Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Ég er með yður“

„Ég er með yður“

„Ég er með yður“

„Margir munu rannsaka hana, og þekkingin mun vaxa.“ – DAN. 12:4, Biblían 1981.

HVERT ER SVARIÐ?

Hvernig hefur fólk öðlast hina sönnu þekkingu á okkar tímum?

Hvað var gert til að margir gætu tekið við sannleikanum?

Á hvaða vegu hefur þekkingin vaxið til muna?

1, 2. (a) Hvernig vitum að við Jesús er með þegnum sínum núna og verður með þeim í framtíðinni? (b) Hvað átti nákvæm rannsókn að hafa í för með sér samkvæmt Daníelsbók 12:4?

HUGSAÐU þér að þú sért í paradís. Þú vaknar úthvíldur á hverjum morgni, óðfús að hefja dagleg störf. Þú finnur ekki fyrir neinum verkjum eða óþægindum. Allir kvillar, sem hrjáðu þig, eru horfnir. Öll skilningarvitin starfa vel – þú hefur fullkomna sjón og heyrn, og snerti-, bragð- og lyktarskyn er eins og best verður á kosið. Þú hefur meira en nóg þrek, hefur ánægju af vinnunni, átt fjöldann allan af vinum og ert áhyggjulaus. Þannig verður lífið þegar ríki Guðs hefur tekið völd. Konungurinn Jesús Kristur veitir þegnum sínum öll þessi gæði ásamt þekkingunni á Jehóva.

2 Jehóva verður með dyggum þjónum sínum á þeim tíma og styður þá í fræðslustarfi þeirra um allan heim. Hann og sonur hans hafa verið með trúum kristnum mönnum um aldaraðir. Áður en Jesús steig upp til himna fullvissaði hann lærisveinana um að hann yrði með þeim. (Lestu Matteus 28:19, 20.) Til að styrkja trú okkar á þetta loforð skulum við brjóta til mergjar eina málsgrein í innblásnum spádómi sem var færður í letur í Babýlon fyrir meira en 2.500 árum. Daníel spámaður skrifaði að eftirfarandi myndi gerast þegar drægi að endalokunum, það er að segja á okkar dögum: „Margir munu rannsaka [orð Guðs], og þekkingin mun vaxa.“ (Dan. 12:4, Biblían 1981) Í spádóminum segir að þeir sem rannsökuðu orð Guðs myndu öðlast þá blessun að skilja það vel og nákvæmlega. Þar kemur einnig fram að margir myndu tileinka sér þekkinguna og að hún myndi vaxa. Og þessi þekking yrði kunngerð víða og yrði öllum aðgengileg. Við skulum nú kanna hvernig þessi spádómur hefur ræst. Við sjáum þá greinilega að Jesús er með lærisveinum sínum núna og að Jehóva er fullfær um að efna allt sem hann hefur lofað.

EINLÆGIR ÞJÓNAR GUÐS ÖÐLAST ÞEKKINGUNA

3. Hvað gerðist eftir dauða postulanna?

3 Eftir að postularnir voru dánir varð mikið fráhvarf frá sannri kristni eins og spáð hafði verið, og það breiddist út eins og eldur í sinu. (Post. 20:28-30; 2. Þess. 2:1-3) Um aldaraðir höfðu menn litla þekkingu á Guði. Það átti bæði við um þá sem vissu ekkert um Biblíuna og eins þá sem kölluðu sig kristna. Trúarkennarar kristna heimsins sögðust trúa á Biblíuna en kenndu hins vegar margs konar lygar og ,lærdóma illra anda‘ sem köstuðu rýrð á Guð. (1. Tím. 4:1) Almenningur fékk sáralitla fræðslu um Guð. Fráhvarfskenningarnar voru meðal annars þær að Guð væri þríeinn, sálin væri ódauðleg og að sálir sumra kveldust að eilífu í logum vítis.

4. Hvernig fór hópur kristinna manna að leita sannleika Biblíunnar upp úr 1870?

4 En þetta breyttist upp úr 1870, um 40 árum áður en síðustu dagar hófust. (2. Tím. 3:1) Lítill hópur einlægra kristinna manna í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum tók þá að hittast til að grandskoða Biblíuna og leita að hinni sönnu þekkingu. Þeir kölluðu sig Biblíunemendur. Þetta voru ekki ,spekingar og hyggindamenn‘ enda sagði Jesús að þekkingin yrði hulin slíkum mönnum. (Matt. 11:25) Þetta var öllu heldur auðmjúkt fólk sem þráði í einlægni að gera vilja Guðs. Biblíunemendurnir báðust fyrir, lásu í Biblíunni, ræddu efnið og hugleiddu það. Þeir báru saman biblíuvers og könnuðu rit annarra sem höfðu leitað að sannleika Biblíunnar. Smám saman komu þeir auga á sannindi sem höfðu verið hulin öldum saman.

