Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Gleðignótt við hægri hönd Jehóva að eilífu

Gleðignótt við hægri hönd Jehóva að eilífu

Ævisaga

Gleðignótt við hægri hönd Jehóva að eilífu

Lois Didur segir frá

Hve oft á ævinni hefurðu sagt eitthvað á þessa leið: „Ég vildi óska að ég hefði ekki gert þetta“? Ég hef þjónað Jehóva í fullu starfi í 50 ár og man ekki eftir að hafa nokkurn tíma misst gleðina til lengdar við hægi hönd hans. Ég skal segja ykkur ástæðuna.

ÉG FÆDDIST árið 1939 og ólst upp í sveit í Saskatchewan í Kanada ásamt fjórum systrum og einum bróður. Lífið á sléttunni var ánægjulegt. Dag einn komu vottar Jehóva í heimsókn til pabba og ég spurði þá hvort Guð ætti sér nafn. Þeir sýndu okkur nafnið Jehóva í Sálmi 83:18. Það varð til þess að mig langaði til að vita meira um Guð og orð hans, Biblíuna.

Fram að áttunda bekk sóttu sveitabörnin skóla sem var aðeins ein kennslustofa fyrir hvern árgang. Þau fóru þangað langa leið á hestum eða fótgangandi. Fjölskyldurnar á svæðinu sáu kennaranum fyrir nauðsynjum. Eitt árið var röðin komin að foreldrum mínum að hýsa nýja kennarann en hann hét John Didur.

Ég vissi ekki þá að þessi ungi maður hafði einnig mikinn áhuga á Biblíunni. Eitt sinn var ég að hrósa stefnu kommúnista og sósíalista sem faðir minn aðhylltist. John sagði þá rólega: „Enginn maður hefur rétt til að ráða yfir öðrum. Guð einn hefur þann rétt.“ Þetta varð kveikjan að mörgum áhugaverðum samræðum.

John var fæddur 1931 og hafði því heyrt um þær hörmungar sem fylgdu stríði. Þegar Kóreustríðið braust út 1950 spurði hann ýmsa presta um afstöðu þeirra til þátttöku í stríði. Þeir sögðu allir að ásættanlegt væri fyrir kristna menn að taka sér vopn í hönd. Seinna spurði hann votta Jehóva sömu spurningar. Þeir bentu honum á biblíulega afstöðu frumkristinna manna til styrjalda. John lét skírast 1955. Árið eftir lét ég einnig skírast. Við vissum bæði að okkur langaði til að þjóna Jehóva af lífi og sál. (Sálm. 37:3, 4) Við gengum í hjónaband í júlí árið 1957.

Við vorum oft stödd á móti á brúðkaupsafmælinu okkar. Við glöddumst yfir því að vera í félagsskap þúsunda annarra sem virtu hjónabandið. Fyrsta alþjóðamótið, sem við sóttum, var árið 1958. Við vorum fimm sem lögðum af stað í bíl frá Saskatchewan til New York. Í viku ókum við á daginn og sváfum í tjaldi á næturnar. Hugsið ykkur hvað við urðum undrandi þegar trúbróðir, sem við hittum í Bethlehem í Pennsylvaníu, bauð okkar að gista á heimili sínu um nóttina. Vegna þessarar óvæntu greiðasemi gátum við náð til New York hrein og snyrtileg. Á þessu gríðarfjölmenna móti fundum við hve mikil gleði fylgir því að þjóna Jehóva. Eins og sálmaritarinn sagði í bæn til hans: „Gleðignótt er fyrir augliti þínu, yndi í hægri hendi þinni að eilífu.“ – Sálm. 16:11.

BRAUTRYÐJANDASTARF

Ári síðar, árið 1959, vorum við í brautryðjandastarfi og bjuggum í litlum húsvagni uppi á hæð á Saskatchewansléttunni. Þaðan gat maður séð eins langt og augað eygði og við áttum að starfa á hluta af þessu svæði.

Dag einn kom spennandi bréf frá deildarskrifstofunni. Ég flýtti mér út til Johns þar sem hann var að gera við dráttarvél. Í bréfinu var okkur boðið að vera sérbrautryðjendur í Red Lake í Ontariofylki. Við vissum ekki hvar það var svo að við tókum í snatri fram landakort til að kanna málið.

Hann reyndist vera alger andstæða við víðáttu sléttunnar. Þarna voru miklir skógar og smábæir í námunda við gullnámur. Þegar við vorum að leita að húsnæði fyrsta daginn heyrði lítil telpa á tal okkar við nágrannakonu sína. Hún hljóp heim til móður sinnar sem bauð okkur góðfúslega gistingu um nóttina. Rúmið var í moldarkjallara. Næsta dag fundum við húsnæði, tveggja herbergja bjálkahús án húsgagna, vatns- og skólplagna. Þar var aðeins ofn sem kyntur var með eldiviði. Við fundum eitt og annað í verslun sem seldi notaðar vörur og okkur leið bara prýðilega.

