Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Treystu Jehóva – Guði sem „ræður tímum og tíðum“

Treystu Jehóva – Guði sem „ræður tímum og tíðum“

Treystu Jehóva – Guði sem „ræður tímum og tíðum“

„Hann ræður tímum og tíðum, sviptir konunga völdum og kemur konungum til valda.“ – DAN. 2:21.

HVERT ER SVARIÐ?

Hvernig má sjá af sköpunarverkinu og uppfylltum spádómum að Jehóva er mesti tímavörður alheims?

Hvað gerum við af því að við vitum að Jehóva Guð „ræður tímum og tíðum“?

Hvers vegna stjórnast tímaáætlun Jehóva hvorki af atburðum í heiminum né áformum manna?

1, 2. Hvað sýnir að Jehóva skilur eðli tímans í þaula?

JEHÓVA GUÐ sá fyrir leið til að mæla tímann löngu áður en hann skapaði manninn. Á fjórða sköpunardeginum sagði hann: „Verði ljós á hvelfingu himins til þess að greina dag frá nóttu. Þau skulu vera tákn til þess að marka tíðir, daga og ár.“ (1. Mós. 1:14, 19, 26) Og þetta gerðist auðvitað í samræmi við vilja Jehóva.

2 En vísindamenn eru ekki á eitt sáttir um eðli tímans enn sem komið er. „Tíminn er einn af mestu leyndardómum veraldar,“ segir í alfræðiorðabók. „Enginn getur skýrt nákvæmlega hvað hann er.“ En Jehóva skilur eðli tímans í þaula því að hann er „skapari himinsins . . . hann mótaði jörðina og bjó hana til“. Hann „kunngjörði endalokin frá öndverðu og sagði fyrir fram það sem eigi var enn fram komið.“ (Jes. 45:18; 46:10) Til að styrkja trúna á Jehóva og orð hans, Biblíuna, skulum við kanna hvernig sköpunarverkið og uppfylltir spádómar sýna að hann er mesti tímavörður alheims.

SKÖPUNARVERKIÐ STYRKIR TRÚNA Á TÍMASETNINGAR JEHÓVA

3. Nefndu dæmi um nákvæmar tímasetningar í efnisheiminum.

3 Tímasetningar í efnisheiminum eru hárnákvæmar jafnt í hinu agnarsmáa sem hinu ógnarstóra. Atóm hafa fasta sveiflutíðni. Atómklukkur eru stilltar eftir tíðni ákveðinna frumefna og eru svo nákvæmar að ekki skeikar nema 1 sekúndu á 80 milljónum ára. Hreyfingar stjarna og reikistjarna eru einnig tímasettar af mikilli nákvæmni. Þar sem staða himintunglanna er fyrirsjáanleg hafa þau verið notuð til að ákvarða árstíðaskipti og til að rata eftir. Jehóva smíðaði þessar nákvæmu „klukkur“, og þar sem hann er „voldugur að afli“ verðskuldar hann að við lofum hann og vegsömum. – Lestu Jesaja 40:26.

4. Hvernig bera innbyggðar klukkur lifandi vera vitni um visku Guðs?

4 Lifandi verur stjórnast einnig af nákvæmum tímasetningum. Æviskeið margra jurta og dýra fylgir eins konar innbyggðum klukkum. Margar tegundir fugla vita af eðlishvöt hvenær þær eiga að flytja sig á vetrar- og sumarstöðvar. (Jer. 8:7) Mennirnir hafa líka innbyggðar klukkur sem ganga flestar í takt við skiptingu sólarhringsins í dag og nótt. Ef við ferðumst flugleiðis yfir nokkur tímabelti getur líkaminn þurft nokkra daga til að stilla klukkurnar upp á nýtt. Hin mörgu dæmi um tímasetningar í sköpunarverkinu vitna um visku og mátt Jehóva sem „ræður tímum og tíðum“. (Lestu Sálm 104:24.) Já, tímavörðurinn mikli er bæði alvitur og almáttugur. Við getum treyst að hann sé fær um að hrinda í framkvæmd öllu sem hann ætlar sér.

TRAUSTVEKJANDI AÐ SPÁDÓMAR RÆTAST Á RÉTTUM TÍMA

5. (a) Hver er eina leiðin til að fá vitneskju um framtíð mannkyns? (b) Af hverju getur Jehóva sagt fyrir hvað gerist og hvenær?

