Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Láttu Jehóva veita þér hið sanna frelsi

Láttu Jehóva veita þér hið sanna frelsi

Láttu Jehóva veita þér hið sanna frelsi

„Skyggnist inn í hið fullkomna lögmál frelsisins.“ – JAK. 1:25.

GETURÐU SVARAÐ?

Hvaða lögmál veitir raunverulegt frelsi og hverjir njóta góðs af því?

Hvað þarf að gera til að hljóta hið sanna frelsi?

Hvaða frelsi bíður allra sem halda sig á veginum til lífsins?

1, 2. (a) Hvað er að verða um frelsi fólks í heiminum og af hverju? (b) Hvaða frelsi eiga þjónar Jehóva í vændum?

ÁGIRND, lögleysi og ofbeldi fer sívaxandi. (2. Tím. 3:1-5) Stjórnvöld bregðast við með því að setja fleiri lög, efla löggæslu og setja upp rafrænan eftirlitsbúnað. Í sumum löndum reyna almennir borgarar að skapa sér meira öryggi með því að setja upp viðvörunarkerfi á heimilum sínum, bæta fleiri lásum á dyr og jafnvel setja upp rafmagnsgirðingar. Margir þora ekki að fara út að kvöldlagi eða leyfa börnunum að leika sér úti án eftirlits – ekki einu sinni að degi til. Frelsi fólks fer greinilega dvínandi og líklegt er að sú þróun haldi áfram.

2 Satan fullyrti í Eden á sínum tíma að raunverulegt frelsi byggðist á því að vera óháður Jehóva. Það var illgjörn og andstyggileg lygi. Sannleikurinn er sá að því meir sem fólk sniðgengur þau andlegu og siðferðilegu mörk sem Guðs setur, því alvarlegri afleiðingar hefur það fyrir allt samfélagið. Þjónar Jehóva finna líka fyrir því að ástandið fer versnandi. Við eigum hins vegar þá von að áþján syndar og spillingar taki enda, að mannkynið fái að njóta „dýrðarfrelsis Guðs barna“. (Rómv. 8:21, Biblían 1981) Jehóva er reyndar byrjaður að búa þjóna sína undir þetta frelsi. Hvernig gerir hann það?

3. Hvaða lögmál hefur Jehóva gefið fylgjendum Krists og við hvaða spurningum ætlum við að leita svara?

3 Jehóva notar það sem biblíuritarinn Jakob kallar „hið fullkomna lögmál frelsisins“ til að búa þjóna sína undir frelsi framtíðarinnar. (Lestu Jakobsbréfið 1:25.) Í annarri biblíuþýðingu er talað um „lögin sem frelsa okkur“. (The New English Bible) Fólk setur lög yfirleitt í samband við hömlur en ekki frelsi. Hvað er þá „hið fullkomna lögmál frelsisins“? Hvernig veitir það okkur frelsi?

LÖGMÁLIÐ SEM FRELSAR

4. Hvert er „hið fullkomna lögmál frelsisins“ og hverjir njóta góðs af því?

4 „Hið fullkomna lögmál frelsisins“ er ekki hið sama og Móselögin því að þau sýndu Ísraelsmönnum fram á að þeir væru syndarar og Kristur uppfyllti lögmál Móse. (Matt. 5:17; Gal. 3:19) Hvaða lögmál á Jakob þá við? Hann er að tala um „lögmál Krists“ sem er einnig kallað ,lögmál trúar‘. (Gal. 6:2; Rómv. 3:27; Jak. 2:12) „Hið fullkomna lögmál“ nær því yfir allt sem Jehóva ætlast til af okkur. Bæði hinir andasmurðu og ,aðrir sauðir‘ njóta góðs af því. – Jóh. 10:16.

5. Af hverju er lögmál frelsisins ekki íþyngjandi?

5 „Hið fullkomna lögmál“ er hvorki flókið né íþyngjandi, ólíkt lögum margra þjóða. (1. Jóh. 5:3) Það byggist á einföldum boðorðum og meginreglum. „Mitt ok er ljúft og byrði mín létt,“ sagði Jesús. (Matt. 11:29, 30) „Hið fullkomna lögmál“ er þess eðlis að því fylgir ekki langur listi af viðurlögum eða refsiákvæðum. Þau eru óþörf vegna þess að þetta lögmál er byggt á kærleika og er skráð í hugi fólks og hjörtu en ekki á steintöflur. – Lestu Hebreabréfið 8:6, 10.