Það voru meira en 200 kílómetrar til næsta safnaðar. Margir verkamenn í gullnámunum komu frá Evrópu og þeir spurðu hvort við gætum útvegað þeim Biblíu á móðurmáli þeirra. Innan skamms vorum við komin með 30 biblíunámskeið. Eftir tæplega hálft ár var stofnaður lítill söfnuður.

Eiginmaður einnar konunnar, sem við vorum að leiðbeina, hringdi í prestinn sinn og bað hann að koma og segja konu sinni að hverfa frá villu síns vegar. Meðan á fundinum stóð sagði presturinn meðal annars að við ættum að kenna þrenningarkenninguna. Konan náði í kaþólsku biblíuna og bað prestinn um að rökstyðja mál sitt. Hann kastaði biblíunni þvert yfir borðið og sagðist ekki þurfa að rökstyðja neitt. Á leiðinni út sagði hann á úkraínsku að þau skyldu reka okkur á dyr og hleypa okkur aldrei aftur inn. Hann áttaði sig ekki á því að John skildi úkraínsku.

Skömmu síðar fórum við frá Red Lake því að John átti að fá þjálfun sem farandhirðir. Um ári síðar, þegar John flutti skírnarræðuna á umdæmismóti, var þessi eiginmaður meðal skírnþega. Fundurinn með prestinum hafði orðið til þess að hann fór sjálfur að kynna sér Biblíuna.

ÖNNUM KAFIN Í FARANDHIRÐISSTARFINU

Í farandstarfinu nutum við þeirrar einstöku ánægju að dvelja hjá ýmsum fjölskyldum. Við urðum mjög náin þeim sem leyfðu okkur að deila með sér heimili sínu og daglegu lífi. Einu sinni gistum við í herbergi uppi á lofti en þar var ekki hitað upp á veturna. Snemma morguns heyrðum við trúsystur okkar koma hljóðlega inn í herbergið og kveikja upp í litlum ofni. Innan skamms kom hún aftur með skál og heitt vatn svo að við gætum búið okkur undir daginn. Ég lærði mikið af þessari rosknu systur sem var svo hæglát og nærgætin í fasi.

Farandhirðisstarfið hjálpaði mér að hafa enn nánara samband við Jehóva. Eitt af farandsvæðunum í Alberta náði yfir námubæ lengst í norðri en þar átti trúsystir heima. Hvernig leit söfnuður Jehóva á þessa einangruðu systur? Á hálfs árs fresti flugum við þangað til að starfa þar í eina viku og halda samkomur með henni alveg eins og gert er í söfnuði í stórborg. Á hlýlegan hátt minnti þetta á hvernig Jehóva annast hvern einasta þjón sinn.

Við héldum sambandi við marga sem höfðu séð okkur fyrir húsnæði. Það minnir mig á eina af fyrstu gjöfunum sem John gaf mér – litríkt box fullt af bréfsefni. Við nutum þess að halda bréfasambandi við vini og nota þess konar bréfsefni. Ég held enn upp á boxið frá honum.

Meðan við störfuðum á farandsvæði í Toronto hringdi bróðir frá Betel í Kanada og spurði hvort við gætum komið til starfa á Betel. Hvenær óskaði hann eftir svari? Daginn eftir ef hægt væri. Og hann fékk það.

ÞJÓNUSTAN Á BETEL

Í hvert sinn sem við höfum fengið ný verkefni höfum við séð gleðina við hægri hönd Jehóva í nýju ljósi. Það breyttist ekki þegar við fluttum á Betel árið 1977. Félagsskapurinn við suma hinna andasmurðu gaf okkur tækifæri til að kynnast ólíkum persónuleikum þeirra og einnig hve mikils þeir virtu orð Guðs.

Okkur líkaði vel við daglega lífið á Betel. Til dæmis voru fötin okkar núna í skúffum en ekki ferðatöskum og við tilheyrðum einum söfnuði. Auk þess að vinna reglubundin störf, sem mér voru falin, var alltaf gaman að fara með gestahópa í skoðunarferð. Ég lýsti starfseminni sem fram fór á Betel, hlustaði á athugasemdir bræðra og systra sem komu í heimsókn og svaraði spurningum þeirra.

Árin liðu fljótt og 1997 var John boðið að sækja Deildarnefndarskólann í Patterson í New York. Eftir það vorum við beðin um að hugleiða hvort við værum tilbúin að fara til Úkraínu. Við vorum hvött til að hugsa okkur vandlega um og gera það að bænarefni. Þegar dagurinn var á enda höfðum við ákveðið að þiggja boðið.

