Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þjónaðu Guði frelsisins

Þjónaðu Guði frelsisins

Þjónaðu Guði frelsisins

„Elskan til Guðs birtist í að við höldum boðorð hans. Og boðorð hans eru ekki þung.“ – 1. JÓH. 5:3.

GETURÐU SVARAÐ?

Hvernig reynir Satan að telja okkur trú um að lög Jehóva séu íþyngjandi?

Af hverju þurfum við að vanda val okkar á vinum?

Hvað getur hjálpað okkur að vera trú Guði frelsisins?

1. Hvernig lítur Jehóva á frelsi og hvernig sýndi hann það í samskiptum við Adam og Evu?

JEHÓVA er sá eini sem býr við algert frelsi. En hann misnotar það aldrei og einokar það ekki með því að stjórna lífi þjóna sinna í smáatriðum. Hann hefur gefið þeim frjálsan vilja þannig að þeir geta tekið sjálfstæðar ákvarðanir og fullnægt öllum eðlilegum löngunum sínum. Til dæmis setti hann Adam og Evu aðeins ein takmörk. Þau máttu ekki borða af „skilningstré góðs og ills“. (1. Mós. 2:17) Þau höfðu mikið frelsi meðan þau gerðu vilja skapara síns.

2. Af hverju glötuðu Adam og Eva frelsinu sem Guð hafði gefið þeim?

2 Hvers vegna veitti Guð foreldrum mannkyns svona mikið frelsi? Hann skapaði þau eftir sinni mynd og gaf þeim samvisku. Hann vænti þess að þau gerðu rétt vegna þessa að þau elskuðu hann. (1. Mós. 1:27; Rómv. 2:15) Því miður kunnu Adam og Eva ekki að meta skapara sinn og frelsið sem hann hafði gefið þeim. Þau völdu þá leið sem Satan bauð þeim, það er að segja að ákveða sjálf hvað væri gott og illt. Þau héldu að þau yrðu enn frjálsari en urðu í staðinn þrælar syndarinnar. Og þau hnepptu alla afkomendur sína í sams konar fjötra með hörmulegum afleiðingum. – Rómv. 5:12.

3, 4. Hvað reynir Satan að telja okkur trú um varðandi vilja Jehóva?

3 Fyrst Satan tókst að fá tvær fullkomnar manneskjur og fjölda engla til að hafna yfirráðum Guðs er hætta á að hann geti blekkt okkur líka. Hann beitir enn sömu aðferðum. Hann reynir að telja okkur trú um að það sé íþyngjandi og erfitt að gera eins og Guð vill og að lífið sé þá ósköp gleðisnautt og óspennandi. (1. Jóh. 5:3) Slíkur hugsunarháttur getur haft sterk áhrif á okkur ef við höfum mikið samneyti við fólk sem er þannig þenkjandi. Systir, sem er 24 ára núna, segir að vondur félagsskapur hafi haft mikil áhrif á sig, ekki síst vegna þess að hún var smeyk við að hafa aðrar skoðanir en félagarnir. Það endaði með því að hún gerði sig seka um siðleysi. Þú hefur kannski fundið fyrir svipuðum hópþrýstingi og hún nefnir.

4 Því miður getur það jafnvel gerst að unglingar í kristna söfnuðinum hafi slæm áhrif á félaga sína. „Ég þekki nokkra unglinga sem áttu kærustur eða kærasta í heiminum,“ segir ungur bróðir. „En svo varð mér ljóst að því meir sem ég var með þeim því meir líktist ég þeim. Þetta kom niður á sambandi mínu við Jehóva. Ég hafði ekki lengur ánægju af samkomunum og fór varla út í starfið. Það var þá sem ég gerði mér grein fyrir að ég yrði að hætta að umgangast þá og ég gerði það.“ Áttarðu þig á hve sterk áhrif félagar þínir geta haft á þig? Við skulum líta á dæmi í Biblíunni sem er hægt að draga lærdóm af. – Rómv. 15:4.

HANN STAL HJÖRTUM ÞEIRRA

5, 6. (a) Hvernig blekkti Absalon marga? (b) Tókst honum það sem hann ætlaði sér?

5 Í Biblíunni er sagt frá mörgum sem höfðu slæm áhrif á aðra. Einn þeirra var Absalon, sonur Davíðs konungs. Absalon var með afbrigðum myndarlegur. En smám saman varð hann metnaðargjarn líkt og Satan og tók að girnast hásæti föður síns sem hann átti þó ekkert tilkall til. * Til að ná markmiði sínu þóttist hann bera mikla umhyggju fyrir samlöndum sínum og ýjaði að því með slægð að konunginum og fulltrúum hans stæði á sama um fólkið. Hann taldi fólki trú um að sér væri annt um velferð þess en rægði jafnframt föður sinn, ekki ósvipað og Satan gerði í Eden. – 2. Sam. 15:1-5.

