Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Gættu þín á snörum djöfulsins

Gættu þín á snörum djöfulsins

Gættu þín á snörum djöfulsins

,Losnið úr snöru djöfulsins.‘ – 2. TÍM. 2:26.

HVERT ER SVARIÐ?

Hverju ættum við að velta fyrir okkur ef okkur hættir til að vera gagnrýnin á aðra?

Hvaða lærdóm má draga af Pílatusi og Pétri um það að láta ekki undan hópþrýstingi eða ótta?

Hvernig er hægt að forðast óhóflega sektarkennd?

1, 2. Um hvaða gildrur Satans er fjallað í þessari grein?

SATAN djöfullinn situr fyrir þjónum Jehóva. Markmið hans er ekki endilega að gera út af við þá eins og veiðimaður sem drepur dýr. Hann hefur meiri áhuga á að ná bráð sinni lifandi og fara síðan með hana að vild sinni. – Lestu 2. Tímóteusarbréf 2:24-26.

2 Veiðimaður notar stundum einhvers konar snöru eða gildru til að ná bráð sinni lifandi. Hann reynir ef til vill að hrekja dýr úr felum og veiða það í snöru. Sumir veiðimenn leggja gildru sem er vel falin og kemur bráðinni á óvart. Satan notar þess konar gildrur til að reyna að ná þjónum Guðs á sitt vald. Ef við viljum ekki verða honum að bráð þurfum við að vera vel á verði og taka mark á vísbendingum um að hann hafi lagt gildru í grenndinni. Í þessari grein ræðum við hvernig hægt sé að vara sig á þrenns konar gildrum sem Satan hefur notað með nokkrum árangri. Þetta eru (1) taumlaus tunga, (2) ótti og hópþrýstingur og (3) óhófleg sektarkennd. Í greininni á eftir er síðan fjallað um tvær gildrur til viðbótar sem Satan notar.

SLÖKKVUM ELDINN SEM TAUMLAUS TUNGA KVEIKIR

3, 4. Hvað getur gerst ef við höfum ekki taumhald á tungu okkar? Lýstu með dæmi.

3 Veiðimenn kveikja stundum í gróðri til að flæma bráðina út úr felustað sínum og veiða hana síðan á flóttanum. Satan vill gjarnan kveikja eld í söfnuðinum í sama tilgangi. Ef honum tekst það getur hann flæmt fólk úr öruggu skjóli og rakleiðis í gildru sína. Gætum við óafvitandi þjónað markmiðum hans og lent í klónum á honum?

4 Lærisveinninn Jakob líkti tungunni við eld. (Lestu  Jakobsbréfið 3:6-8.) Ef við höfum ekki taumhald á tungunni gætum við kveikt eld í söfnuðinum í óeiginlegri merkingu. Hvernig gæti það gerst? Sjáum eftirfarandi fyrir okkur: Tilkynnt er á samkomu að systir nokkur hafi verið útnefnd brautryðjandi. Tveir boðberar ræða saman um þessa tilkynningu eftir samkomuna. Annar er ánægður fyrir hönd nýju brautryðjandasysturinnar og vonar að henni gangi vel. Hinn efast um að systirin geri þetta af réttum hvötum og ýjar að því að hún sé nú bara að reyna láta á sér bera í söfnuðinum. Hvorn boðberann vildir þú eiga að vini? Það er ekki vandséð hvor þeirra er líklegri til að kveikja bál í söfnuðinum með tungu sinni.

5. Hvað ættum við að gera til að kveikja ekki eld með taumlausri tungu?

5 Hvernig getum við varast að kveikja eld með tungunni? „Af gnægð hjartans mælir munnurinn,“ sagði Jesús. (Matt. 12:34) Við þurfum því að byrja á að skoða hvað býr í hjarta okkar. Ýtum við frá okkur neikvæðum hugsunum sem eru kveikja skaðlegra orða? Hvað gerum við til dæmis þegar við heyrum að bróður nokkurn langi til að taka að sér ábyrgðarstörf í söfnuðinum? Gerum við þá sjálfkrafa ráð fyrir að hann geri það af hreinu tilefni eða grunar okkur að eigingjarnar hvatir búi að baki? Ef við höfum tilhneigingu til að tortryggja hvatir annarra er gott að minna sig á að það var það sem Satan gerði þegar hann véfengdi að Job þjónaði Guði af réttu tilefni. (Job. 1:9-11) Í stað þess að tortryggja bróður okkar ættum við að velta fyrir okkur af hverju við séum gagnrýnin. Höfum við virkilega ástæðu til þess? Eða höfum við látið kærleiksleysið, sem er svo útbreitt núna á síðustu dögum, eitra hjarta okkar? – 2. Tím. 3:1-4.

