinir því að Davíð nefndi einn af sonum sínum Natan. (1. Kron. 3:1, 5) Í fyrsta sinn, sem Natan kemur við sögu í Biblíunni, er hann í félagsskap Davíðs. Báðir elskuðu Jehóva. Konungur treysti greinilega dómgreind Natans því að hann sagði honum frá ósk sinni um að reisa Jehóva musteri. Davíð sagði: „Þú sérð að ég bý í húsi úr sedrusviði en örk Guðs býr í tjaldi.“ Natan svaraði konungi: „Gerðu það sem þú hefur í huga án þess að hika því að Drottinn er með þér.“ – 2. Sam. 7:2, 3.
Natan var trúr tilbiðjandi Jehóva og studdi heilshugar hugmynd Davíðs um að hann reisti fyrstu varanlegu miðstöð hreinnar tilbeiðslu á jörð. En þarna lét Natan greinilega í ljós eigin skoðanir í stað þess að tala í nafni Jehóva. Þá um nóttina sagði Guð spámanninum að færa konungi annars konar skilaboð. Það átti ekki fyrir Davíð að liggja að byggja Jehóva musteri heldur átti einn af sonum hans að gera það. En Natan kunngerði að Guð ætlaði að gera sáttmála við Davíð þess efnis að hásæti hans skyldi „að eilífu stöðugt standa“. – 2. Sam. 7:4-16.
Vilji Guðs varðandi musterisbyggingu var ekki í samræmi við skoðun Natans. Þessi auðmjúki spámaður sætti sig þó möglunarlaust við vilja Jehóva og starfaði í samræmi við hann. Er 1. Kron. 23:1-5; 2. Kron. 29:25.
þetta ekki frábært dæmi til eftirbreytni ef Guð leiðréttir okkur á einhvern hátt? Jehóva notaði Natan síðar sem spámann og það sýnir að hann hafði ekki vanþóknun á honum. Svo virðist sem Jehóva hafi innblásið Natan og Gað sjáanda að leiðbeina Davíð við að skipuleggja sveit 4.000 tónlistarmanna til að þjóna í musterinu. –VERNDARI KONUNGDÓMSINS
Natan vissi að Salómon átti að taka við konungdóminum af Davíð. Hann brást því umsvifalaust við þegar Adónía reyndi að hrifsa til sín völd á efri æviárum Davíðs. Og aftur einkenndust aðgerðir Natans af háttvísi og hollustu. Fyrst hvatti hann Batsebu til að minna Davíð á að hann hefði svarið að gera Salómon, son þeirra, að konungi. Síðan gekk Natan sjálfur fyrir konung til að spyrja hvort hann hefði sagt að Adónía ætti að taka við ríkinu af honum. Hinn aldraði konungur gerði sér grein fyrir alvöru málsins og fyrirskipaði Natan og öðrum dyggum þjónum sínum að láta smyrja Salómon til konungs. Valdaráni Adónía var þar með afstýrt. – 1. Kon. 1:5-53.
HÆVERSKUR SAGNARITARI
Natan og Gað eru almennt taldir hafa ritað 25. til 31. kafla 1. Samúelsbókar sem og 2. Samúelsbók alla. Um hinar innblásnu frásagnir í þessum bókum er sagt: „Saga Davíðs konungs, bæði um fyrri og síðari hluta ævi hans, er skráð í sögu sjáandans Samúels, í sögu Natans spámanns og í sögu sjáandans Gaðs.“ (1. Kron. 29:29) Natan er einnig sagður hafa skráð „það sem ósagt er af sögu Salómons“. (2. Kron. 9:29) Að öllum líkindum þýðir þetta að Natan hafi áfram komið við sögu konungshirðarinnar eftir dauða Davíðs.
Margt af því sem við vitum um Natan gæti hann sjálfur hafa skrifað. Það sem hann lætur ósagt um ákveðin mál segir okkur eigi að síður margt um hann. Natan var greinilega hæverskur sagnaritari og sóttist ekki eftir að geta sér nafn. Eins og komist er að orði í biblíuhandbók birtist hann í hinni innblásnu frásögu „án kynningar eða ættartölu“. Við vitum ekkert um ætt Natans né einkalíf.
HOLLUSTA HANS VIÐ JEHÓVA
Af þeim fáu svipmyndum, sem við fáum af Natan í Biblíunni, er greinilegt að hann hefur verið hæverskur og lagt sig ötullega fram til varnar skipan Guðs. Jehóva Guð fól honum mikla ábyrgð. Ígrundum eiginleika Natans eins og hollustu við Guð og djúpa virðingu fyrir meginreglum hans. Við skulum keppast við að tileinka okkur slíka eiginleika.
Það er ólíklegt að þú verðir beðinn um að koma í veg fyrir valdarán eða ávíta konung fyrir að drýgja hór. En þú getur verið Guði trúr og með hjálp hans geturðu framfylgt réttlátum meginreglum hans. Þú getur einnig verið hugrakkur en samt háttvís kennari sannleikans og hvatamaður hreinnar tilbeiðslu.
[Mynd á bls. 25]
Natan talaði með háttvísi við Batsebu til varnar konungdóminum.