6 Tókst Absalon það sem hann ætlaði sér? Að vissu marki vegna þess að í Biblíunni segir um hann: „Þannig stal hann hjörtum Ísraelsmanna.“ (2. Sam. 15:6, neðanmáls) En um síðir varð hroki Absalons honum að falli. Og því miður kostaði það hann lífið og hið sama er að segja þúsundir manna sem létu blekkjast af fagurgala hans. – 2. Sam. 18:7, 14-17.

7. Hvaða lærdóm má draga af frásögunni af Absalon? (Sjá myndina á bls. 14.)

7 Hvers vegna var svona auðvelt að blekkja Ísraelsmenn? Kannski vegna þess að þeir þráðu það sem Absalon lofaði þeim eða létu útlit hans hafa áhrif á sig. Hver sem ástæðan var vantaði eitthvað upp á hollustu þeirra við Jehóva og konunginn sem hann hafði útvalið. Satan notar enn fólk eins og Absalon til að reyna að stela hjörtum þeirra sem þjóna Jehóva. Þeir segja ef til vill að Jehóva geri allt of strangar kröfur og bæta við: „Sjáðu bara alla þá sem þjóna ekki Jehóva. Þeir kunna sko að skemmta sér.“ Sérðu í gegnum þessar fyrirlitlegu lygar og ert Guði trúr? Áttarðu þig á að það er aðeins ,fullkomið lögmál‘ Jehóva, það er að segja lögmál Krists, sem getur veitt þér raunverulegt frelsi? (Jak. 1:25) Ef þú gerir það skaltu sýna að þú elskir lögmál Jehóva og láttu aldrei freistast til að misnota frelsið sem hann hefur gefið þér. – Lestu 1. Pétursbréf 2:16.

8. Hvaða dæmi sýna að fólk höndlar ekki hamingjuna með því að hunsa siðferðisreglur Jehóva?

8 Unga fólkið er sérstakur skotspónn Satans. Bróðir, sem er rúmlega þrítugur núna, segir um unglingsárin: „Mér fannst siðferðisreglur Jehóva setja mér hömlur frekar en vernda mig.“ Afleiðingin var sú að hann gerði sig sekan um kynferðislegt siðleysi. En þetta færði honum enga hamingju. „Ég var með mikla sektarkennd og samviskubit árum saman,“ sagði hann. Systir nokkur sagði um unglingsár sín: „Maður er dapur og innantómur eftir að hafa gert sig sekan um siðferðisbrot. Það eru liðin 19 ár síðan en slæmar minningar angra mig enn þá.“ Önnur systir segir: „Ég var andlega og tilfinningalega niðurbrotin við þá tilhugsun að breytni mín hefði hryggt fólk sem mér þótti vænt um. Það er skelfilegt að hafa ekki velþóknun Jehóva.“ Satan vill ekki að maður hugsi um þessar afleiðingarnar syndarinnar.

9. (a) Hvaða spurninga ættum við að spyrja okkur varðandi Jehóva og meginreglur hans? (b) Hvers vegna er mikilvægt að þekkja Guð vel?

9 Það er miður að margt ungt fólk í söfnuðinum, og jafnvel sumir sem eldri eru, skuli hafa þurft að læra í hörðum skóla reynslunnar að það getur verið dýrkeypt að syndga gegn Guði. (Gal. 6:7, 8) Spyrðu þig hvort þú sjáir klækjabrögð Satans í réttu ljósi – sem illskeyttar blekkingar. Líturðu á Jehóva sem nánasta vin þinn, vin sem segir alltaf satt og vill þér aðeins hið besta? Ertu sannfærður um að hann meini þér aldrei um neitt sem er gott og þér til gæfu? (Lestu Jesaja 48:17, 18.) Til að geta svarað því játandi er ekki nóg að þekkja Jehóva lauslega. Þú þarft að þekkja hann vel og skilja að lög og meginreglur Biblíunnar eru ekki til merkis um að hann vilji takmarka frelsi þitt heldur endurspegla að hann elskar þig. – Sálm. 25:14.