6, 7. (a) Af hverju gætum við átt til að gagnrýna aðra? (b) Hvernig ættum við að bregðast við ef okkur er illmælt?

6 Veltum fyrir okkur fleiru sem gæti gert okkur gagnrýnin á aðra. Okkur langar kannski til að draga athygli að okkar eigin afrekum og reynum að sýnast meiri með því að gera lítið úr öðrum. Eða við reynum að afsaka aðgerðarleysi sjálfra okkar með því að hnýta í aðra. Hvort sem ástæðan er stolt, öfund eða öryggisleysi eru áhrifin slæm.

7 Verið getur að okkur finnist við hafa fullt tilefni til að gagnrýna einhvern. Kannski hefur hann sagt eitthvað særandi um okkur. En við gerðum bara illt verra með því að svara í sömu mynt. Þá værum við að hella olíu á eldinn og þjóna vilja Satans en ekki Guðs. (2. Tím. 2:26) Við ættum frekar að líkja eftir Jesú. „Hann svaraði ekki með illmælum er honum var illmælt“ heldur „fól það honum á vald sem dæmir réttvíslega“. (1. Pét. 2:21-23) Jesús treysti að Jehóva myndi taka á málinu á sinn hátt þegar það væri tímabært. Við ættum að bera sama traust til Guðs. Þegar við notum tunguna á uppbyggilegan hátt stuðlum við að því að „varðveita einingu andans í bandi friðarins“ innan safnaðarins. – Lestu Efesusbréfið 4:1-3.

LÁTUM EKKI UNDAN HÓPÞRÝSTINGI OG ÓTTA

8, 9. Af hverju dæmdi Pílatus Jesú til dauða?

8 Dýr, sem festist í snöru, ræður ekki lengur för sinni. Sá sem lætur undan ótta og hópþrýstingi ræður sér ekki heldur sjálfur að öllu leyti. (Lestu Orðskviðina 29:25.) Við skulum nú kanna hvað við getum lært af tveim mjög ólíkum mönnum sem létu undan hópþrýstingi og ótta.

9 Rómverski landstjórinn Pontíus Pílatus vissi að Jesús var saklaus og virðist ekki hafa viljað vinna honum mein. Hann sagði meira að segja að Jesús hefði ekkert gert sem verðskuldaði dauðarefsingu. Samt sem áður dæmdi hann Jesú til dauða. Af hverju gerði Pílatus það? Af því að hann lét undan þrýstingi fólksins. (Lúk. 23:15, 21-25) „Ef þú lætur hann lausan ert þú ekki vinur keisarans,“ æpti fólkið og beitti þannig þrýstingi til að fá vilja sínum framgengt. (Jóh. 19:12) Ef til vill óttaðist Pílatus um stöðu sína eða jafnvel líf ef hann tæki málstað Krists. Hann lét því undan og rak erindi Satans.

10. Hvað varð til þess að Pétur afneitaði Kristi?

10 Pétur postuli var einn af nánustu félögum Jesú. Hann var ósmeykur að segja frá að Jesús væri Messías. (Matt. 16:16) Pétur sýndi Jesú tryggð þegar sumir af lærisveinunum yfirgáfu hann af því að þeir skildu ekki það sem hann sagði. (Jóh. 6:66-69) Og þegar óvinir Jesú komu til að handtaka hann greip Pétur til sverðs til að verja meistara sinn. (Jóh. 18:10, 11) En seinna sömu nótt varð Pétur óttasleginn og neitaði meira að segja að hann þekkti Jesú. Um stuttan tíma lét postulinn ótta við menn ná tökum á sér. Hann hafði ekki kjark til að gera það sem var rétt og sýna Jesú hollustu. – Matt. 26:74, 75.

11. Hvaða þrýsting getum við þurft að standast?

11 Við sem erum kristin megum ekki láta undan þegar þrýst er á okkur að gera eitthvað rangt. Vinnufélagar og fleiri reyna kannski að þvinga okkur til að vera óheiðarleg eða fá okkur til að taka þátt í kynlífi. Skólanemar geta þurft að standast þrýsting skólafélaga sem reyna að fá þá til að svindla á prófum, horfa á klám, reykja, neyta fíkniefna, drekka áfengi eða drýgja kynferðislegt siðleysi. Hvað getum við gert til að ganga ekki í snöru óttans eða láta undan hópþrýstingi og gera eitthvað sem Jehóva hefur vanþóknun á?

