Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hafðu jákvætt viðhorf þegar reynir á hjónabandið

Hafðu jákvætt viðhorf þegar reynir á hjónabandið

Hafðu jákvætt viðhorf þegar reynir á hjónabandið

„Þeim sem gengið hafa í hjónaband býð ég, þó ekki ég heldur Drottinn, að konan skuli ekki skilja við mann sinn . . . maðurinn á ekki heldur að skilja við konuna.“ – 1. KOR. 7:10, 11.

GETURÐU SVARAÐ?

Í hvaða skilningi tengir Guð hjón saman?

Hvernig geta safnaðaröldungar hjálpað vottum sem eiga við erfiðleika að stríða í hjónabandinu?

Hvaða augum eigum við að líta á hjónabandið?

1. Hvernig líta kristnir menn á hjónabandið og af hverju?

ÞEGAR karl og kona í söfnuðinum ganga í hjónaband gefa þau heit frammi fyrir Guði. Því fylgir alvarleg ábyrgð. (Préd. 5:3-5) Guð hefur tengt þau saman í þeim skilningi að hann er höfundur hjónabandsins. (Mark. 10:9) Hjónabandið er varanlegt í augum Guðs óháð því hvað segir í landslögum. Þjónar hans ættu að líta á það sem bindandi, jafnvel þótt þeir hafi ekki tilbeðið hann á þeim tíma þegar til þess var stofnað.

2. Við hvaða spurningum er leitað svara í þessari grein?

2 Farsælt hjónaband getur veitt fólki mikla hamingju. En hvað er til ráða ef reynir á hjónabandið? Er hægt að bjarga hjónabandi ef það eru komnir brestir í það? Hvar geta hjón leitað hjálpar ef hjónabandið er í hættu?

VERÐUR ÞAÐ HAMINGJURÍKT EÐA EKKI?

3, 4. Hvernig getur farið hjá þeim sem taka óviturlegar ákvarðanir þegar þeir velja sér maka?

3 Farsælt kristið hjónaband er Jehóva til heiðurs og hjónunum til gleði. En ef hjónaband fer út um þúfur getur sorgin verið yfirþyrmandi. Þjónar Guðs eru í prýðilegri aðstöðu til að byggja hjónaband á góðum grunni með því að fylgja leiðbeiningum Biblíunnar. Þeir sem sýna ekki skynsemi þegar þeir velja sér maka mega hins vegar búast við alls konar erfiðleikum og sorgum. Ungt fólk byrjar stundum að draga sig saman þótt það sé ekki tilbúið til að axla þá ábyrgð sem fylgir hjónabandi. Sumir nota Netið til að leita sér að maka og ana út í hjónaband sem reynist síðan óhamingjusamt. Og fyrir kemur að fólk drýgir alvarlega synd meðan tilhugalífið stendur yfir og ber síðan litla virðingu hvort fyrir öðru þegar það byrjar hjúskapinn.

4 Sumir finna sér maka utan safnaðarins og líða svo fyrir það að hann skuli ekki vera þjónn Jehóva. (1. Kor. 7:39) Ef þú ert í þeirri aðstöðu skaltu biðja Jehóva að fyrirgefa þér og hjálpa. Hann hlífir okkur ekki við afleiðingum gerða okkar en hjálpar þeim sem iðrast að takast á við erfiðleikana. (Sálm. 130:1-4) Leggðu þig fram um að þóknast honum núna og um alla framtíð, þá geturðu treyst að gleði Jehóva styrki þig. – Neh. 8:10.

ÞEGAR HJÓNABANDIÐ ER Í HÆTTU

5. Hvers konar hugsanir ættu þeir að forðast sem eru í óhamingjusömu hjónabandi?

5 Sumir spyrja sig kannski hvort það sé þess virði að reyna að bjarga óhamingjusömu hjónabandi. ,Ef það væri nú bara hægt að spóla til baka, finna sér annan maka og byrja upp á nýtt.‘ Þá dreymir um að slíta hjónabandinu og vera frjálsir að nýju. ,Er ekki best að skilja?‘ hugsa þeir.,Ég gæti gert það og notið lífsins á nýjan leik, jafnvel þó að ég geti ekki skilið á biblíulegum grundvelli.‘ En þjónar Guðs ættu ekki að hugsa svona eða láta sig dreyma um hvernig lífið hefði getað orðið. Þeir ættu frekar að reyna að gera gott úr aðstæðum sínum með því að fylgja leiðsögn Guðs.

