Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þjónaðu Jehóva af öllu hjarta

Þjónaðu Jehóva af öllu hjarta

Þjónaðu Jehóva af öllu hjarta

„Sonur minn, lær að þekkja Guð föður þíns og þjóna honum af öllu hjarta.“ – 1. KRON. 28:9, Biblían 1981.

LEITAÐU SVARA VIÐ ÞESSUM SPURNINGUM:

Hvað táknar hjartað?

Hvaða aðferð getum við notað til að rannsaka hjarta okkar?

Hvernig getum við haldið áfram að þjóna Jehóva af öllu hjarta?

1, 2. (a) Hvaða líffæri er nefnt oftar í táknrænni merkingu í Biblíunni en nokkur annar líkamshluti? (b) Af hverju er mikilvægt að skilja hvað hjartað stendur fyrir?

Í BIBLÍUNNI er oft talað um líkamshluta í táknrænni merkingu. Ættfaðirinn Job talaði til dæmis um að ,hendur sínar hafi ekki flekkast af ofbeldi‘. Salómon konungur sagði: „Góð frétt eykur holdi á bein.“ Jehóva sagði við Esekíel: „Ég hef gert enni þitt hart sem demant.“ Og menn sögðu við Pál postula: „Eitthvað nýstárlegt flytur þú okkur til eyrna.“Job. 16:17; Orðskv. 15:30; Esek. 3:9; Post. 17:20.

2 Eitt líffæri líkamans er þó nefnt mun oftar í táknrænni merkingu í Biblíunni en nokkur annar líkamshluti. Það er hjartað. Hanna nefndi það í bæn sinni og sagði: „Hjarta mitt fagnar í Drottni.“ (1. Sam. 2:1) Biblíuritararnir nefna hjartað næstum þúsund sinnum og nær eingöngu í táknrænni merkinu. Það er afar mikilvægt fyrir okkur að vita hvað hjartað táknar vegna þess að í Biblíunni segir að við þurfum að varðveita það. – Lestu Orðskviðina 4:23.

HVAÐ TÁKNAR HJARTAÐ?

3. Hvernig getum við glöggvað okkur á merkingu orðsins „hjarta“ eins og það er notað í Biblíunni? Lýstu með dæmi.

3 Þó að merking orðsins „hjarta“ sé ekki skilgreind beinlínis í Biblíunni getum við samt glöggvað okkur á notkun þess. Hvernig? Lýsum því með dæmi. Hugsaðu þér fallegt mósaíklistaverk gert úr þúsund steinflísum sem raðað er saman af mikilli vandvirkni. Með því að horfa á það úr hæfilegri fjarlægð sjáum við fallegt mynstur eða heildarmynd. Ef við lítum á öll hin mörgu dæmi um notkun orðsins „hjarta“ í Biblíunni sjáum við líka ákveðna heildarmynd. Hver er þessi mynd?

4. (a) Hvað táknar hjartað? (b) Skýrðu orð Jesú í Matteusi 22:37.

4 Biblíuritarar nota orðið „hjarta“ til að lýsa hinum innri manni í heild. Það nær yfir langanir mannsins, hugsanir, lunderni, viðhorf, hæfileika, hvatir og markmið. (Lestu 5. Mósebók 15:7; * Orðskviðina 16:9; Postulasöguna 2:26.) Það er „heildasumma hins innri manns“ eins og það er orðað í heimildarriti. Í sumum tilfellum er hjartað notað í þrengri merkingu. Jesús sagði til dæmis: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.“ (Matt. 22:37) Í þessu tilfelli er hjartað notað til að tákna tilfinningar, langanir og kenndir hins innri manns. Með því að nefna hjarta, sál og huga hvert um sig leggur Jesús áherslu á að við þurfum að tjá Guði kærleika okkar með tilfinningunum og auk þess með því hvernig við lifum og notum hugann. (Jóh. 17:3; Ef. 6:6) En þegar hjartað er nefnt eitt og sér táknar það hinn innri mann í heild sinni.

AF HVERJU ÞURFUM VIÐ AÐ VERNDA HJARTAÐ?

5. Hvers vegna viljum við gera allt sem við getum til að þjóna Jehóva af öllu hjarta?

5 Davíð minnti Salómon á eftirfarandi varðandi hjartað: „Þú, Salómon, sonur minn, lær að þekkja Guð föður þíns og þjóna honum af öllu hjarta og með fúsu geði, því að Drottinn rannsakar öll hjörtu og þekkir allar hugrenningar.“ (1. Kron. 28:9, Biblían 1981) Jehóva prófar öll hjörtu, þar á meðal okkar. (Orðskv. 17:3; 21:2) Og það sem hann finnur í hjörtum okkar hefur mikil áhrif á samband okkar við hann og á framtíð okkar. Það er því ærin ástæða fyrir okkur til að þjóna Jehóva af öllu hjarta eins og Davíð hvatti til.

