Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig veitirðu ráð?

Hvernig veitirðu ráð?

Hvernig veitirðu ráð?

Hefurðu einhvern tíma verið beðinn um að gefa öðrum ráð? Hefurðu til dæmis fengið spurningar eins og: „Hvað ætti ég að gera? Ætti ég að fara í þetta boð? Ætti ég að leggja fyrir mig þetta ævistarf? Ætti ég að kynnast þessum einstaklingi betur með hjónaband fyrir augum?“

Einlægt fólk gæti beðið þig um að hjálpa sér að taka ákvarðanir sem gætu haft áhrif á samband þess við vini, fjölskyldu eða jafnvel Jehóva. Á hverju myndirðu byggja svar þitt? Hvað gerirðu vanalega þegar þú veitir öðrum ráð? „Hjarta hins réttláta íhugar hverju svara skuli,“ segir í Orðskviðunum 15:28. Það á við hvort sem málefnið virðist lítilvægt eða þýðingamikið. Íhugum nú fimm meginreglur í Biblíunni sem er gott að hafa í huga þegar ráð eru gefinn.

1 Kynntu þér aðstæður vel.

„Svari einhver áður en hann hlustar er það heimska hans og skömm.“ – ORÐSKV. 18:13.

Til að geta gefið góð ráð verðum við að þekkja aðstæður vel og skilja sjónarmið þess sem er að leita aðstoðar. Segjum sem svo að einhver hringi í þig og vilji fá að vita hvaða leið sé best að fara til að komast heim til þín. Hvað þyrftirðu að vita til að geta leiðbeint honum? Gætirðu vísað honum á bestu leiðina án þess að vita hvar hann er staddur? Auðvitað ekki. Það sama gildir þegar góð ráð eru veitt. Það er nauðsynlegt að vita hvar viðkomandi er staddur, það er að segja þekkja aðstæður hans og sjónarmið. Kringumstæður hans gætu til dæmis haft áhrif á svar okkar. Ef við þekkjum ekki almennilega allar hliðar málsins er hætta á að ráðin, sem við gefum, rugli viðkomandi enn meira í ríminu. – Lúk. 6:39.

Athugaðu hvort hann hafi sjálfur reynt að leita svara. Það gæti líka verið skynsamlegt að spyrja þann sem er að leita ráða spurninga eins og: „Hvaða meginreglur Biblíunnar heldur þú að eigi við? Hverjir eru helstu kostir og gallar þeirra möguleika sem um er að ræða? Hvaða upplýsingum hefur þú viðað að þér um efnið? Hvað hafa aðrir ráðlagt þér, svo sem safnaðaröldungar, foreldrar þínir eða sá sem hjálpaði þér að kynnast Biblíunni?“

Svörin geta hjálpað okkur að sjá hvað viðkomandi hefur lagt mikið á sig til að komast að niðurstöðu. Auk þess þurfa ráð okkar að taka mið af því sem aðrir kunna að hafa sagt. Ef til vill skynjum við líka hvort viðkomandi vilji bara heyra þau ráð sem ,kitla eyrun‘. – 2. Tím. 4:3.

2 Svaraðu ekki í fljótfærni.

„Hver maður skal vera fljótur til að heyra, seinn til að tala.“ – JAK. 1:19.

Við svörum kannski í fljótfærni en með góðum ásetningi. En er það alltaf skynsamlegt, sérstaklega þegar um er að ræða efni sem við höfum ekki kynnt okkur vel? Í Orðskviðunum 29:20 segir: „Sjáir þú mann sem er fljótfær í orðum, þá á heimskinginn meiri von en hann.“