BIDDU GUÐ AÐ GEFA ÞÉR VISKU OG VILJA TIL AÐ HLÝÐA

10. Af hverju ættum við að reyna að líkja eftir Salómon konungi á yngri árum hans?

10 Salómon var ungur maður þegar hann sagði í auðmjúkri bæn til Guðs: „Ég er enn ungur og óreyndur.“ Síðan bað hann Jehóva að gefa sér visku og vilja til að hlýða. (1. Kon. 3:7-9, 12) Jehóva varð við þessari einlægu bæn og hann bænheyrir þig líka, hvort sem þú ert ungur eða gamall. Hann gefur þér auðvitað ekki visku og dómgreind fyrir kraftaverk. Hann veitir þér hins vegar visku ef þú ert iðinn biblíunemandi, biður um heilagan anda og nýtir þér sem best þær leiðbeiningar og þá fræðslu sem þú færð í kristna söfnuðinum. (Jak. 1:5) Þannig gerir Jehóva jafnvel unga þjóna sína vitrari en þá sem hunsa leiðbeiningar hans, meira að segja vitrari en ,spekinga og hyggindamenn‘ þessa heims. – Lúk. 10:21; lestu Sálm 119:98-100.

11-13. (a) Hvaða mikilvægu lærdóma má draga af Sálmi 26:4, Orðskviðunum 13:20 og 1. Korintubréfi 15:33? (b) Hvernig geturðu notfært þér þessar meginreglur?

11 Við skulum nú líta á þrjá ritningarstaði sem sýna fram á gildi þess að lesa og hugleiða Biblíuna til að kynnast Jehóva vel. Í hverjum þeirra er að finna mikilvæga meginreglu varðandi val á félagsskap. „Ég tek mér ekki sæti hjá lygurum og umgengst ekki fláráða.“ (Sálm. 26:4) „Eigðu samneyti við vitra menn, þá verður þú vitur, en illa fer þeim sem leggur lag sitt við heimskingja.“ (Orðskv. 13:20) „Vondur félagsskapur spillir góðum siðum.“ – 1. Kor. 15:33.

12 Hvaða lærdóm getum við dregið af þessum biblíuversum? (1) Jehóva vill að við vöndum val okkar á vinum. Hann vill vernda okkur fyrir öllu sem getur skaðað okkur og samband okkar við hann. (2) Þeir sem við veljum okkur að vinum hafa annaðhvort góð eða slæm áhrif á okkur. Það er bara staðreynd. Orðalag versanna í greininni á undan sýnir að Jehóva vill ná til hjartna okkar. Hvernig þá? Við tökum eftir að versin eru ekki sett fram eins og reglur, til dæmis: „Þú skalt ekki . . .“ Það er einfaldlega verið að segja frá hlutunum eins og þeir eru. Jehóva er í rauninni að segja okkur: Þetta eru staðreyndirnar. Hvað ætlarðu að gera? Hvað býr í hjarta þér?

13 Að síðustu er að nefna að þar sem versin þrjú eru sett fram sem grundvallarsannindi eru þau í fullu gildi enn þann dag í dag og geta átt við margs konar aðstæður. Spyrðu til dæmis sjálfan þig: Hvernig get ég forðast félagsskap við „fláráða“ einstaklinga sem villa á sér heimildir? Við hvaða aðstæður gæti ég hitt slíkt fólk? (Orðskv. 3:32; 6:12) Hvaða ,vitru menn‘ vill Jehóva að ég umgangist? Hverjir eru ,heimskingjarnir‘ sem hann vill að ég forðist? (Sálm. 111:10; 112:1; Orðskv. 1:7) Hvaða ,góðu siðum‘ spilli ég með því að velja mér vondan félagsskap? Er það bara í heiminum sem ég get lent í vondum félagsskap? (2. Pét. 2:1-3) Hvernig svararðu þessum spurningum?

14. Hvernig er hægt að gera fjölskyldunámið enn betra?

14 Eftir að hafa hugleitt þessi biblíuvers væri gott að skoða aðra ritningarstaði sem gefa til kynna hvernig Guð hugsar um mál sem varða þig eða fjölskyldu þína. * Foreldrar, hvernig væri að taka slík mál fyrir í biblíunámi fjölskyldunnar? Og hafið þá í huga að það er markmið ykkar að hjálpa öllum í fjölskyldunni að skilja enn betur hvernig lög og meginreglur Jehóva endurspegla kærleika hans til okkar. (Sálm. 119:72) Fjölskyldunámið ætti að styrkja bæði fjölskylduböndin og tengsl hvers og eins við Jehóva.

