Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ég hef haldið í kyrtilfald Gyðings í sjötíu ár

Ég hef haldið í kyrtilfald Gyðings í sjötíu ár

Ævisaga

Ég hef haldið í kyrtilfald Gyðings í sjötíu ár

Leonard Smith segir frá

Snemma á unglingsárunum höfðu tvö biblíuvers mikil áhrif á mig. Síðan eru liðin meira en 70 ár og ég man enn þá eftir þeirri stundu þegar ég skildi til fulls merkingu orðanna í Sakaría 8:23. Þar er talað um „tíu menn“ sem grípa í „kyrtilfald eins Gyðings“. Þeir segja við hann: „Við viljum fara með ykkur, við höfum heyrt að Guð sé með ykkur.“

GYÐINGURINN á við andasmurða kristna menn og „mennirnir tíu“ standa fyrir „aðra sauði“ eða „Jónadabana“ eins og þeir voru kallaðir á þeim tíma. * (Jóh. 10:16) Þegar ég skildi þetta gerði ég mér ljóst hve mikið von mín um að lifa að eilífu á jörð var undir því komin að ég ynni vel og dyggilega með hinum andasmurðu.

Dæmisaga Jesú um „sauðina“ og „hafrana“, sem er að finna í Matteusi 25:31-46, hafði einnig mjög mikil áhrif á mig. „Sauðirnir“ tákna þá sem fá hagstæðan dóm á tímum endalokanna af því að þeir sýna velvild þeim andasmurðu bræðrum Krists sem enn eru á jörðinni. Þar sem ég var ungur Jónadabi sagði ég við sjálfan mig: „Len, ef þú vilt að Kristur líti á þig sem sauð sinn verðurðu að styðja andasmurða bræður hans og taka leiðsögn þeirra því að Guð er með þeim.“ Þessi skilningur hefur verið mér leiðarljós í meira en sjö áratugi.

HVERT ER HLUTVERK MITT?

Móðir mín lét skírast árið 1925 í samkomusalnum á Betel. Hann var kallaður Lundúnatjaldbúðin og bræður og systur á svæðinu komu þar saman. Ég fæddist 15. október 1926. Í mars 1940 lét ég skírast á móti í bænum Dover við strönd Englands. Ég hafði mikið yndi af sannleika Biblíunnar. Mamma var andasmurð og því má segja að fyrsti kyrtilfaldur Gyðings, sem ég greip í, hafi verið pilsfaldurinn hennar. Á þessum tíma voru faðir minn og systir ekki vottar Jehóva. Við tilheyrðum söfnuðinum í Gillingham á suðaustanverðu Englandi en í honum voru aðallega andasmurðir þjónar Guðs. Brennandi áhugi mömmu á prédikunarstarfinu var til fyrirmyndar.

Í september 1941 var haldið mót í borginni Leicester. Þar var haldin ræða sem nefndist „Ráðvendni“ og fjallaði um deiluna um alheimsyfirráðin. Þá fyrst skildi ég að deilumálið milli Jehóva og Satans snertir okkur. Við þurfum því að standa með Jehóva og sýna honum ráðvendni sem Drottni alheims.

Á þessu móti var lögð mikil áhersla á brautryðjandastarfið og unglingar hvattir til að gera það að markmiði sínu. Ræðan „Hlutverk brautryðjenda í söfnuðinum“ vakti mig til umhugsunar um hvert hlutverk mitt væri. Á þessu móti sannfærðist ég um að þar sem ég væri í Jónadabhópnum bæri mér skylda til að hjálpa hinum andasmurðu að boða fagnaðarerindið eins mikið og ég gæti. Í Leicester fyllti ég út umsókn um að ganga í lið með brautryðjendunum.

