Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva kenndi mér að gera vilja sinn

Jehóva kenndi mér að gera vilja sinn

Ævisaga

Jehóva kenndi mér að gera vilja sinn

Max Lloyd segir frá

Síðla kvölds árið 1955 vorum við tveir trúboðsfélagar að starfa í Paragvæ í Suður-Ameríku. Húsið, sem við vorum staddir í, var umkringt æstum skríl sem hrópaði: „Guð okkar er blóðþyrstur guð og hann vill blóð gringóanna.“ Hvað kom til að við gringóarnir (útlendingarnir) vorum komnir hingað?

TIL að svara því þurfum við að hverfa aftur til uppvaxtarára minna í Ástralíu þegar Jehóva byrjaði að kenna mér að gera vilja sinn. Pabbi þáði bókina Enemies hjá votti nokkrum árið 1938. Þau mamma voru bæði orðin óánægð með prestinn á staðnum en hann taldi hluta Biblíunnar vera tómar goðsagnir. Um ári síðar létu þau skírast til tákns um að þau hefðu vígst Jehóva. Þaðan í frá var mikilvægasti þátturinn í lífi fjölskyldunnar að gera vilja Jehóva. Lesley systir, sem var fimm árum eldri en ég, var sú næsta sem lét skírast og síðan ég árið 1940. Ég var þá níu ára.

Fljótlega eftir að heimsstyrjöldin síðari skall á var bannað að prenta og dreifa biblíutengdum ritum Votta Jehóva í Ástralíu. Frá unga aldri lærði ég því að útskýra trú mína með því að nota eingöngu Biblíuna. Ég var vanur að taka Biblíuna með mér í skólann til að sýna hvers vegna ég hyllti ekki fánann né styddi stríðsátök þjóðanna. – 2. Mós. 20:4, 5; Matt. 4:10; Jóh. 17:16; 1. Jóh. 5:21.

Margir í skólanum vildu ekki umgangast mig af því að það var sagt að ég væri þýskur njósnari. Á þeim tíma voru sýndar kvikmyndir í skólanum. Áður en sýning hófst áttu allir að standa á fætur og syngja þjóðsönginn. Þegar ég sat sem fastast reyndu tveir eða þrír drengir að toga mig á hárinu upp úr sætinu. Að lokum var ég rekinn úr skólanum fyrir að halda fast við trú mína. Ég gat samt stundað nám heima með bréfanámskeiðum.

MARKMIÐI NÁÐ AÐ LOKUM

Ég hafði sett mér það markmið að gerast brautryðjandi þegar ég yrði 14 ára. Ég varð því mjög vonsvikinn þegar foreldrar mínir sögðu að ég yrði að byrja á því að vinna fyrir mér. Þeir fóru fram á að ég borgaði fyrir uppihaldið en lofuðu mér því að ég gæti byrjað í brautryðjandastarfinu þegar ég yrði 18 ára. Þetta varð kveikjan að tíðum umræðum um peningana sem ég vann mér inn. Ég vildi fá að leggja fyrir til að geta orðið brautryðjandi en þau tóku bara peningana af mér.

Þegar leið að því að ég hæfi brautryðjandastarfið settust foreldrar mínir niður með mér og sögðust hafa lagt peningana, sem þau hefðu fengið frá mér, inn á sparireikning. Síðan létu þau mig fá alla upphæðina til baka til þess að kaupa fatnað og aðrar nauðsynjar sem þurfti til brautryðjandastarfsins. Þau kenndu mér að hugsa um mig sjálfur og ætlast ekki til að aðrir gerðu það. Þegar ég lít um öxl er mér ljóst að þetta var dýrmætur lærdómur.

Meðan við Lesley vorum að alast upp gistu brautryðjendur oft á heimili okkar og við höfðum mjög gaman af að fara með þeim í boðunarstarfið. Helgunum var varið til að starfa hús úr húsi, á götum úti og vera með á biblíunámskeiðum. Markmið safnaðarboðbera á þessum árum var að starfa 60 klukkustundir á mánuði. Mamma náði næstum alltaf markmiðinu og það var gott fordæmi fyrir okkur Lesley.

