Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Endurspeglar þú dýrð Jehóva?

Endurspeglar þú dýrð Jehóva?

Endurspeglar þú dýrð Jehóva?

„Vér . . . endurspeglum dýrð Drottins.“ – 2. KOR. 3:18, Biblían 1981.

HVERT ER SVARIÐ?

Hvernig getum við verið Jehóva til lofs og heiðurs þótt við séum ófullkomin?

Hvernig eru samkomurnar og bænir okkar hjálp til að endurspegla dýrð Guðs?

Hvernig getum við haldið áfram að vera Jehóva til lofs?

1, 2. Af hverju er rökrétt að mennirnir geti endurspeglað eiginleika Jehóva?

ÖLL líkjumst við foreldrum okkar á einn eða annan hátt. Það er ekki óalgengt að sagt sé við dreng: Þú ert lifandi eftirmynd pabba þíns. Stúlkur fá stundum að heyra: Þú minnir svo á mömmu þína. Og börn líkja oft eftir því sem þau sjá foreldra sína gera. En getum við líkt eftir Jehóva, föður okkar á himnum? Við höfum ekki séð hann en við getum samt skynjað eiginleika hans þegar við lesum í Biblíunni og virðum fyrir okkur handaverk hans. Við gerum það líka þegar við hugleiðum efni Biblíunnar, ekki síst orð og verk sonar hans, Jesú Krists. (Jóh. 1:18; Rómv. 1:20) Við getum endurspeglað dýrð Jehóva.

2 Áður en Guð skapaði Adam og Evu vissi hann að mennirnir yrðu færir um að gera vilja hans, endurspegla eiginleika hans og vera honum til heiðurs. (Lestu 1. Mósebók 1:26, 27.) Guðrækið fólk langar til að tileinka sér eiginleika skapara síns. Ef við gerum það hljótum við þann mikla heiður að endurspegla dýrð hans óháð menningu okkar, menntun eða uppruna. Af hverju? Af því að „Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ – Post. 10:34, 35.

3. Hvernig er okkur innanbrjósts þegar við þjónum Jehóva?

3 Andasmurðir kristnir menn endurspegla dýrð Jehóva. Páll postuli var einn þeirra og hann skrifaði: „Allir vér, sem með óhjúpuðu andliti endurspeglum dýrð Drottins, ummyndumst til hinnar sömu myndar, frá dýrð til dýrðar.“ (2. Kor. 3:18, Biblían 1981) Þegar spámaðurinn Móse kom niður af Sínaífjalli með boðorðin tíu á steinstöflunum stóð ljómi af andliti hans vegna þess að Jehóva hafði talað við hann. (2. Mós. 34:29, 30) Kristnir þjónar Guðs hafa ekki orðið fyrir slíkri lífsreynslu og það stendur ekki bókstaflegur ljómi af andliti þeirra. Hins vegar ljómar andlit þeirra af gleði þegar þeir segja frá Jehóva, eiginleikum hans og fyrirætlun með mennina. Hinir andasmurðu og aðrir sauðir endurspegla dýrð Jehóva í lífi sínu og þjónustu eins og gljáfægðir speglar sem voru að fornu gerðir úr málmi. (2. Kor. 4:1) Endurspeglar þú dýrð Jehóva með breytni þinni og með því að taka reglulega þátt í boðunarstarfinu?

OKKUR LANGAR TIL AÐ ENDURSPEGLA DÝRÐ JEHÓVA

4, 5. (a) Í hvaða baráttu eigum við, líkt og Páll postuli? (b) Hvaða áhrif hefur syndin haft á okkur mennina?

4 Þar sem við þjónum Jehóva langar okkur auðvitað til að vera honum til lofs og heiðurs í öllu sem við gerum. En okkur tekst ekki alltaf að gera það sem okkur langar til. Páll átti í þessari sömu baráttu. (Lestu Rómverjabréfið 7:21-24.) Hann lýsti af hverju við eigum í þessari baráttu. „Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð,“ skrifaði hann. (Rómv. 3:23) Mennirnir erfðu syndina frá Adam með þeim afleiðingum að mannkynið lenti undir harðstjórn syndarinnar. – Rómv. 5:12; 6:12.

