Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Líturðu á hjónabandið sem gjöf frá Guði?

Líturðu á hjónabandið sem gjöf frá Guði?

Líturðu á hjónabandið sem gjöf frá Guði?

„Drottinn gefi ykkur, að þið megið finna athvarf hvor um sig í húsi manns síns.“ – RUT. 1:9, Biblían 1981.

LEITAÐU AÐ SVÖRUNUM:

Hvers vegna getum við sagt að þjónar Guðs til forna hafi litið á hjónabandið sem gjöf Guðs?

Hvernig vitum við að það skiptir Jehóva máli hvern við veljum okkur að maka?

Hvaða leiðbeiningar um hjónabandið ætlarðu að notfæra þér?

1. Hvernig brást Adam við þegar hann eignaðist konu?

„LOKS er hér bein af mínum beinum og hold af mínu holdi. Hún skal kvenmaður kallast af því að hún er af karlmanni tekin.“ (1. Mós. 2:23) Þessi orð Adams, fyrsta mannsins, endurspegla hve ánægður hann var að hafa eignast konu. Það er engin furða að hann skyldi bregða fyrir sig ljóðrænu máli. Jehóva lét djúpan svefn falla á Adam og skapaði síðan fagra konu úr einu af rifbeinum hans. Adam kallaði hana síðar Evu. Guð gaf þau saman í hamingjuríkt hjónaband. Þar sem hann hafði notað eitt af rifjum Adams til að skapa konuna voru þau bundin enn nánari böndum en nokkur hjón nú á tímum.

2. Af hverju laðast karl og kona hvort að öðru?

2 Jehóva sýndi þá óviðjafnanlegu visku að áskapa mönnunum hæfileikann til að elska – eiginleika sem laðar karl og konu hvort að öðru. „Þegar karl og kona giftast vonast þau til að eiga fyrir sér varanlegt ástarsamband.“ (The World Book Encyclopedia) Það hefur gerst ótal sinnum meðal þjóna Jehóva.

ÞAU VORU ÞAKKLÁT FYRIR GJÖF GUÐS

3. Hvernig eignaðist Ísak konu?

3 Abraham var trúr þjónn Guðs og bar mikla virðingu fyrir hjónabandinu. Hann sendi því elsta þjón sinn til Mesópótamíu til að finna eiginkonu handa Ísak. Þjónninn leitaði leiðsagnar Guðs og var bænheyrður þegar hann fann Rebekku sem var guðhrædd kona. Hún varð ástkær eiginkona Ísaks og átti þátt í því að Abraham eignaðist niðja í samræmi við fyrirætlun Jehóva. (1. Mós. 22:18; 24:12-14, 67) Það ber þó ekki að skilja þessa frásögu þannig að fólk eigi óbeðið að reyna að para fólk saman í hjónaband – jafnvel þótt góður vilji búi að baki. Í nútímaþjóðfélagi er algengast að fólk velji sér sjálft maka. Guð stýrir auðvitað ekki makavali fólks. Hins vegar leiðbeinir hann þjónum sínum á þessu sviði sem og öðrum ef þeir biðja hann um leiðsögn og þiggja handleiðslu anda hans. – Gal. 5:18, 25.

4, 5. Á hverju sjáum við að Súlamít og fjárhirðirinn voru ástfangin?

4 Hin fagra Súlamít í Forn-Ísrael leyfði ekki vinkonum sínum að þrýsta á sig að verða ein af mörgum eiginkonum Salómons konungs. Hún sagði: „Ég særi yður, Jerúsalemdætur, truflið ekki, vekið ekki ástina, fyrr en hún sjálf vill.“ (Ljóðalj. 8:4) Súlamít var ástfangin af fjárhirði nokkrum og hann af henni. Hún sagði með hógværð: „Ég er narsissa á Saronvöllum, lilja í dölunum.“ En fjárhirðirinn svaraði: „Eins og lilja meðal þyrna, svo er vina mín meðal meyjanna.“ (Ljóðalj. 2:1, 2, Biblían 1981) Þau báru sanna ást hvort til annars.

