Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hjálpum fólki að „rísa af svefni“

Hjálpum fólki að „rísa af svefni“

Hjálpum fólki að „rísa af svefni“

„Þið vitið hvað tímanum líður, að ykkur er mál að rísa af svefni.“ – RÓMV. 13:11.

GETURÐU SVARAÐ?

Af hverju er mikilvægt að kristnir menn haldi vöku sinni?

Af hverju þurfa boðberar að vera athugulir?

Af hverju er mikilvægt að sýna nærgætni í boðunarstarfinu?

1, 2. Í hvaða skilningi þarf fólk að vakna?

ÁRLEGA deyja þúsundir manna í umferðarslysum vegna þess að þeir eru syfjaðir eða sofna undir stýri. Sumir missa vinnuna vegna þess að þeir sofa yfir sig eða sofna í vinnunni. En það getur haft miklu alvarlegri afleiðingar að vera andlega syfjaður. Það er í því samhengi sem Biblían segir: „Sæll er sá sem vakir.“ – Opinb. 16:14-16.

2 Hinn mikli dagur Jehóva nálgast óðum en mannkynið er á heildina litið sofandi gagnvart því. Sumir af leiðtogum kristna heimsins hafa jafnvel látið þau orð falla að sóknarbörnin séu andlega sofandi. Hvað er átt við þegar talað er um að vera andlega sofandi? Af hverju er áríðandi fyrir sannkristna menn að vera glaðvakandi? Hvernig getum við hjálpað fólki að „rísa af svefni“?

HVAÐ ER AÐ VERA ANDLEGA SOFANDI?

3. Lýstu fólki sem er ekki andlega vakandi.

3 Fólk gerir ekki mikið meðan það sefur. Þeir sem eru andlega sofandi geta hins vegar verið mjög athafnasamir, en ekki við hluti sem afla þeim velþóknunar Guðs. Þeir eru kannski mjög uppteknir af daglegu amstri eða af því að sækjast eftir gleði og ánægju eða fé og frama. En þó að fólk sé önnum kafið lætur það andlegu þarfirnar sitja á hakanum. Þeir sem eru andlega vakandi vita hins vegar að við lifum „á síðustu dögum“ og leggja sig því fram við að gera vilja Guðs. – 2. Pét. 3:3, 4; Lúk. 21:34-36.

4. Hvað átti Páll við þegar hann hvatti kristna menn til að ,sofa ekki eins og aðrir‘?

4Lestu 1. Þessaloníkubréf 5:4-8. Páll postuli hvetur hér trúsystkini sín til að ,sofa ekki eins og aðrir‘. Hvað átti hann við? Það er hægt að vera sofandi í þeim skilningi að sniðganga siðferðisreglur Guðs. Það er líka hægt að sofa með því að loka augunum fyrir því að Jehóva mun fljótlega útrýma óguðlegum. Við þurfum að gæta þess að láta ekki óguðlega einstaklinga hafa þau áhrif á okkur að við tökum upp hugarfar þeirra og hátterni.

5. Hvers konar hugarfar einkennir þá sem eru andlega sofandi?

5 Sumir ímynda sér að enginn Guð sé til sem þeir þurfi að standa reikningsskap gerða sinna. (Sálm. 53:2) Aðrir halda að Guð hafi engan áhuga á okkur mönnunum þannig að það sé ástæðulaust fyrir okkur að hafa áhuga á honum. Og sumir halda að það sé nóg að tilheyra einhverri kirkju til að eiga Guð að vini. Allt þetta fólk er sofandi í andlegum skilningi og þarf að vakna. Hvernig getum við hjálpað því?

VIÐ ÞURFUM AÐ HALDA OKKUR VAKANDI

6. Hvers vegna þurfum við að halda okkur vakandi?

6 Til að geta vakið aðra af svefni þurfum við sjálf að vera vakandi. Hvernig gerum við það? Við megum ekki hegða okkur eins og þeir sem eru andlega sofandi. Í Biblíunni segir að hinir síðarnefndu vinni „verk myrkursins“, en þar er átt við ofát, ofdrykkju, saurlífi, svall, þrætur og öfund. (Lestu Rómverjabréfið 13:11-13.) Það getur verið erfitt að gera ekki eins og fólkið í kringum okkur. Við verðum að vera árvökul. Ökumaður setur sig í lífshættu ef hann vanmetur hættuna á því að sofna undir stýri. Það er enn mikilvægara fyrir þjón Guðs að hafa hugfast að það getur verið banvænt að sofna andlega.

