Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva safnar fjölskyldu sinni saman

Jehóva safnar fjölskyldu sinni saman

Jehóva safnar fjölskyldu sinni saman

„Kappkostið að varðveita einingu andans.“ – EF. 4:3.

HVERT ER SVARIÐ?

Hvað ætlaði Guð að framkvæma í fyllingu tímans?

Hvernig getum við varðveitt „einingu andans“?

Hvað hjálpar okkur að vera „góðviljuð hvert við annað“?

1, 2. Hvað ætlast Jehóva fyrir með jörðina og mannkynið?

HVAÐ kemur upp í hugann þegar þú heyrir orðið fjölskylda? Hlýja? Hamingja? Að vinna saman að sameiginlegu markmiði? Öruggt skjól til að vaxa og þroskast, læra og skiptast á hugmyndum? Sennilega hugsarðu um allt þetta ef þú tilheyrir umhyggjusamri fjölskyldu. Jehóva er höfundur fjölskyldunnar. (Ef. 3:14, 15) Það var ætlun hans að allar sköpunarverur hans á himni og jörð byggju við öryggiskennd, treystu hver annarri og væru sameinaðar.

2 Eftir syndafallið tilheyrðu mennirnir ekki lengur alheimsfjölskyldu Jehóva. En það breytti ekki fyrirætlun hans. Hann sér til þess að jörðin verði paradís og verði að fullu byggð afkomendum Adams og Evu eins og hann ætlaði sér. (1. Mós. 1:28; Jes. 45:18) Hann hefur gert viðeigandi ráðstafanir til að vilji hans nái fram að ganga. Margar þeirra eru nefndar í Efesusbréfinu, en eining er kjarni bréfsins. Við skulum líta á nokkur vers í Efesusbréfinu og kanna hvernig við getum starfað í samræmi við þá fyrirætlun Jehóva að sameina sköpunarverkið.

FYRIRÆTLUN GUÐS OG FRAMKVÆMD HENNAR

3. Hvaða ráðstafanir gerði Guð í fyllingu tímans samkvæmt Efesusbréfinu 1:10 og hvenær hófst fyrri áfanginn?

3 Móse sagði við Ísraelsmenn: „Drottinn, Guð vor, Drottinn er einn.“ (5. Mós. 6:4) Allt sem Jehóva gerir samræmist fyrirætlun hans. „Í fyllingu tímanna“ gerði hann viðeigandi ráðstafanir til að sameina allar skynsemigæddar sköpunarverur sínar. (Lestu Efesusbréfið 1:8-10.) Jehóva gerir þessar ráðstafanir í tveim áföngum. Fyrri áfanginn er sá að hann býr söfnuð hinna andasmurðu undir það að lifa og starfa á himnum undir forystu Jesú Krists. Þessi áfangi hófst á hvítasunnu árið 33 þegar Jehóva byrjaði að safna saman þeim sem áttu að ríkja með Kristi á himnum. (Post. 2:1-4) Vegna lausnarfórnar Krists lítur Guð svo á að hinir andasmurðu séu réttlátir og verðskuldi líf. Þeir vita að þeir eru ættleiddir sem „Guðs börn“. – Rómv. 3:23, 24; 5:1; 8:15-17.

4, 5. Hver er síðari áfanginn í ráðstöfun Guðs sem nefnd er í Efesusbréfinu 1:10?

4 Síðari áfanginn er fólginn í því að búa fólk undir að lifa í paradís á jörð eftir að Messíasarríkið í höndum Krists hefur tekið völd. Þeir fyrstu í þessum hópi eru ,múgurinn mikli‘. (Opinb. 7:9, 13-17; 21:1-5) Í þúsundáraríki Krists bætast við milljarðar manna sem verða reistir upp frá dauðum. (Opinb. 20:12, 13) Hugsaðu þér hve mörg tækifæri bjóðast þá til að sýna að við erum sameinuð. Þegar þúsund árin eru liðin verður ,allt sem er á jörðu‘ látið gangast undir lokapróf. Þeir sem standast prófið og reynast trúir verða ættleiddir sem ,börn Guðs‘ á jörð. – Rómv. 8:21; Opinb. 20:7, 8.

