Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Í hvaða skilningi er ,dauði dýrkenda Drottins dýr í augum hans‘?

▪ Sálmaskáldið söng innblásið af Guði: „Dýr er í augum Drottins dauði dýrkenda hans.“ (Sálm. 116:15) Líf allra sem tilbiðja Jehóva í sannleika er afar dýrmætt í augum hans. En í Sálmi 116, sem hér er vitnað í, er ekki átt við dauða einstakra manna sem þjóna Guði.

Þegar flutt er minningarræða er ekki viðeigandi að heimfæra Sálm 116:15 upp á hinn látna, jafnvel þó að hann hafi dáið sem dyggur dýrkandi Jehóva. Hvers vegna? Vegna þess að orð sálmaskáldsins hafa breiðari merkingu. Þau merkja að Jehóva telur dýrkendur sína of dýrmæta til að þeir deyi sem hópur. – Sjá Sálm 72:14; 116:8.

Sálmur 116:15 veitir okkur vissu fyrir því að Jehóva sjái til þess að dyggir þjónar hans sem hópur verði aldrei afmáðir með öllu af jörðinni. Nútímasaga okkar sýnir að við höfum gengið í gegnum erfiðar prófraunir og ofsóknir, og vitnar þannig ótvírætt um að Guð leyfir ekki að okkur verði útrýmt.

Þar sem Jehóva býr yfir ótakmörkuðu afli og lætur vilja sinn alltaf ná fram að ganga leyfir hann ekki að við verðum afmáð sem hópur. Ef hann gerði það væri engu líkara en að óvinir hans væru honum yfirsterkari – og það er óhugsandi. Þá myndi sú fyrirætlun Jehóva að jörðin verði byggð dyggum þjónum hans fara út um þúfur – og það getur ekki gerst. (Jes. 45:18; 55:10, 11) Ef engir menn yrðu eftir í jarðneskum forgörðum andlegs musteris Jehóva myndi enginn veita honum heilaga þjónustu hér á jörð. Þá yrðu engir eftir til að mynda „nýja jörð“, það er að segja réttlátt nýtt mannfélag undir ,nýjum himni‘. (Opinb. 21:1) Og þúsundáraríki Krists getur ekki orðið að veruleika nema það eigi sér þegna hér á jörð. – Opinb. 20:4, 5.

Ef Guð leyfði að óvinir hans útrýmdu þjónum hans á jörð með öllu myndi það draga stöðu hans og orðstír í efa. Það myndi kasta rýrð á hann sem Drottin alheims. Vegna virðingar fyrir sjálfum sér og heilögu nafni sínu leyfir hann ekki að dyggir þjónar sínir deyi sem hópur. Og þar sem ranglæti fyrirfinnst ekki hjá Guði er annað óhugsandi en að hann verndi þá sem hafa þjónað honum í trúfesti. (5. Mós. 32:4; 1. Mós. 18:25) Ef hann leyfði að þjónum hans yrði tortímt öllum sem einum myndi það líka ganga í berhögg við það sem segir um hann í Biblíunni: „Vegna síns mikla nafns mun hann ekki hafna lýð sínum.“ (1. Sam. 12:22) Það er hverju orði sannara að „Drottinn mun ekki hafna lýð sínum, hann mun ekki yfirgefa arfleifð sína“. – Sálm. 94:14.

Það er einkar hughreystandi til þess að vita að þjónar Jehóva hverfa aldrei af jörðinni. Við skulum því fyrir alla muni vera Jehóva trú og treysta loforði hans: „Ekkert vopn, sem smíðað verður gegn þér, skal reynast sigursælt og sérhverja tungu, sem mælir gegn þér, skaltu dæma seka. Þetta er hlutskipti þjóna Drottins og sá réttur sem þeir fá frá mér, segir Drottinn.“ – Jes. 54:17.

[Innskot á bls. 22]

Guð leyfir aldrei að þjónum hans verði útrýmt.