Við lærðum að treysta á Jehóva
Ævisaga
Við lærðum að treysta á Jehóva
Oliver Randriamora segir frá
„Ég kann að búa við lítinn kost, ég kann einnig að hafa allsnægtir. Ég er fullreyndur orðinn í öllum hlutum, að vera mettur og hungraður . . . Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gerir.“ – Fil. 4:12, 13.
ÞESSI orð Páls postula hafa löngum verið okkur Oly, eiginkonu minni, mikil hvatning í starfi okkar hér á Madagaskar. Líkt og Páll höfum við lært að treysta fullkomlega á Jehóva.
Við Oly vorum trúlofuð þegar móðir hennar byrjaði að kynna sér Biblíuna með hjálp votta Jehóva árið 1982. Ég fór einnig að kynna mér Biblíuna og Oly gerði það líka nokkru síðar. Við giftumst árið 1983, létum skírast 1985 og strax á eftir urðum við aðstoðarbrautryðjendur. Í júlí 1986 urðum við brautryðjendur.
Í september 1987 fórum við að starfa sem sérbrautryðjendur. Fyrsta verkefnið okkar var í smábæ á norðvestanverðri Madagaskar en þar var enginn söfnuður. Þar búa um 18 þjóðernishópar auk óteljandi ættflokka og þar er mikil fjölbreytni í siðum og erfðavenjum. Malagasy er ríkismálið en þar eru einnig talaðar ólíkar mállýskur. Við tókum því til við að læra mállýskuna sem fólkið talaði á svæðinu sem okkur var úthlutað. Það stuðlaði að því að fólk í samfélaginu fór að taka mark á okkur.
Til að byrja með vorum við þau einu sem mættum á samkomurnar. Ég hélt opinbera ræðu á hverjum sunnudegi og í lok hennar klappaði Oly samviskusamlega. Við sáum einnig um alla dagskrárliði í Boðunarskólanum þar sem Oly talaði við ímyndaðan húsráðanda. Miklu fargi var af okkur létt þegar farandhirðirinn lagði góðfúslega til að við löguðum samkomurnar að aðstæðum okkar!
Þar sem ekki var hægt að treysta á póstsendingar barst mánaðarstyrkurinn ekki reglulega. Við lærðum því að búa við lítinn kost eins og Páll postuli. Eitt sinn höfðum við ekki næga peninga fyrir rútufargjaldinu á svæðismót sem átti að halda í um 130 kílómetra fjarlægð. Þá kom okkur í hug snjallt ráð sem trúbróðir hafði gefið okkur: „Segið Jehóva frá vandamálum ykkar. Þegar allt kemur til alls eruð þið að starfa fyrir hann.“ Við fórum því með bæn og ákváðum að fara fótgangandi. En rétt áður en við lögðum af stað heimsótti trúbróðir okkur óvænt og gaf okkur peningagjöf – og hún nægði fyrir rútufargjaldinu.
FARANDHIRÐISSTARF
Í febrúar 1991 var mér falið að starfa sem farandhirðir. Þá voru orðnir níu boðberar í hópnum
okkar, þar af þrír skírðir. Að meðaltali mættu um 50 manns á samkomur. Eftir að hafa fengið kennslu til starfa vorum við send á farandsvæði í höfuðborginni Antananarivo. Árið 1993 vorum við send á annað farandsvæði í austanverðu landinu. Lífshættir þar voru allt aðrir en í borginni.Við fórum fótgangandi til að ná til safnaða og einangraðra hópa, stundum meira en 140 kílómetra um skógi þakin fjöll. Við höfðum eins lítinn farangur meðferðis og við gátum. En byrðin var auðvitað þyngri þegar opinber ræða farandhirðisins var skyggnusýning eins og stundum gerðist á þessum árum. Oly bar skyggnuvélina en ég burðaðist með 12 volta bílarafgeymi.