5 Við lærum ótalmargt um „hið ósýnilega eðli“ Jehóva af sköpunarverkinu. Það lætur þó ósvarað mikilvægum spurningum eins og hvaða framtíð bíði mannkyns. (Rómv. 1:20, Biblían 1981) Til að fá svar við því þurfum við að kynna okkur það sem Jehóva hefur opinberað í Biblíunni. Þar finnum við fjölda dæma um spádóma sem hafa allir ræst nákvæmlega á réttum tíma. Jehóva getur opinberað óorðna atburði vegna þess að hann er fær um að sjá framtíðina fyrir í smáatriðum. Og spádómar Biblíunnar rætast á réttum tíma vegna þess að Jehóva Guð getur látið atburði eiga sér stað í samræmi við vilja sinn og tímaáætlun.

6. Hvernig sjáum við að Jehóva vill að við skiljum spádóma Biblíunnar?

6 Jehóva vill að þjónar sínir skilji spádóma Biblíunnar og hafi gagn af þeim. Þó að hann sé ekki bundinn af tímaskyni okkar notar hann orðfæri sem við skiljum þegar hann boðar að vissir atburðir eigi að gerast á ákveðnum tíma. (Lestu Sálm 90:4.) Í Opinberunarbókinni er til dæmis talað um „englana fjóra“ sem eru búnir „til þessarar stundar, þessa dags, þessa mánaðar og þessa árs“. (Opinb. 9:14, 15) Hér eru notaðar tímaeiningar sem við skiljum. Það styrkir trúna á Guð, sem „ræður tímum og tíðum“, og á orð hans þegar við sjáum hvernig spádómar hans rættust á tilsettum tíma. Lítum á dæmi.

7. Hvernig sýnir spádómur Jeremía um Jerúsalem og Júda að Jehóva stendur við tímasetningar sínar?

7 Við skulum hverfa stundarkorn aftur til sjöundu aldar f.Kr. Orð Jehóva „kom til Jeremía um alla Júdamenn á fjórða stjórnarári Jójakíms Jósíasonar Júdakonungs“. (Jer. 25:1) Jehóva boðaði að Jerúsalem yrði eydd og Gyðingar fluttir í útlegð frá Júda til Babýlonar. Þar myndu þeir „verða þrælar konungsins í Babýlon í sjötíu ár“. Her Babýlonar eyddi Jerúsalem árið 607 f.Kr. og Gyðingar voru fluttir nauðugir frá Júda til Babýlonar. En hvað átti að gerast að 70 árunum liðnum? Jeremía spáði: „Svo segir Drottinn: Þegar sjötíu ár eru liðin í Babýlon mun ég vitja yðar. Þá mun ég standa við heit mitt og flytja yður aftur til þessa staðar.“ (Jer. 25:11, 12; 29:10) Þessi spádómur rættist nákvæmlega á réttum tíma, árið 537 f.Kr., eftir að Medar og Persar frelsuðu Gyðinga undan valdi Babýloníumanna.

8, 9. Hvernig sýna spádómar Daníels um komu Messíasar og himneskt ríki Guðs að Jehóva er Guð sem „ræður tímum og tíðum“?

8 Lítum á annan spádóm sem varðar þjóð Guðs til forna. Um tveim árum áður en Gyðingar fóru frá Babýlon bar Daníel spámaður fram spádóm frá Guði. Hann var á þá lund að Messías myndi koma fram 483 árum eftir að tilskipun yrði gefin um endurbyggingu Jerúsalem. Konungur Medíu-Persíu gaf þessa skipun árið 455 f.Kr. Nákvæmlega 483 árum síðar, það er að segja árið 29, skírðist Jesús frá Nasaret og var smurður heilögum anda. Þar með varð hann Messías. *Neh. 2:1, 5-8; Dan. 9:24, 25; Lúk. 3:1, 2, 21, 22.