5. Í hvaða tilgangi gáfu Biblíunemendurnir út bæklingaröð sem kallaðist „Gamla guðfræðin“?

5 Biblíunemendurnir voru himinlifandi yfir því sem þeir uppgötvuðu. En þeir létu ekki hina nýfundnu þekkingu stíga sér til höfuðs. Þeir þóttust ekki vera að boða eitthvað nýtt heldur gáfu út nokkra bæklinga sem þeir kölluðu „Gömlu guðfræðina“ (The Old Theology). (1. Kor. 8:1) Markmiðið var að koma lesendum í kynni við sannindi sem skráð voru í Biblíunni. Í fyrsta bæklingnum var talað um að þar væri að finna „meira lesefni til biblíunáms með það að markmiði að losna við allar falskar erfikenningar manna og endurheimta að fullu hina gömlu guðfræði Drottins og postulanna“. – The Old Theology, nr. 1, apríl 1889, bls. 32.

6, 7. (a) Hvaða sannindi hafa vottar Jehóva uppgötvað síðan 1870? (b) Hvaða sannindi eru þér sérstaklega kær?

6 Það eru stórmerk sannindi sem þjónar Guðs hafa uppgötvað síðan þeir hófust handa fyrir meira en öld. * Þetta eru ekki þurr fræði sem fáir hafa áhuga á nema guðfræðingar heldur spennandi sannindi sem leysa fólk úr fjötrum. Þau veita lífi okkar gildi og fylla okkur gleði og von. Þau hjálpa okkur að kynnast Jehóva sem ástríkum Guði og fræða okkur um fyrirætlun hans með jörðina og mannkynið. Þau varpa skýru ljósi á hlutverk Jesú, upplýsa af hverju hann kom til jarðar og dó og segja frá hvað hann gerir núna. Þessi dýrmætu sannindi opinbera hvers vegna Guð umber illskuna, hvers vegna við deyjum, hvernig á að biðja og hvernig hægt sé að höndla hamingjuna.

7 Við höfum fengið skilning á spádómum sem hafa verið „leyndardómur“ um aldaraðir en eru að rætast núna á endalokatímanum. (Dan. 12:9) Þessa spádóma er að finna víða í Biblíunni, sérstaklega þó í guðspjöllunum og Opinberunarbókinni. Jehóva hefur meira að segja veitt okkur skilning á atburðum sem hafa átt sér stað utan okkar tilverusviðs. Við vitum til dæmis að Jesús er orðinn konungur, stríð var háð á himnum og Satan var varpað niður til jarðar. (Opinb. 12:7-12) Guð hefur einnig gert okkur kleift að skilja atburði sem við sjáum. Við vitum hvaða þýðingu útbreiddar styrjaldir, jarðskjálftar, drepsóttir og hungur hafa, og hvers vegna „örðugar tíðir“ steðja að sökum áhrifa óguðlegra manna. – 2. Tím. 3:1-5; Lúk. 21:10, 11.

8. Hverjum þökkum við það sem við höfum séð og heyrt?

8 Við getum tekið undir með Jesú þegar hann sagði við lærisveina sína: „Sæl eru þau augu sem sjá það sem þér sjáið. Því að ég segi yður: Margir spámenn og konungar vildu sjá það sem þér sjáið en sáu það ekki og heyra það sem þér heyrið en heyrðu það ekki.“ (Lúk. 10:23, 24) Við þökkum Jehóva Guði fyrir að gera okkur kleift að sjá þetta og heyra. Og við erum innilega þakklát fyrir að „hjálparinn“, heilagur andi Guðs, skuli hafa verið sendur til að leiða fylgjendur Jesú „í allan sannleikann“. (Lestu Jóhannes 16:7, 13.) Gleymum aldrei hve verðmætt það er að þekkja sannleikann og mikilvægt að miðla honum til annarra.

