Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ég laðaðist að þeim sem voru mér eldri og vitrari

Ég laðaðist að þeim sem voru mér eldri og vitrari

Ævisaga

Ég laðaðist að þeim sem voru mér eldri og vitrari

Elva Gjerde segir frá

Fyrir 70 árum kom gestur á heimili okkar og sagði nokkuð við pabba sem breytti algerlega lífsstefnu minni. Frá þeim afdrifaríka degi hafa margir aðrir haft áhrif á líf mitt. Á þeirri vegferð hef ég eignast vináttusambönd sem eru mér ákaflega mikils virði. Mig langar til að segja ykkur frá þeim.

ÉG FÆDDIST í Sydney í Ástralíu árið 1932. Foreldrar mínir trúðu á Guð en sóttu ekki kirkju. Mamma kenndi mér að Guð fylgdist með öllu og hann myndi hegna mér ef ég væri óþekk. Þetta varð til þess að ég var hrædd við Guð. Ég var samt heilluð af Biblíunni. Þegar frænka mín heimsótti okkur um helgar sagði hún mér margar skemmtilegar biblíusögur. Ég hlakkaði alltaf til þegar von var á henni í heimsókn.

Á unglingsárum mínum las pabbi bækur sem mamma hafði fengið frá virðulegri eldri konu en hún var vottur Jehóva. Hann varð svo hrifinn af því sem hann las í þessum trúarlegu ritum að hann féllst á að kynna sér Biblíuna með aðstoð vottanna. Kvöld eitt þegar pabbi var í biblíunáminu stóð hann mig að því að standa á hleri. Hann var að því kominn að senda mig aftur í rúmið þegar gesturinn sagði: „Af hverju lofarðu ekki Elvu að sitja hjá okkur?“ Þetta varð upphafið að nýrri lífsstefnu og vináttusambandi við Jehóva, hinn sanna Guð.

Stuttu síðar fórum við pabbi að sækja safnaðarsamkomur hjá vottunum. Hann tók breytingum í samræmi við það sem hann lærði. Hann fór meira að segja að stjórna skapi sínu. Það varð mömmu og Frank, eldri bróður mínum, hvatning til að koma með okkur á samkomurnar. * Við tókum öll framförum og létum um síðir skírast sem vottar Jehóva. Síðan hafa margir eldri vottar í söfnuðinum haft góð áhrif á mig á ýmsum tímum ævi minnar.

ÆVISTARFIÐ SEM ÉG VALDI

Þegar ég var unglingur laðaðist ég að þeim sem voru mér eldri í söfnuðinum. Alice Place var ein af þeim en hún var roskna systirin sem heimsótti fjölskylduna í fyrstu. Hún var mér eins og amma. Hún þjálfaði mig í boðunarstarfinu og hvatti mig til að láta skírast. Fimmtán ára lét ég verða af því.

Ég laðaðist einnig að eldri hjónum sem hétu Percy og Madge Dunham. Samskiptin við þau höfðu mikil áhrif á framtíð mína. Mér þótti nefnilega mjög gaman að stærðfræði og hafði hugsað mér að verða stærðfræðikennari. Percy og Madge höfðu starfað sem trúboðar í Lettlandi á fjórða áratug síðustu aldar. Þegar síðari heimsstyrjöldin braust út í Evrópu var þeim boðið að starfa á Betel í Sydney en það var til húsa í einu af úthverfum borgarinnar. Þeim Percy og Madge var mjög umhugað um mig. Þau sögðu margar spennandi frásögur úr trúboðsstarfinu. Ég gerði mér grein fyrir því að ég yrði miklu ánægðari að fræða fólk um efni Biblíunnar en kenna stærðfræði. Ég ákvað því að verða trúboði.

Percy og Madge hvöttu mig til að búa mig undir trúboðsstarfið með því að gerast brautryðjandi. Árið 1948, þegar ég var 16 ára, gekk ég í lið með tíu öðrum ungum brautryðjendum í heimasöfnuði mínum í Hurstville í Sydney.

