Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Hvern ætti ég að hræðast?“

„Hvern ætti ég að hræðast?“

„Hvern ætti ég að hræðast?“

„Þó að stríð brjótist út gegn mér er ég samt öruggur.“ – SÁLM. 27:3.

HVAÐ GETUR HJÁLPAÐ OKKUR AÐ VERA HUGRÖKK SAMKVÆMT . . .

Sálmi 27:1?

Sálmi 27:4?

Sálmi 27:11?

1. Við hvaða spurningum getum við fundið svör í 27. sálminum?

AF HVERJU eykst boðunarstarf okkar þrátt fyrir versnandi ástand í heiminum? Af hverju gefum við fúslega af tíma okkar og kröftum þótt alvarlegar efnahagsþrengingar steðji að? Hvernig getum við verið hughraust þó að margir óttist framtíðina? Svörin er að finna í innblásnu ljóði Davíðs konungs í 27. sálminum.

2. Hvaða áhrif getur mikil hræðsla haft á fólk en hverju getum við treyst?

2 Sálmur Davíðs hefst á orðunum: „Drottinn er ljós mitt og fulltingi, hvern ætti ég að óttast? Drottinn er vígi lífs míns, hvern ætti ég að hræðast?“ (Sálm. 27:1) Hræðsla eða mikill ótti getur haft lamandi áhrif á fólk. En ef við óttumst Jehóva erum við hughraust og skelfumst ekki. (1. Pét. 3:14) Sá sem gerir Jehóva að athvarfi sínu „mun búa óhultur og öruggur og engri ógæfu kvíða“. (Orðskv. 1:33; 3:25) Hvers vegna má segja það?

„DROTTINN ER LJÓS MITT OG FULLTINGI“

3. Í hvaða skilningi er Jehóva ljós okkar en hvað verðum við að gera?

3 Myndlíkingin „Drottinn er ljós mitt“ beinir athyglinni að því að Jehóva frelsar okkur undan fáfræði og andlegu myrkri. (Sálm. 27:1) Bókstaflegt ljós getur vakið athygli okkar á hættu eða hindrun í veginum en það fjarlægir hana ekki. Við verðum að bregðast við í samræmi við það sem við sjáum. Á svipaðan hátt opinberar Jehóva fyrir okkur þýðingu heimsatburða. Hann varar okkur við hættunum í þessum heimi. Hann sér okkur fyrir meginreglum í Biblíunni sem eru okkur alltaf til góðs en við verðum að fara eftir því sem við lærum. Ef við gerum það getum við sýnt meiri visku en bæði óvinir okkar og kennarar. – Sálm. 119:98, 99, 130.

4. (a) Af hverju gat Davíð sagt með sannfæringu að Jehóva væri fulltingi sitt eða hjálpræði? (b) Hvernig á Jehóva eftir að frelsa þjóna sína í framtíðinni?

4 Orð Davíðs í Sálmi 27:1 sýna að hann hlýtur að hafa minnst þess hvernig Jehóva hafði frelsað hann áður. Jehóva hafði til dæmis bjargað honum „úr klóm ljóna og bjarna“. Hann hafði líka veitt honum sigur yfir risanum Golíat. Og í hvert sinn sem Sál konungur hafði reynt að drepa Davíð með spjóti bjargaði Jehóva honum. (1. Sam. 17:37, 49, 50; 18:11, 12; 19:10) Það er ekki að furða að Davíð hafi getað sagt með sannfæringu að Jehóva væri fulltingi sitt eða hjálpræði. Og Jehóva á enn eftir að frelsa þjóna sína eins og hann frelsaði Davíð. Hvernig? Með því að bjarga þeim úr „þrengingunni miklu“. – Opinb. 7:14; 2. Pét. 2:9.

MINNUMST ÞESS HVERNIG JEHÓVA HEFUR HJÁLPAÐ OKKUR

5, 6. (a) Hvernig getur það gefið okkur aukið hugrekki að minnast þess sem við höfum upplifað? (b) Af hverju er það okkur til góðs að minnast þess hvernig Jehóva hefur verndað þjóna sína hér áður fyrr?