BRAUTRYÐJANDASTARF Á STRÍÐSÁRUNUM

Fyrsta desember árið 1941 var ég útnefndur sérbrautryðjandi. Ég var þá 15 ára og mamma var fyrsti starfsfélagi minn. En um ári síðar varð hún að láta af brautryðjandastarfinu vegna heilsubrests. Deildarskrifstofan í Lundúnum fékk mér þá Ron Parkin sem starfsfélaga en hann situr nú í deildarnefndinni á Púertóríkó.

Við vorum sendir til strandbæjanna Broadstairs og Ramsgate í Kentsýslu. Þar tókum við herbergi á leigu. Fjárstyrkur til sérbrautryðjanda var þá 40 shillingar (rúmlega 50 krónur á verðlagi þess tíma). Eftir að hafa greitt húsaleiguna höfðum við því lítið til að lifa á og við vissum ekki alltaf hvaðan við fengjum næstu máltíð. En einhvern veginn sá Jehóva okkur alltaf fyrir því nauðsynlegasta.

Við hjóluðum heilmikið. Það var puð að hjóla á hlöðnum reiðhjólunum móti rokinu af Norðursjónum. Við urðum einnig að bjarga okkur frá loftárásum og þýskum V-1 flugskeytum sem flugu lágt yfir Kent á leið sinni til Lundúna. Einu sinni varð ég að stökkva af hjólinu og henda mér ofan í skurð þegar sprengja sveif yfir höfði mér og sprakk á akri þar skammt frá. En þrátt fyrir allt voru árin í brautryðjandastarfinu í Kent ánægjuleg.

ÉG VERÐ „BETELDRENGUR“

Móðir mín talaði alltaf með aðdáun um Betel. „Ég get ekki óskað mér neins betra en að þú verðir Beteldrengur,“ var hún vön að segja. Hugsið ykkur gleði mína og undrun í janúar 1946 þegar ég fékk boð um koma á Betel í Lundúnum og vera þar til aðstoðar í þrjár vikur. Pryce Hughes, umsjónarmaður deildarinnar, bað mig um að vera áfram á Betel í lok þessara þriggja vikna. Þjálfunin, sem ég fékk þar, mótaði allt mitt líf upp frá því.

Á þessum tíma voru um 30 manns í Betelfjölskyldunni í Lundúnum. Flestir voru ungir einhleypir bræður en einnig voru nokkrir þeirra andasmurðir, þar á meðal Pryce Hughes, Edgar Clay og Jack Barr en hann sat síðar í hinu stjórnandi ráði. Það var mikil blessun að fá að styðja bræður Krists með því að starfa sem ungur maður undir andlegri umsjón þessara máttarstólpa. – Gal. 2:9.

Dag einn kom bróðir til mín og sagði mér að trúsystir væri við aðaldyrnar og langaði til að hitta mig. Mér til undrunar var þar komin móðir mín með pakka í hendinni. Hún sagðist ekki ætla að koma inn fyrir til þess að trufla mig ekki við vinnuna á Betel en hún lét mig fá pakkann og hvarf á brott. Í honum var hlýr frakki. Umhyggja hennar minnti mig á Hönnu sem færði Samúel, ungum syni sínum, yfirhöfn þegar hann þjónaði í tjaldbúðinni. – 1. Sam 2:18, 19.

GÍLEAÐ – ÓGLEYMANLEG REYNSLA

Árið 1947 var fimm af okkur, sem störfuðum á Betel, boðið að sækja Gíleaðskólann í Bandaríkjunum og árið eftir vorum við í 11. nemendahópnum þar. Þegar við komum þangað var nístandi kuldi í upphéruðum New Yorkríkis þar sem skólinn var. Þá kom nú hlýi frakkinn frá mömmu sér aldeilis vel!