Næstu fjögur árin starfaði ég sem brautryðjandi í fjórum öðrum bæjum í New South Wales og Queensland. Einn af fyrstu nemendum mínum hét Betty Law (ber nú eftirnafnið Remnant). Betty var elskuleg stúlka, tveimur árum eldri en ég. Seinna störfuðum við saman sem brautryðjendur í bænum Cowra, um 230 kílómetra fyrir vestan Sydney. Vinskapur okkar hefur haldist fram á þennan dag þrátt fyrir að samstarfið hafi aðeins staðið yfir í stuttan tíma.

Eftir að ég varð sérbrautryðjandi var ég send til bæjarins Narrandera, 220 kílómetra suðvestan við Cowra. Næsti starfsfélagi minn var Joy Lennox (nú Hunter), kappsamur brautryðjandi sem einnig var tveimur árum eldri en ég. Við vorum einu vottarnir í bænum. Við Joy bjuggum hjá gestrisnum hjónum, þeim Ray og Ester Irons. Þau höfðu áhuga á sannleikanum og hið sama er að segja um son þeirra og þrjár dætur. Ray og sonurinn unnu alla daga vikunnar á fjár- og hveitibúgarði fyrir utan bæinn en Ester og dæturnar ráku gistiheimili á staðnum. Á hverjum sunnudegi steiktum við Joy gríðarstóra steik fyrir fjölskylduna og um það bil 12 kostgangara þeirra sem allir voru matlystugir járnbrautarverkamenn. Þessi þjónusta gekk að hluta til upp í leiguna hjá okkur. Þegar við vorum búnar að ganga frá eftir matinn buðum við Ironsfjölskyldunni upp á ljúffenga andlega máltíð, vikulega námið í Varðturninum. Ray, Ester og börnin þeirra fjögur tóku við sannleikanum og urðu fyrstu vottarnir í söfnuðinum í Narrandera.

Árið 1951 sótti ég mót Votta Jehóva í Sydney. Þar fór ég á sérstakan fund fyrir brautryðjendur sem höfðu áhuga á að starfa sem trúboðar. Fleiri en 300 voru viðstaddir þennan fund en hann var haldinn í stóru tjaldi. Nathan Knorr frá Betel í Brooklyn ávarpaði hópinn og útskýrði í smáatriðum hve áríðandi væri að boða fagnaðarerindið allt til ystu hjara veraldar. Við fylgdumst með hverju orði sem hann sagði. Margir af þessum brautryðjendum urðu fyrstir til að flytja fagnaðarerindið um Suður-Kyrrahafssvæðið og víðar. Ég var himinlifandi að vera 1 af 17 Áströlum sem var boðið að vera í 19. nemendahópi Gíleaðskólans árið 1952. Ég var aðeins tvítug og draumurinn um að verða trúboði var að rætast!

ÉG ÞURFTI AÐ BÆTA MIG

Kennslan og félagsskapurinn á Gíleað veitti mér aukna biblíuþekkingu og styrkti trú mína. En auk þess hafði dvölin þar djúp áhrif á persónuleika minn. Ég var ung og óraunsæ og hafði tilhneigingu til að vænta fullkomleika af sjálfri mér og öðrum. Viðhorf mín voru að sumu leyti fram úr hófi ströng. Ég varð til dæmis hneyksluð þegar ég sá bróður Knorr spila boltaleik með hópi ungra Betelíta.

Kennararnir í Gíleaðskólanum voru allir glöggir menn með margra ára reynslu. Þeir hljóta að hafa séð að mér leið ekki vel. Þeim var umhugað um mig og þeir hjálpuðu mér að breyta hugsunarhætti mínum. Smám saman fór ég að sjá Jehóva sem kærleiksríkan og þakklátan Guð en ekki sem strangan og kröfuharðan. Ég fékk einnig aðstoð frá bekkjarsystkinum. Ég man eftir að ein bekkjarsystirin sagði: „Elva, Jehóva er ekki þarna uppi með svipu. Vertu ekki svona ströng við sjálfa þig.“ Þessi einlægu orð snertu mig.