Gefðu þér tíma til að fullvissa þig um að ráð þín séu í samræmi við visku Guðs að öllu leyti. Þú gætir spurt þig hvort þú hafir látið hugsunarhátt og „anda heimsins“ hafa áhrif á það hvernig þú hugsar. (1. Kor. 2:12, 13) Mundu að góður ásetningur nægir ekki einn og sér. Þegar Pétur postuli skildi hve erfitt verkefni Jesús átti fyrir höndum sagði hann: „Guð forði þér frá því, Drottinn, þetta má aldrei fyrir þig koma.“ Hvað má læra af viðbrögðum Péturs? Við lærum að fólk getur í fljótfærni gefið einlæg ráð sem eru ekki í samræmi við „það sem Guðs er heldur það sem manna er“. (Matt. 16:21-23) Því er mjög mikilvægt að hugsa áður en maður talar. Er ekki reynsla okkar afskaplega takmörkuð í samanburði við visku Guðs þegar allt kemur til alls? – Job. 38:1-4; Orðskv. 11:2.

3 Notaðu orð Guðs af auðmýkt.

„Ég geri ekkert einn og sér heldur tala ég það eitt sem faðirinn hefur kennt mér.“ – JÓH. 8:28.

Segirðu við fólk: „Ef ég væri þú myndi ég . . .?“ Jafnvel þótt svarið við spurningunni, sem var borin undir þig, virðist liggja í augum uppi ættirðu að fylgja fordæmi Jesú af auðmýkt og lítillæti. Hann bjó yfir miklu meiri visku og reynslu en nokkur annar maður. Samt sagði hann: „Það sem ég tala kemur ekki frá sjálfum mér heldur hefur faðirinn . . . boðið mér hvað ég skuli segja og hvað ég skuli tala.“ (Jóh. 12:49, 50) Kenningar Jesú og ráðleggingar voru alltaf byggðar á vilja föður hans.

Við lesum til dæmis í Lúkasi 22:49 að lærisveinarnir hafi spurt Jesú hvort þeir ættu að berjast þegar verið var að handtaka hann. Einn þeirra greip til sverðs. Taktu eftir að í hliðstæðri frásögn í Matteusi 26:52-54 segir að Jesús hafi meira að segja við þessar aðstæður tekið sér tíma til að útskýra fyrir lærisveinunum hver vilji Jehóva væri. Með hliðsjón af meginreglunum í 1. Mósebók 9:6 og spádómunum í Sálmi 22 og Jesaja 53 gat Jesús gefið skynsamleg ráð sem björguðu án efa mannslífum og voru Jehóva þóknanleg.

4 Notaðu ritin okkar.

„Hver er sá trúi og hyggni þjónn sem húsbóndinn hefur sett yfir hjú sín að gefa þeim mat á réttum tíma?“ – MATT. 24:45.

Jesús hefur útnefnt trúan þjónshóp sem sér okkur fyrir andlegri fæðu. Tekurðu þér tíma til að kynna þér efnið ítarlega í biblíutengdum ritum þegar þú gefur ráð og leiðbeiningar varðandi mikilvæg mál?

Í efnisskrá Varðturnsfélagsins og á geisladisknum Watchtower Library * er auðvelt að finna skýrar upplýsingar í ríkum mæli. Það væru mikil mistök að nýta sér ekki þennan hafsjó af fróðleik. Sá sem leitar upplýsinga getur fundið þúsundir flettiorða sem vísa í fjölda greina. Hversu fær ertu í að hjálpa öðrum að kynna sér meginreglur Biblíunnar og draga ályktanir út frá þeim? GPS-staðsetningartæki getur sýnt hvar við erum stödd og vísað okkur veginn að ákvörðunarstað. Eins getum við notað þessi hjálpargögn til að sjá á hvaða leið við erum og hvernig við getum haldið okkur á leiðinni til lífsins.