5 Súlamít og fjárhirðirinn elskuðu Guð framar öllu öðru og það var góður grunnur að traustu hjónabandi. Hún sagði meira að segja við hann: „Settu mig sem innsigli á hjarta þitt, eins og innsigli á arm þinn, því að ástin er sterk eins og dauðinn og ástríðan vægðarlaus sem hel; hún er brennandi bál, skíðlogandi eldur. Vatnsflaumur fær ekki slökkt ástina, stórfljót ekki drekkt henni, bjóði maður aleigu sína fyrir ástina uppsker hann aðeins háð.“ (Ljóðalj. 8:6, 7) Ættu þjónar Jehóva ekki að vænta sams konar trúfesti og hollustu af tilvonandi maka?

ÞAÐ SKIPTIR GUÐ MÁLI HVERNIG VIÐ VELJUM

6, 7. Hvernig vitum við að það skiptir Guð máli hvern við veljum okkur að maka?

6 Það skiptir Jehóva máli hvern við veljum okkur fyrir maka. Ísraelsmenn fengu eftirfarandi fyrirmæli varðandi þjóðirnar sem bjuggu í Kanaanlandi: „Þú mátt ekki . . . mægjast við þær. Þú skalt hvorki gefa dætur þínar sonum þeirra né taka dætur þeirra til handa sonum þínum. Það mundi snúa sonum þínum frá fylgd við mig svo að þeir færu að þjóna öðrum guðum. Þá mundi reiði Drottins blossa upp gegn ykkur og eyða þér þegar í stað.“ (5. Mós. 7:2-4) Esra prestur sagði öldum síðar: „Þið hafið svikið með því að taka til ykkar útlendar konur og með því aukið sekt Ísraels.“ (Esra. 10:10) Og Páll postuli skrifaði trúsystkinum sínum: „Konan er bundin meðan maður hennar er á lífi. En ef maðurinn deyr er henni frjálst að giftast hverjum sem hún vill, aðeins að hann sé trúaður.“1. Kor. 7:39.

7 Vígður þjónn Jehóva væri að óhlýðnast honum ef hann giftist vantrúuðum. Ísraelsmenn á dögum Esra sýndu ótrúmennsku með því að ,taka til sín útlendar konur‘, og það væri rangt að reyna að útvatna skýr orð Biblíunnar. (Esra. 10:10; 2. Kor. 6:14, 15) Ef þjónn Guðs giftist vantrúuðum er hann ekki góð fyrirmynd og hann sýnir að hann virðir ekki hjónabandið sem gjöf Guðs. Skírður einstaklingur, sem gerir slíkt, getur misst þjónustuverkefni í söfnuðinum. Og það væri ekki rökrétt að ætlast til að hljóta blessun Guðs en þurfa samtímis að viðurkenna í bæn: ,Jehóva, ég óhlýðnaðist þér af ásettu ráði. Viltu samt blessa mig?‘

FAÐIRINN Á HIMNUM VEIT BEST

8. Hvers vegna ættum við að fylgja leiðbeiningum Guðs um hjónabandið?

8 Framleiðandi vélar veit upp á hár hvernig hún virkar. Ef setja þarf vélina saman getur hann gefið nauðsynlegar leiðbeiningar þar að lútandi. Hvernig færi ef við hunsuðum leiðbeiningarnar og settum gripinn saman eftir okkar eigin höfði? Útkoman yrði líklega ekki góð og allsendis óvíst að vélin virkaði. Ef við viljum búa við hamingjuríkt hjónaband þurfum við að fylgja leiðbeiningum Jehóva, höfundar hjónabandsins.

9. Hvernig vitum við að Jehóva skilur þá sem eru einmana og er fullkunnugt um gleðina sem hægt er að njóta í hjónabandi?

9 Jehóva veit allt sem hægt er að vita um mennina og hjónabandið. Hann gaf mönnunum kynhvötina til að þeir myndu verða ,frjósamir og fjölga sér‘. (1. Mós. 1:28) Jehóva skilur þá sem eru einmana því að hann sagði áður en hann skapaði Evu: „Eigi er það gott að maðurinn sé einn. Ég vil gera honum meðhjálp við hans hæfi.“ (1. Mós. 2:18) Honum er líka fullkunnugt um gleðina sem hægt er að njóta innan vébanda hjónabands. – Lestu Orðskviðina 5:15-18.