5 Jehóva er að vinna að báðum áföngunum núna – annars vegar að búa fólk undir að lifa á himnum og hins vegar á jörð. En hvernig getum við hvert og eitt starfað í samræmi við fyrirætlun Jehóva?

„KAPPKOSTIÐ AÐ VARÐVEITA EININGU ANDANS“

6. Hvernig kemur fram í Biblíunni að kristnir menn eigi að safnast saman?

6 Í Biblíunni kemur fram að kristnir menn eigi að safnast saman í bókstaflegri merkingu. (1. Kor. 14:23; Hebr. 10:24, 25) En til að vera sameinaðir er ekki nóg að safnast bara saman á einum stað eins og fólk gerir á útimarkaði eða íþróttaleikvangi. Sönn eining er miklu meira en það. Við verðum sameinuð þegar við förum eftir leiðbeiningum Jehóva og leyfum heilögum anda hans að móta okkur.

7. Hvað merkir það að „varðveita einingu andans“?

7 Þar sem við trúum á lausnarfórn Jesú erum við réttlát í augum Jehóva. Hann lítur á hina andasmurðu sem syni og aðra sauði sem vini. En meðan þetta heimskerfi stendur er óhjákvæmilegt að það hlaupi stundum snurða á þráðinn í samskipum fólks. (Rómv. 5:9; Jak. 2:23) Annars hefði ekki þurft að minna okkur á að ,umbera hvert annað‘. En hvernig getum við stuðlað að einingu í söfnuðinum? Við þurfum að vera „í hvívetna lítillát og hógvær“. Og Páll hvetur okkur líka til að kappkosta „að varðveita einingu andans í bandi friðarins“. (Lestu Efesusbréfið 4:1-3.) Til að fara eftir þessum leiðbeiningum þurfum við að leyfa anda Guðs að hafa áhrif á okkur og framkalla ávöxt hans hjá okkur. Ávöxtur andans sættir fólk, ólíkt verkum holdsins sem valda alltaf sundrungu.

8. Hvernig valda verk holdsins sundrungu?

8 „Holdsins verk“ valda sundrungu. (Lestu Galatabréfið 5:19-21.) Frillulífi veldur viðskilnaði við Jehóva og söfnuðinn. Framhjáhald getur sundrað fjölskyldum og verið ákaflega sársaukafullt fyrir börnin og saklausa makann. Óhreinleiki hefur skaðleg áhrif á samband fólks við Guð og við þá sem elska hann. Til að líma saman tvo hluti þurfa báðir límfletirnir að vera hreinir svo að þeir festist saman. Saurlífi * vitnar um algert virðingarleysi fyrir réttlátum lögum Guðs. Þau verk holdsins, sem eru ótalin, valda sömuleiðis viðskilnaði við annað fólk og við Jehóva. Slík hegðun gengur algerlega í berhögg við eiginleika Guðs.

9. Hvernig getum við kannað hvort við reynum í einlægni að „varðveita einingu andans í bandi friðarins“?

9 Við þurfum því öll að spyrja okkur hve vel við leggjum okkur fram um að „varðveita einingu andans í bandi friðarins“. Hvernig bregstu við þegar ósætti kemur upp? Viðrar þú ágreininginn við alla vini þína í von um að fá stuðning þeirra? Ætlastu til þess að öldungarnir skerist í leikinn og leysi málið fyrir þig í stað þess að reyna sjálfur að ná sáttum? Forðastu þann sem þú veist að hefur eitthvað á móti þér og heldurðu ef til vill ákveðinni fjarlægð til að þurfa ekki að ræða málin? Ef þú gerðir það værirðu þá að hegða þér í samræmi við fyrirætlun Jehóva um að safna öllu saman undir eitt höfuð í Kristi?

10, 11. (a) Hve mikilvægt er að eiga frið við trúsystkini? (b) Hvernig getum við stuðlað að friði og farsæld?

10 Jesús sagði: „Sértu því að færa fórn þína á altarið og minnist þess þar að bróðir þinn hefur eitthvað á móti þér þá skaltu skilja gjöf þína eftir fyrir framan altarið, fara fyrst og sættast við bróður þinn, koma síðan og færa fórn þína. Vertu skjótur til sátta.“ (Matt. 5:23-25) Jakob skrifaði: „Friðflytjendur uppskera réttlæti og frið.“ (Jak. 3:17, 18) Við getum sem sagt ekki talist réttlát nema við eigum frið við aðra.