15. Hvernig geturðu kannað hvort þú sért að tileinka þér bæði visku og hlýðni?

15 Hvernig geturðu gengið úr skugga um að þú sért að tileinka þér bæði visku og hlýðni? Meðal annars með því að kanna hvort þú hugsir eins og trúir þjónar Guðs til forna, til dæmis Davíð konungur sem skrifaði: „Að gera vilja þinn, Guð minn, er mér yndi og lögmál þitt er innra með mér.“ (Sálm. 40:9) Og sá sem orti Sálm 119 sagði: „Hve mjög elska ég lögmál þitt, allan daginn íhuga ég það.“ (Sálm. 119:97) Slíkur kærleikur kemur ekki af sjálfu sér. Hann vex við ítarlegt biblíunám, bænir og íhugun. Hann vex líka þegar við kynnumst af eigin raun hvaða blessun fylgir því að fara eftir leiðbeiningum Jehóva. – Sálm. 34:9.

BERSTU FYRIR FRELSINU SEM GUÐ HEFUR VEITT ÞÉR

16. Hvað þurfum við hafa hugfast til að sigra í baráttunni fyrir hinu sanna frelsi?

16 Alla sögu mannkyns hafa þjóðir heims barist hatrammlega í nafni frelsis. Þú hefur enn ríkari ástæðu til að berjast fyrir því að halda frelsinu sem Guð hefur veitt þér. Mundu að óvinir þínir eru ekki aðeins Satan, heimurinn og eitraður andi heimsins. Þú átt líka í baráttu við þinn eigin ófullkomleika, þar á meðal svikult hjarta. (Jer. 17:9; Ef. 2:3) En með hjálp Jehóva geturðu sigrað í þessari baráttu. Og hver einasti sigur – stór eða smár – hefur að minnsta kosti tvennt í för með sér. Annars vegar gleðurðu hjarta Jehóva. (Orðskv. 27:11) Hins vegar verðurðu mun ákveðnari í að halda þig á mjóa veginum sem liggur til eilífs lífs þegar þú finnur hve jákvæð áhrif „hið fullkomna lögmál frelsisins“ hefur á þig. Í framtíðinni hlýturðu enn víðtækara frelsi sem Jehóva hefur lofað þeim sem eru honum trúir. – Jak. 1:25; Matt. 7:13, 14.

17. Af hverju ættum við ekki að gefast upp þegar okkur verður eitthvað á og hvernig hjálpar Jehóva okkur?

17 Öllum verður okkur eitthvað á af og til. (Préd. 7:20) Láttu það ekki draga úr þér og finnast þú einskis virði. Ef þú hrasar skaltu standa upp aftur og halda áfram ef svo má að orði komast, jafnvel þó að þú þurfir að biðja öldungana að hjálpa þér til þess. „Trúarbænin mun gera hinn sjúka heilan og Drottinn mun reisa hann á fætur,“ skrifaði Jakob og bætti við: „Þær syndir, sem hann kann að hafa drýgt, verða honum fyrirgefnar.“ (Jak. 5:15) Gleymdu ekki að Guð er miskunnsamur og hann vildi að þú tilheyrðir söfnuðinum vegna þess að hann sá hvað bjó í þér. (Lestu Sálm 103:8, 9.) Jehóva sleppir ekki af þér hendinni svo framarlega sem þú þjónar honum af heilum hug. – 1. Kron. 28:9.

18. Hvernig getum við breytt í samræmi við bæn Jesú í Jóhannesi 17:15?

18 Nóttina áður en Jesús dó fór hann með bæn að viðstöddum 11 trúum postulum sínum. Hann bað fyrir þeim með þessum ógleymanlegu orðum: „Ég bið . . . að þú varðveitir þá frá hinu illa.“ (Jóh. 17:15) Jesú var ekki aðeins annt um postulana heldur alla fylgjendur sína. Þess vegna getum við treyst að Jehóva varðveiti okkur á þessum erfiðu tímum í samræmi við bæn Jesú. Hann er „skjöldur þeirra sem breyta grandvarlega . . . og varðveitir veg sinna réttsýnu“. (Orðskv. 2:7, 8) Það er ekki alltaf auðvelt að breyta grandvarlega en það er eina leiðin til að hljóta eilíft líf og raunverulegt frelsi. (Rómv. 8:21) Láttu engan tæla þig út af þeirri braut.

[Neðanmáls]

^ gr. 5 Absalon var fæddur þegar Guð lofaði Davíð að hann myndi eignast „son“ sem ætti að erfa hásætið. Absalon átti því að vita að Jehóva hafði ekki valið hann sem arftaka föður síns. – 2. Sam. 3:3; 7:12, Biblían 1981.

^ gr. 14 Sem dæmi um slíka ritningarstaði má nefna 1. Korintubréf 13:4-8, þar sem Páll lýsir kærleikanum, og Sálm 19:8-12 þar sem bent er á hvaða blessun fylgi því að hlýða lögum Jehóva.

[Spurningar]

[Mynd á bls. 14]

Hvað einkennir þá sem líkjast Absalon og hvernig getum við varað okkur á þeim?