Við fórum oft um 40 kílómetra dagleið til að komast til næsta safnaðar. Á leiðinni þrömmuðum við upp og niður fjallastíga, óðum ár og ösluðum leðju. Stundum sváfum við úti við vegarkantinn en við reyndum yfirleitt að finna þorp þar sem við gátum leitað að næturgistingu. Það kom fyrir að við báðum bláókunnugt fólk um að hýsa okkur. Þegar við höfðum komið okkur fyrir fórum við að undirbúa matargerðina. Oly fékk lánaðan pott og sótti vatn í næstu á eða stöðuvatn en ég fékk lánaða öxi til að höggva eldivið. Allt tók þetta sinn tíma. Við keyptum öðru hverju lifandi kjúkling sem við urðum síðan að slátra og gera að.
Eftir mat sóttum við meira vatn til að þvo okkur upp úr. Stundum sváfum við í eldhúsinu. Þegar rigndi gat komið fyrir að við svæfum upp við vegg til að reyna að halda okkur þurrum frá þaklekanum.
Við höfðum alltaf það markmið í huga að vitna fyrir gestgjöfunum. Þegar við komum á áfangastað tóku trúsystkinin okkur opnum örmum með góðvild og gestrisni. Hjartans þakklæti þeirra fyrir að við skyldum heimsækja þau bætti upp óþægindin sem við urðum fyrir á leiðinni.
Þegar við dvöldum á heimilum trúsystkina höfðum við ánægju af að hjálpa þeim við heimilisstörfin. Þá gátu þau í staðinn komið með okkur út í boðunarstarfið. Við bjuggumst ekki við munaði eða sérstökum mat sem gestgjafar okkar höfðu ekki ráð á.
HEIMSÓKNIR TIL EINANGRAÐRA HÓPA
Okkur þótti gaman að heimsækja einangraða hópa þar sem bræður tóku á móti okkur með löngum verkefnalista. Við höfðum varla tíma til að ,hvílast um stund‘. (Mark. 6:31) Á einum stað höfðu vottahjón boðið öllum biblíunemendum sínum, um 40 talsins, heim til sín svo að við gætum tekið þátt í námsstund með þeim. Oly var með systurinni og sinnti um 20 nemendum og ég var með bróðurnum og sinnti hinum 20. Þegar einn nemandi fór tók sá næsti við. Seinna um daginn gerðum við hlé til að halda safnaðarsamkomu. Eftir það héldu svo biblíunámskeiðin áfram. Dagurinn var ein samfelld skorpa og henni lauk oft ekki fyrr en klukkan átta að kvöldi.
Þegar við heimsóttum annan hóp lögðum við öll af stað til nágrannaþorps klukkan átta að morgni. Við vorum í gömlum fötum. Við komum þangað um hádegisbilið eftir langa göngu gegnum skóginn. Við fórum í hrein föt og byrjuðum
undireins að starfa hús úr húsi. Húsin voru fá en boðberarnir margir svo að við komust yfir allt svæðið á um hálftíma. Þá lá leiðin til næsta þorps. Þegar við höfðum lokið við að starfa þar beið okkar langa gangan heim á leið. Í fyrstu vorum við svolítið leið yfir því að hafa eytt drjúgum tíma og kröftum en ekki starfað nema klukkutíma hús úr húsi. En vottarnir á staðnum kvörtuðu ekki. Þeir voru ánægðir.Einn einangraður hópur í Taviranambo bjó efst uppi í fjalli. Þar hittum við vottafjölskyldu sem bjó í eins herbergis húsi. Í öðru litlu húsi rétt hjá voru haldnar samkomur. Allt í einu fór gestgjafi okkar að hrópa hárri röddu: „Bræður!“ Frá næsta fjallstindi heyrðist rödd: „Hæ!“ Gestgjafinn hrópaði aftur: „Farandhirðirinn er kominn!“ og svar barst: „Já!“ Skilaboðin voru greinilega send áfram til þeirra sem bjuggu enn lengra í burtu. Brátt safnaðist fólk saman og þegar samkoman hófst voru yfir 100 mættir.
SAMGÖNGUERFIÐLEIKAR
Árið 1996 vorum við send á nýtt farandsvæði nær Antananarivo á miðhálendinu. Þessu svæði fylgdu einnig ákveðnir erfiðleikar. Þar voru engar reglubundnar almenningssamgöngur til afskekktra staða. Okkur var ætlað að heimsækja hóp í Beankàna (Besakay) um 240 kílómetra frá Antananarivo. Eftir nokkrar samningaviðræður við bílstjórann stigum við upp í lítinn trukk sem var á leið í áttina þangað. Þrjátíu aðrir farþegar voru inni í trukknum eða utan á honum. Nokkrir lágu á þakinu og aðrir héngu aftan á honum.