BRAUTRYÐJANDI Í TASMANÍU

Fyrsta starfssvæðið mitt sem brautryðjandi var á áströlsku eyjunni Tasmaníu þar sem ég starfaði með systur minni og eiginmanni hennar. En þau fóru fljótlega þaðan til að stunda nám með 15. nemendahópi Gíleaðskólans. Ég var mjög feiminn og hafði aldrei fyrr farið að heiman. Sumir sögðu að ég héldi ekki lengur út en þrjá mánuði. Innan árs, árið 1950, fékk ég samt boð um að verða safnaðarþjónn eða umsjónarmaður öldungaráðs eins og það heitir nú. Síðar var ég útnefndur sérbrautryðjandi og annar ungur bróðir varð starfsfélagi minn.

Starfssvæði okkar var í afskekktum koparnámubæ. Þar voru engir vottar. Við komum til bæjarins með áætlunarbíl að áliðnum degi. Fyrstu nóttina gistum við á gömlu hóteli. Næsta dag störfuðum við hús úr húsi og spurðum jafnframt húsráðendur hvort þeir vissu um laust herbergi. Það var langt liðið á daginn þegar maður nokkur minntist á að hús prestsins, sem stóð næst öldungakirkjunni, væri autt og benti okkur á að tala við meðhjálparann. Hann var vingjarnlegur og lét okkur fá húsið til afnota. Það virkaði dálítið einkennilegt að fara á hverjum degi úr húsi prestsins út í boðunarstarfið.

Starfið á svæðinu gekk vel. Við áttum góð samtöl við fólk og hófum mörg biblíunámskeið. Þegar yfirmenn kirkjunnar í höfuðborginni fréttu það og heyrðu að vottar Jehóva byggju á prestssetrinu skipuðu þeir meðhjálparanum að koma okkur burt hið bráðasta. Við vorum aftur á götunni.

Daginn eftir vorum við í boðunarstarfinu fram á miðjan dag og fórum þá að leita að næturgistingu. Það skásta, sem við gátum fundið, var stúkan á íþróttavellinum. Þar földum við ferðatöskurnar og héldum áfram að starfa. Það var farið að skyggja en við ákváðum að halda áfram um stund til að ljúka við götuna þar sem við vorum. Þar hittum við mann sem bauð okkur að búa í litlu tveggja herbergja húsi á baklóðinni hjá sér.

FARANDHIRÐIR OG NÁM Í GÍLEAÐSKÓLANUM

Ég hafði boðað fagnaðarerindið þarna í átta mánuði þegar ég fékk boð frá deildarskrifstofunni í Ástralíu um að verða farandhirðir. Mér brá í brún þar sem ég var aðeins tvítugur. Ég fékk þjálfun í hálfan mánuð áður en ég byrjaði að heimsækja söfnuðina. Þeir sem voru mér eldri, en það voru þeir næstum allir, litu ekki niður á mig þrátt fyrir ungan aldur heldur virtu það sem ég gerði.

Ferðamátinn á milli safnaðanna var æði fjölbreyttur. Eina vikuna ferðaðist ég með áætlunarbíl, aðra með sporvagni og síðan með fólksbíl eða sitjandi aftan á vélhjóli með ferðatösku og starfstösku. Það var sönn ánægja að dvelja hjá trúsystkinum. Einn af safnaðarþjónunum vildi ólmur að ég dveldi hjá sér þrátt fyrir að húsið hans væri bara hálfbyggt. Þá vikuna var mér búið rúm í baðkerinu en hvað sem því leið áttum við einstaklega ánægjulega og uppbyggilega viku saman.

