Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Varðveitum jákvætt andrúmsloft í söfnuðinum

Varðveitum jákvætt andrúmsloft í söfnuðinum

Varðveitum jákvætt andrúmsloft í söfnuðinum

„Náðin Drottins Jesú Krists sé með anda yðar.“ – FIL. 4:23.

HVERNIG GETUM VIÐ STUÐLAÐ AÐ HEILBRIGÐU ANDRÚMSLOFTI Í SÖFNUÐINUM . . .

þegar við umgöngumst trúsystkini okkar?

með því að sýna eldmóð í boðunarstarfinu?

með því að láta vita af alvarlegum syndum?

1. Fyrir hvað var söfnuðunum í Filippí og Þýatíru hrósað?

KRISTNIR menn í Filippí á fyrstu öld voru fátækir. Samt sem áður voru þeir örlátir og sýndu trúsystkinum sínum einstakan kærleika. (Fil. 1:3-5, 9; 4:15, 16) Páll postuli sagði því í niðurlagsorðunum í innblásnu bréfi sínu til þeirra: „Náðin Drottins Jesú Krists sé með anda yðar.“ (Fil. 4:23) Kristnir menn í Þýatíru sýndu sams konar eiginleika og þess vegna sagði Jesús Kristur við þá: „Ég þekki verkin þín, elsku þína og trú, þjónustu þína og þolgæði og veit að hin síðari verk þín eru meiri en hin fyrri.“ – Opinb. 2:19.

2. Hvaða áhrif hefur viðhorf okkar á andrúmsloftið í söfnuðinum?

2 Nú á dögum ríkir líka ákveðið andrúmsloft í hverjum og einum söfnuði votta Jehóva. Í sumum söfnuðum eru bræður og systur sérstaklega þekkt fyrir að sýna hlýju og kærleika. Í öðrum eru safnaðarmenn þekktir fyrir að vera einstaklega kappsamir í boðunarstarfinu og meta brautryðjandastarfið mikils. Þegar við sem einstaklingar þroskum með okkur jákvætt viðhorf stuðlum við að einingu safnaðarins og að því að söfnuðurinn í heild styrkist. (1. Kor. 1:10) Ef við erum neikvæð gætum við á hinn bóginn dregið úr starfi safnaðarins og áhuganum á boðunarstarfinu og neikvæðni gæti jafnvel orðið til þess að röng hegðun sé umborin. (1. Kor. 5:1; Opinb. 3:15, 16) Hvernig er andrúmsloftið í söfnuðinum þínum? Hvað getur þú gert til að varðveita jákvætt andrúmsloft í söfnuðinum?

STUÐLUM AÐ JÁKVÆÐU ANDRÚMSLOFTI

3, 4. Hvernig getum við lofað Jehóva í söfnuðinum?

3 Sálmaritarinn söng: „Þá vil ég lofa þig [Jehóva] í stórum söfnuði, vegsama þig í fjölmenni.“ (Sálm. 35:18) Sálmaritarinn lét ekki vera að lofa Jehóva þegar hann var með öðrum þjónum hans. Þegar við tjáum trú okkar og tökum þátt í vikulegum safnaðarsamkomum, þar á meðal Varðturnsnáminu, gefur það okkur gott tækifæri til að sýna kostgæfni. Við höfum öll gott af því að spyrja okkur: Tek ég eins mikinn þátt í samkomunum og ég get? Undirbý ég mig vel og gef ég ígrunduð svör? Þeir sem eiga börn geta spurt sig: Hjálpa ég börnunum að undirbúa svör og kenni ég þeim að svara með eigin orðum?

4 Sálmaritarinn Davíð setur það að hafa stöðugt hjarta í samband við söng. „Hjarta mitt er stöðugt, Guð,“ sagði hann, „hjarta mitt er stöðugt. Ég vil syngja og leika.“ (Sálm. 57:8) Söngvarnir á safnaðarsamkomum gefa okkur gott tækifæri til að „syngja og leika“ fyrir Jehóva með stöðugu hjarta. Ef við kunnum ekki suma söngvana væri þá ekki tilvalið að æfa þá á biblíunámskvöldi fjölskyldunnar? Við skulum vera staðráðin í að ,ljóða um Drottin meðan við lifum og lofsyngja honum meðan við erum til‘. – Sálm. 104:33.