6. Hvað þurfum við að hafa í huga varðandi þjónustu okkar við Jehóva?

6 Við sýnum að við þráum heitt að þjóna Jehóva af öllu hjarta með því að vera kappsamir vottar hans. En við vitum líka að álagið frá illum heimi Satans er mikið og syndugar tilhneigingar sjálfra okkar sterkar. Það getur dregið úr okkur með þeim afleiðingum að við þjónum Jehóva ekki lengur af öllu hjarta. (Jer. 17:9; Ef. 2:2) Þess vegna þurfum við að rannsaka hjartað reglulega til að kanna hvort við séum farin að slaka á verðinum. Hvernig getum við gert það?

7. Á hverju má sjá hvað býr í hjartanu?

7 Okkar innri maður er auðvitað ósýnilegur, rétt eins og innviðir trés. En eins og Jesús nefndi í fjallræðunni sést af verkunum hvað býr í hjartanu, ekki ósvipað og ávöxturinn vitnar um það hvort tréð sé heilbrigt. (Matt. 7:17-20) Við skulum líta á eitt af þessum verkum.

GÓÐ LEIÐ TIL AÐ RANNSAKA HJARTAÐ

8. Hvernig sýnum við hvað býr í hjartanu miðað við orð Jesú í Matteusi 6:33?

8 Fyrr í fjallræðunni sagði Jesús áheyrendum sínum hvað þeir gætu gert til að sýna að þá langaði til að þjóna Jehóva af öllu hjarta. Hann sagði: „Leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki.“ (Matt. 6:33) Innstu langanir okkar, hugsanir og áform segja til um hvað við látum ganga fyrir í lífinu. Að skoða hvernig við forgangsröðum er sem sagt góð leið til að kanna hvort við þjónum Guði af öllu hjarta.

9.  Hvað bauð Jesús nokkrum mönnum og hvað lærum við af viðbrögðunum?

9 Skömmu eftir að Jesús hvatti fylgjendur sína til að leita fyrst ríkis Guðs gerðist atburður sem lýsir vel að það sést af verkunum hvað býr í hjartanu. Lúkas segir að Jesús hafi verið „einráðinn“ að fara til Jerúsalem þó að hann vissi mætavel hvað beið hans þar. Hann var á leiðinni þangað ásamt postulunum þegar hann hitti nokkra menn og bauð þeim að fylgja sér. Þeir voru tilbúnir til að þiggja boðið en með vissum skilyrðum. Einn þeirra svaraði: „Leyf mér fyrst að fara og jarða föður minn.“ Annar sagði: „Ég vil fylgja þér, Drottinn, en leyf mér fyrst að kveðja fólk mitt heima.“ (Lúk. 9:51, 57-61) Hvílíkur munur á Jesú og þessum mönnum. Hann var staðráðinn í að gera vilja Guðs en þeir þóttust þurfa að gera eitt og annað áður en þeir gætu þegið boðið. Með því að láta eigin hugðarefni ganga fyrir var ljóst að þeir voru ekki tilbúnir til að þjóna Jehóva af öllu hjarta.

10. (a) Hvernig höfum við brugðist við boði Jesú? (b) Hvaða stuttu líkingu brá Jesús upp?

10 Ólíkt þessum mönnum höfum við tekið þá viturlegu ákvörðun að þiggja boð Jesú og við þjónum nú Jehóva alla daga. Þannig sýnum við hvernig við hugsum um Jehóva innst inni. En þó að við þjónum Jehóva af kappi þurfum við að hafa hugfast að hið táknræna hjarta getur verið í hættu. Hvernig þá? Jesús nefndi þessa hættu við þá sem hann bauð að fylgja sér en þáðu ekki boðið. Hann sagði: „Enginn sem leggur hönd á plóginn og horfir aftur er hæfur í Guðs ríki.“ (Lúk. 9:62) Hvað má læra af þessu líkingamáli Jesú?

HÖLDUM VIÐ FAST VIÐ HIÐ GÓÐA?

11. Hvað gerðist hjá verkamanninum í líkingu Jesú og af hverju?

11 Til að draga fram lærdóminn af þessari stuttu líkingu Jesú skulum við blása svolitlu lífi í hana. Landbúnaðarverkamaður er önnum kafinn að plægja akur. En meðan hann plægir getur hann ekki hætt að hugsa heim. Ef hann væri nú heima gæti hann átt ánægjustundir með fjölskyldu og vinum. Þar gæti hann notið matar og tónlistar og skýlt sér fyrir sólinni. Hann langar heim. Eftir að hafa plægt um stund verður löngunin í þessi gæði lífsins svo yfirþyrmandi að hann horfir um öxl. Enda þótt margt sé ógert áður en akurinn er plægður og búið að sá í hann er hugurinn annars staðar og það kemur niður á vinnunni. Og húsbóndinn er auðvitað vonsvikinn yfir því að verkamaðurinn skuli ekki standa sig.