11 Áætlað er að í sumum stríðshrjáðum löndum væri hægt að rækta 35 prósent meira land ef fólk þyrfti ekki að vara sig á jarðsprengjum. Þegar jarðsprengja springur yfirgefa bændur akra sína, þorpsbúar missa lífsviðurværi sitt og borgarbúum berast ekki matvæli. Það er sömuleiðis erfitt fyrir okkur að þroska kristna eiginleika ef við erum með einhver einkenni sem valda árekstrum við aðra. Við stuðlum aftur á móti að friði og farsæld ef við erum fljót til að fyrirgefa og gera öðrum gott.

12. Hvernig geta öldungar hjálpað okkur að vera sameinuð?

12 Safnaðaröldungar geta stuðlað að einingu okkar allra. Þeir eru „gjafir“ sem söfnuðinum eru gefnar til að við „verðum öll einhuga í trúnni“. (Ef. 4:8, 13) Öldungar hjálpa okkur að íklæðast hinum nýja manni þegar þeir starfa með okkur í þjónustu Jehóva og gefa okkur góðar ábendingar byggðar á orði Guðs. (Ef. 4:22-24) Sérðu leiðbeiningar þeirra í því ljósi að Jehóva sé að búa þig undir nýja heiminn undir stjórn sonar hans? Reynið þið öldungar að leiðrétta aðra með það að leiðarljósi? – Gal. 6:1.

„VERIÐ GÓÐVILJUÐ HVERT VIÐ ANNAГ

13. Hvað myndi gerast ef við færum ekki eftir leiðbeiningunum í Efesusbréfinu 4:25-32?

13 Í Efesusbréfinu 4:25-29 er bent á hegðun sem okkur ber sérstaklega að forðast. Það er meðal annars lygi, reiði og leti. Við eigum að forðast fúkyrði og tala það sem er gott og til uppbyggingar. Ef við færum ekki eftir þessum leiðbeiningum myndum við hryggja anda Guðs vegna þess að heilagur andi skapar einingu. (Ef. 4:30) Til að búa við frið og einingu þurfum við líka að fara eftir því sem Páll sagði í framhaldinu: „Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt ykkur og alla mannvonsku yfirleitt. Verið góðviljuð hvert við annað, miskunnsöm, fús til að fyrirgefa hvert öðru eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið ykkur.“ – Ef. 4:31, 32.

14. (a) Hvers vegna hvetur Páll okkur til að ,vera góðviljuð‘? (b) Hvað hjálpar okkur að vera góðviljuð?

14 Páll hvetur okkur til að ,vera góðviljuð‘ vegna þess að stundum erum við það ekki og þurfum að leggja okkur betur fram. Við þurfum að venja okkur á að taka tilfinningar annarra fram yfir okkar eigin. (Fil. 2:4) Okkur dettur kannski í hug að segja eitthvað sem okkur þykir fyndið eða gáfulegt. En værum við góðviljuð ef við gerðum það? Það hjálpar okkur að vera góðviljuð hvert við annað ef við hugsum áður en við tölum.

AÐ KENNA ÁST OG VIRÐINGU Í FJÖLSKYLDUNNI

15. Hvernig á eiginmaður að líkja eftir Kristi, samanber orð Páls í Efesusbréfinu 5:28?

15 Í Biblíunni er sambandi Krists við söfnuðinn líkt við samband eiginmanns og eiginkonu. Þessi samlíking bendir greinilega á hvernig eiginmaður þarf að fara með forystu og sýna ást og umhyggju, og hvernig eiginkonan á að vera manni sínum undirgefin. (Ef. 5:21-33) Í hvað vísaði Páll þegar hann skrifaði: „Þannig skulu eiginmennirnir elska konur sínar eins og eigin líkami“? (Ef. 5:28) Í versunum á undan vekur hann athygli á hvernig Kristur elskaði söfnuðinn og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir hann til að helga hann „með orðinu og hreinsa . . . í vatnslauginni“. Það er hlutverk eiginmannsins að sjá öllum í fjölskyldunni fyrir andlegri næringu. Þannig vinnur hann í samræmi við þá fyrirætlun Jehóva að safna öllu undir eitt höfuð í Kristi.