6. Hvað merkja orð Jesú í Matteusi 19:9?

6 Ef þjónn Guðs skilur við maka sinn er ekki sjálfgefið að honum sé frjálst, samkvæmt Biblíunni, að giftast aftur. Jesús sagði: „Sá sem skilur við konu sína, nema sakir hórdóms, og kvænist annarri drýgir hór.“ (Matt. 19:9) Í þessu samhengi merkir „hór“ hjúskaparbrot og aðrar alvarlegar syndir af kynferðislegu tagi. Það er mikilvægt fyrir þjón Jehóva að biðja um leiðsögn hans ef það hvarflar að honum að skilja við maka sinn og hvorugt hjónanna hefur drýgt hór.

7. Hvað gæti fólk haldið ef hjón í söfnuðinum skilja?

7 Ef slitnar upp úr hjónabandi getur það verið merki um að sambandið við Jehóva sé ekki í lagi. Páll postuli varpar fram þessari alvarlegu spurningu: „Hvernig má sá sem ekki hefur vit á að veita heimili sínu forstöðu veita söfnuði Guðs umsjón?“ (1. Tím. 3:5) Ef bæði hjónin eru í söfnuðinum en hjónabandið endist ekki gæti fólk hugsað sem svo að hjónin fari ekki sjálf eftir því sem þau kenna. – Rómv. 2:21-24.

8. Hvað hlýtur að vera að ef kristin hjón ákveða að skilja?

8 Þegar skírð hjón áforma að slíta samvistum eða skilja án þess að biblíulegar forsendur liggi fyrir er ljóst að samband þeirra við Jehóva er ekki upp á sitt besta. Ætla má að annað þeirra eða bæði fari ekki eftir leiðbeiningum Biblíunnar. Ef þau „treystu Drottni af öllu hjarta“ væri engin ástæða til að ætla að þau gætu ekki bjargað hjónabandinu. – Lestu Orðskviðina 3:5, 6.

9. Hvaða laun hafa þjónar Guðs stundum hlotið fyrir að gefast ekki upp á erfiðu hjónabandi?

9 Mörg dæmi eru um að hjónabönd hafi orðið farsæl þó að þau virtust um tíma vera að fara út um þúfur. Þjónar Guðs hafa oft hlotið ríkuleg laun fyrir að gefast ekki fljótt upp á erfiðu hjónabandi. Tökum sem dæmi hvað getur gerst þegar annað hjónanna er ekki í trúnni. Pétur postuli skrifaði: „Eins skuluð þið, eiginkonur, vera eftirlátar eiginmönnum ykkar til þess að jafnvel þeir sem vilja ekki hlýða orðinu geti unnist orðalaust við hegðun kvenna sinna þegar þeir sjá ykkar grandvöru og skírlífu hegðun.“ (1. Pét. 3:1, 2) Góð breytni hins trúaða getur með tíð og tíma orðið til þess að makinn taki trú. Kristið fólk heiðrar Guð með því að bjarga hjónabandi sínu og það er eiginmanni, eiginkonu og börnum til blessunar.

10, 11. Hvaða óvæntir erfiðleikar geta komið upp í hjónabandi en hverju geta þjónar Guðs treyst?

10 Flestir einhleypir vottar velja sér skírðan maka innan safnaðarins af því að þeir vilja þóknast Jehóva. En jafnvel þótt þeir geri það geta málin tekið óvænta stefnu. Stöku sinnum gerist það til dæmis að það koma upp alvarleg geðræn vandamál hjá makanum. Eins gæti það gerst að makinn hætti að boða fagnaðarerindið og verði óvirkur boðberi. Tökum dæmi: Linda * var dyggur þjónn Jehóva og góð móðir. Hún horfði hjálparvana upp á að eiginmaður hennar, sem var skírður vottur, fór út á ranga braut. Honum var síðan vikið úr söfnuðinum af því að hann iðraðist einskis. Hvað er til ráða hjá þjónum Jehóva ef eitthvað slíkt gerist og það virðist varla hægt að bjarga hjónabandinu?