5, 6. Hvernig getum við sýnt öðrum gestrisni og örlæti og hvaða áhrif hefur það á söfnuðinn?

5 Önnur leið til að stuðla að kærleiksríku andrúmslofti í söfnuðinum er að sýna bræðrum og systrum gestrisni. Páll kemur með þessa hvatningu í síðasta kaflanum í bréfi sínu til Hebrea: „Bróðurkærleikurinn haldist. Gleymið ekki gestrisninni.“ (Hebr. 13:1, 2) Ein góð leið til að sýna gestrisni er að bjóða farandhirðinum og eiginkonu hans í mat eða öðrum í söfnuðinum sem þjóna í fullu starfi. Hugsum einnig til ekkna, einstæðra foreldra og annarra sem gætu notið góðs af því að koma stöku sinnum til okkar í mat eða vera með okkur á biblíunámskvöldinu.

6 Páll sagði Tímóteusi að hvetja aðra til „að gera gott, vera ríkir að góðum verkum, örlátir [og] fúsir að miðla öðrum“. Síðan sagði hann: „Með því safna þeir handa sjálfum sér fjársjóði sem er góð undirstaða til hins ókomna og munu geta höndlað hið sanna líf.“ (1. Tím. 6:17-19) Páll var að hvetja til þess að bræður og systur í söfnuðinum temdu sér örlæti. Við getum verið örlát jafnvel þegar kreppir að. Ein góð leið til þess er að bjóðast til að nota bílinn sinn í boðunarstarfinu eða keyra þá sem þess þurfa á samkomu og til baka. En hvað um þá sem njóta góðs af slíkum góðverkum? Þeir varðveita jákvætt andrúmsloft innan safnaðarins með því að sýna þakklæti, til dæmis með því að láta af hendi það sem þeir geta til að mæta auknum eldsneytiskostnaði. Og myndi trúsystkinum okkar ekki finnast þau elskuð og mikils metin ef við reyndum að verja meiri tíma með þeim? Þegar við gerum trúsystkinum okkar gott og erum fús til að nota tíma okkar og eigur í þeirra þágu styrkjum við ekki aðeins kærleika okkar í þeirra garð heldur stuðlum líka að hlýju og jákvæðu andrúmslofti í söfnuðinum. – Gal. 6:10.

7. Hvernig getum við viðhaldið góðu andrúmslofti í söfnuðinum með því að bregðast ekki trúnaði?

7 Vinskapur og trúnaður styrkir líka kærleiksböndin milli trúsystkina. (Lestu Orðskviðina 18:24.) Sannir vinir bregðast ekki trúnaði. Þegar trúsystkini tjá okkur sínar innstu hugsanir og tilfinningar og eru viss um að einkamál þeirra verði ekki á allra vitorði munu kærleiksböndin okkar á milli styrkjast enn frekar. Stuðlum að hlýu og innilegu andrúmslofti í söfnuðinum með því að vera traustir vinir sem halda trúnað. – Orðskv. 20:19.

VERUM KAPPSÖM Í BOÐUNARSTARFINU

8. Hvaða áminningu fengu Laódíkeumenn og hvers vegna?

8 Þegar Jesús ávarpaði söfnuðinn í Laódíkeu sagði hann: „Ég þekki verkin þín, þú ert hvorki kaldur né heitur. Betur að þú værir annaðhvort kaldur eða heitur. En af því að þú ert hálfvolgur og hvorki heitur né kaldur mun ég skyrpa þér út af munni mínum.“ (Opinb. 3:15, 16) Laódíkeumenn skorti ákafa í boðunarstarfinu. Sennilega hafði það einnig áhrif á samskiptin þeirra í milli. Þess vegna veitti Jesús þeim þessa kærleiksríku áminningu: „Ég tyfta og aga alla þá sem ég elska. Legg þú því allt kapp á að bæta ráð þitt.“ – Opinb. 3:19.