HVERNIG VEITIR „HIÐ FULLKOMNA LÖGMÁL“ FRELSI?

6, 7. Hvað er hægt að segja um mælikvarða Jehóva og hvaða frjálsræði veitir lögmál frelsisins?

6 Þau mörk, sem Jehóva hefur sett skynsemigæddum sköpunarverum sínum, eru þeim til góðs og veita þeim vernd. Tökum sem dæmi náttúrulögmálin sem stjórna orku og efni. Fólk kvartar ekki undan því að þessi lög séu íþyngjandi heldur kann að meta þau vitandi að þau eru okkur mönnunum til góðs. Andlegur og siðferðilegur mælikvarði Jehóva, sem endurspeglast í,hinu fullkomna lögmáli‘ Krists, er einnig til góðs fyrir mennina.

7 Auk þess að vernda okkur gerir lögmál frelsisins okkur kleift að fullnægja öllum eðlilegum löngunum án þess að skaða sjálf okkur eða ganga á réttindi og frelsi annarra. Lykillinn að því að vera raunverulega frjáls – að geta gert það sem okkur langar til – er því sá að þroska með okkur réttar langanir sem samræmast eiginleikum og lögum Jehóva. Við þurfum með öðrum orðum að læra að elska það sem Jehóva elskar og hata það sem hann hatar. Lögmál frelsisins hjálpar okkur til þess. – Amos 5:15.

8, 9. Hvernig nýtur fólk góðs af því að fylgja lögmáli frelsisins? Lýstu með dæmi.

8 Þar sem við erum ófullkomin eigum við í baráttu við rangar langanir. En þegar við fylgjum lögmáli frelsisins dyggilega finnum við hvernig það veitir okkur frelsi á ýmsa vegu. Lýsum því með dæmi: Jay var nýbyrjaður að kynna sér Biblíuna. Hann var reykingamaður en þegar hann uppgötvaði að reykingar stríða gegn vilja Guðs þurfti hann að taka ákvörðun. Ætlaði hann að láta löngunina í tóbakið stjórna sér eða ætlaði hann að hlýða Jehóva? Hann tók þá skynsamlegu ákvörðun að þjóna Guði jafnvel þótt nikótínfíknin væri að gera út af við hann. Hvernig leið honum eftir að hann hætti reykingum? „Ég fann fyrir stórkostlegu frelsi og mikilli gleði,“ sagði hann síðar.

9 Í heiminum hefur fólk frelsi til að láta ,sjálfshyggjuna‘ ráða ferðinni en Jay lærði af reynslunni að slíkt frelsi gerir fólk að þrælum. Þeir sem fylgja lögmáli frelsisins láta hins vegar „stjórnast af anda Guðs“ og það hefur í för með sér ,líf og frið‘. (Rómv. 8:5, 6) Hvaðan fékk Jay kraft til að sigrast á tóbaksfíkninni? Ekki innan frá heldur frá Guði. „Ég var iðinn við biblíunám, bað um heilagan anda og þáði hjálpina sem söfnuðurinn veitti mér af miklum kærleika,“ sagði hann. Við getum öll nýtt okkur þetta til að öðlast ósvikið frelsi. Lítum nánar á málið.

SKYGGNUMST INN Í ORÐ GUÐS

10. Hvað merkir það að ,skyggnast‘ inn í lögmál Guðs?

10 Í Jakobsbréfinu 1:25 stendur: „Sá sem skyggnist inn í hið fullkomna lögmál frelsisins og heldur sér við það . . . verður sæll í verkum sínum.“ Gríska orðið, sem er þýtt „skyggnist“, merkir að „beygja sig til að skoða nánar“ og lýsir markvissri viðleitni. Ef við viljum að lögmál frelsisins hafi áhrif á huga okkar og hjarta þurfum við að leggja okkur fram við biblíunám og hugleiða vandlega það sem við lesum. – 1. Tím. 4:15.

11, 12. (a) Hvernig lagði Jesús áherslu á að við þyrftum að tileinka okkur sannleikann? (b) Hvaða hættu þurfa einkum unglingar að vara sig á?