11 Þér er kannski spurn hvort þú verðir að leggja allt í sölurnar til að reyna að bjarga hjónabandinu. Enginn getur ákveðið það fyrir þig og enginn ætti heldur að reyna það. En það er rík ástæða til að gefast ekki upp þó að það séu komnir brestir í hjónabandið. Þeir sem þrauka í erfiðu hjónabandi vegna meðvitundar um Guð eru dýrmætir í augum hans. (Lestu 1. Pétursbréf 2:19, 20.) Með orði sínu og anda hjálpar Jehóva þeim sem leggja sig fram um að koma hjónabandi sínu á réttan kjöl.

ÞEIR ERU REIÐUBÚNIR AÐ AÐSTOÐA

12. Hvernig líta öldungarnir á okkur ef við leitum aðstoðar þeirra?

12 Ef þú átt við erfiðleika að stríða í hjónabandinu skaltu ekki hika við að leita aðstoðar hjá reyndum safnaðarmönnum. Öldungarnir hafa umsjón með hjörðinni og benda þér fúslega á innblásnar ráðleggingar Biblíunnar. (Post. 20:28; Jak. 5:14, 15) Þú þarft ekki að óttast að þið hjónin fallið í áliti hjá öldungunum þó að þið leitið aðstoðar þeirra vegna alvarlegra erfiðleika í hjónabandinu. Þeir virða þig enn meir þegar þeir sjá að þú vilt í einlægni þóknast Guði.

13. Hvaða leiðbeiningar er að finna í 1. Korintubréfi 7:10-16?

13 Þegar öldungar eru beðnir að aðstoða hjón þar sem annað þeirra er ekki í trúnni benda þeir gjarnan á leiðbeiningar Páls: „Þeim sem gengið hafa í hjónaband býð ég, þó ekki ég heldur Drottinn, að konan skuli ekki skilja við mann sinn, en hafi hún skilið við hann, þá sé hún áfram ógift eða sættist við manninn. Maðurinn á ekki heldur að skilja við konuna . . . Því að hvað veist þú, kona, hvort þú munir geta frelsað mann þinn? Eða hvað veist þú, maður, hvort þú munir geta frelsað konu þína?“ (1. Kor. 7:10-16) Það er mikil blessun ef maki, sem er ekki í trúnni, gerist þjónn Jehóva.

14, 15. Undir hvaða kringumstæðum gæti vottur ákveðið að slíta samvistum við maka sinn en hvers vegna er mikilvægt að hann biðji og hugleiði málið vel og vandlega?

14 Við hvaða aðstæður gæti kristin eiginkona ákveðið að slíta samvistum við manninn? Sumar eiginkonur hafa gert það vegna þess að maðurinn neitar að framfleyta fjölskyldunni. Aðrar hafa gert það vegna alvarlegs heimilisofbeldis eða vegna þess að þeim var gert illmögulegt að þjóna Guði.

15 Fólk verður sjálft að ákveða hvort það slítur samvistum eða ekki. Það hjónanna, sem er í trúnni, ætti þó að hugleiða málið vel, ræða það við Jehóva í bæn og líta í eigin barm. Ber hinn vantrúaði alla sökina á því að hinn getur ekki þjónað Guði? Eða hefur hinn trúaði sjálfur vanrækt biblíunám, samkomur og boðunarstarf?

16. Hvers vegna ætti kristið fólk ekki að ákveða í fljótræði að skilja við maka sinn?

16 Sambandið við Guð er okkur verðmætt og við erum þakklát fyrir að hann skuli hafa gefið okkur hjónabandið. Það ætti að koma í veg fyrir að við ákveðum í fljótræði að skilja. Við sem þjónum Jehóva látum okkur annt um að nafn hans helgist. Við ættum aldrei að leggja á ráðin um að losna úr hjónabandi af því að við erum innst inni að ráðgera annað hjónaband. – Jer. 17:9; Mal. 2:13-16.