9. Hvaða áhrif hefur viðhorf okkar til boðunarstarfsins á andrúmsloftið í söfnuðinum?

9 Til að stuðla að heilbrigðu og jákvæðu andrúmslofti í söfnuðinum ættum við að hafa brennandi áhuga á boðunarstarfinu. Söfnuðurinn er skipulagður með það að markmiði að finna hjartahreina einstaklinga á svæðinu og byggja þá upp í trúnni. Þess vegna verðum við að prédika af kappi eins og Jesús gerði. (Matt. 28:19, 20; Lúk. 4:43) Því meiri ákafa sem við sýnum í boðunarstarfinu þeim mun sameinaðri verðum við sem „samverkamenn Guðs“. (1. Kor. 3:9) Þegar við sjáum aðra verja trú sína í boðunarstarfinu og sýna kærleika sinn til Jehóva og sannleikans fær það okkur til að elska þau og virða enn meira. Og þegar við þjónum „einhuga“ í þessu starfi ýtir það undir samheldni í söfnuðinum. – Lestu Sefanía 3:9.

10. Hvaða áhrif hefur það á aðra í söfnuðinum þegar við leggjum okkur fram um að bæta okkur í þjónustunni?

10 Viðleitni okkar til að verða færari í þjónustunni hefur líka góð áhrif á aðra. Þegar við leitumst við að sýna fólkinu, sem við hittum, meiri áhuga og ná betur til hjartna þeirra fáum við meiri áhuga á boðunarstarfinu. (Matt. 9:36, 37) Kappsemi hefur oft smitandi áhrif á starfsfélaga okkar. Jesús sendi lærisveinana ekki eina að prédika heldur tvo og tvo saman. (Lúk. 10:1) Þetta var ekki aðeins til að veita þeim uppörvun og þjálfun heldur líka til að vekja með þeim eldmóð. Njótum við þess ekki að starfa með kappsömum boðberum? Eldmóður þeirra hvetur okkur og gefur okkur aukinn kraft í prédikunarstarfinu. – Rómv. 1:12.

VÖRUMST NÖLDUR OG RANGA HEGÐUN

11. Hvaða viðhorf ólu sumir Ísraelsmenn með sér á dögum Móse og hvaða afleiðingar hafði það fyrir þá?

11 Aðeins nokkrum vikum eftir að Ísraelsmenn urðu að þjóð braust út óánægja meðal þeirra og þeir fóru að mögla. Þetta leiddi til uppreisnar gegn Jehóva og fulltrúum hans. (2. Mós. 16:1, 2) Aðeins lítill hópur þeirra sem yfirgáfu Egyptaland lifðu nógu lengi til að sjá fyrirheitna landið. Móse fékk ekki einu sinni að ganga inn í landið vegna viðbragða hans við neikvæðni Ísraelsmanna. (5. Mós. 32:48-52) Hvað getum við gert nú á dögum til að varast þessa gildru?

12. Hvernig getum við varast að verða kvörtunargjörn?

12 Við verðum að gæta þess að verða ekki kvörtunargjörn.Vissulega er gagnlegt að þroska með sér auðmýkt og virðingu fyrir yfirvaldi en við þurfum líka að huga að því hverja við umgöngumst. Ef við vöndum ekki val okkar á afþreyingu eða verjum of miklum tíma með vinnufélögum eða skólafélögum, sem bera enga virðingu fyrir réttlátum meginreglum, getur það reynst okkur dýrkeypt. Það er viturlegt af okkur að takamarka samskiptin við þá sem eru neikvæðir eða ýta undir sjálfstæðisanda. – Orðskv. 13:20.

13. Hvaða skaðlegu áhrif getur nöldur haft á söfnuðinn?

13 Nöldur er spillandi og getur haft ýmis skaðleg áhrif. Það getur til dæmis truflað frið og einingu safnaðarins. Ef við setjum út á trúsystkini okkar getur það ekki aðeins sært þau heldur líka þróast út í róg og lastmælgi sem eru alvarlegar syndir. (3. Mós. 19:16; 1. Kor. 5:11) Sumir möglarar í söfnuðinum á fyrstu öldinni ,mátu að engu drottinvald og lastmæltu tignum‘. (Júd. 8, 16, Biblían 1981) Guð hafði greinilega vanþóknun á því þegar fólk möglaði gegn safnaðarmönnum í ábyrgðarstöðum.

14, 15. (a) Hvaða áhrif getur það haft á allan söfnuðinn ef alvarleg synd fær að viðgangast? (b) Hvað ættum við að gera ef við komumst að því að einhver syndgar alvarlega í laumi?