11 Við þurfum líka að ,halda okkur við orð Guðs‘ með því að tileinka okkur það og fara eftir því. Jesús tók svipað til orða þegar hann sagði við þá sem trúðu á hann: „Ef þér farið eftir því sem ég segi eruð þér sannir lærisveinar mínir og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gera yður frjálsa.“ (Jóh. 8:31, 32) Í biblíuorðabók kemur fram að sögnin ,að þekkja‘ í þessu versi merki einnig að kunna að meta vegna þess að „,hið þekkta‘ hefur gildi eða er mikilvægt fyrir þann sem þekkir það“. Við þekkjum því sannleikann vel þegar við lifum eftir honum. Þá má segja með réttu að ,Guðs orð sýni kraft sinn‘ í okkur með því að móta persónuleika okkar þannig að við líkjum betur eftir föðurnum á himnum. – 1. Þess. 2:13.

12 Það er gott að spyrja sig hvort maður þekki sannleikann í raun og veru. Hefurðu tileinkað þér hann? Eða þráirðu enn eitthvað sem heimurinn telur vera „frelsi“? Systir, sem ólst upp á kristnu heimili, segir um æskuárin: „Ef maður elst upp í sannleikanum er eiginlega sjálfsagt að trúa á Jehóva. En ég kynntist honum aldrei í alvöru. Ég lærði aldrei að hata það sem hann hatar. Ég trúði aldrei að það skipti hann máli hvað ég gerði. Og ég lærði aldrei að leita til hans þegar ég átti í erfiðleikum. Ég reiddi mig á eigið hyggjuvit en ég veit núna að það var heimskulegt af því að ég vissi ekki nokkurn skapaðan hlut.“ Sem betur fer gerði systirin sér síðar ljóst að hún var á kolrangri braut. Hún sneri við blaðinu og gerðist meira að segja brautryðjandi.

HEILAGUR ANDI GETUR HJÁLPAÐ ÞÉR AÐ VERA FRJÁLS

13. Hvernig hjálpar heilagur andi okkur að vera frjáls?

13 Í 2. Korintubréfi 3:17 stendur: „Þar sem andi Drottins er, þar er frelsi.“ Hvernig getur heilagur andi stuðlað að frelsi? Meðal annars glæðir hann með okkur eiginleika sem eru forsenda frelsis. Þetta eru „kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og sjálfsagi.“ (Gal. 5:22, 23) Án þessara eiginleika, einkum kærleikans, getur ekkert þjóðfélag verið frjálst. Það blasir við hvert sem litið er. Eftir að Páll er búinn að telja upp ávöxt andans segir hann: „Gegn slíku er lögmálið ekki.“ Hvað átti hann við? Engin lög geta hindrað að ávöxtur andans fái að þroskast. (Gal. 5:18) Slík lög myndu ekki þjóna neinum tilgangi. Jehóva vill að við þroskum með okkur þessa eiginleika að eilífu og án takmarkana.

14. Hvernig hneppir andi heimsins fólk í þrældóm?

14 Þeir sem andi heimsins hefur á valdi sínu og leyfa sér að láta undan eigingjörnum löngunum sínum ímynda sér kannski að þeir séu frjálsir. (Lestu 2. Pétursbréf 2:18, 19.) En veruleikinn er allur annar. Settar eru endalausar reglur og lög til að halda í skefjum skaðlegum löngunum þeirra og hegðun. Lögmálið er „ekki sett vegna réttlátra heldur fyrir lögleysingja og þverúðuga,“ segir Páll. (1. Tím. 1:8-10) Þeir eru líka þrælar syndarinnar, knúnir af „vilja holdsins“ sem er grimmur húsbóndi. (Ef. 2:1-3, Biblían 1981) Það má líkja þessu fólki við skordýr sem skríða ofan í skál með hunangi og festast svo þar. – Jak. 1:14, 15.

FRELSIÐ SEM VEITIST Í KRISTNA SÖFNUÐINUM

15, 16. Hvernig hefurðu notið góðs af því að tilheyra söfnuðinum og hvaða frelsis nýturðu?