17. Við hvaða aðstæður eiga þessi orð Páls við: „Guð hefur kallað ykkur að lifa í friði“?

17 Vottur, sem á vantrúaðan maka, ætti að leggja sig einlæglega fram um að viðhalda hjónabandinu. Hafi hann gert allt sem hann getur til þess þarf hann ekki að finna til sektarkenndar ef hinn vantrúaði vill ekki búa áfram með honum. „Ef hinn vantrúaði vill skilja, þá fái hann skilnað,“ skrifaði Páll. „Hvorki bróðir né systir eru þrælbundin í slíkum efnum. Guð hefur kallað ykkur að lifa í friði.“ – 1. Kor. 7:15. *

VONAÐU Á JEHÓVA

18. Hvers vegna er það til blessunar að reyna að bjarga hjónabandi, jafnvel þó að það endi að lokum með skilnaði?

18 Ef við eigum við erfiðleika að glíma í hjónabandinu skulum við biðja Jehóva að gefa okkur hugrekki og vona alltaf á hann. (Lestu Sálm 27:14.) Fyrr í greininni var minnst á konu sem við kölluðum Lindu. Hún reyndi árum saman að bjarga hjónabandinu en það endaði samt með skilnaði. Finnst henni hún hafa sóað tímanum? „Alls ekki,“ segir hún. „Viðleitni mín var Jehóva til lofs. Ég hef hreina samvisku. Síðast en ekki síst reyndist þessi tími dóttur okkar hjálp til að ná góðri fótfestu í sannleikanum. Hún er nú vígður vottur Jehóva og þjónar honum af kappi.“

19. Hvað getur gerst þegar fólk leggur sig í líma við að bjarga hjónabandi?

19 Systir, sem heitir Marilyn, er ánægð með að hafa treyst á Guð og lagt sig í líma við að bjarga hjónabandinu. „Mér fannst freistandi að slíta samvistum við manninn minn,“ segir hún, „vegna þess að hann sá ekki fyrir fjölskyldunni og stofnaði sambandi mínu við Jehóva í hættu. Maðurinn minn var öldungur áður en hann fór út í vafasöm viðskipti. Hann fór að sleppa úr samkomum og við hættum hreinlega að tala saman. Þegar hryðjuverkaárás var gerð í borginni varð ég svo hrædd að ég dró mig inn í skel. En þá áttaði ég mig á því að vandinn var að hluta til mér að kenna. Við fórum að tala saman aftur, komum fjölskyldunáminu í gang á ný og fórum að sækja samkomur reglulega. Öldungarnir voru hlýlegir og hjálpsamir. Hjónabandið blómstraði á nýjan leik. Þegar fram liðu stundir fékk maðurinn minn aftur verkefni í söfnuðinum. Þetta var harður skóli en allt fór vel að lokum.“

20, 21. Hverju ættum við að vera staðráðin í varðandi hjónaband okkar?

20 Við skulum alltaf vera hugrökk og vona á Jehóva, hvort sem við erum gift eða ógift. Ef við eigum í erfiðleikum í hjónabandinu skulum við gera allt sem við getum til að greiða úr þeim, minnug þess að hjón eru „ekki framar tvö heldur einn maður“. (Matt. 19:6) Og ef makinn er ekki í trúnni en þú þraukar samt þrátt fyrir erfiðleika má vera að þú uppskerir þá gleði að hann sameinist þér í sannri tilbeiðslu.

21 Hverjar sem aðstæður okkar eru skulum við vera staðráðin í að breyta þannig að við ávinnum okkur virðingu þeirra sem eru utan safnaðarins. Ef komnir eru brestir í hjónabandið skulum við biðja innilega til Jehóva, horfa gagnrýnum augum í eigin barm, hugleiða vel leiðbeiningar Biblíunnar og leita aðstoðar hjá öldungum safnaðarins. Síðast en ekki síst skulum við vera staðráðin í að þóknast Jehóva Guði í einu og öllu og sýna að við berum djúpa virðingu fyrir þeirri gjöf sem hjónabandið er.

[Neðanmáls]

^ gr. 10 Nöfnum hefur verið breytt.

^ gr. 17 Sjá „Látið kærleika Guðs varðveita ykkur“, bls. 219-221; Varðturninn, 1. september 1989, bls. 28-29; Varðturninn (ensk útgáfa), 15. september 1975, bls. 575.

[Spurningar]

[Innskot á bls. 10]

Þjónar Guðs hafa oft hlotið ríkuleg laun fyrir að gefast ekki fljótt upp á erfiðu hjónabandi.

[Innskot á bls. 12]

Vonaðu alltaf á Jehóva og biddu hann að gefa þér hugrekki.

[Mynd á bls. 9]

Jehóva hjálpar þeim sem leggja sig fram um að koma hjónabandi sínu á réttan kjöl.

[Mynd á bls. 11]

Söfnuðurinn getur verið til uppörvunar og styrktar.