7. Hvaða áhrif getur það haft ef við höldum að enginn taki við fagnaðarerindinu?

7 Kristinn maður gæti til dæmis ímyndað sér að allir á starfssvæðinu væru búnir að hafna fagnaðarerindinu fyrir fullt og allt. (Orðskv. 6:10, 11) Hann gæti hugsað sem svo að það sé til lítils að keppast við að ná til fólks eða reyna að hjálpa því ef enginn taki við boðskapnum hvort eð er. Það getur svo sem vel verið að margir séu andlega sofandi núna en aðstæður þeirra og viðhorf geta breyst. Sumir vakna og taka við fagnaðarerindinu. Við getum hjálpað þeim ef við erum vakandi sjálf, til dæmis með því að reyna nýjar leiðir til að vekja áhuga þeirra á boðskap Biblíunnar. Til að halda vöku okkar þurfum við meðal annars að minna okkur á ástæðuna fyrir því að starf okkar er mikilvægt.

AF HVERJU ER BOÐUNARSTARFIÐ ÁRÍÐANDI?

8. Af hverju er boðunarstarfið ákaflega mikilvægt?

8 Höfum hugfast að við heiðrum Jehóva með boðuninni, hvort sem fólk hlustar eða ekki. Boðunin er þáttur í því að vilji hans nái fram að ganga. Bráðlega dæmir Jehóva fólk eftir viðbrögðum þess við boðuninni. Þeim sem taka ekki við fagnaðarerindinu verður eytt. (2. Þess. 1:8, 9) Það væri misráðið að hugsa sem svo að það sé ekki nauðsynlegt að prédika af miklum krafti vegna þess að „upp muni rísa bæði réttlátir og ranglátir“. (Post. 24:15) Við sjáum af Biblíunni að þeim sem fá þann dóm að þeir séu ,hafrar‘ verður eytt. Boðunin er merki um miskunn Guðs og gefur fólki tækifæri til að breyta sér og hljóta eilíft líf. (Matt. 25:32, 41, 46; Rómv. 10:13-15) Við verðum að prédika. Hvernig ætti fólk annars að fá tækifæri til að heyra boðskapinn sem getur bjargað lífi þess?

9. Hvernig hefur boðunarstarfið gert sjálfum þér og öðrum gott?

9 Við höfum líka gott af því sjálf að boða fagnaðarerindið. (Lestu 1. Tímóteusarbréf 4:16.) Hefurðu ekki fundið fyrir því hvernig þú styrkir trúna og kærleikann til Jehóva með því að tala um hann og ríki hans? Hefur það ekki hjálpað þér að þroska með þér kristna eiginleika? Og líður þér ekki vel þegar þú sýnir að þú elskar Guð með því að boða fagnaðarerindið? Margir sem hafa fengið tækifæri til að kenna öðrum sannleikann hafa orðið þeirrar ánægju aðnjótandi að sjá anda Guðs hjálpa nemendum þeirra að breyta líferni sínu til betri vegar.

VERTU ATHUGULL

10, 11. (a) Hvernig sýndu Jesús og Páll að þeir voru vakandi fyrir þörfum fólks? (b) Hvernig getum við orðið skilvirkari boðberar?

10 Hægt er að vekja áhuga fólks á boðskapnum með ýmsum hætti. Við þurfum þess vegna að vera athugul. Jesús er okkur góð fyrirmynd. Þar sem hann var fullkominn skynjaði hann hneykslun farísea nokkurs, einlæga iðrun syndugrar konu og fórnfýsi ekkju einnar. (Lúk. 7:37-50; 21:1-4) Jesús gat hjálpað þeim vegna þess að hann gerði sér grein fyrir þörfum hvers og eins. En þjónn Guðs þarf ekki að vera fullkominn til að vera athugull. Páll postuli er gott dæmi um það. Hann lagaði sig að mismunandi viðhorfum hópa og einstaklinga til að ná sem best til þeirra. – Post. 17:22, 23, 34; 1. Kor. 9:19-23.

11 Ef við erum athugul líkt og Jesús og Páll áttum við okkur kannski á hvernig best sé að vekja áhuga þeirra sem við hittum. Þegar við tökum fólk tali skulum við vera vakandi fyrir vísbendingum um áhugamál þess, fjölskylduhagi og uppruna. Við tökum kannski eftir hvað fólk er að gera þá stundina og getum minnst háttvíslega á það í upphafi samtalsins.