5 Hvað er synd? Hún er allt sem stangast á við eiginleika Jehóva, persónuleika, mælikvarða og vilja. Hún skaðar samband okkar við Guð. Syndin veldur því að við hittum ekki í mark, rétt eins og maður sem skýtur af boga en örin geigar. Menn syndga ýmist af ásetningi eða vangá. (4. Mós. 15:27-31) Syndin á sér djúpar rætur í mönnunum og aðskilur þá frá skaparanum. (Sálm. 51:7; Jes. 59:2; Kól. 1:21) Mannkynið í heild lifir því alls ekki í samræmi við mælikvarða Jehóva og nær ekki að endurspegla dýrð hans, eins verðmætt og það er. Syndin er greinilega versta fötlunin sem hrjáir mannkynið.

6. Hvernig getum við endurspeglað dýrð Guðs þó að við séum ófullkomin?

6 Þó að við séum fædd syndug gefur Jehóva okkur von. (Rómv. 15:13) Hann gaf Jesú Krist sem lausnarfórn til að gera okkur kleift að losna úr fjötrum syndarinnar. Með því að trúa á fórn hans erum við ekki lengur „þrælar syndarinnar“ heldur getum við endurspeglað dýrð Jehóva. (Rómv. 5:19; 6:6; Jóh. 3:16) Ef við viðhöldum góðu sambandi við Jehóva blessar hann okkur núna og veitir okkur fullkomleika og eilíft líf í framtíðinni. Við erum syndug enn þá en það er mikil blessun að Guð skuli líta þannig á að við getum endurspeglað dýrð hans.

HVERNIG ENDURSPEGLUM VIÐ DÝRÐ GUÐS?

7. Hvað þurfum við að horfast í augu við til að geta endurspeglað dýrð Guðs?

7 Til að geta endurspeglað dýrð Guðs þurfum við að viðurkenna breyskleika okkar hreinskilnislega. (2. Kron. 6:36) Við þurfum að horfast í augu við rangar tilhneigingar okkar og reyna að bæta okkur með því að hafa hemil á þeim. Þá getum við verið Guði til heiðurs. Ef við höfum til dæmis syndgað með því að horfa á klám verðum við að viðurkenna fyrir sjálfum okkur að við þurfum á hjálp öldunganna að halda – og leita hennar. (Jak. 5:14, 15) Það er það fyrsta sem við ættum að gera til að vera Guði til heiðurs á allan hátt. Við þurfum að líta í eigin barm til að ganga úr skugga um að við fylgjum réttlátum mælikvarða Jehóva. (Orðskv. 28:18; 1. Kor. 10:12) Hverjir sem breyskleikar okkar eru verðum við að halda áfram að hafa hemil á þeim til að geta endurspeglað dýrð Guðs.

8. Hvað ættum við að gera þó að við séum ekki fullkomin?

8 Jesús er eini maðurinn sem þóknaðist Guði í einu og öllu og endurspeglaði alltaf dýrð hans. En við erum ekki fullkomin eins og Jesús. Engu að síður getum við líkt eftir honum og ættum að gera okkar besta til þess. (1. Pét. 2:21) Jehóva tekur eftir framförum okkar og því sem við leggjum á okkur til að vera honum til dýrðar, og hann blessar okkur fyrir.

9. Hvaða hlutverki gegnir Biblían í lífi þeirra sem vilja lifa samkvæmt mælikvarða Guðs?

9 Í Biblíunni er okkur bent á hvernig við getum bætt okkur. Það er mikilvægt að lesa og hugleiða orð Guðs og kafa djúpt í það. (Sálm. 1:1-3) Daglegur biblíulestur hjálpar okkur að verða betri þjónar Guðs. (Lestu Jakobsbréfið 1:22-25.) Biblíuþekking er undirstaða trúarinnar. Hún styrkir okkur í þeim ásetningi að þóknast Jehóva og forðast alvarlegar syndir. – Sálm. 119:11, 47, 48.