12. Hvernig gæti einhver í söfnuðinum lent í sömu aðstöðu og verkamaðurinn í líkingu Jesú?

12 Sjáum nú fyrir okkur hliðstæðu úr nútímanum. Verkamaðurinn getur táknað hvern sem er í söfnuðinum sem virðist ganga vel en er í rauninni í hættu staddur. Við skulum hugsa okkur bróður sem er duglegur í boðunarstarfinu. Hann sækir samkomur og boðar fagnaðarerindið en hugsar oft um ákveðin gæði í heiminum sem höfða til hans. Hann þráir þau innst inni í hjarta sér. Eftir að hafa starfað dyggilega í allmörg ár verður löngunin í gæði heimsins svo yfirþyrmandi að hann „horfir aftur“. Enda þótt enn sé margt ógert í boðunarstarfinu hefur hann ekki „haldið fast við orð lífsins“ og það kemur niður á þjónustu hans. (Fil. 2:16) Það hryggir Jehóva, „Drottin uppskerunnar“, að bróðirinn skuli ekki hafa meira úthald. – Lúk. 10:2.

13. Hvað er fólgið í því að þjóna Jehóva af öllu hjarta?

13 Lærdómurinn er augljós. Það er hrósvert ef við sækjum samkomur og boðum fagnaðarerindið að staðaldri. Það er bæði heilnæmt og gefandi. En það er meira fólgið í því að þjóna Jehóva af öllu hjarta. (2. Kron. 25:1, 2, 27) Ef kristinn maður þráir í hjarta sér eitthvað sem tilheyrir lifnaðarháttum þessa heims er vináttusamband hans við Guð í hættu. (Lúk. 17:32) Við erum ekki ,hæf í Guðs ríki‘ nema við ,höfum andstyggð á hinu vonda en höldum fast við hið góða‘. (Rómv. 12:9; Lúk. 9:62) Við þurfum því öll að gæta þess að ekkert í heimi Satans hindri okkur í að þjóna Guði af öllu hjarta – jafnvel þótt það sé eitthvað sem virðist gagnlegt eða ánægjulegt. – 2. Kor. 11:14; lestu Filippíbréfið 3:13, 14.

VERTU VEL Á VERÐI

14, 15. (a) Hvernig reynir Satan að hafa áhrif á hjarta okkar? (b) Lýstu með dæmi af hverju aðferðir Satans eru stórhættulegar.

14 Við vígðumst Jehóva af því að við elskum hann. Mörg okkar hafa síðan sýnt um langt árabil að við erum staðráðin í að þjóna Jehóva af öllu hjarta. En Satan er ekki af baki dottinn. Hann reynir áfram að hafa áhrif á hjörtu okkar. (Ef. 6:12) Hann veit auðvitað að það eru ekki miklar líkur á að við hættum skyndilega að þjóna Jehóva. Hann beitir því heiminum með slægð til að reyna að draga smám saman úr áhuga okkar á að þjóna Guði. (Lestu Markús 4:18, 19.) Af hverju er þetta áhrifarík aðferð?

15 Lýsum því með dæmi. Hugsaðu þér að þú sért að lesa bók við lampa með 100 vatta peru. En svo springur peran og þú ert allt í einu í kolniðamyrki. Þú veist þegar í stað hvað gerðist og skiptir um peru svo að það er bjart í herberginu á ný. Kvöldið eftir ertu að lesa við sama lampa. En án þess að þú vitir af er búið að skipta um peru og 95 vatta pera komin í stað 100 vatta perunnar. Ætli þú tækir eftir birtumuninum? Sennilega ekki. Og hvað ætli gerðist næsta kvöld ef komin væri 90 vatta pera í lampann? Þú myndir sennilega ekki taka eftir því heldur vegna þess að það dregur smátt og smátt úr birtunni frá lampanum. Eins er það með áhrifin frá heimi Satans. Þau geta valdið því að áhugi þinn á að þjóna Jehóva dvíni smám saman. Ef það gerist hefur Satan tekist að draga úr 100 vatta áhuga þínum. En þú tekur ekki eftir þessari hægu breytingu nema þú sért vel á verði. – Matt. 24:42; 1. Pét. 5:8.