MARGIR TILEINKA SÉR ÞEKKINGUNA

9. Eftir hverju var auglýst í þessu tímariti í apríl árið 1881?

9 Í apríl árið 1881, innan við tveim árum eftir að tímaritið Varðturninn hóf göngu sína, var auglýst eftir 1.000 prédikurum. Í blaðinu stóð: „Við erum með tillögu handa þeim sem eru þannig í sveit settir að þeir geti helgað sig starfi Drottins helminginn af tíma sínum eða meira . . . þ.e. að þið farið sem farandbóksalar eða trúboðar til borga og bæja eftir því sem þið hafið tök á. Reynið alls staðar að finna einlæga kristna menn sem eru margir heitir í trú sinni á Guð en skortir réttan skilning. Leitist við að kynna fyrir þeim hve auðug náð föðurins er og hve fagurt orð hans.“

10. Hvernig brugðust margir við þegar auglýst var eftir prédikurum í fullt starf?

10 Eins og þessi hvatning ber með sér var Biblíunemendunum ljóst að sannkristnir menn ættu að boða fagnaðarerindið. En það var töluverð bjartsýni að auglýsa eftir 1.000 boðberum í fullt starf því að það voru ekki nema nokkur hundruð manns sem sóttu samkomur Biblíunemendanna á þeim tíma. Margir þurftu hins vegar ekki annað en að lesa bækling eða tímarit til að átta sig á að þeir hefðu fundið sannleikann, og þeir vildu miðla honum til annarra. Svo dæmi sé tekið hafði maður nokkur í Lundúnum lesið eitt tölublað Varðturnsins ásamt bæklingi sem Biblíunemendurnir gáfu út. Hann skrifaði árið 1882: „Vinsamlegast kennið mér hvernig og hvað eigi að prédika til að inna af hendi það göfuga starf sem Guð vill láta vinna.“

11, 12. (a) Hvaða markmið eigum við sameiginlegt með farandbóksölunum? (b) Hvernig stofnuðu farandbóksalarnir námshópa, það er að segja söfnuði?

11 Árið 1885 störfuðu um 300 biblíunemendur sem farandbóksalar. Þeir höfðu sama markmið og við – að gera fólk að lærisveinum Jesú Krists. En þeir beittu öðrum aðferðum en við. Yfirleitt veitum við einkakennslu nú á tímum þannig að við erum með einn nemanda í einu. Síðan bjóðum við biblíunemandanum að sækja safnaðarsamkomur með okkur. Farandbóksalarnir störfuðu þannig að þeir dreifðu bókum og söfnuðu svo áhugasömum saman í hóp til biblíunáms. Þannig stofnuðu þeir söfnuði sem voru kallaðir námshópar í þá daga.

12 Árið 1907 fór til dæmis hópur farandbóksala um borg eina til að leita uppi fólk sem hafði fengið bókaröðina Millennial Dawn (einnig nefnd Studies in the Scriptures). Í Varðturninum var sagt svo frá: „Þeim [hinum áhugasömu] var safnað saman á heimili eins þeirra. Farandbóksalinn ræddi við þá heilan sunnudag um áætlun Guðs í aldanna rás, og sunnudaginn eftir hvatti hann þá til að halda reglulegar samkomur.“ Árið 1911 var breytt um aðferð. Fimmtíu og átta bræður ferðuðust þá um Bandaríkin og Kanada og fluttu opinbera fyrirlestra. Þeir fengu nöfn og heimilisföng áhugasamra sem hlýddu á fyrirlestrana og skipuðu þeim niður í hópa til að hittast á einkaheimilum og mynda nýja námshópa. Árið 1914 voru söfnuðir Biblíunemendanna orðnir 1.200 í heiminum.

13. Hvað finnst þér merkilegt við útbeiðslu sannrar þekkingar nú á tímum?

13 Nú eru um 109.400 söfnuðir í heiminum og hér um bil 895.800 bræður og systur starfa sem brautryðjendur. Næstum átta milljónir manna hafa tileinkað sér hina sönnu þekkingu og lifa samkvæmt henni. (Lestu Jesaja 60:22.) * Það er stórmerkilegt í ljósi þess að Jesús sagði fyrir að lærisveinar sínir yrðu hataðir vegna þess að þeir bæru nafn hans. Hann sagði að þeir yrðu ofsóttir, fangelsaðir og jafnvel líflátnir. (Lúk. 21:12-17) Þjónar Jehóva hafa náð ótrúlegum árangri þegar þeir hafa farið um og gert fólk að lærisveinum. Og það hefur gerst þrátt fyrir mótspyrnu Satans, illu andanna og andstæðinga af hópi manna. Vottar Jehóva prédika núna „um alla heimsbyggðina“, allt frá hitabelti til heimskautasvæða, uppi til fjalla, í eyðimörkum, í borgum og í afskekktustu sveitum. (Matt. 24:14) Það hefði aldrei verið hægt án stuðnings Jehóva.