5 Í Sálmi 27:2, 3 er okkur bent á mikilvægt atriði sem hjálpar okkur að vera hugrökk. (Lestu.) Davíð minntist atburða þar sem Jehóva hafði bjargað honum. (1. Sam. 17:34-37) Þessar minningar gáfu honum hugrekki jafnvel til að takast á við erfiðustu aðstæður. Dregur þú svipaðan lærdóm af því sem þú hefur upplifað? Hefurðu til dæmis beðið ákaft út af íþyngjandi vandamáli og fundið hvernig Jehóva gaf þér visku eða styrk til að takast á við það? Manstu eftir því að hindranir í þjónustunni hafi verið fjarlægðar eða að „víðar dyr að miklu verki“ hafi opnast þér? (1. Kor. 16:9) Hvaða áhrif hefur það á þig að minnast slíkra atburða? Sannfærir það þig ekki um að Jehóva geti hjálpað þér að sigrast á eða þola enn alvarlegri hindranir og mótlæti? – Rómv. 5:3-5.

6 Hvað ef öflug ríkisstjórn legði á ráðin um að útrýma söfnuði Votta Jehóva? Margir menn á okkar tímum hafa einmitt reynt að gera það en mistekist. Ef við minnumst þess hvernig Jehóva hefur hjálpað þjónum sínum hér áður fyrr gefur það okkur hugrekki til að þola hvað sem framtíðin kann að bera í skauti sér. – Dan. 3:28.

METUM SANNA TILBEIÐSLU AÐ VERÐLEIKUM

7, 8. (a) Um hvað bað Davíð Jehóva í Sálmi 27:4? (b) Hvert er hið mikla andlega musteri Jehóva og hvernig tilbiðjum við þar?

7 Annað sem hjálpar okkur að vera hugrökk er að meta sanna tilbeiðslu að verðleikum. (Lestu Sálm 27:4.) Á dögum Davíðs var tjaldbúðin ,hús Drottins‘. En hann gerði ráðstafanir til þess að Salómon, sonur sinn, gæti byggt hið glæsilega musteri Jehóva. Öldum síðar sagði Jesús að sá tími kæmi að fólk þyrfti ekki lengur á stórbrotnu musteri að halda til að tilbiðja Jehóva. (Jóh. 4:21-23) Í 8. til 10. kafla Hebreabréfsins útskýrði Páll postuli að mikið andlegt musteri hafi orðið til við skírn Jesú árið 29 þegar hann bauð sig fram til að gera vilja Jehóva. (Hebr. 10:10) Þetta andlega musteri er það fyrirkomulag sem Jehóva hefur gert til að við getum tilbeðið hann á réttan hátt með því að trúa á lausnarfórn Jesú. Hvernig tilbiðjum við þar? Með því að biðja „með einlægum hjörtum, í öruggu trúartrausti“, með því að tjá trú okkar óttalaust meðal almennings og með því að gefa gætur að, hvetja og uppörva trúsystkini okkar á safnaðarsamkomum og í biblíunámi fjölskyldunnar. (Hebr. 10:22-25) Þegar við metum sannleikann að verðleikum styrkir það okkur á þessum síðustu og erfiðu dögum.

8 Trúfastir þjónar Jehóva um allan heim auka nú við boðunarstarf sitt, læra ný tungumál og flytja þangað sem þörf er fyrir fleiri boðbera. Verk þeirra gefa til kynna að þeir, líkt og sálmaritarinn, vilji biðja Jehóva um að fá að ,horfa á yndisleik hans‘ og sinna heilagri þjónustu sama hvað gerist. – Lestu Sálm 27:6.

TREYSTUM Á HJÁLP GUÐS

9, 10. Hvaða þýðingu hafa orðin í Sálmi 27:10 fyrir okkur?

9 Orð Davíðs sýna svo ekki verður um villst að hann treysti á hjálp Jehóva. Hann sagði: „Þótt faðir minn og móðir yfirgefi mig tekur Drottinn mig að sér.“ (Sálm. 27:10) Af 22. kafla 1. Samúelsbókar getum við séð að foreldrar Davíðs yfirgáfu hann ekki. Mörgum nú á dögum hefur hins vegar verið algerlega hafnað af fjölskyldu sinni. En margir þeirra hafa fengið hjálp og vernd í kristna söfnuðinum og fundið fyrir hlýjunni sem þar ríkir.