BÆNIN ER NAUÐSYNLEG

16. Hvernig getum við varið okkur gegn klækjum Satans?

16 Hvernig getum við varið okkur gegn þessum klækjabrögðum Satans og haldið áfram að þjóna Jehóva af öllu hjarta? (2. Kor. 2:11) Bænin er mikilvæg leið til þess. Páll brýndi fyrir trúsystkinum sínum að ,standast vélabrögð djöfulsins‘ og bætti svo við: „Gerið það með bæn og beiðni og biðjið á hverri tíð í anda.“ – Ef. 6:11, 18; 1. Pét. 4:7.

17. Hvað lærum við af bænum Jesú?

17 Til að standa einbeitt gegn Satan ættum við að líkja eftir Jesú sem þráði heitt að þjóna Jehóva af öllu hjarta. Tökum eftir hvernig Lúkas lýsti bænum hans nóttina áður en hann dó. Hann skrifaði: „Hann komst í dauðans angist og baðst enn ákafar fyrir.“ (Lúk. 22:44) Þetta var ekki í fyrsta sinn sem Jesús baðst ákaft fyrir. En nú beið hans erfiðasta prófraunin sem hann hafði mátt þola á jörð og þá baðst hann „enn ákafar fyrir“ – og var bænheyrður. Af þessu má sjá að bænir geta verið misákafar. Lærdómurinn er sá að því erfiðari sem prófraunirnar eru og því lævísari sem vélabrögð Satans eru þeim mun ákafar ættum við að biðja Jehóva að vernda okkur.

18. (a) Um hvað ættum við að spyrja okkur og af hverju? (b) Hvað hefur áhrif á hjörtu okkar og á hvaða hátt? (Sjá ramma á bls. 16.)

18 Hvaða áhrif hafa slíkar bænir á okkur? Páll sagði: „Gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar.“ (Fil. 4:6, 7) Já, við þurfum að biðja oft og innilega til að þjóna Jehóva af öllu hjarta. (Lúk. 6:12) Það er því gott að spyrja sig hve oft maður biðji og hve innilega. (Matt. 7:7; Rómv. 12:12) Svarið segir töluvert um það hve sterka löngun maður hefur til að þjóna Guði.

19. Hvað ætlarðu að gera til að halda áfram að þjóna Jehóva af öllu hjarta?

19 Eins og fram hefur komið getum við fengið töluvert góða mynd af því hvað er að gerast í hjarta okkar með því að skoða hvernig við forgangsröðum. Við viljum hvorki láta það sem við höfum sagt skilið við né lævís vélabrögð Satans veikja okkur í þeim ásetningi að þjóna Jehóva af öllu hjarta. (Lestu Lúkas 21:19, 34-36.) Við skulum því biðja Jehóva oft og innilega sömu bænar og Davíð: „Gef mér heilt hjarta.“ – Sálm. 86:11.

[Neðanmáls]

^ gr. 4 5. Mósebók 15:7 (Biblían 1981): „Ef með þér er fátækur maður, einhver af bræðrum þínum, í einhverri af borgum þínum í landi þínu, því er Drottinn Guð þinn gefur þér, þá skalt þú ekki herða hjarta þitt og eigi afturlykja hendi þinni fyrir fátækum bróður þínum.“

[Spurningar]

[Mynd á bls. 16]

ÞRENNT SEM HEFUR ÁHRIF Á HJARTAÐ

Ýmislegt er hægt að gera til að draga úr hættunni á hjartasjúkdómum. Að sama skapi er hægt að gera ráðstafanir til að vernda hið táknræna hjarta og halda því heilbrigðu. Lítum á þrennt sem getur hjálpað okkur:

1 Næring: Hjartað þarf að fá hæfilega og holla næringu. Við þurfum líka að fá nóg af hollri andlegri fæðu með því að stunda reglulegt sjálfsnám, hugleiða það sem við lærum og sækja samkomur. – Sálm. 1:1, 2; Orðskv. 15:28; Hebr. 10:24, 25.

2 Hreyfing: Til að halda hjartanu hraustu þarf það að fá að dæla af krafti af og til. Við getum líka viðhaldið táknræna hjartanu með því að taka dyggilega þátt í boðunarstarfinu. Gott getur verið að reyna meira á sig af og til með því að auka við starf sitt. – Lúk. 13:24; Fil. 3:12.

3 Umhverfi: Hið óguðlega umhverfi, þar sem við vinnum og búum, getur valdið miklu álagi bæði á hið bókstaflega hjarta og hið táknræna. Við getum hins vegar dregið úr álaginu með því að umgangast trúsystkini okkar sem oftast. Þeim er ákaflega annt um okkur og þau þjóna Jehóva af öllu hjarta. – Sálm. 119:63; Orðskv. 13:20.