Ég var sex mánuði í Gíleað og þeir voru mér ógleymanlegir. Ég varð víðsýnni við að umgangast skólafélaga frá 16 löndum. Auk menntunar, sem styrkti samband mitt við Jehóva, var félagsskapurinn við þroskaða bræður mér til góðs. Lloyd Barry, einn af skólabræðrunum, Albert Schroeder, einn af kennurunum, og John Booth, umsjónarmaður búrekstursins á svæðinu þar sem Gíleaðskólinn var, sátu allir síðar í hinu stjórnandi ráði. Ég mat mikils þau hlýlegu ráð sem þessir bræður veittu mér og þá fyrirmynd sem þeir voru með trúfesti sinni við Jehóva og söfnuð hans.

FARANDHIRÐISSTARF OG AFTUR Á BETEL

Eftir vistina í Gíleaðskólanum var mér falið að starfa sem farandhirðir í Ohio í Bandaríkjunum. Ég var aðeins 21 árs en bræðurnir tóku æskueldmóði mínum með mikilli hlýju. Á þessu farandsvæði lærði ég mikið af reyndum mönnum sem voru mér eldri.

Nokkrum mánuðum síðar var mér boðið að koma á Betel í Brooklyn til frekari menntunar. Þar kynntist ég máttarstólpunum Milton Henschel, Karl Klein, Nathan Knorr, T. J. (Bud) Sullivan og Lyman Swingle en þeir sátu einu sinni í hinu stjórnandi ráði. Það var verðmæt reynsla fyrir mig að sjá þá að störfum og taka eftir hvernig þeir lifðu lífinu sem sannkristnir menn. Traust mitt á söfnuði Jehóva jókst stórlega. En síðar var ég sendur til Evrópu til að halda áfram þjónustu minni þar.

Móðir mín lést í febrúar 1950. Eftir jarðarförina átti ég opinskátt samtal við pabba og Doru, systur mína. Ég spurði hvað þau ætluðu að gera varðandi sannleikann nú þegar mamma væri dáin og ég farinn að heiman. Þau þekktu og virtu Harry Browning, roskinn andasmurðan bróður, og féllust á að ræða við hann um sannleikann. Innan árs létu pabbi og Dora skírast. Pabbi var síðar þjónn í söfnuðinum í Gillingham. Dora giftist Roy Moreton, trúföstum öldungi, eftir að pabbi lést og þjónaði Jehóva dyggilega til æviloka árið 2010.

AÐSTOÐ VIÐ SÖFNUÐINN Í FRAKKLANDI

Ég hafði lært frönsku, þýsku og latínu í skóla og af þessum þrem tungumálum reyndist mér franskan erfiðust. Tilfinningar mínar voru því blendnar þegar ég var beðinn um að hjálpa til á Betel í Frakklandi. Ég fékk þar þann heiður að vinna með Henri Geiger, rosknum andasmurðum bróður, en hann hafði umsjón með deildarskrifstofunni. Verkefnið var ekki alltaf auðvelt og eflaust hef ég gert mörg mistök. Ég lærði samt mjög mikið um mannleg samskipti.

Árið 1951 átti að halda alþjóðamót í París, það fyrsta sem haldið var þar eftir stríð. Ég tók þátt í að skipuleggja mótið. Léopold Jontès, ungur farandhirðir, kom á Betel til að aðstoða mig. Léopold var síðar gerður að deildarumsjónarmanni. Mótið var haldið í íþróttahöllinni Palais des sports nálægt Eiffelturninum. Gestir komu frá 28 löndum. Síðasta daginn voru frönsku vottarnir, sem voru 6.000 talsins, himinlifandi yfir að sjá 10.456 mótsgesti.

Við komuna til Frakklands var franskan hjá mér langt frá því að vera fullnægjandi. Og það sem verra var gerði ég þau afleitu mistök að opna aðeins munninn til að tala þegar ég var viss um að tala frönskuna rétt. En ef maður gerir engin mistök er enginn sem leiðréttir mann og maður tekur engum framförum.

