Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Á ferð með pílagrímum

Á ferð með pílagrímum

Úr sögusafninu

Á ferð með pílagrímum

„ÉG GET bara ekki farið hús úr húsi.“ Hversu margir biblíunemendur okkar hafa ekki sagt eitthvað þessu líkt við tilhugsunina að boða trúna fyrir ókunnugum. Reyndar kom þessi mótbára frá vönum ræðumanni og biblíukennara sem var farandhirðir en á þeim tíma voru þeir kallaðir pílagrímar.

Margir sem lásu tímaritið Zion’s Watch Tower og hættu að sækja kirkjur sínar leituðust við að eiga félagskap við aðra sem þyrsti eftir sannleika Biblíunnar. Í tímaritinu voru lesendur hvattir til þess að leita uppi þá sem væru sömu trúar og koma reglulega saman í hópum til að lesa og rannsaka orð Biblíunnar. Árið 1894 byrjaði Varðturnsfélagið að senda út farandumsjónarmenn, sem seinna meir voru kallaðir pílagrímar, til þess að hitta þá hópa sem höfðu beðið um heimsókn. Þessir reyndu og harðduglegu bræður voru valdir til starfa vegna þess að þeir voru auðmjúkir, höfðu mikla biblíuþekkingu, voru vel máli farnir, góðir kennarar og sýndu sterka trú á lausnarfórnina. Heimsókn þeirra stóð aðeins yfir í einn eða tvo annasama daga. Margir af biblíunemendunum fengu sína fyrstu reynslu af boðunarstarfinu þegar þeir dreifðu boðsmiðum á fyrirlestra pílagríma. Hugo Riemer, sem seinna sat í hinu stjórnandi ráði, hélt eitt sinn ræðu í skólabyggingu að kvöldi til. Eftir að henni lauk svaraði hann biblíutengdum spurningum fram yfir miðnætti. Uppgefinn en ánægður lýsti hann því yfir að kvöldið hefði verið dásamlegt.

Í Varðturninum stóð að aðalmarkmiðið með heimsóknum pílagrímanna væri að halda stofufundi á heimilum trúsystkina til þess að byggja þau upp í trúnni. Biblíunemendur frá nærliggjandi bæjarfélögum komu til þess að hlusta á ræður og taka þátt í umræðum með spurningum og svörum. Síðan voru bornar fram veitingar. Ung stúlka að nafni Maude Abbott hlustaði á ræðu fyrir hádegi og eftir ræðuna settust allir við langborð úti í garði. „Þar voru dýrindiskræsingar á borðum. Svínslæri, grillaður kjúklingur, alls konar brauð, fylltar bökur og kaka. Hver og einn borðaði eins og hann gat í sig látið og um tvöleytið hópuðumst við aftur saman til að hlusta á aðra ræðu.“ En hún viðurkennir „að þá hafi allir legið í hálfgerðu móki“. Benjamin Barton, sem starfaði lengi sem pílagrímur, sagði eitt sinn að ef hann hefði borðað allar krásirnar sem honum voru boðnar hefði það sennilega gengið af honum dauðum! Seinna kom bréf frá höfuðstöðvunum í Brooklyn með leiðbeiningum til velviljaðra systra um að betra væri fyrir alla ef pílagrímarnir fengju venjulegan heimilismat og nægan svefn.

Pílagrímarnir voru öndvegiskennarar og nýttu sér skýringarmyndir, líkön eða bara það sem þeir höfðu við höndina til þess að blása lífi í kennsluna. Ræður R. H. Barbers „voru alltaf salti kryddaðar“. Hinn föðurlegi W. J. Thorn talaði „eins og ættfeðurnir til forna“. Dag einn var Shield Toutjian ásamt fleirum á ferðalagi í Ford módel A bifreið. Skyndilega hrópaði hann: „Stopp!“ Hann stökk út úr bílnum, tíndi nokkur blóm úr vegkantinum og nýtti svo tækifærið til að fræða samferðamenn sína um sköpunarverk Jehóva.