10. Hvað ættu hjón að hafa að leiðarljósi varðandi kynlíf?

10 Þar sem Adam gaf öllum synd og ófullkomleika í arf er ekkert hjónaband fullkomið. Þjónar Jehóva geta engu að síður verið hamingjusamir í hjónabandi ef þeir fylgja leiðbeiningum Biblíunnar. Tökum sem dæmi skýrar leiðbeiningar Páls um kynlíf hjóna. (Lestu 1. Korintubréf 7:1-5.) Í Biblíunni eru engin ákvæði um að hjón megi aðeins hafa kynmök í þeim tilgangi að eignast börn. Kynmök geta líka verið leið til að fullnægja tilfinningalegum og líkamlegum þörfum hjóna. En Guð hefur vanþóknun á afbrigðilegum athöfnum. Kristin hjón ættu að vera nærgætin hvort við annað á þessu mikilvæga sviði og sýna ósvikna ást og umhyggju. Og þau eiga auðvitað að forðast hvaðeina sem er Jehóva á móti skapi.

11. Hvaða blessun hlaut Rut fyrir að vera Jehóva trú?

11 Hjónaband ætti að einkennast af gleði en ekki óhamingju og leiðindum. Kristið heimili ætti að vera friðsælt athvarf. Hverfum stundarkorn 3.000 ár aftur í tímann. Naomí, öldruð ekkja, var á leið frá Móab til Júda ásamt móabískum tengdadætrum sínum, þeim Orpu og Rut. Þær voru einnig ekkjur. Naomí hvatti ungu konurnar til að snúa heim til ættfólks síns. En Rut hélt tryggð við Naomí og hinn sanna Guð. Hún virti það að hjónabandið var gjöf frá Guði og giftist Bóasi sem var roskinn þjónn Jehóva. Hann sagði við hana: „Drottinn, Guð Ísraels, launi þér verk þitt til fullnustu fyrst að þú ert komin til að leita verndar undir vængjum hans.“ (Rut. 1:9; 2:12) Þegar hún rís upp hér á jörð í nýjum heimi uppgötvar hún sér til ánægju að hún var ein af formæðrum Jesú Krists. (Matt. 1:1, 5, 6; Lúk. 3:23, 32) Hún var Jehóva trú og hlaut mikla blessun fyrir.

LEIÐBEININGAR FYRIR FARSÆLT HJÓNABAND

12. Hvar er hægt að finna áreiðanlegar leiðbeiningar um hjónabandið?

12 Höfundur hjónabandsins segir okkur allt sem við þurfum að vita um farsælt hjónaband. Enginn maður býr yfir jafn mikilli vitneskju og hann. Biblían fer alltaf með rétt mál og besta leiðin til að gefa góð ráð um hjónaband er að fylgja leiðbeiningum hennar. Páli postula var til dæmis innblásið að skrifa: „Hver og einn skal elska eiginkonu sína eins og sjálfan sig en konan beri lotningu fyrir manni sínum.“ (Ef. 5:33) Það er ekki erfitt fyrir þroskaðan kristinn einstakling að skilja þessar leiðbeiningar. Spurningin er hvort hann fer eftir þeim. Hann gerir það ef hann lítur á hjónabandið sem gjöf frá Guði. *

13. Hvað getur gerst ef eiginmaður fer ekki eftir leiðbeiningunum í 1. Pétursbréfi 3:7?

13 Kristinn eiginmaður á að vera ástúðlegur við konuna sína. Pétur postuli skrifaði: „Eins skuluð þið, eiginmenn, sýna eiginkonum ykkar nærgætni sem hinum veikari og virða þær mikils því að þær munu erfa með ykkur náðina og lífið. Þá hindrast bænir ykkar ekki.“ (1. Pét. 3:7) Bænir eiginmanns geta hindrast ef hann fer ekki eftir leiðbeiningum Jehóva. Það er hætt við að það komi niður á sambandi hjónanna beggja við Jehóva. Það getur valdið miklu álagi, deilum og jafnvel illindum.