12. Hvaða lærdóm má draga af þeim Pílatusi og Pétri?

12 Við skulum nú kanna hvaða lærdóm megi draga af þeim Pílatusi og Pétri. Pílatus vissi ósköp fátt um Jesú. Hann vissi þó að Jesús var saklaus og var enginn venjulegur maður. En Pílatus var hvorki lítillátur né elskaði hinn sanna Guð. Hann var auðveld bráð fyrir Satan. Pétur elskaði Guð og þekkti sannleikann um hann og um Jesú Krist. En hann var ekki alltaf hógvær og stundum varð hann hræddur og lét undan þrýstingi. Skömmu áður en Jesús var handtekinn sagði Pétur borginmannlega: „Þótt allir hafni þér geri ég það aldrei.“ (Mark. 14:29) Postulinn hefði verið betur undirbúinn að standast prófraunirnar fram undan ef hann hefði hugsað eins og sálmaskáldið sem setti traust sitt á Jehóva og söng: „Drottinn er með mér, ég óttast eigi, hvað geta menn gert mér?“ (Sálm. 118:6) Síðustu nóttina, sem Jesús var á lífi hér á jörð, tók hann Pétur og tvo aðra postula með sér langt inn í Getsemanegarðinn. Þótt Jesús hefði beðið þá að vaka sofnuðu þeir. Jesús vakti þá og sagði: „Vakið og biðjið svo að þið fallið ekki í freistni.“ (Mark. 14:38) En Pétur sofnaði aftur og síðar um nóttina varð hann óttanum að bráð og lét undan hópþrýstingi.

13. Hvernig getum við staðist þegar þrýst er á okkur að gera eitthvað rangt?

13 Við getum dregið annan mikilvægan lærdóm af þeim Pílatusi og Pétri. Það þarf þekkingu, hógværð, auðmýkt, guðsótta og kærleika til Jehóva til að standast hópþrýsting. Ef við byggjum trú okkar á nákvæmri þekkingu segjum við hugrökk frá sannfæringu okkar. Það hjálpar okkur að standast hópþrýsting og sigrast á ótta við menn. Við megum auðvitað aldrei ofmeta eigin styrk. Við ættum að vera nógu auðmjúk til að viðurkenna að við þurfum að fá styrk frá Guði til að standast þrýsting. Við skulum biðja Jehóva að gefa okkur anda sinn, halda boðorð hans og vera nafni hans til sóma af því að við elskum hann. Auk þess þurfum við að vera viðbúin að standast hópþrýsting áður en við verðum fyrir prófraun. Með því að undirbúa börnin og biðja með þeim getum við hjálpað þeim að bregðast rétt við þegar aðrir krakkar reyna að fá þau til að gera eitthvað rangt. – 2. Kor. 13:7. *

VÖRUMST GILDRUNA SEM KREMUR – ÓHÓFLEGA SEKTARKENND

14. Hvað vill Satan telja okkur trú um varðandi fyrri syndir?

14 Ein tegund af gildrum er þannig að þungur trjábolur eða steinn er hengdur yfir slóð sem bráðin á leið um. Dýr gengur óafvitandi á vír sem er strekktur yfir slóðina og steinninn eða trjábolurinn fellur niður og kremur það. Óhófleg sektarkennd er að sumu leyti eins og fargið sem kremur bráðina. Við erum kannski ,lémagna og sundurkramin‘ þegar við hugsum um eitthvað sem okkur hefur orðið á. (Lestu Sálm 38:4-6, 9.) Satan vill telja okkur trú um að við séum of syndug til að Jehóva geti miskunnað okkur og við séum ófær um að halda boð hans.

15, 16. Hvernig geturðu varað þig á þeirri gildru að bugast af sektarkennd?

15 Hvernig er hægt að vara sig á gildrunni sem kremur? Ef þér hefur orðið á að drýgja alvarlega synd skaltu tafarlaust gera ráðstafanir til að endurheimta vináttu Jehóva. Leitaðu aðstoðar hjá öldungunum. (Jak. 5:14-16) Gerðu það sem þú getur til að bæta fyrir brot þitt. (2. Kor. 7:11) Vertu ekki niðurdreginn þó að þú þurfir að fá ögun. Hún er ótvírætt merki þess að Jehóva elski þig. (Hebr. 12:6) Vertu ákveðinn í að endurtaka ekki það sem leiddi til syndarinnar og stattu við það. Eftir að þú hefur iðrast og snúið við skaltu treysta að Jehóva fyrirgefi þér syndina vegna lausnarfórnar Jesú Krists. – 1. Jóh. 4:9, 14.