Ég ákvað að bæta úr þessu með því að skrá mig í skóla sem veitti kennslu í frönsku fyrir útlendinga. Ég sótti tíma á kvöldin þegar ekki voru samkomur. Mér fór að þykja gaman að frönskunni og ánægjan hefur aukist með árunum. Það hefur reynst gagnlegt þar sem ég hef getað orðið frönsku deildinni að liði við þýðingar. Með tímanum fór ég sjálfur að þýða úr ensku á frönsku. Það var blessun að fá að hjálpa til við að dreifa dýrmætri andlegri fæðu frá hinum trúa og hyggna þjóni til frönskumælandi bræðra og systra út um allan heim. – Matt. 24:45-47.

HJÓNABAND OG AÐRAR BLESSANIR

Árið 1956 giftist ég Esther en hún var brautryðjandi frá Sviss og hafði ég hitt hana nokkrum árum áður. Við vorum gefin saman í ríkissalnum við hliðina á Betel í Lundúnum (gömlu Lundúnatjaldbúðinni þar sem mamma lét skírast). Bróðir Hughes flutti vígsluræðuna. Móðir Estherar var viðstödd en hún hafði einnig himneska von. Hjónabandið veitti mér bæði elskulegan og dyggan förunaut og margar dýrmætar stundir í félagsskap góðrar andlega sinnaðrar tengdamóður þar til hún endaði jarðvistardaga sína árið 2000.

Eftir brúðkaupið bjuggum við Esther ekki á Betel. Ég hélt áfram þýðingarstarfinu á Betel og Esther starfaði sem sérbrautryðjandi í úthverfum Parísarborgar. Hún hjálpaði þó nokkrum til að verða þjónar Jehóva. Árið 1964 var okkur boðið að búa á Betel. Þegar deildarnefndirnar voru stofnaðar árið 1976 var ákveðið að ég tæki sæti í nefndinni í Frakklandi. Esther hefur alla tíð stutt mig með ráðum og dáð.

„MIG HAFIÐ ÞIÐ EKKI ÁVALLT“

Ég hef notið þeirrar blessunar að fara öðru hverju til aðalstöðvanna í New York. Í þeim heimsóknum hef ég fengið góðar ráðleggingar frá ýmsum í hinu stjórnandi ráði. Sem dæmi má nefna að ég lét einu sinni í ljós áhyggjur yfir því að ná ekki að ljúka verki fyrir ákveðinn eindaga. Þá brosti bróðir Knorr og sagði: „Hafðu ekki áhyggjur. Farðu bara að vinna!“ Þegar verkefnin hafa hrannast upp hef ég mörgum sinnum byrjað að vinna hvert verkið á fætur öðru í stað þess að láta kvíða ná tökum á mér. Og verkunum hefur venjulega verið lokið á tilsettum tíma.

„Mig hafið þið ekki ávallt,“ sagði Jesús við lærisveinana rétt fyrir dauða sinn. (Matt. 26:11) Við, aðrir sauðir, vitum líka að andasmurðir bræður og systur verða ekki alltaf á meðal okkar á jörðinni. Ég lít því á það sem ómetanlega blessun að hafa verið í nánu sambandi við marga af hinum andasmurðu í meira en 70 ár. Ég hef gripið þakklátur „í kyrtilfald eins Gyðings“.

[Neðanmáls]

^ gr. 5 Nánari upplýsingar um nafnið „Jónadab“ má finna í Varðturninum, 15. febrúar 2010, bls. 15-17, gr. 8 og 10.

[Mynd á bls. 21]

Þá brosti bróðir Knorr og sagði: „Hafðu ekki áhyggjur. Farðu bara að vinna!“

[Mynd á bls. 19]

(Til vinstri) Foreldrar mínir.

(Til hægri) Á lóð Gíleaðskólans árið 1948, klæddur hlýja frakkanum frá mömmu.

[Mynd á bls. 20]

Ég túlkaði fyrir bróður Lloyd Barry við vígslu frönsku deildarinnar árið 1997.

[Mynd á bls. 21]

(Til vinstri) Við Esther á brúðkaupsdaginn.

(Til hægri) Við Esther saman í boðunarstarfinu.