15 Þegar þú byrjaðir að sækja samkomur varstu ekki að ganga í einhvers konar klúbb. Þú komst inn í söfnuðinn af því að Jehóva laðaði þig að sér. (Jóh. 6:44) Hvað varð til þess að hann gerði það? Sá hann réttláta og guðhrædda manneskju? „Ég held nú síður,“ segirðu kannski. Hvað var það þá sem Guð sá? Hann sá að þú varst móttækilegur fyrir lögum hans og varst fús til að þiggja handleiðslu hans. Eftir að þú komst inn í söfnuðinn hefur Jehóva annast þig með því að næra þig af orði sínu. Hann hefur frelsað þig úr fjötrum falskra trúarkenninga og hjátrúar og kennt þér að líkja eftir eiginleikum Krists. (Lestu Efesusbréfið 4:22-24.) Fyrir vikið færðu að tilheyra eina söfnuðinum í heimi þar sem fólk getur með sanni sagt að það sé frjálst. – Jak. 2:12.

16 Hugleiddu málið: Ertu smeykur þegar þú ert í félagsskap þeirra sem elska Jehóva af öllu hjarta? Ertu sífellt með varann á? Heldurðu þéttingsfast í eigur þínar þegar þú spjallar við einhvern í ríkissalnum, af ótta við að þær hverfi? Síður en svo. Þú finnur til öryggis og frelsis. Er þér þannig innanbrjósts í öðrum félagsskap? Það er harla ólíklegt. Og frelsið, sem þú nýtur núna meðal þjóna Guðs, er aðeins forsmekkur þess frelsis sem þú átt í vændum.

,DÝRÐARFRELSI GUÐS BARNA‘

17. Hvernig er frelsi mannkyns tengt því að „Guðs börn verði opinber“?

17 Páll skrifaði eftirfarandi um frelsið sem Jehóva ætlar að veita þjónum sínum á jörð: „Sköpunin þráir, að Guðs börn verði opinber.“ Hann bætti svo við: „Sjálf sköpunin [mun] verða leyst úr ánauð forgengileikans til dýrðarfrelsis Guðs barna.“ (Rómv. 8:19-21, Biblían 1981) „Sköpunin“ er þeir menn sem eiga þá von að lifa að eilífu á jörð. Þeir njóta góðs af því að andsmurð börn Guðs „verði opinber“. Þessi opinberun hefst þegar hinir andasmurðu á himnum aðstoða Krist við að hreinsa jörðina af allri illsku og vernda ,múginn mikla‘ svo að hann komist inn í nýja heiminn. – Opinb. 7:9, 14.

18. Hvernig eykst frelsi mannanna og hvaða frelsi hljóta þeir að lokum?

18 Mannkynið öðlast þá frelsi sem það hefur aldrei þekkt áður. Mennirnir verða lausir undan áhrifum Satans og illu andanna. (Opinb. 20:1-3) Hvílíkur léttir! Hinir 144.000 meðkonungar og prestar Krists beita lausnarfórninni til að frelsa mannkynið jafnt og þétt undan erfðasynd og ófullkomleika. (Opinb. 5:9, 10) Eftir að trú manna hefur verið reynd hljóta þeir sem reynast trúir hið fullkomna frelsi sem Jehóva ætlaði þeim –,dýrðarfrelsi Guðs barna‘. Hugsaðu þér. Þá verður það ekki lengur barátta að breyta rétt í augum Guðs vegna þess að við verðum fullkomin á huga og líkama og getum líkt eftir eiginleikum Guðs í einu og öllu.

19. Hvað þurfum við að gera núna til að halda okkur á veginum til frelsisins?

19 Þráirðu að hljóta ,dýrðarfrelsi Guðs barna‘? Láttu þá „hið fullkomna lögmál frelsisins“ orka áfram á huga þinn og hjarta. Vertu iðinn við biblíunám. Tileinkaðu þér sannleikann og lifðu í samræmi við hann. Biddu um heilagan anda. Nýttu þér andlegu fæðuna frá Jehóva og allt sem söfnuðurinn hefur upp á að bjóða. Láttu Satan ekki blekkja þig eins og hann blekkti Evu. Láttu hann ekki telja þér trú um að Guð sé of strangur við okkur. Gleymdu ekki að Satan er snjall. En eins og fram kemur í greininni á eftir þurfum við ekki láta hann ná tökum á okkur „því að ekki er okkur ókunnugt um vélráð hans“. – 2. Kor. 2:11.

[Spurningar]

[Myndir á bls. 9]

Þrái ég enn eitthvað sem heimurinn telur vera „frelsi“?

[Myndir á bls. 9]

Hef ég tileinkað mér sannleikann?