16 Sumir geta ekki losnað við sektarkenndina þó að þeir hafi fengið fyrirgefningu. Ef þú átt við það að glíma skaltu minna þig á að Jehóva fyrirgaf Pétri og hinum postulunum að þeir skyldu yfirgefa ástkæran son hans meðan hann þurfti mest á þeim að halda. Manni í Korintu var vikið úr söfnuðinum fyrir svívirðilegt siðleysi en hann iðraðist síðar og Jehóva fyrirgaf honum. (1. Kor. 5:1-5; 2. Kor. 2:6-8) Í Biblíunni er sagt frá fólki sem drýgði grófar syndir en iðraðist og hlaut fyrirgefningu Guðs. – 2. Kron. 33:2, 10-13; 1. Kor. 6:9-11.

17. Hvað getur lausnargjaldið gert fyrir okkur?

17 Jehóva fyrirgefur og gleymir fyrri syndum ef þú iðrast í einlægni og treystir á miskunn hans. Hugsaðu aldrei sem svo að lausnarfórn Jesú nái ekki yfir syndir þínar. Ef þú gerðir það myndirðu falla í eina af gildrum Satans. Lausnargjaldið nær yfir syndir allra sem iðrast í einlægni þó að Satan vilji telja þér trú um hið gagnstæða. (Orðskv. 24:16) Trúin á lausnargjaldið getur létt af þér þjakandi sektarkennd og gefið þér styrk til að þjóna Guði af öllu hjarta, huga og sálu. – Matt. 22:37.

OKKUR ER KUNNUGT UM GILDRUR SATANS

18. Hvernig getum við forðast gildrur Satans?

18 Satan er sama í hvaða gildru við göngum svo framarlega sem hann nær að klófesta okkur. Við þurfum ekki að láta hann ná tökum á okkur því að okkur er kunnugt um vélráð hans. (2. Kor. 2:10, 11) Við göngum ekki í gildrur hans eða snörur ef við biðjum um visku til að standast þær prófraunir sem við verðum fyrir. Jakob skrifaði: „Ef einhvern mann í ykkar hópi brestur visku, þá biðji hann Guð sem gefur öllum örlátlega og átölulaust og honum mun gefast.“ (Jak. 1:5) Við þurfum að breyta í samræmi við bænir okkar með því að stunda sjálfsnám í Biblíunni og fara eftir því sem við lærum. Hinn trúi og hyggni þjónn sér okkur fyrir námsritum sem varpa ljósi á gildrur Satans og auðvelda okkur að forðast þær.

19, 20. Af hverju ættum við að hata hið illa?

19 Með bænum og biblíunámi lærum við að elska hið góða. En það er jafn mikilvægt að læra að hata hið illa. (Sálm. 97:10) Við látum ekki eigingjarnar langanir ná tökum á okkur ef við íhugum hvaða erfiðleika það getur haft í för með sér. (Jak. 1:14, 15) Þegar við lærum að hata hið illa og elska hið góða verða tálbeitur Satans ekki freistandi fyrir okkur heldur fráhrindandi.

20 Við erum innilega þakklát fyrir að Guð skuli hjálpa okkur svo að Satan nái ekki tökum á okkur. Jehóva notar anda sinn, Biblíuna og söfnuðinn til að frelsa okkur „frá hinum vonda“. (Matt. 6:13, neðanmáls) Í greininni á eftir lærum við hvernig hægt sé að forðast tvær gildrur til viðbótar sem hafa reynst Satan vel til að klófesta þjóna Guðs.

[Neðanmáls]

^ gr. 13 Foreldrar ættu að skoða með börnum sínum efnið á bls. 132-133 í bókinni Spurningar unga fólksins – svör sem duga, 2. bindi, en þar er fjallað um viðbrögð við hópþrýstingi. Hægt væri að gera það á biblíunámskvöldi fjölskyldunnar.

[Spurningar]

[Mynd á bls. 21]

Taumlaus tunga getur valdið alls konar vandamálum í söfnuðinum.

[Mynd á bls. 24]

Þú getur losað þig við fargið sem fylgir óhóflegri sektarkennd.