Eftir dvölina í Gíleaðskólanum var ég, ásamt fjórum bekkjarsystkinum, send til Namibíu í Afríku. Fljótlega vorum við komin með 80 biblíunámskeið samanlagt. Mér líkaði vel að vera í Namibíu og í trúboðsstarfinu þar, en ég hafði orðið ástfangin af bekkjarbróður í Gíleaðskólanum. Hann hafði verið sendur til Sviss. Eftir eins árs veru í Namibíu fór ég til kærasta míns í Sviss. Við giftumst og ég fylgdi eiginmanni mínum í starfi hans sem farandhirðir.

SKELFILEGT ÁFALL

Eftir fimm ánægjuleg ár í farandhirðisstarfinu var okkur boðið að þjóna á Betel í Sviss. Í Betelfjölskyldunni naut ég þess að vera umkringd mörgum eldri bræðrum og systrum sem bjuggu yfir mikilli reynslu í sannleikanum.

Stuttu eftir komuna á Betel varð ég fyrir skelfilegu áfalli. Ég komst að því að eiginmaður minn hafði verið bæði mér og Jehóva ótrúr. Hann fór frá mér og ég var niðurbrotin! Ég veit ekki hvað ég hefði gert án kærleika og stuðnings elskulegra roskinna vina minna í Betelfjölskyldunni. Þeir hlustuðu á mig þegar ég þurfti að tala og leyfðu mér að hvílast þegar ég þarfnaðist þess. Huggunarorð þeirra og góðvild veittu mér stuðning meðan ég þjáðist af ólýsanlegum sársauka og þeir hjálpuðu mér að styrkja sambandið við Jehóva enn frekar.

Ég minntist einnig orða góðra vina sem voru mér eldri og vitrari. Þeir höfðu styrkst við hverja raun. Madge Dunham hafði einu sinni sagt við mig: „Elva, þú verður fyrir mörgum prófraunum í þjónustunni við Jehóva en þær erfiðustu gætu komið frá þeim sem standa þér næst. Meðan á þeim stendur skaltu nálægja þig Jehóva. Mundu að þú þjónar honum en ekki ófullkomnum mönnum.“ Ráðlegging Madge kom mér til hjálpar á mörgum erfiðum stundum. Ég ákvað að láta mistök eiginmanns míns aldrei gera mig viðskila við Jehóva.

Þegar frá leið ákvað ég að fara aftur til Ástralíu og vera brautryðjandi nær fjölskyldunni. Á sjóferðinni heim átti ég í líflegum samræðum um Biblíuna við hóp samferðamanna. Í hópnum var hæglátur Norðmaður sem hét Arne Gjerde. Honum líkaði vel það sem hann heyrði. Seinna heimsótti Arne okkur fjölskylduna í Sydney. Hann tók örum framförum og varð fljótlega vottur. Við giftumst árið 1963 og tveim árum síðar eignuðumst við soninn Gary.

ÖNNUR ÞOLRAUN

Við Arne og Gary vorum hamingjusöm og nutum lífsins saman. Fljótlega byggði Arne við heimili okkar til þess að aldraðir foreldrar mínir gætu búið hjá okkur. En eftir sex ára hjónaband urðum við fyrir reiðarslagi af öðrum toga. Arne greindist með krabbamein í heila. Ég heimsótti hann daglega á spítalann meðan hann var í langri geislameðferð. Batahorfur voru góðar um tíma. Síðan hrakaði honum og hann fékk heilablóðfall. Mér var sagt að hann ætti aðeins eftir nokkrar vikur ólifaðar. En Arne lifði af og kom heim um síðir. Ég hjúkraði honum og hann hresstist. Með tímanum gat hann farið að ganga á ný og byrjað aftur að þjóna sem safnaðaröldungur. Gott lunderni hans og kímnigáfa stuðlaði að batanum og það gerði mér mun auðveldara að annast hann áfram.