Pílagrímastarfið var hörkuvinna og því fylgdu ýmiss konar áskoranir, sérstaklega fyrir þá sem komnir voru á eða yfir miðjan aldur. Erfiðasta hindrunin fyrir suma var þó þegar breyta átti áherslunum í starfi þeirra. Nú áttu þeir að taka forystuna í boðunarstarfinu hús úr húsi. Í Varðturninum 15. mars 1924 stóð: „Aðalverkefni“ sannkristins manns „er að vitna um Guðsríki. Pílagrímarnir eru sendir út af örkinni í þeim tilgangi.“

Einstaka pílagrímar tóku þó breytingunum illa og hættu í farandstarfinu. Þeir sem voru hvað óánægðastir mynduðu jafnvel sinn eigin hóp fylgjenda. Robie D. Adkins minnist þess að einn af pílagrímunum, sem var frábær ræðumaður, hafi sagt bitur í bragði: „Það eina sem ég kann er að prédika úr ræðustól. Ég get bara ekki farið hús úr húsi.“ Bróðir Adkins segir síðan: „Ég sá hann næst árið 1924 á mótinu í Columbus í Ohioríki. Hann leit út fyrir að vera vansælastur allra þar sem hann stóð aleinn í skugga undir litlu tré. Hann var einmana þrátt fyrir að vera umkringdur þúsundum ánægðra trúsystkina. Ég sá hann ekki framar og stuttu síðar yfirgaf hann söfnuðinn.“ Á hinn bóginn „gengu margir glaðir bræður fram hjá og báru bækur í bílana sína“, greinilega spenntir að byrja að vitna hús úr húsi. – Post. 20:20, 21.

Þrátt fyrir að margir pílagrímanna hafi verið jafn kvíðnir og trúsystkinin sem þeir áttu að þjálfa gáfu þeir sig alla að starfinu. Hinn þýskumælandi pílagrímur, Maxwell G. Friend (Freschel), skrifaði: „Þessi hluti pílagrímastarfsins er mikil blessun og gerir ferðirnar enn ánægjulegri“ og átti hann þar við boðunarstarfið hús úr húsi. Pílagrímurinn John A. Bohnet skýrði frá því að bræðurnir hafi almennt kunnað ákaflega vel að meta áhersluna sem lögð var á boðunarstarfið. Haft var eftir honum að meirihluti bræðranna hafi „brunnið í skinninu af eftirvæntingu að fá að taka þátt í orustunni og vera í framlínunni“.

Trúfastir farandbræður hafa í gegnum árin verið ákaflega uppbyggjandi fyrir trúsystkini sín. „Ég tók eftir því strax sem smástrákur að heimsóknir pílagrímanna voru tvímælalaust mikils virði og gagnlegar öllum,“ segir Norman Larson, vottur til margra ára. „Þeir höfðu mjög jákvæð áhrif á mig og áttu stóran þátt í að ég valdi rétta veginn.“ Allt fram á þennan dag hjálpa fórnfúsir og trúfastir farandhirðar trúsystkinum sínum að segja: „Við getum farið hús úr húsi!“

[Innskot á bls. 32]

Það var ánægjuleg stund þegar pílagrímarnir komu í heimsókn.

[Mynd á bls. 31]

Það voru um 170 áfangastaðir á ferðaáætlun Benjamins Bartons árið 1905.

[Mynd á bls. 32]

Walter J. Thorn var pílagrímur sem fylgdi í fótspor Krists. Hann gekk undir nafninu Pápi vegna þess hve föðurlegur hann var.

[Mynd á bls. 32]

J. A. Browne var sendur sem pílagrímur til Jamaíka árið 1902 til þess að styrkja og uppörva 14 litla hópa.

[Mynd á bls. 32]

Starf pílagríma styrkti trú, jók einingu og batt bræðurna og söfnuðinn sterkari böndum.