Eins og oft vill verða bilaði farkosturinn brátt og við héldum áfram fótgangandi. Þegar við höfðum arkað í nokkra klukkutíma kom stór trukkur. Hann var troðfullur af fólki og varningi en bílstjórinn nam samt staðar. Við fengum far með því að láta okkur nægja stæði. Síðar komum við að á en viðgerðir stóðu yfir á brúnni. Og aftur lögðum við land undir fót og náðum loksins til lítils þorps þar sem nokkrir sérbrautryðjendur áttu heima. Það hafði ekki verið á dagskrá að heimsækja þá. En við notuðum tímann til fara með þeim í boðunarstarfið meðan við biðum eftir að viðgerðinni lyki á brúnni og annað farartæki kæmi.
Vika leið áður en það gerðist og við héldum þá ferð okkar áfram. Vegurinn var illa holóttur. Við urðum iðulega að hjálpa til við að ýta ökutækinu yfir holur með hnédjúpu vatni. Oft hrösuðum við
og duttum meðan á því stóð. Í morgunsárið komum við í lítið þorp og stigum út. Við yfirgáfum þjóðveginn og héldum áfram fótgangandi í átt að áfangastaðnum. Við gengum yfir hrísgrjónaakra þar sem gruggugt vatnið náði okkur upp í mitti.Þetta var fyrsta heimsóknin okkar á þessu farandsvæði. Við ákváðum því að vitna fyrir nokkrum mönnum sem unnu á hrísgrjónaökrunum og spyrjast fyrir hvar vottarnir byggju. Við urðum svo sannarlega glöð þegar í ljós kom að verkamennirnir voru trúbræður okkar.
VIÐ HVÖTTUM AÐRA TIL AÐ BOÐA TRÚNA Í FULLU STARFI
Það hefur glatt okkur mikið að sjá hvaða árangri það hefur skilað að hvetja aðra til að gerast brautryðjendur. Við heimsóttum söfnuð þar sem voru níu brautryðjendur og hvöttum hvern þeirra til að setja sér það markmið að hjálpa einum boðbera hver að verða brautryðjandi. Þegar við komum í heimsókn hálfu ári síðar voru brautryðjendurnir orðnir 22. Tvær brautryðjandasystur höfðu hvatt feður sína, sem báðir voru öldungar, til að verða brautryðjendur. Þessir bræður höfðu síðan hvatt þriðja öldunginn til að gera það sama. Stuttu síðar varð þriðji öldungurinn sérbrautryðjandi. Seinna starfaði hann sem farandhirðir ásamt eiginkonu sinni. Hvað varð um hina tvo öldungana? Annar starfar nú sem farandumsjónarmaður og hinn er sjálfboðaliði við að reisa ríkissali.
Við þökkum Jehóva á hverjum degi fyrir hjálpina þar sem við vitum að við getum engu áorkað af eigin rammleik. Að vísu finnum við stundum fyrir þreytu og verðum veik. Samt erum við ánægð þegar við hugsum um árangurinn af boðunarstarfi okkar. Jehóva lætur það sem við gerum í þjónustu hans ná fram að ganga. Við erum ánægð að eiga smá hlutdeild í því en núna erum við sérbrautryðjendur. Við höfum lært að reiða okkur á Jehóva sem veitir okkur styrk til allra hluta.
[Innskot á bls. 6]
Við höfum lært að reiða okkur á Jehóva.
[Kort/Myndir á bls. 4]
Madagaskar, kölluð Stóra rauða eyjan, er fjórða stærsta eyja jarðarinnar. Jarðvegurinn er rauður og fjöldi einstæðra tegunda jurta og dýra þrífst þar.
[Mynd á bls. 5]
Ferðalög reyndust okkur erfiðust.
[Myndir á bls. 5]
Við njótum þess að taka þátt í biblíunámskeiðum.