Árið 1986 versnaði Arne aftur. Þá voru foreldrar mínir látnir svo að við fluttum til Blue Mountains, fallegs staðar rétt fyrir utan Sydney. Þar vorum við nær vinum okkar. Gary giftist síðar Karin, elskulegri trúsystur. Þau stungu upp á því að við fjögur byggjum saman. Innan mánaðar fluttum við öll í húsnæði aðeins nokkrum götum frá húsinu þar sem við Arne höfðum búið.

Arne var rúmfastur síðasta eina og hálfa árið sem hann lifði og þurfti á stöðugri hjúkrun að halda. Þar sem ég var að mestu leyti bundin við heimilið notaði ég tvær klukkustundir dag hvern til að lesa í Biblíunni og biblíutengdum ritum. Ég rakst á mörg viturleg ráð þessar námsstundir um hvernig ég gæti tekist á við aðstæður mínar. Eldra fólk í söfnuðinum sýndi okkur líka þann kærleika að heimsækja okkur. Sumt þeirra hafði þolað svipaðar þolraunir og við. Þessar heimsóknir voru mjög uppbyggilegar fyrir mig. Arne lést í apríl 2003. Hann efaðist aldrei um upprisuvonina.

MESTI STUÐNINGURINN

Ég var óraunsæ á yngri árum. En ég komst að raun um að lífið fer sjaldan á þann veg sem við væntum. Ég hef notið fjölda blessana og einnig mátt þola mikla ógæfu í tvö skipti, misst annan eiginmanninn sökum ótrúmennsku og hinn vegna sjúkdóms. Á þeirri vegferð hef ég fengið leiðbeiningar og huggun á ýmsan hátt. Mestan stuðning hefur samt Jehóva Guð – „Hinn aldni“ – veitt mér. (Dan. 7:9) Ráð hans hafa mótað persónuleika minn og verið mér leiðarljós í gefandi trúboðsstarfi. Miskunn Jehóva hjálpaði mér þegar upp komu erfiðleikar og huggun hans hressti mig. (Sálm. 94:18, 19) Fjölskylda mín hefur einnig sýnt mér kærleika og stuðning og ég hef líka reynt að „vinur lætur aldrei af vináttu sinni, í andstreymi reynist hann sem bróðir“. (Orðskv. 17:17) Margir af þessum vinum voru mér eldri og vitrari.

Ættfaðirinn Job spurði: „Er spekina að finna hjá öldungum og hyggindin hjá langlífum?“ (Job. 12:12) Þegar ég horfi til baka hlýt ég að svara játandi. Ráð hinna vitru og eldri hafa hjálpað mér, huggun þeirra hefur styrkt mig og vinátta þeirra hefur auðgað líf mitt. Ég er þakklát fyrir að hafa laðast að þeim.

Nú er ég orðin áttræð. Reynsla mín hefur gert mig sérstaklega næma á þarfir þeirra sem komnir eru á efri æviár. Mér þykir enn þá gaman að heimsækja þá og aðstoða. En ég nýt þess einnig að vera með ungu fólki. Kraftur þess hefur örvandi áhrif og eldmóður þess er smitandi. Þegar ég verð vör við að þeir ungu vilja leita ráða hjá mér eða stuðnings finnst mér gefandi að vera tiltæk.

[Neðanmáls]

^ gr. 7 Frank Lambert, bróðir Elvu, varð ötull brautryðjandi í óbyggðum Ástralíu. Í árbók Votta Jehóva árið 1983, bls. 110-112, er sagt frá einni af mörgum spennandi boðunarferðum hans.

[Mynd á bls. 14]

Við Joy Lennox sem brautryðjendur í Narrandera.

[Mynd á bls. 15]

Elva með dyggum Betelítum í Sviss árið 1960.

[Mynd á bls. 16]

Ég annaðist Arne í veikindum hans.