Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Mér finnst ánægjulegra með hverjum degi að starfa sem farandbóksali“

„Mér finnst ánægjulegra með hverjum degi að starfa sem farandbóksali“

Úr sögusafninu

„Mér finnst ánægjulegra með hverjum degi að starfa sem farandbóksali“

ÁRIÐ 1886 voru hundrað eintök af fyrsta bindi bókaraðarinnar Millennial Dawn (Dögun þúsundáraríkisins) send frá Biblíuhúsinu í Allegheny í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum áleiðis til Chicago. Charles Taze Russell vonaðist til að geta dreift þessu nýja bindi í bókaverslunum. Eitt stærsta fyrirtæki í Bandaríkjunum, sem annaðist dreifingu trúarlegra bóka, hafði fallist á að taka Millennial Dawn í umboðssölu. En hálfum mánuði síðar var allri bókasendingunni skilað.

Víðkunnur prédikari hafði víst móðgast þegar hann sá að Millennial Dawn var stillt upp við hliðina á bókunum hans. Hann sagði fokvondur að ef bókin yrði ekki fjarlægð úr hillum verslunarinnar myndu hann og allir hinir frægu vinir hans í hópi prédikara leita annað með bækur sínar og viðskipti. Fyrirtækið sá sig tilneytt til að skila Millennial Dawn bókasendingunni. Bókin hafði einnig verið auglýst í dagblöðum en andstæðingar sáu til þess að auglýsingasamningunum væri rift. Hvernig átti þá að koma þessu nýja riti í hendur þeirra sem leituðu sannleikans?

Þar komu til skjalanna farandbóksalar eins og þeir voru kallaðir. * Í Varðturninum hafði árið 1881 verið óskað eftir þúsund prédikurum til að dreifa biblíutengdum ritum í fullu starfi. Þó að farandbóksalarnir væru enn ekki nema nokkur hundruð talsins dreifðu þeir fræjum sannleikans á prentuðu máli vítt og breitt. Árið 1897 var búið að dreifa næstum einni milljón eintaka af Millennial Dawn, aðallega af farandbóksölum. Flestir þeirra lifðu á litlu framlagi sem þeir fengu fyrir að dreifa hverri bók og fyrir að safna áskriftum að Varðturninum.

Hverjir skipuðu sveit þessara hugrökku farandbóksala? Sumir byrjuðu á unglingsaldri en aðrir á efri æviárum. Margir voru einhleypir, aðrir giftir en barnlausir, og þó nokkrar fjölskyldur slógust í hópinn. Farandbóksalar störfuðu langan dag og aðstoðarbóksalar einn eða tvo tíma á dag. Ekki höfðu allir heilsu eða aðstæður til að vera farandbóksalar. En á móti árið 1906 var þeim sem gætu það sagt að þeir þyrftu ekki að vera „mjög lærðir eða hæfileikaríkir eða tala tungu engla“.

Í nálega öllum heimshlutum vann venjulegt fólk óvenjulegt starf. Bróðir nokkur áætlaði að hann hefði dreift 15.000 bókum á sjö árum. „En ég lagði ekki út í þetta starf til að vera bóksali heldur til að vera vottur um Jehóva og sannleika hans,“ sagði hann. Sannleikurinn skaut rótum hvar sem bóksalarnir fóru um og hópum biblíunemenda fjölgaði jafnt og þétt.

Prestar litu niður á farandbóksalana og sögðu þá vera ótínda prangara. Árið 1892 stóð í Varðturninum: „Fáir líta á þá sem sanna fulltrúa Drottins eða viðurkenna þá göfgi sem Drottinn sér í auðmýkt þeirra og fórnfýsi.“ Líf farandbóksalanna var enginn dans á rósum eins og einn þeirra komst að orði. Góðir skór og reiðhjól voru helstu farartækin. Þar sem reiðufé var af skornum skammti skiptu farandbóksalar á bókum og matvælum. Eftir langan dag úti á akrinum komu þeir þreyttir en glaðir í tjöld sín eða leiguherbergi. Síðan kom bóksalavagninn til skjalanna en það var heimasmíðaður húsvagn sem sparaði bæði tíma og fjármuni. *

Frá og með mótinu í Chicago árið 1893 voru sérstakir dagskrárliðir helgaðir farandbóksölu. Þar var skipst á líflegum frásögum, stungið upp á boðunaraðferðum og gefin góð ráð. Bróðir Russell hvatti einu sinni duglega boðbera til að borða staðgóðan morgunverð, fá sér mjólkurglas á miðjum morgni og rjómaís með gosi á heitum degi.

Farandbóksalar gengu með gulan borða ef þá vantaði starfsfélaga. Nýir fengu þá reyndari í lið með sér. Það var greinilega þörf á þjálfun og kennslu því að nýr farandbóksali sýndi einu sinni bækurnar taugaóstyrkur og sagði: „Þú vilt víst ekki fá þessar bækur?“ Sem betur fer þáði konan bækurnar og varð síðar systir.

Bróðir nokkur velti fyrir sér hvort hann ætti frekar að gerast farandbóksali eða halda áfram í ábatasömu starfi og gefa þúsund dollara á ári til starfseminnar. Honum var sagt að Drottinn kynni að meta hvort tveggja en sjálfur hlyti hann meiri blessun ef hann helgaði Drottni tíma sinn beint. Mary Hinds komst að þeirri niðurstöðu að farandbóksala væri „besta leiðin til að gera sem mest fyrir sem flesta“. Og Alberta Crosby sagði þótt feimin væri: „Mér finnst ánægjulegra með hverjum degi að starfa sem farandbóksali.“

Margir afkomendur þessara duglegu farandbóksala og margir sem lærðu sannleikann af þeim halda enn í heiðri þá arfleifð sem þeir fengu. Ef enginn farandbóksali eða brautryðjandi er í þinni ætt væri kannski ráð að reyna að koma á slíkri hefð í fjölskyldunni. Þá á þér líka eftir að finnast ánægjulegra með hverjum degi að boða fagnaðarerindið í fullu starfi.

[Neðanmáls]

^ gr. 5 Eftir 1931 var tekið upp heitið „brautryðjandi“ í stað „farandbóksala“.

^ gr. 8 Fjallað verður meira um húsvagnana síðar.

[Innskot á bls. 32]

Þeir þurftu ekki að vera „mjög lærðir eða hæfileikaríkir eða tala tungu engla“.

[Mynd á bls. 31]

A. W. Osei, farandbóksali í Gana um 1930.

[Myndir á bls. 32]

Efri mynd: Edith Keen og Gertrude Morris, farandbóksalar á Englandi um 1918. Neðri mynd: Stanley Cossaboom og Henry Nonkes í Bandaríkjunum með tóma kassa undan bókum sem þeir höfðu dreift.