10. Hvernig getur bænin hjálpað okkur að þjóna Jehóva enn betur?

10 Til að endurspegla dýrð Guðs verðum við líka að vera „staðföst í bæninni“. (Rómv. 12:12) Við getum beðið Jehóva að hjálpa okkur að þjóna sér eftir vilja sínum og ættum að biðja hann um það. Við getum beðið hann að gefa okkur heilagan anda, meiri trú, styrk til að standast freistingar og kunnáttu til að ,fara rétt með orð sannleikans‘. (2. Tím. 2:15; Matt. 6:13; Lúk. 11:13; 17:5) Reiðum okkur á Jehóva, föðurinn á himnum, eins og barn sem treystir á pabba sinn. Við getum verið viss um að hann hjálpi okkur að þjóna sér enn betur ef við biðjum hann um það. Okkur ætti aldrei að finnast að bænir okkar séu honum til ama. Lofum hann í bæn, þökkum honum, leitum leiðsagnar hans, sérstaklega í prófraunum, og biðjum hann að hjálpa okkur að þjóna sér þannig að við vegsömum heilagt nafn hans. – Sálm. 86:12; Jak. 1:5-7.

11. Hvernig eru safnaðarsamkomurnar hjálp til að endurspegla dýrð Guðs?

11 Guð hefur falið hinum trúa og hyggna þjóni að gæta dýrmætra sauða sinna. (Matt. 24:45-47; Sálm. 100:3) Þjóninum er ákaflega annt um að allir í söfnuðinum endurspegli dýrð Jehóva. Samkomurnar hjálpa okkur að sníða okkur að leiðbeiningum Jehóva, ekki ósvipað og klæðskeri breytir fötum til að þau fari betur. (Hebr. 10:24, 25) Við skulum því mæta stundvíslega því að ef við erum að jafnaði sein missum við að minnsta kosti af sumu sem gæti hjálp- að okkur að bæta útlit hins andlega manns.

LÍKJUM EFTIR GUÐI

12. Hvernig getum við líkt eftir Guði?

12 Við verðum að vera „eftirbreytendur Guðs“ til að endurspegla dýrð hans. (Ef. 5:1) Við líkjum eftir honum meðal annars með því að tileinka okkur sjónarmið hans. Ef við reynum að lifa einhvern veginn öðruvísi vanvirðum við hann og gerum sjálfum okkur illt. Heimurinn umhverfis okkur er undir áhrifum hins vonda, Satans djöfulsins, þannig að við þurfum að einsetja okkur að hata það sem Jehóva hatar og elska það sem hann elskar. (Sálm. 97:10; 1. Jóh. 5:19) Við verðum að vera fullkomlega sannfærð um að eina rétta leiðin til að þjóna Guði sé að gera allt honum til dýrðar. – Lestu 1. Korintubréf 10:31.

13. Af hverju verðum við að hata syndina og hvaða áhrif hefur það á okkur?

13 Jehóva hatar syndina og við ættum að gera það líka. Við ættum að halda okkur eins fjarri henni og við getum en ekki prófa hve langt við getum gengið án þess að hún nái tökum á okkur. Til dæmis verðum við að vara okkur á fráhvarfi en það er synd sem myndi gera okkur óhæf til að vegsama Guð. (5. Mós. 13:7-10) Þess vegna skulum við ekki eiga nein samskipti við fráhvarfsmenn eða nokkurn sem kallar sig bróður en vanvirðir Guð. Og þá breytir engu þótt hann tilheyri fjölskyldunni. (1. Kor. 5:11) Það er enginn ávinningur að því að reyna að hrekja rök fráhvarfsmanna eða annarra sem gagnrýna söfnuð Jehóva. Við myndum stofna sambandinu við Jehóva í hættu ef við læsum skrif þeirra, hvort sem þau eru á blaði eða á Netinu. – Lestu Jesaja 5:20; Matteus 7:6.

14. Hvernig getum við best endurspeglað dýrð Guðs og hvers vegna?

14 Einhver besta leiðin til að líkja eftir föðurnum á himnum er að sýna kærleika. Við eigum að vera kærleiksrík eins og hann. (1. Jóh. 4:16-19) Kærleikurinn, sem ríkir á meðal okkar, sýnir að við erum lærisveinar Jesú og þjónar Jehóva. (Jóh. 13:34, 35) Þó að meðfæddur ófullkomleikinn geri okkur stundum erfitt fyrir verðum við að ýta honum til hliðar og vera kærleiksrík öllum stundum. Ef við temjum okkur kærleika og aðra góða eiginleika forðumst við að koma illa fram við aðra eða brjóta boð Jehóva með öðrum hætti. – 2. Pét. 1:5-7.