NÝTT VERKEFNI Í ÚKRAÍNU

Við höfðum sótt fjölmennt alþjóðamót í St. Pétursborg í Rússlandi 1992 og síðan mótið í Kíev í Úkraínu 1993. Á þessum mótum höfðum við lært að meta bræður okkar í Austur-Evrópu. Húsnæðið, sem við fengum í Lviv í Úkraínu, var á þriðju hæð í gömlu húsi. Gluggarnir sneru út í port með smágarði, stórum rauðum hana og hænuskara. Það var eins og maður væri kominn á bóndabæ í Saskatchewan. Við vorum 12 sem bjuggum þarna. Á hverjum degi fórum við snemma morguns þvert yfir borgina til að starfa á Betel.

Hvernig leið okkur í Úkraínu? Við fundum til smæðar okkar þar sem við sátum meðal margra sem höfðu mátt þola að starfið væri bannað og sætt réttarhöldum og fangelsisvist. En þau höfðu staðið trúföst. Þegar við hrósuðum þeim sögðu þau: „Við gerðum það fyrir Jehóva.“ Aldrei fannst þeim þau vera ein og yfirgefin. Ef maður þakkar þeim fyrir vinsemd er oft svarað: „Þakkaðu Jehóva.“ Þannig viðurkenna þau að allt gott komi frá Guði.

Í Úkraínu fara margir fótgangandi á safnaðarsamkomur og hafa því tíma til að tala saman og hvetja hver annan. Ferðin getur tekið klukkustund eða meira. Það eru fleiri en 50 söfnuðir í Lviv og þar af 21 sem notar stóra byggingu með mörgum ríkissölum. Á sunnudögum er fallegt að sjá stöðugan straum bræðra og systra á leiðinni á samkomur.

Okkur leið fljótt vel innan um trúsystkini okkar í Úkraínu. Þau eru þægileg í framkomu og sérlega umhyggjusöm. Þegar ég er í vandræðum með að skilja tungumálið, sem gerist enn, eru þau mjög þolinmóð. Augun segja oft meira en orðin.

Ég sá dæmi um sannkallað traust meðal trúsystkina á alþjóðamótinu í Kíev árið 2003. Við vorum rétt komin niður á brautarpall fjölfarinnar neðanjarðarlestarstöðvar þegar lítil telpa gekk til okkar og sagði hljóðlega: „Ég hef villst. Ég finn ekki ömmu mína.“ Telpan hafði séð barmmerkin okkar og vissi að við vorum vottar. Hún var hugrökk og grét ekki einu sinni. Eiginkona farandhirðis, sem var með okkur, fór með hana í tapað fundið á mótstaðnum. Fljótlega hitti hún ömmu sína aftur. Ég var mjög snortin af því mikla trausti sem þessi litla stúlka sýndi innan um þúsundir manna á lestarstöðinni.

Bræður og systur frá mörgum löndum komu til Úkraínu í maí 2001 til að vera viðstödd vígslu nýrrar deildarskrifstofu. Eftir ræðuna á mótsstaðnum á sunnudagsmorgni kom hafsjór af bræðrum og systrum gangandi eftir götunni til að fara í skoðunarferð um nýja Betelheimilið. Þetta var ógleymanleg sjón. Ég var hræð yfir að sjá þessi trúsystkin sem voru svo hæglát og skipulögð. Ég fann sterklega fyrir gleðinni sem felst í því að þjóna Guði.

MIKIL BREYTING

Því miður greindist John með krabbamein árið 2004. Við fórum til Kanada þar sem hann fór í meðferð. Fyrsta lyfjameðferðin reið honum næstum að fullu og hann var nokkrar vikur á gjörgæsludeild. Sem betur fer komst hann til meðvitundar. Þótt hann gæti varla talað mátti lesa úr augum hans þakklæti til allra sem heimsóttu hann.

En hann náði sér ekki og lést þá um haustið. Missirinn var mikill. Við John höfðum haft svo mikla ánægju af því að þjóna Jehóva saman. Hvað átti ég nú að gera? Ég kaus að fara aftur til Úkraínu. Ég er mjög þakklát fyrir þá hlýju og kærleika sem Betelfjölskyldan sýnir mér og einnig söfnuðurinn þar.

Við iðruðumst aldrei þeirra ákvarðana sem við tókum á lífsleiðinni. Lífið hefur verið ánægjulegt í besta félagsskap sem hugsast getur. Ég veit að ég á enn margt ólært um gæsku Jehóva. Ég vonast til að halda áfram í þjónustu hans alla tíð vegna þess að ég hef svo sannarlega fundið fyrir gleðinni við hægri hönd Jehóva.

[Innskot á bls. 6]

„Við iðruðumst aldrei þeirra ákvarðana sem við tókum á lífsleiðinni.“

[Mynd á bls. 3]

Við John á brúðkaupsdeginum.

[Mynd á bls. 4]

Ég var sérbrautryðjandi um tíma í Red Lake í Ontario.

[Mynd á bls. 5]

Við John í Úkraínu árið 2002.