14 Hvað ef við komumst að því að einhver syndgar alvarlega í laumi, til dæmis með því að misnota áfengi, horfa á klám eða lifa siðlausu lífi? (Ef. 5:11, 12) Ef við horfum fram hjá alvarlegri synd getur það komið í veg fyrir að andi Jehóva starfi óhindrað og ógnað friði alls safnaðarins. (Gal. 5:19-23) Frumkristnir menn í Korintu þurftu að hreinsa burtu alla illsku og eins verður að halda öllum spillandi áhrifum frá söfnuðinum nú á dögum. Þannig er hægt að varðveita heilbrigt og jákvætt andrúmsloft safnaðarins. Hvað getum við hvert og eitt gert til að stuðla að friði í söfnuðinum?

15 Eins og bent var á fyrr í greininni er mikilvægt að bregðast ekki trúnaði í vissum málum, sérstaklega þegar einhver hefur deilt með okkur tilfinningum sínum og hugsunum. Það væri mjög rangt af okkur og særandi að breiða út persónulegar upplýsingar um aðra manneskju. Það ætti samt að láta öldunga safnaðarins vita ef einhver hefur drýgt alvarlega synd þar sem þeir hafa biblíulegt umboð til að taka á slíkum málum. (Lestu 3. Mósebók 5:1.) Ef við vitum að einhverjum í söfnuðinum hefur orðið alvarlega á ættum við því að hvetja hann til að leita hjálpar öldunganna. (Jak. 5:13-15) Ef hann gerir það ekki innan skynsamlegra tímamarka ættum við að gera það sjálf.

16. Hvernig varðveitum við góðan anda í söfnuðinum með því að láta vita af alvarlegum syndum?

16 Kristni söfnuðurinn er okkur andlegt skjól og við verðum að leggja okkar af mörkum til að varðveita það með því að láta vita af alvarlegum syndum. Ef öldungarnir fá syndarann til að hugsa sinn gang, iðrast og þiggja aga og leiðsögn stofnar hann söfnuðinum ekki lengur í hættu. En hvað ef syndarinn iðrast ekki og tekur ekki til sín kærleiksríka leiðsögn öldunganna? Þá er honum vikið úr söfnuðinum. Með þessum hætti fjarlægja þeir spillandi áhrif og varðveita góðan anda safnaðarins. (Lestu 1. Korintubréf 5:5. *) Já, til að varðveita jákvætt andrúmsloft í söfnuðinum þurfum við hvert og eitt að taka rétt á málum, vinna með öldungaráðinu og gæta velferðar trúsystkina okkar.

VARÐVEITUM „EININGU ANDANS“

17, 18. Hvað hjálpar okkur „að varðveita einingu andans“?

17 Fylgjendur Jesú á fyrstu öld „ræktu trúlega uppfræðslu postulanna“ og það hjálpaði þeim að varðveita einingu innan safnaðarins. (Post. 2:42) Þeir kunnu að meta biblíulegar leiðbeiningar og ráð öldunganna. Öldungar nú á dögum vinna með hinum trúa og hyggna þjóni og þess vegna fá allir í söfnuðinum hvatningu og hjálp til að vera sameinaðir. (1. Kor. 1:10) Þegar við hlýðum biblíulegum leiðbeiningum frá söfnuði Jehóva og fylgjum leiðsögn öldunganna sönnum við að við kappkostum „að varðveita einingu andans í bandi friðarins“. – Ef. 4:3.

18 Við skulum því fyrir alla muni leggja okkur fram um að varðveita heilbrigt og jákvætt andrúmsloft í söfnuðinum. Ef við gerum það getum við treyst að ,náðin Drottins Jesú Krists sé með anda okkar‘. – Fil. 4:23.

[Neðanmáls]

^ gr. 16 1. Korintubréf 5:5 (Biblían 1981): „Skal selja slíkan mann Satan á vald til tortímingar holdinu, til þess að andinn megi hólpinn verða á degi Drottins Jesú.“

[Spurningar]

[Mynd á bls. 19]

Stuðlar þú að jákvæðu andrúmslofti með því að undirbúa innihaldsrík svör?

[Mynd á bls. 20]

Við stuðlum að jákvæðu andrúmslofti með því að læra lögin í söngbókinni okkar.