Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Varist súrdeig farísea“

„Varist súrdeig farísea“

„Varist súrdeig farísea“

Jesús gaf lærisveinunum þessa viðvörun: „Varist súrdeig farísea sem er hræsnin.“ (Lúk. 12:1) Í hliðstæðri frásögu er augljóst að Jesús var með þessum orðum að fordæma „kenningu“ farísea. – Matt. 16:12.

„Súrdeig“ eða ger er stundum notað í Biblíunni sem táknmynd um spillingu. Það leikur enginn vafi á því að kenningar og viðhorf farísea höfðu spillandi áhrif á áheyrendur þeirra. En hvers vegna voru þessar kenningar svona varasamar?

1 Farísear stærðu sig af því að vera réttlátir og litu niður á almenning.

Jesús lýsti þessari sjálfumgleði í dæmisögu einni. Hann sagði: „Faríseinn sté fram og baðst þannig fyrir: Guð, ég þakka þér að ég er ekki eins og aðrir menn, ræningjar, ranglátir, hórkarlar eða þá eins og þessi tollheimtumaður. Ég fasta tvisvar í viku og geld tíund af öllu sem ég eignast. En tollheimtumaðurinn stóð langt frá og vildi ekki einu sinni hefja augu sín til himins heldur barði sér á brjóst og sagði: Guð, vertu mér syndugum líknsamur!“ – Lúk. 18:11-13.

Jesús hrósaði tollheimtumanninum fyrir að vera auðmjúkur. Hann sagði: „Tollheimtumaðurinn fór heim til sín sáttur við Guð, hinn [faríseinn] ekki, því að hver sem upp hefur sjálfan sig mun auðmýktur verða en sá sem lítillækkar sjálfan sig mun upp hafinn verða.“ (Lúk. 18:14) Þó að tollheimtumenn hefðu orð á sér fyrir að vera óheiðarlegir vildi Jesús hjálpa þeim ef þeir hlustuðu á hann. Að minnsta kosti tveir tollheimtumenn, Matteus og Sakkeus, urðu lærisveinar hans.

Hvað ef okkur fyndist við vera betri en aðrir vegna meðfæddra hæfileika, verkefna sem við höfum fengið eða vegna mistaka og veikleika annarra? Við ættum að vera fljót að ýta frá okkur slíkum hugsunum því að í Biblíunni stendur: „Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn. Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni [„hlakkar ekki yfir syndum annarra“, The New English Bible] en samgleðst sannleikanum.“ – 1. Kor. 13:4-6.

Við ættum að hafa svipað hugarfar og Páll postuli. Eftir að hafa bent á að „Kristur Jesús kom í heiminn til að frelsa synduga menn“ bætti hann við: „Er ég þar fremstur í flokki.“ – 1. Tím. 1:15.

Til umhugsunar:

Viðurkenni ég að ég er syndugur og að það er bara vegna miskunnar Jehóva sem ég get hlotið hjálpræði? Eða lít ég svo á að trúföst þjónusta mín til margra ára, verkefni í söfnuðinum eða meðfæddir hæfileikar gefi mér ástæðu til að finnast ég vera yfir aðra hafinn?

2 Farísearnir reyndu að ganga í augun á öðrum með réttlætisverkum. Þeir sóttust eftir áberandi stöðum og flottum titlum.

En Jesús varaði fólk við að líkja eftir þeim og sagði: „Öll sín verk gera þeir til að sýnast fyrir mönnum, þeir breikka minnisborða sína og stækka skúfana. Ljúft er þeim að skipa hefðarsæti í veislum og æðsta bekk í samkundum, láta heilsa sér á torgum og kallast meistarar af mönnum.“ (Matt. 23:5-7) Viðhorf Jesú var allt annað. Þó að hann væri fullkominn sonur Guðs var hann auðmjúkur. Þegar maður einn kallaði Jesú „góðan“ svaraði hann: „Hví kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn.“ (Mark. 10:18) Við annað tækifæri þvoði Jesús fætur lærisveinanna og gaf fylgjendum sínum gott fordæmi með auðmýkt sinni. – Jóh. 13:1-15.

Sannkristnir menn ættu að þjóna trúsystkinum sínum. (Gal. 5:13) Þeir sem sækjast eftir þjónustustörfum í söfnuðinum ættu sérstaklega að hafa þetta í huga. Það er gott að sækjast eftir þessu ,göfuga hlutverki‘ en hvötin að baki þarf að vera löngun til að hjálpa öðrum. Þetta starf snýst ekki um að fá háa eða áberandi stöðu eða vald. Jesús var „af hjarta lítillátur“ og það þurfa umsjónarmenn einnig að vera. – 1. Tím. 3:1, 6; Matt. 11:29.

Til umhugsunar:

Á ég það til að taka þá sem gegna ábyrgðarstöðum í söfnuðinum fram yfir aðra? Vonast ég jafnvel eftir að geta þannig fengið betri stöðu eða fleiri verkefni? Sækist ég innst inni frekar eftir þjónustuverkefnum sem aðrir myndu líklega taka eftir og hrósa mér fyrir? Er ég í rauninni upptekinn af því að láta ljós mitt skína?

3 Reglur og erfðavenjur farísea voru þungar byrðar fyrir almenning sem reyndi að fara eftir lögmálinu.

Móselögin náðu yfir allt sem tengdist tilbeiðslu Ísraelsmanna á Jehóva. Hins vegar voru smáatriði ekki stöfuð út. Lögin bönnuðu meðal annars að unnið væri á hvíldardegi en ekki var útlistað í þaula hvað væri vinna og hvað ekki. (2. Mós. 20:10) Þar sem faríseunum fannst vanta eitthvað upp á bættu þeir við lögum, skilgreiningum á þeim og erfðavenjum. Jesús fylgdi Móselögunum en hann hunsaði þessar duttlungafullu reglur faríseanna. (Matt. 5:17, 18; 23:23) Hann einblíndi ekki á bókstaf laganna heldur skynjaði andann að baki og þörfina fyrir miskunn og hluttekningu. Hann var sanngjarn jafnvel þegar fylgjendur hans brugðust honum. Þótt Jesús hafi beðið þrjá af postulunum að halda vöku sinni nóttina sem hann var handtekinn sofnuðu þeir aftur og aftur. En Jesús var skilningsríkur við þá og sagði: „Andinn er reiðubúinn en holdið veikt.“ – Mark. 14:34-42.

Til umhugsunar:

Á ég það til að setja ósveigjanlegar reglur eftir eigin geðþótta eða geri ég persónulegar skoðanir að lögum? Geri ég sanngjarnar kröfur til annarra?

Veltu fyrir þér muninum á kennslu Jesú og kenningum farísea. Gætirðu líkt betur eftir Jesú á einhverjum sviðum? Væri þá ekki góð hugmynd að gera það að markmiði þínu?

[Mynd á bls. 28]

Farísearnir báru á sér hylki sem innihéldu ritningarstaði. – Matt. 23:2, 5.

[Myndir á bls. 29]

Auðmjúkir öldungar þjóna öðrum, ólíkt hrokafullum faríseum.

[Mynd á bls. 30]

Gerirðu sanngjarnar kröfur til annarra eins og Jesús?