ÞEKKINGIN VEX TIL MUNA

14. Hvernig hefur prentað mál verið notað til að útbreiða hina sönnu þekkingu?

14 Hin sanna þekking hefur vaxið til muna fyrir atbeina þeirra mörgu sem boða fagnaðarerindið. Prentað mál hefur líka verið notað til að útbreiða hana. Biblíunemendurnir gáfu út fyrsta tölublað þessa tímarits í júlí árið 1879 og hét það þá Zion’s Watch Tower and Herald of Christ’s Presence. Upplagið var 6.000 eintök. Blaðið var aðeins gefið út á ensku og prentunin var aðkeypt. Charles Taze Russell, 27 ára gamall, var valinn ritstjóri og fimm aðrir þroskaðir bræður skrifuðu að staðaldri í blaðið. Varðturninn er nú gefinn út á 195 tungumálum. Hann er útbreiddasta tímarit veraldar. Upplag hvers tölublaðs er 42.182.000 eintök. Tímaritið Vaknið! er í öðru sæti en upplagið er 41.042.000 eintök á 84 tungumálum. Auk þess eru prentaðar um 100 milljónir bóka og biblía á ári.

15. Hvernig er útgáfustarf okkar fjármagnað?

15 Þetta gríðarmikla útgáfustarf er fjármagnað með frjálsum framlögum. (Lestu Matteus 10:8.) Þeir sem starfa í prentiðnaðinum eru dolfallnir yfir því að það skuli vera hægt, því að þeir vita hvað prentvélar, pappír, prentsverta og önnur efni kosta. Bróðir, sem sér um innkaup fyrir prentsmiðjur okkar, segir: „Fólk í viðskiptalífinu, sem heimsækir prentsmiðjur okkar, er furðu lostið að það skuli vera hægt að fjármagna svona tæknivæddar og afkastamiklar prentsmiðjur með frjálsum framlögum. Það undrast líka hve starfsliðið á Betel er ungt og ánægt.“

JÖRÐIN VERÐUR FULL AF ÞEKKINGU Á GUÐI

16. Í hvaða tilgangi hefur Jehóva útbreitt hina sönnu þekkingu?

16 Það er góð og gild ástæða fyrir því að hin sanna þekking hefur vaxið eins og raun ber vitni. Það er vilji Guðs að „allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum“. (1. Tím. 2:3, 4) Hann vill að fólk kynnist sannleikanum svo að það geti tilbeðið hann á réttan hátt og hlotið blessun hans. Með því að útbreiða þekkinguna hefur Jehóva safnað saman trúum hópi andasmurðra þjóna sinna. Hann er líka að safna saman miklum múgi manna „af öllum þjóðum og kynkvíslum, lýðum og tungum“ sem eiga þá von að lifa að eilífu á jörð. – Opinb. 7:9.

17. Hvað má álykta af því hve sönnum guðsdýrkendum hefur fjölgað?

17 Sönnum guðsdýrkendum hefur fjölgað stórkostlega síðastliðin 130 ár. Það bendir eindregið til þess að Guð og Jesús Kristur, konungurinn sem hann hefur skipað, hafi verið með þjónum Guðs á jörð. Þeir hafa leiðbeint þeim, verndað þá, menntað þá og skipulagt starfsemi þeirra. Þessi mikla fjölgun veitir okkur einnig vissu fyrir því að fyrirheit Jehóva um framtíðina eigi eftir að rætast. „Allt landið verður fullt af þekkingu á Drottni eins og vatn hylur sjávardjúpið.“ (Jes. 11:9) Það verður ólýsanleg blessun fyrir mannkynið.

[Neðanmáls]

^ gr. 6 Sjá einnig mynddiskana Jehovah’s Witnesses – Faith in Action, Part 1: Out of Darkness og Jehovah’s Witnesses – Faith in Action, Part 2: Let the Light Shine.

[Spurningar]

[Mynd á bls. 6]

Biblíunemendurnir voru auðmjúkt fólk sem þráði í einlægni að gera vilja Guðs.

[Mynd á bls. 7]

Jehóva kann að meta það sem við leggjum á okkur til að útbreiða hina sönnu þekkingu.