9 Að síðustu skulum við skoða hverju spáð var í Biblíunni um ríki Guðs. Samkvæmt spádómunum yrði Messías krýndur sem konungur á himnum árið 1914. Það er meðal annars gefið til kynna með tákninu um nærveru Jesú sem lýst er í Biblíunni, en þá yrði Satan úthýst af himnum og það myndi hafa í för með sér miklar hörmungar á jörðinni. (Matt. 24:3-14; Opinb. 12:9, 12) Tímasetningin – árið 1914 – er gefin nákvæmlega í öðrum biblíuspádómi. Það ár áttu „tímar heiðingjanna“ að taka enda og ríki Guðs taka við völdum á himnum. – Lúk. 21:24; Dan. 4:10-17. *

10. Hvaða atburðir eiga eftir að gerast á réttum tíma?

10 Fram undan er „sú mikla þrenging“ sem Jesús spáði og í kjölfar hennar kemur þúsundáraríkið. Það leikur enginn vafi á að þessir atburðir gerast nákvæmlega á réttum tíma. Jehóva var búinn að ákveða bæði „dag og stund“ endur fyrir löngu þegar Jesús var hér á jörð. – Matt. 24:21, 36; Opinb. 20:6.

NOTUM HVERJA STUND

11. Hvað ættum við að gera fyrst við vitum á hvaða tímum við lifum?

11 Hvað eigum við að gera fyrst við vitum að ríki Guðs er tekið til starfa og það „dregur að endalokum“? (Dan. 12:4) Margir viðurkenna að ástandið í heiminum versni en gera sér ekki grein fyrir að spádómar Biblíunnar um síðustu daga eru að rætast. Þeir búast kannski við að allt endi með ósköpum fyrr eða síðar eða trúa að mönnum takist einhvern veginn að koma á friði og öryggi. (1. Þess. 5:3) En hvað um okkur? Trúum við að heimur Satans sé í þann mund að líða undir lok? Ættum við þá ekki að nota þann tíma sem eftir er til að þjóna Guði sem best og hjálpa öðrum að kynnast honum? (2. Tím. 3:1) Við ættum að nota tímann skynsamlega. – Lestu Efesusbréfið 5:15-17.

12. Hvað má læra af því sem Jesús sagði um daga Nóa?

12 Það er ekki auðvelt að nota hverja stund viturlega því að það er svo margt í heiminum sem glepur. „Eins og var á dögum Nóa, svo mun verða við komu Mannssonarins,“ sagði Jesús. Hvernig voru dagar Nóa? Guð hafði boðað að sá heimur sem þá var myndi líða undir lok í heimsflóði og óguðlegir menn drukkna. Nói var ,boðberi réttlætisins‘ og boðaði samtíðarfólki sínu boðskap Guðs dyggilega. (Matt. 24:37; 2. Pét. 2:5) En menn „átu . . . og drukku, kvæntust og giftust . . . og þeir vissu ekki fyrr en flóðið kom og hreif þá alla burt“. Þess vegna sagði Jesús: „Verið þér og viðbúin því að Mannssonurinn kemur á þeirri stundu sem þér ætlið eigi.“ (Matt. 24:38, 39, 44) Við verðum að líkja eftir Nóa, ekki samtíðarfólki hans. Hvað getum við gert til að vera viðbúin?

13, 14. Hvað þurfum við að hafa hugfast varðandi Jehóva meðan við bíðum þess að Mannssonurinn komi?

13 Þó að Mannssonurinn komi á þeirri stundu sem við ætlum ekki þurfum við að hafa hugfast að Jehóva „ræður tímum og tíðum“. Tímaáætlun hans stjórnast hvorki af atburðum í heiminum né áformum manna. Jehóva ákveður tímasetningar og framvindu mála þannig að vilji hans nái fram að ganga. (Lestu Daníel 2:21.) Í Orðskviðunum 21:1 segir: „Hjarta konungsins er sem lækir í hendi Drottins, hann sveigir þá hvert sem honum þóknast.“

14 Jehóva getur haft áhrif á framvindu mála til að fyrirætlun hans nái fram að ganga innan settra tímamarka. Margir stórviðburðir í heiminum eru uppfylling biblíuspádóma, ekki síst spádóma sem tengjast boðun fagnaðarerindisins um ríkið. Munum hvað gerðist í kjölfar þess að Sovétríkin gliðnuðu í sundur. Fáir höfðu ímyndað að sér þvílíkar breytingar í stjórnmálum gætu orðið á jafn skömmum tíma. Þær höfðu hins vegar í för með sér að fagnaðarerindið er nú boðað í mörgum löndum þar sem starf okkar var áður bannað. Við skulum því fyrir alla muni nota hverja stund til að þjóna Jehóva Guði sem „ræður tímum og tíðum“.