Árið 1953 var mér óvænt boðið að sækja um að vera í 22. nemendahópi Gíleaðskólans. En ánægjan var kvíðablandin. Þegar systir mín og maðurinn hennar útskrifuðust úr skólanum 30. júlí 1950 voru þau send til Pakistan. Innan árs veiktist Lesley og lést þar. Ég velti fyrir mér hvernig foreldrum mínum liði ef ég færi út í heim svo stuttu á eftir. En þau sögðu: „Farðu og þjónaðu Jehóva hvert sem hann býður.“ Ég sá pabba aldrei aftur. Hann lést 1957.

Áður en langt um leið steig ég ásamt fimm öðrum Áströlum um borð í skip. Okkar beið sex vikna sjóferð til New York. Á leiðinni vorum við upptekin við lestur og nám í Biblíunni og við vitnuðum fyrir samferðafólkinu. Áður en við héldum til South Lansing í New York-ríki, þar sem skólinn var til húsa, sóttum við alþjóðamótið á Yankee Stadium í júlí 1953. Þar voru 165.829 manns þegar flest var!

Í hópnum okkar í Gíleaðskólanum voru 120 nemendur frá öllum heimshornum. Við fengum ekki að vita fyrr en á útskriftardeginum hvert við yrðum send. Við hröðuðum okkur á bókasafn skólans til að fræðast um löndin þar sem við áttum að starfa. Ég átti að fara til Paragvæ, en þar í landi höfðu tíðar stjórnarbyltingar átt sér stað. Morgunn einn, stuttu eftir komuna þangað, spurði ég hina trúboðana hvaða „hátíðarhöld“ hefðu verið þá um nóttina. Þeir brostu og sögðu: „Þú hefur upplifað fyrstu byltinguna. Líttu út um dyrnar.“ Hermenn voru á hverju horni.

EFTIRMINNILEG REYNSLA

Eitt sinn fór ég með farandhirðinum í heimsókn til einangraðs safnaðar og erindið var að sýna kvikmyndina The New World Society in Action. Við vorum átta eða níu tíma á leiðinni, fyrst í lest, síðan á hestvagni og að lokum í uxakerru. Við höfðum rafal og sýningarvél meðferðis. Þegar við komum loksins á áfangastað notuðum við næsta dag til að heimsækja bóndabæi og bjóða öllum á myndasýninguna þá um kvöldið. Um 15 manns voru viðstaddir.

Við höfðum sýnt myndina í um það bil 20 mínútur þegar okkur var sagt að fara inn í húsið eins fljótt og við gætum. Við gripum sýningarvélina og hlýddum. Það var þá sem menn fóru að æpa, skjóta og syngja: „Guð okkar er blóðþyrstur guð og hann vill blóð gringóanna.“ Þarna voru aðeins tveir gringóar og ég var annar þeirra! Þeir sem mættir voru á myndasýninguna héldu aftur af skrílnum þegar hann reyndi að brjótast inn í húsið. En klukkan þrjú um nóttina sneru árásarmennirnir aftur, skutu af byssum og hótuðu að þeir skyldu ná okkur á leiðinni til bæjarins seinna um daginn.

Tveir trúbræður okkar höfðu samband við lögreglustjórann og hann kom síðdegis með tvo hesta til að fara með okkur til bæjarins. Þegar við nálguðumst þétta runna eða trjáþyrpingu á leiðinni dró hann upp byssuna og reið á undan okkur til að kanna svæðið. Ég komst að raun um að hestur var mikilvægur fararskjóti svo að ég fékk mér einn slíkan síðar meir.

FLEIRI TRÚBOÐAR KOMA TIL STARFA

Boðunarstarfið gekk mjög vel þrátt fyrir stöðuga andstöðu prestanna. Árið 1955 komu fimm nýir trúboðar til Paragvæ. Þeirra á meðal var Elsie Swanson, ung kanadísk systir, sem útskrifaðist með 25. nemendahópi Gíleaðskólans. Við unnum saman um tíma á deildarskrifstofunni þar til hún var send til annarrar borgar. Hún hafði helgað líf sitt þjónustunni við Jehóva en fékk lítinn stuðning frá foreldrum sínum sem tóku aldrei við sannleikanum. Við Elsie gengum í hjónaband 31. desember 1957 og bjuggum út af fyrir okkur á trúboðsheimili í suðurhluta Paragvæ.