16. Hver verður árangurinn þegar foreldrar rækja biblíulegar skyldur sínar á heimilinu?

16 Foreldrar þurfa að hafa hugfast að Jehóva hefur falið þeim ákveðið verkefni. Því miður eru margir „kærleikslausir“ í heimi nútímans. (2. Tím. 3:1, 3) Algengt er að feður víki sér undan skyldum sínum. Það kemur niður á börnunum og veldur þeim kvíða og vonbrigðum. En Páll skrifaði kristnum feðrum: „Reitið ekki börn ykkar til reiði heldur alið þau upp með aga og fræðslu um Drottin.“ (Ef. 6:4) Það er í fjölskyldunni sem börnin kynnast fyrst ást og virðingu fyrir yfirvaldi. Með því að kenna börnunum þetta vinna foreldrar í samræmi við þá fyrirætlun Jehóva að sameina alla þjóna sína. Börnin þurfa að finna að þau séu elskuð. Með því að forðast ofsa, reiði og lastmæli kennum við börnunum að elska og bera virðingu fyrir yfirvaldi. Það býr þau undir lífið í nýjum heimi Guðs.

17. Hvað þurfum við að gera til að standa gegn djöflinum?

17 Við þurfum að minna okkur á að Satan var fyrstur til að spilla friðinum í alheiminum, og hann reynir allt hvað hann getur til að hindra okkur í að gera vilja Guðs. Það þjónar eflaust tilgangi hans að hjónaskilnuðum skuli fjölga, fólk skuli kjósa að vera í óvígðri sambúð í stað þess að giftast og að hjónabönd samkynhneigðra séu viðurkennd. Við hermum ekki eftir þeirri hegðun eða þeim viðhorfum sem við sjáum í samfélagi nútímans. Við líkjum eftir Kristi. (Ef. 4:17-21) Þess vegna erum við hvött til að klæðast „alvæpni Guðs“ svo að við getum staðið gegn djöflinum og illu öndunum. – Lestu Efesusbréfið 6:10-13.

„LIFIÐ Í KÆRLEIKA“

18. Hver er forsenda þess að við séum sameinuð?

18 Kærleikur er forsenda þess að við séum sameinuð. Við erum staðráðin í að „varðveita einingu andans í bandi friðarins“ því að við elskum ,einn Drottin‘, Jesú Krist, „einn Guð“, Jehóva, og hvert annað. (Ef. 4:3-6) Jesús gerði þennan kærleika að bænarefni og sagði: „Ég bið ekki einungis fyrir þessum heldur og fyrir þeim sem á mig trúa fyrir orð þeirra, að allir séu þeir eitt, eins og þú, faðir, ert í mér og ég í þér, svo séu þeir einnig í okkur . . . Ég hef kunngjört þeim nafn þitt og mun kunngjöra svo að kærleikur þinn, sem þú hefur auðsýnt mér, sé í þeim og ég sé í þeim.“ – Jóh. 17:20, 21, 26.

19. Hvað ættum við að vera staðráðin í að gera?

19 Ef við eigum í innri baráttu vegna ófullkomleikans ætti kærleikurinn að vera okkur hvatning til að biðja eins og sálmaskáldið: „Gef mér heilt hjarta, að ég tigni nafn þitt.“ (Sálm. 86:11) Verum staðráðin í að berjast gegn djöflinum þegar hann reynir að gera okkur viðskila við föðurinn á himnum og trúsystkini okkar. Leggjum okkur fram um að gera eins og Páll hvatti til: „Verðið . . . eftirbreytendur Guðs svo sem elskuð börn hans. Lifið í kærleika.“ Gerum það bæði í fjölskyldunni, í boðunarstarfinu og í söfnuðinum. – Ef. 5:1, 2.

[Neðanmáls]

^ gr. 8 Gríska orðið, sem þýtt er „saurlífi“, lýsir blygðunarlausri hegðun. Sá sem gerir sig sekan um þess konar hegðun hefur brotið lög Jehóva á alvarlegan hátt. Hann er ósvífinn og ber alls enga virðingu fyrir lögum Guðs.

[Spurningar]

[Mynd á bls. 29]

Hann skilur gjöf sína eftir við altarið og fer til að sættast við bróður sinn.

[Mynd á bls. 31]

Foreldrar ættu að kenna börnunum að sýna virðingu.