12. Hvað þurfa boðberar að hafa í huga varðandi samræður sínar í boðunarstarfinu?

12 Athugull boðberi reynir að láta ekkert trufla sig í boðunarstarfinu. Við getum átt uppbyggilegar samræður við starfsfélaga okkar en höfum samt hugfast að markmiðið með starfi okkar er að boða trúna. (Préd. 3:1, 7) Við skulum því gæta þess þegar við göngum milli húsa að samræður okkar leiði ekki athyglina frá því sem við erum að gera. Það hjálpar okkur að hafa hugann við boðunarstarfið að ræða saman um það sem við viljum segja áhugasömu fólki. Og þó að farsími geti stundum komið að góðum notum í boðunarstarfinu skulum við gæta þess að láta símhringingar ekki trufla samræður okkar við fólk.

SÝNDU FÓLKI EINLÆGAN ÁHUGA

13, 14. (a) Hvernig getum við komið auga á áhugamál fólks? (b) Hvernig getum við vakið áhuga fólks á andlegum málum?

13 Boðberar þurfa að vera vel vakandi og hlusta með athygli á þá sem þeir hitta í boðunarstarfinu. Hvaða spurningum gætirðu varpað fram til að hvetja viðmælendur þína til að tjá skoðanir sínar? Velta þeir fyrir sér af hverju trúarbrögðin eru svona mörg? Hafa þeir áhyggjur af vaxandi ofbeldi eða því hve ríkisstjórnum gengur illa að leysa vandamál heimsins? Geturðu vakið áhuga fólks á andlegum málum með því að minnast á hve frábærlega lifandi verur séu hannaðar eða benda á hve góðar leiðbeiningar séu í Biblíunni? Bænir eru hugleiknar fólki af alls konar uppruna, jafnvel sumum trúleysingjum. Margir velta fyrir sér hvort til sé einhver sem heyri bænir. Við gætum vakið forvitni sumra með því að spyrja: Heyrir Guð allar bænir? Ef ekki hvað þurfum við þá að gera til að Guð bænheyri okkur?

14 Við getum trúlega lært af reyndum boðberum hvernig best sé að hefja samræður við fólk. Taktu eftir hvernig þeim tekst að varpa fram spurningum án þess að fólki finnist það vera í yfirheyrslu eða verið sé að hnýsast um hagi þess. Hvernig lýsir raddblær þeirra og svipbrigði að þeir hafi áhuga á að skilja sjónarmið viðmælandans? – Orðskv. 15:13.

LEIKNI OG NÆRGÆTNI

15. Af hverju ættum við að koma vinsamlega fram í boðunarstarfinu?

15 Hvernig finnst þér að vera vakinn af djúpum svefni? Margir bregðast illa við ef þeir eru vaktir skyndilega. Flestum þykir betra að láta vekja sig rólega. Hið sama er að segja um það að vekja fólk af andlegum svefni. Hvað er yfirleitt best að gera ef einhvers bregst reiðilega við þegar þú bankar upp á? Vertu vingjarnlegur, sýndu að þú virðir afstöðu hans, þakkaðu honum fyrir að segja skoðun sína og farðu með friði. (Orðskv. 15:1; 17:14; 2. Tím. 2:24) Ef þú ert vinsamlegur verður hann ef til vill jákvæðari í næsta sinn þegar vottur knýr dyra.

16, 17. Hvers vegna er mikilvægt að meta aðstæður rétt í boðunarstarfinu?

16 Stundum er hins vegar hægt að halda samtali áfram þó að fyrstu viðbrögð séu neikvæð. Sumir segjast hafa sína barnatrú eða segjast ekki hafa áhuga af því að það virðist auðveldasta leiðin til að binda enda á samtalið. Með leikni og vinsemd má þó vera að þér takist að varpa fram spurningu sem vekur áhuga viðmælandans á boðskap Biblíunnar. – Lestu Kólossubréfið 4:6.

17 Algengt er að við hittum fólk sem segist vera of upptekið til að hlusta á okkur. Oft er þá best að láta gott heita og kveðja. Stöku sinnum er þó hægt að segja eitthvað stutt og innihaldsríkt. Sumum boðberum tekst á innan við einni mínútu að opna Biblíuna, lesa áhugavert vers og varpa fram spurningu til að svara síðar. Með hnitmiðaðri kynningu hefur þeim stundum tekist að vekja nægan áhuga til að húsráðandi gefi sér tíma til að spjalla stutta stund. Væri ekki ráð að reyna þetta þegar aðstæður leyfa?

18. Hvað getum við gert til að ná meiri árangri þegar við vitnum óformlega?

18 Þegar við hittum fólk í dagsins önn getum við oft vakið áhuga á fagnaðarerindinu ef við erum undir það búin að vitna óformlega. Margir boðberar eru með rit í vasanum eða handtöskunni. Oft hafa þeir í huga ákveðinn ritningarstað til að nefna við fólk ef tækifæri gefst. Þú gætir leitað ráða hjá starfshirðinum eða brautryðjendum safnaðarins til að búa þig undir að vitna þannig.