15. Hvaða áhrif hefur kærleikurinn á samskipti okkar við aðra?

15 Kærleikurinn hefur þau áhrif að okkur langar til að gera öðrum gott. (Rómv. 13:8-10) Þegar hjón elska hvort annað sjá þau til þess að hjónasængin sé óflekkuð. Ef okkur þykir vænt um öldungana og virðum starf þeirra förum við eftir leiðsögn þeirra og forystu. Börn, sem elska foreldra sína, hlýða þeim og heiðra en tala ekki illa um þá. Ef við elskum aðra lítum við hvorki niður á þá né sýnum þeim óvirðingu í tali. (Jak. 3:9) Og öldungar, sem elska sauði Guðs, sýna þeim umhyggju. – Post. 20:28, 29.

16. Hvað áhrif hefur kærleikurinn á boðunarstarf okkar?

16 Boðunarstarfið ætti einnig að einkennast af kærleika. Við elskum Jehóva svo heitt að við látum ekki áhugaleysi fólks eða neikvæð viðbrögð draga úr okkur heldur höldum áfram að boða fagnaðarerindið. Við undirbúum okkur vel fyrir boðunarstarfið og reynum að gera því sem best skil. Ef við elskum Guð og náungann förum við ekki bara í boðunarstarfið af skyldurækni. Við lítum öllu heldur á það sem mikinn heiður og njótum þess. – Matt. 10:7.

HALTU ÁFRAM AÐ ENDURSPEGLA DÝRÐ JEHÓVA

17. Af hverju er það okkur til góðs að viðurkenna að okkur skortir Guðs dýrð?

17 Fólk almennt gerir sér litla grein fyrir því hve alvarleg syndin er. Við gerum það hins vegar og erum þess vegna meðvituð um að við þurfum að berjast gegn röngum tilhneigingum. Með því að viðurkenna að við séum syndug getum við þjálfað samviskuna svo að hún komi okkur til að gera rétt þegar löngun til að syndga kviknar í huganum eða hjartanu. (Rómv. 7:22, 23) Við höfum að vísu ýmsa veikleika en Guð getur gefið okkur kraft til að breyta rétt undir öllum kringumstæðum. – 2. Kor. 12:10.

18, 19. (a) Hvernig getum við haldið velli í baráttunni við andaverur vonskunnar? (b) Hvað ættum við að vera staðráðin í að gera?

18 Til að endurspegla dýrð Jehóva þurfum við líka að berjast gegn andaverum vonskunnar. Við getum staðist af því að við höfum andlega alvæpnið sem við fáum frá Guði. (Ef. 6:11-13) Satan reynir linnulaust að ræna Jehóva dýrðinni sem hann verðskuldar. Hann gerir líka allt sem hann getur til að spilla sambandi okkar við Jehóva. Það er mikill ósigur fyrir Satan að við skulum vera Guði trú og vegsama hann ásamt milljónum annarra ófullkominna karla, kvenna og barna. Við skulum því halda áfram að lofsyngja Jehóva líkt og andaverurnar á himni sem segja: „Verður ert þú, Drottinn vor og Guð, að fá dýrðina og heiðurinn og máttinn því að þú hefur skapað alla hluti og að þínum vilja urðu þeir til og voru skapaðir.“ – Opinb. 4:11.

19 Verum staðráðin í að halda áfram að endurspegla dýrð Jehóva, hvað sem á dynur. Það gleður hann ákaflega hve margir trúfastir þjónar hans gera sitt ýtrasta til að líkja eftir honum og vera honum til lofs. (Orðskv. 27:11) Okkur ætti að vera innanbrjósts eins og Davíð sem söng: „Ég vil þakka þér, Drottinn, Guð minn, af öllu hjarta og tigna nafn þitt að eilífu.“ (Sálm. 86:12) Við þráum heitt þann dag þegar við endurspeglum dýrð Jehóva fullkomlega og getum lofað hann að eilífu. Það verður hlýðnu mannkyni til mikillar gleði. Endurspeglar þú dýrð Jehóva núna í von um að geta haldið því áfram um alla eilífð?

[Spurningar]

[Myndir á bls. 27]

Endurspeglar þú dýrð Jehóva á þennan hátt?