TREYSTUM Á TÍMASETNINGAR JEHÓVA

15. Hvernig getum við sýnt trú og traust þegar gerðar eru breytingar sem tengjast boðunarstarfinu?

15 Við þurfum að treysta á tímasetningar Jehóva til að halda áfram að boða fagnaðarerindið núna á síðustu dögum. Ástandið í heiminum er breytilegt og það getur útheimt að við breytum að einhverju marki aðferðum okkar við boðun og kennslu. Söfnuður Jehóva gerir stundum breytingar til að hjálpa okkur að ná sem bestum árangri í boðunarstarfinu. Við sýnum að við treystum Guði sem „ræður tímum og tíðum“ með því að laga okkur að þessum breytingum og þjóna trúföst undir umsjón sonar hans sem er höfuð safnaðarins. – Ef. 5:23.

16. Af hverju getum við treyst að Jehóva veiti hjálp á réttum tíma?

16 Jehóva vill að við biðjum til sín hvenær sem er í trausti þess að hann veiti okkur hjálp á réttum tíma. (Hebr. 4:16) Ber það ekki vitni um ást hans og umhyggju fyrir okkur hverju og einu? (Matt. 6:8; 10:29-31) Við sýnum að við trúum og treystum á Jehóva Guð með því að biðja oft um hjálp hans og með því að breyta í samræmi við bænir okkar og handleiðslu hans. Við munum líka eftir að biðja fyrir trúsystkinum okkar.

17, 18. (a) Til hvaða aðgerða grípur Jehóva brátt gagnvart óvinum sínum? (b) Hvaða gildru verðum við að forðast?

17 Nú er ekki rétti tíminn til að ,efast í vantrú heldur styrkjast í trúnni‘. (Rómv. 4:20) Óvinir Guðs – Satan og þeir sem eru undir áhrifum hans – reyna að stöðva starfið sem Jesús fól fylgjendum sínum, þar á meðal okkur. (Matt. 28:19, 20) Þótt Satan ráðist á okkur vitum við að Jehóva er lifandi Guð sem er „frelsari allra manna, einkum trúaðra“. Hann „veit . . . hvernig hann á að hrífa hina guðhræddu úr freistingu“ og öðrum prófraunum. – 1. Tím. 4:10; 2. Pét. 2:9.

18 Innan skamms bindur Jehóva enda á þennan illa heim. Við höfum ekki fengið að vita í smáatriðum hvenær það gerist eða hvernig. Hitt vitum við að Kristur eyðir óvinum Jehóva nákvæmlega á réttum tíma. Þá verður öllum ljóst að Jehóva er réttmætur Drottinn alheims. Það væru mikil mistök að bera ekki skyn á „tíma og tíðir“ og missa sjónar á því á hvaða tímum við lifum. Göngum aldrei í þá gildru að hugsa sem svo að ,allt standi við hið sama eins og frá upphafi veraldar‘. – 1. Þess. 5:1; 2. Pét. 3:3, 4.

BÍÐUM EFTIR GUÐI

19, 20. Af hverju ættum við að bíða eftir Jehóva?

19 Þegar Jehóva Guð skapaði mennina ætlaði hann þeim að eiga eilífðina fyrir sér til að fræðast um hann og öll hin fögru sköpunarverk hans. Í Prédikaranum 3:11 stendur: „Allt hefur [Jehóva] gert hagfellt á sínum tíma, jafnvel eilífðina hefur hann lagt í brjóst þeirra en maðurinn fær ekki skilið að fullu það verk sem Guð vinnur.“

20 Það er gleðilegt fyrir okkur að Jehóva skuli aldrei hafa breytt fyrirætlun sinni með mennina. (Mal. 3:6) Hjá honum er „engin umbreyting né flöktandi skuggar. Hann er ávallt hinn sami.“ (Jak. 1:17) Tímaáætlun Jehóva stjórnast ekki af snúningi jarðar eða öðru sem mennirnir nota til að mæla tímann. Hann er ,konungur eilífðar‘. (1. Tím. 1:17) Við skulum því ,bíða eftir Guði hjálpræðis okkar‘. (Míka 7:7) Gerum eins og hvatt er til í Sálmi 31:25: „Verið sterkir og hughraustir, allir sem bíðið Drottins.“

[Neðanmáls]

[Spurningar]

[Mynd á bls. 19]

Daníel trúði að spádómar Guðs myndu rætast.

[Mynd á bls. 21]

Notarðu tímann vel til að gera vilja Jehóva?