14. Hvaða áhrif getur ástrík eiginkona haft á fjölskyldulífið?

14 Eiginkona á drjúgan þátt í að gera heimilið friðsælt og hamingjuríkt ef hún fylgir orði Jehóva og handleiðslu heilags anda. Það er guðhræddum eiginmanni eðlislægt að elska og vernda konuna sína, bæði bókstaflega og andlega. Hún þráir ást hans og leggur sitt af mörkum til að vera elskuð. „Viska kvennanna reisir húsið en fíflska þeirra rífur það niður með berum höndum,“ segir í Orðskviðunum 14:1. Vitur og ástrík eiginkona á drjúgan þátt í farsæld og hamingju fjölskyldunnar. Hún sýnir í einu og öllu að hún lítur á hjónabandið sem gjöf frá Guði.

15. Hvaða leiðbeiningar er að finna í Efesusbréfinu 5:21-25?

15 Hjón sýna að þau virða hjónabandið sem gjöf Guðs með því að hafa samband Jesú við söfnuðinn að fyrirmynd. (Lestu Efesusbréfið 5:21-25.) Það er mikil blessun þegar hjón elska hvort annað innilega og spilla ekki hjónabandinu með stolti eða með ókristilegri framkomu, svo sem að fara í fýlu og tala ekki við makann, eins barnalegt og það nú er.

ENGINN MÁ SKILJA ÞAU SUNDUR

16. Af hverju eru sumir þjónar Guðs einhleypir?

16 Flestir áforma að giftast einhvern tíma á lífsleiðinni. Sumir þjónar Jehóva eru þó einhleypir af því að þeir hafa ekki fundið sér maka sem er sjálfum þeim og Jehóva að skapi. Aðrir hafa kosið að vera einhleypir og geta þess vegna einbeitt sér að því að þjóna Jehóva án þess að hjónaband trufli. Það er líka gjöf Guðs. En þeir sem eru einhleypir verða auðvitað að virða þau mörk sem Jehóva setur. – Matt. 19:10-12; 1. Kor. 7:1, 6, 7, 17.

17. (a) Hvað sagði Jesús um hjónabandið sem við ættum að hafa hugfast? (b) Hvað ætti kristinn maður að gera tafarlaust ef hann fer að girnast maka einhvers annars?

17 Hvort sem við erum gift eða einhleyp þurfum við öll að hafa í huga orð Jesú: „Hafið þið eigi lesið að skaparinn gerði þau frá upphafi karl og konu og sagði: Fyrir því skal maður yfirgefa föður og móður og búa með konu sinni og þau tvö skulu verða einn maður. Þannig eru þau ekki framar tvö heldur einn maður. Það sem Guð hefur tengt saman má eigi maðurinn sundur skilja.“ (Matt. 19:4-6) Það er synd að girnast maka einhvers annars. (5. Mós. 5:21) Ef þjónn Guðs verður var við slíka löngun hjá sér ætti hann tafarlaust að uppræta hana. Það getur verið sársaukafullt ef hann hefur alið með sér þessa eigingjörnu löngun. (Matt. 5:27-30) Það er samt áríðandi að leiðrétta óhreinan hugsunarhátt og bægja frá sér syndugum löngunum hins svikula hjarta. – Jer. 17:9.

18. Hvernig finnst þér að við eigum að líta á hjónabandið?

18 Margir bera vissa virðingu fyrir hjónabandinu þótt þeir viti lítið eða ekkert um Jehóva Guð og leiðbeiningar hans um þessa frábæru gjöf. Við erum vígð ,hinum sæla Guði‘ og fögnum því að geta sýnt með líferni okkar hve mikils við metum og virðum þá gjöf hans sem hjónabandið er. – 1. Tím. 1:11, Biblían 1912.

[Neðanmáls]

[Spurningar]

[Innskot á bls. 6]

Gott hjónaband er Jehóva til heiðurs og getur veitt öllum í fjölskyldunni mikla hamingju.

[Mynd á bls. 5]

Rut sýndi að hún leit á hjónabandið sem gjöf Guðs.

[Mynd á bls. 7]

Sýnirðu að þú lítir á hjónabandið sem gjöf frá Jehóva?