10 Fyrst Jehóva er fús til að styðja þjóna sína þegar aðrir yfirgefa þá getum við verið viss um að hann hjálpi þeim í öllum öðrum erfiðleikum líka. Ef við höfum til dæmis áhyggjur af því hvernig við eigum að sjá fjölskyldunni farborða getum við þá ekki treyst að Jehóva hjálpi okkur? (Hebr. 13:5, 6) Hann skilur aðstæður og þarfir allra trúfastra þjóna sinna.

11. Hvaða áhrif getur það haft á aðra ef við berum algert traust til Jehóva? Lýstu með dæmi.

11 Victoria býr í Líberíu. Hún var í biblíunámi og var farin að stefna að því að skírast þegar sambýlismaðurinn fór frá henni og þremur börnum. Þótt hún væri nú án heimilis og vinnu hélt hún áfram að taka andlegum framförum. Eftir að hún lét skírast fann 13 ára dóttir hennar veski sem var fullt af peningum. Þær ákváðu að telja ekki einu sinni peningana til að forðast freistingu heldur höfðu strax samband við hermanninn sem átti veskið. Hann sagði við þær að ef allir væru eins heiðarlegir og vottar Jehóva væri heimurinn betri og friðsamari. Victoria notaði Biblíuna til að sýna hermanninum loforð Jehóva um nýjan heim. Hermaðurinn var hrifinn af ráðvendni Victoriu og gaf henni rífleg fundarlaun af peningunum sem hún skilaði. Vottar Jehóva hafa getið sér orð fyrir heiðarleika vegna þess að þeir treysta því algerlega að Jehóva geti séð fyrir þeim.

12. Hvað sýnum við ef við höldum áfram að þjóna Jehóva þrátt fyrir fjárhagslegt tjón? Lýstu með dæmi.

12 Hugsum okkur líka hvernig Thomasi hlýtur að hafa liðið en hann er óskírður boðberi í Síerra Leóne. Hann fór að vinna sem kennari í unglingadeild en fékk ekki launin sín í næstum ár því að viss pappírsvinna var ókláruð. Hvað var það síðasta sem Thomas þurfti að gera til að fá útborgað og fá launin sem hann átti inni? Fara í viðtal hjá manni úr skólastjórninni, en hann var prestur. Presturinn sagði að trú votta Jehóva samræmdist ekki stefnu skólans. Hann krafðist þess að Thomas veldi milli vinnunnar og trúarinnar. Thomas hætti í vinnunni og tapaði næstum árslaunum en fékk aðra vinnu við viðgerðir á útvörpum og farsímum. Einn versti ótti margra er að líða skort. En eins og þetta dæmi og mörg önnur sýna óttumst við ekki ef við treystum algerlega á skapara allra hluta sem verndar alltaf þjóna sína.

13. Hvernig gengur boðunarstarfið í löndum þar sem efnahagurinn er bágborinn?

13 Í mörgum löndum, þar sem lífskjör eru bág, eru boðberar oft sérstaklega ötulir. Hvernig stendur á því? Í bréfi frá einni deildarskrifstofu segir: „Margir sem þiggja biblíunámskeið eru atvinnulausir og hafa því meiri tíma fyrir biblíunám yfir miðjan daginn. Bræður og systur hafa líka meiri tíma til að prédika. Það þarf ekki að segja fólki, sérstaklega því sem býr á fátækustu svæðunum, að við lifum á síðustu dögum. Það sér ástandið með eigin augum.“ Trúboði nokkur hefur starfað í rúmlega 12 ár í landi þar sem hver boðberi heldur að meðaltali meira en þrjú biblíunámskeið. Hann skrifar: „Þar sem margir boðberar lifa einföldu lífi og fátt truflar þá hafa þeir yfirleitt meiri tíma en aðrir fyrir boðunar- og biblíunámsstarfið.“

14. Að hvaða leyti getur múgurinn mikli notið verndar Guðs?

14 Jehóva hefur lofað að hjálpa, vernda og frelsa fólk sitt sem heild, bæði líkamlega og andlega, og við treystum honum. (Sálm. 37:28; 91:1-3) Múgurinn, sem lifir af ,þrenginguna miklu‘, verður vissulega mikill. (Opinb. 7:9, 14) Þess vegna vitum við að Guð mun vernda þennan múg með því að sjá til þess að honum verði ekki útrýmt í heild sinni núna á síðustu dögum. Þjónum Jehóva verður séð fyrir öllu sem þeir þurfa til að þola prófraunir og verðveita samband sitt við hann. Og á lokakafla þrengingarinnar miklu mun Jehóva vernda þá og sjá til þess að enginn týni lífi.