VERTU NÆRGÆTINN VIÐ ÆTTINGJA ÞÍNA

19. Af hverju ættum við ekki að gefast upp á að reyna að hjálpa ættingjum okkar?

19 Okkur langar auðvitað til að hjálpa ættingjum okkar að taka við fagnaðarerindinu. (Jós. 2:13; Post. 10:24, 48; 16:31, 32) Ef fyrstu viðbrögð þeirra eru neikvæð gæti það dregið úr löngun okkar til að reyna aftur. Við hugsum kannski sem svo að það sé lítið sem við getum sagt eða gert til að breyta afstöðu þeirra. En ýmsir atburðir geta breytt aðstæðum eða sjónarmiðum ættingja okkar. Og við erum ef til vill orðin færari en áður að segja frá sannleikanum og gætum þess vegna náð betri árangri.

20. Af hverju er mikilvægt að vera nærgætinn þegar maður vitnar fyrir ættingjum sínum?

20 Við eigum auðvitað að virða tilfinningar ættingja okkar. (Rómv. 2:4) Eigum við ekki að vera eins vingjarnleg við þá eins og við erum við fólk sem við hittum í boðunarstarfinu? Sýndu nærgætni og virðingu. Þú þarft ekki að prédika yfir þeim til að þau átti sig á þeim góðu áhrifum sem sannleikurinn hefur haft á þig. (Ef. 4:23, 24) Sýndu þeim frekar með verkum þínum hvernig Jehóva hefur auðgað líf þitt og kennt þér „það sem gagnlegt er“. (Jes. 48:17) Leyfðu ættingjunum að sjá með eigin augum hvernig kristinn maður á að lifa.

21, 22. Endursegðu frásögu sem sýnir fram á gildi þess að gefast ekki upp á að vitna fyrir ættingjum.

21 Systir í söfnuðinum skrifaði nýlega: „Ég hef alltaf reynt að vitna fyrir systkinum mínum 13, bæði í orði og verki. Ég læt aldrei ár líða án þess að skrifa þeim hverju og einu. Samt hef ég verið eini votturinn í fjölskyldunni síðastliðin 30 ár.“

22 Hún heldur áfram: „Dag einn hringdi ég til einnar systur minnar sem býr í mörg hundruð kílómetra fjarlægð. Hún sagðist hafa beðið prestinn sinn að fræða sig um Biblíuna en hann hafi aldrei gert það. Þegar ég sagðist gjarnan vilja hjálpa henni svaraði hún: ,Gott og vel en hafðu eitt á hreinu: Ég verð aldrei vottur Jehóva.‘ Ég sendi henni bókina Hvað kennir Biblían? og hringdi í hana á nokkurra daga fresti. En aldrei var hún búin að líta í bókina. Að síðustu bað ég hana að sækja bókina og síðan lásum við og ræddum saman í svona stundarfjórðung um nokkra af ritningarstöðum sem vitnað var í. Eftir nokkur símtöl í viðbót vildi hún ræða málin lengur í senn. Síðan byrjaði hún að hringja í mig til að ræða um Biblíuna, stundum meira að segja áður en ég var komin á fætur og stundum tvisvar á dag. Hún lét skírast árið eftir og ári síðar var hún orðin brautryðjandi.“

23. Hvers vegna ættum við ekki að gefast upp við að vekja fólk af andlegum svefni?

23 Það er ákveðin list að vekja fólk af andlegum svefni og kostar þrautseigju. En árangurinn lætur ekki á sér standa því að fjöldi fólks tekur við fagnaðarerindinu. Að meðaltali skírast meira en 20.000 manns sem vottar Jehóva í hverjum mánuði. Við skulum því gera eins og Páll skrifaði Arkippusi, trúbróður okkar á fyrstu öld: „Gættu þjónustunnar, sem Drottinn fól þér, og ræktu hana vel.“ (Kól. 4:17) Í næstu grein er rætt um mikilvægi þess að prédika fagnaðarerindið af kappi.

[Spurningar]

[Rammi á blaðsíðu 13]

HVERNIG GETURÐU HALDIÐ VÖKU ÞINNI?

▪ Vertu önnum kafinn að gera vilja Guðs.

▪ Forðastu verk myrkursins.

▪ Gættu þess að verða ekki andlega syfjaður.

▪ Vertu jákvæður gagnvart fólki á starfssvæðinu.

▪ Prófaðu nýjar aðferðir til að boða fagnaðarerindið.

▪ Hafðu hugfast hve boðunarstarfið er mikilvægt.