Margir öldungar hafa kennt boðberum að nota efnisskrá Varðturnfélagsins eða geisladiskinn Watchtower Library til að finna greinar. Þeir hjálpa trúsystkinum sínum á þennan hátt að sjá hvað Biblían segir um efnið. Þessi aðstoð hjálpar boðberum ekki aðeins að takast á við áhyggjumál sín heldur líka að venja sig á að leita upplýsinga í ritum okkar og treysta á andlegu fæðuna sem Jehóva sér okkur fyrir. Þannig munu þeir ,jafnt og þétt aga hugann til að greina gott frá illu‘. – Hebr. 5:14.

5 Reyndu ekki að taka ákvarðanir fyrir aðra.

„Sérhver mun verða að bera sína byrði.“ – GAL. 6:5.

Að lokum verður hver og einn að ákveða sjálfur hvaða ráðum og leiðbeiningum hann fylgir. Jehóva gefur okkur öllum frelsi til að ákveða hvort við fylgjum meginreglum hans eða ekki. (5. Mós. 30:19, 20) Sum mál snerta nokkrar meginreglur Biblíunnar, en að lokum þarf sá sem leitar ráða að taka eigin ákvörðun. Stundum þurfum við að spyrja okkur að því hvort við höfum yfirleitt umboð til að taka málið fyrir, miðað við aldur þess sem leitar ráða hjá okkur eða málefnið sjálft. Sumum málum er best að vísa til öldunga safnaðarins eða til foreldranna ef sá sem spyr er ungur að árum.

[Neðanmáls]

^ gr. 20 Geisladiskurinn Watchtower Library er nú fáanlegur á 39 tungumálum. Efnisskrá Varðturnsfélagsins (Watch Tower Publications Index) er fáanleg á 45 tungumálum.

[Rammi/​mynd á bls. 8]

Verkefni fyrir biblíunámskvöld fjölskyldunnar

Hvernig væri að nota hluta af biblíunámskvöldinu til að leita svara við spurningum sem þú hefur fengið nýlega? Hvaða biblíulegu greinar eða meginreglur geturðu fundið sem gætu komið spyrjandanum að gagni? Segjum sem svo að bróðir eða systir leiti álits hjá þér varðandi það að kynnast einhverjum með hjónaband í huga. Þegar þú notar efnisskrá Varðturnsfélagsins eða geisladiskinn Watchtower Library skaltu fyrst fletta upp því orði sem tengist efninu mest. Þú gætir til dæmis flett upp orðinu „Dating“ eða „Marriage“ í efnisskránni á ensku. Síðan skaltu renna yfir vísanirnar undir því leitaroði til að finna viðeigandi greinar. Þegar þú skoðar leitarorð skaltu athuga hvort vísað sé í önnur leitarorð sem tengjast spurningunni betur undir „See also“. Þú gætir einnig notað ritið Lykill að efnisskrá Varðturnsins 1959-2004 til að kanna hvort greinin hafi komið út á íslensku.

[Rammi á bls. 9]

Við getum bæði gefið og þegið bestu ráð sem hugsast getur. Svo er Jehóva fyrir að þakka því að hann sér okkur fyrir andlegri fæðu fyrir milligöngu safnaðarins. Í Prédikaranum 12:11 segir: „Orð spekinganna eru hvöss sem broddar og kjarnyrðin eins og fastreknir naglar; þau eru gefin af einum hirði.“ Kærleiksrík og góð ráð vísa einlægu fólki rétta leið á sama hátt og „broddar“ voru notaðir til að beina dráttardýrum í rétta átt. „Fastreknir naglar“ gera byggingar traustar. Eins geta góð ráð gefið farsælan árangur. Skynsamt fólk hefur ánægju af því að fylgja ,kjarnyrðunum‘ sem endurspegla visku Jehóva, hins ,eina hirðis‘.

Líktu eftir hirðinum þegar þú gefur ráð. Það er mjög ánægjulegt að vera góður hlustandi og veita gagnleg ráð hvenær sem tækifæri gefst. Þegar ráð okkar eru byggð á meginreglum Biblíunnar eru þau góð og geta orðið hlustandanum til ævarandi blessunar.