„VÍSA MÉR VEG ÞINN, DROTTINN“

15, 16. Hvernig er það okkur til góðs að fylgja leiðbeiningum Jehóva? Lýstu með dæmi.

15 Til að halda áfram að vera hugrökk þurfum við stöðugt að fá fræðslu um vegi Guðs. Þetta má sjá af orðum Davíðs en hann bað: „Vísa mér veg þinn, Drottinn, leiddu mig á beina braut vegna óvina minna.“ (Sálm. 27:11) Til að hegða okkur í samræmi við þessa bæn verðum við að gefa gaum að öllum ráðleggingum sem við fáum í Biblíunni og fyrir milligöngu safnaðarins og fara strax eftir þeim. Margir hafa fylgt þeim viturlegu leiðbeiningum að einfalda líf sitt og losa sig við óþarfar skuldir. Þetta hefur sannarlega komið þeim vel nú þegar efnahagsþrengingar hafa dunið á. Þeir eru frjálsir til að auka við starf sitt í stað þess að sitja uppi með eignir sem þeir hafa ekki lengur efni á. Gott er fyrir hvert og eitt okkar að spyrja sig: Fylgi ég strax öllu sem ég les í Biblíunni og ritum hins trúa og hyggna þjóns, jafnvel þótt það kosti að ég færi persónulegar fórnir? – Matt. 24:45.

16 Við höfum ekkert að óttast ef við leyfum Jehóva að vísa okkur veg sinn og leiða okkur á beinar brautir. Þegar brautryðjandi í Bandaríkjunum sótti um starf, sem myndi gera honum og allri fjölskyldunni kleift að vera áfram brautryðjendur, sagði yfirmaður hans að hann fengi aldrei þessa stöðu án þess að hafa háskólagráðu. Ef þetta hefði komið fyrir þig hefðirðu þá séð eftir því að hafa valið brautryðjandastarf fram yfir háskólanám? Tveimur vikum síðar missti þessi yfirmaður vinnuna og annar yfirmaður spurði bróðurinn hver markmið hans væru. Hann útskýrði strax að hann og konan hans notuðu mikinn tíma í boðunarstarfi Votta Jehóva og vildu halda því áfram. Áður en bróðirinn gat útskýrt málið nánar sagði yfirmaðurinn: „Ég vissi að það væri eitthvað sérstakt við þig. Þegar faðir minn lá á dánarbeði komu tveir vottar til hans daglega og lásu fyrir hann úr Biblíunni. Ég lofaði sjálfum mér því að ef ég fengi tækifæri til að hjálpa einhverjum sem væri vottur myndi ég gera það.“ Daginn eftir fékk bróðirinn starfið sem fyrrverandi yfirmaður hans hafði neitað honum um. Þegar við setjum Guðsríki framar öðru í lífinu stendur Jehóva við loforð sitt um að okkur muni ekki skorta efnislegar nauðsynjar. – Matt. 6:33.

NAUÐSYNLEGT AÐ HAFA TRÚ OG VON

17. Hvað gerir okkur kleift að mæta framtíðinni óttalaust?

17 Næst leggur Davíð áherslu á nauðsyn þess að hafa trú og von og segir: „Ég treysti því að fá að sjá gæsku Drottins á landi lifenda.“ (Sálm. 27:13) Hvernig væri líf okkar ef við hefðum ekki vonina sem Jehóva gefur okkur og þekktum ekki til þess sem rætt er um í 27. sálminum? Verum staðráðin í að halda áfram að biðja um styrk og vernd núna á síðustu dögum og fram yfir Harmagedón. – Lestu Sálm 27:14.

[Spurningar]

[Mynd á bls. 23]

Það veitti Davíð styrk að minnast þess hvernig Jehóva hafði frelsað hann áður.

[Mynd á bls. 25]

Lítum við á efnahagsþrengingar sem tækifæri til að auka við starf okkar?