Á heimili okkar var ekki rennandi vatn en aftur á móti var brunnur í bakgarðinum. Það var því hvorki sturta né salerni innandyra og engin þvottavél, ekki einu sinni ísskápur. Við keyptum daglega í matinn, sérstaklega matvæli sem höfðu lítið geymsluþol. En hið einfalda líf og ástúðlegt samband við bræður og systur í söfnuðinum varð til þess að þetta var mjög ánægjulegt tímabil í hjónabandi okkar.

Árið 1963 komum við aftur til Ástralíu í heimsókn til móður minnar. En stuttu síðar fékk hún hjartaáfall, sennilega vegna spennunnar sem fylgdi því að sjá son sinn eftir tíu ára fjarveru. Tíminn nálgaðist að við þyrftum að hverfa aftur til Paragvæ. Við stóðum frammi fyrir einni erfiðustu ákvörðun sem við höfum þurft að taka. Áttum við að fara aftur til Paragvæ eins og okkur langaði til? Þá hefðum við þurft að yfirgefa móður mína sem var á spítala og vonast til að einhver annaðist hana. Eftir margar bænir ákváðum við Elsie að vera um kyrrt og annast mömmu. Við gátum haldið áfram í fullu starfi sem boðberar og annast hana þar til hún lést árið 1966.

Það var mikil blessun að fá að starfa um árabil sem farand- og umdæmishirðir í Ástralíu og vera leiðbeinandi í skólanum fyrir safnaðaröldunga. En svo kom upp ný staða í lífi okkar. Ég var útnefndur til að sitja í fyrstu deildarnefndinni í Ástralíu. Þegar við ætluðum að reisa nýja deildarskrifstofu var mér falið að vera formaður byggingarnefndarinnar. Reist var mjög falleg deildarskrifstofa með hjálp margra reyndra og samstarfsfúsra verkamanna.

Næsta verkefni, sem ég fékk, var að starfa í þjónustudeildinni. Sú deild hefur umsjón með boðunarstarfinu í landinu. Mér hlotnaðist einnig sá heiður að heimsækja aðrar deildarskrifstofur víða um lönd sem umsjónarmaður og veita aðstoð og hvatningu. Í sumum landanna var sérstaklega trústyrkjandi fyrir mig að hitta þá sem höfðu verið árum eða jafnvel áratugum saman í fangelsum og fangabúðum vegna trúfesti sinnar við Jehóva.

NÚVERANDI VERKEFNI OKKAR

Við vorum nýkomin heim eftir lýjandi ferð til nokkurra deildarskrifstofa árið 2001 þegar ég fékk boðsbréf um að koma til Brooklyn í New York og taka sæti í deildarnefndinni í Bandaríkjunum sem var þá nýlega stofnuð. Við Elsie íhuguðum boðið í bænarhug og þáðum það með gleði. Að 11 árum liðnum erum við enn í Brooklyn.

Það gleður mig að eiga konu sem gerir með ánægju allt sem Jehóva fer fram á. Við erum orðin rúmlega áttræð og erum tiltölulega heilsuhraust. Við hlökkum til að fá að njóta kennslunnar frá Jehóva um alla eilífð og þeirrar miklu blessunar sem ræstist á þeim sem halda áfram að gera vilja hans.

[Innskot á bls. 19]

Eina vikuna ferðaðist ég með áætlunarbíl, aðra með sporvagni og síðan með fólksbíl eða sitjandi aftan á vélhjóli með ferðatösku og starfstösku.

[Innskot á bls. 21]

Við hlökkum til að fá að njóta kennslunnar frá Jehóva um alla eilífð.

[Myndir á bls. 18]

Til vinstri: Í farandstarfinu í Ástralíu.

Til hægri: Með foreldrum mínum.

[Mynd á bls. 20]

Á brúðkaupsdeginum 31. desember 1957.