Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hegðið ykkur eins og þegnum Guðsríkis ber

Hegðið ykkur eins og þegnum Guðsríkis ber

Hegðið ykkur eins og þegnum Guðsríkis ber

„Hegðið ykkur eins og samboðið er fagnaðarerindinu.“ – FIL. 1:27.

HVERT ER SVARIÐ?

Hverjir geta verið þegnar Guðsríkis?

Hvað felst í því að læra tungumál, sögu og lög Guðsríkis?

Hvernig sýna þegnar ríkis Guðs að þeir hafa mætur á lögum hans?

1, 2. Af hverju höfðu hvatningarorð Páls sérstaka þýðingu fyrir söfnuðinn í Filippí?

PÁLL postuli hvatti söfnuðinn í Filippí til að ,hegða sér eins og samboðið er fagnaðarerindinu‘. (Lestu Filippíbréfið 1:27.) Orðfæri Páls á grísku getur einnig merkt að hegða sér eins og þegnum ber. Þetta orðalag hafði sérstaka þýðingu fyrir söfnuðinn í Filippí. Af hverju? Af því að Filippí virðist hafa verið í hópi útvalinna borga þar sem íbúar höfðu fengið rómverskan þegnrétt. Filippíbúar voru, líkt og allir rómverskir ríkisborgarar, stoltir af þegnrétti sínum sem veitti þeim ýmis forréttindi samkvæmt rómverskum lögum.

2 Kristnir menn í Filippí höfðu enn ríkari ástæðu til að vera stoltir. Páll minnti þá á að þar sem þeir væru andasmurðir væri föðurland þeirra og þegnréttur „á himni“. (Fil. 3:20) Þeir voru ekki bara þegnar heimsveldis undir stjórn manna heldur þegnar Guðsríkis. Sem slíkir nutu þeir verndar og forréttinda sem ekkert annað ríki gat veitt þegnum sínum. – Ef. 2:19-22.

3. (a) Hverjir fá tækifæri til að vera þegnar Guðsríkis? (b) Um hvað er fjallað í þessari grein?

3 Þeirri hvatningu Páls að ,hegða sér eins og samboðið er fagnaðarerindinu‘ er fyrst og fremst beint til þeirra sem eiga að ríkja með Kristi á himnum. (Fil. 3:20) En í víðari skilningi á hún líka erindi til þeirra sem verða þegnar Guðsríkis á jörð. Ástæðan er sú að allir vígðir kristnir menn þjóna sama konunginum, Jehóva, og þurfa að lúta sömu lögum. (Ef. 4:4-6) Margir leggja hart að sér til að fá ríkisborgararétt í landi þar sem fólk býr við velmegun. En það er miklu verðmætara að fá að vera þegn Guðsríkis. Til að glöggva okkur betur á því hve verðmætt þetta er skulum við bera saman nokkrar af þeim kröfum, sem þarf að uppfylla til að fá þegnrétt í ríki undir stjórn manna, og til að fá þegnrétt í ríki Guðs. Síðan lítum við á þrennt sem við þurfum að gera til að halda þegnréttindum okkar í ríki Guðs.

SKILYRÐI FYRIR ÞEGNRÉTTI

4. Hvað er hið hreina tungumál og hvernig „tölum“ við það?

4 Lærðu tungumálið. Sumar ríkisstjórnir gera þá kröfu að þeir sem sækja um ríkisfang tali helsta tungumál landsins. Margir þurfa að vinna að því árum saman að ná góðum tökum á nýja málinu eftir að hafa fengið ríkisfang. Málfræðireglurnar eru oft fljótlærðar en það getur tekið lengri tíma að ná réttum framburði. Ríki Guðs gerir sömuleiðis þá kröfu að þegnarnir læri nýtt og hreint tungumál sem Biblían kallar „nýjar varir og hreinar“. (Lestu Sefanía 3:9.) Hvaða tungumál er það? Það er sannleikurinn um Guð og fyrirætlun hans sem er að finna í Biblíunni. Við „tölum“ hið hreina tungumál þegar við hegðum okkur í samræmi við lög Guðs og meginreglur. Þegnar Guðsríkis eru oft fljótir að læra helstu kenningar Biblíunnar og láta skírast. En eftir það þurfa þeir að halda áfram að tileinka sér hið hreina tungumál. Hvernig þá? Við þurfum öll að leggja okkur stöðugt fram um að fara eftir því sem við lærum í Biblíunni.

5. Af hverju ættum við að kynna okkur sögu safnaðar Jehóva sem best?

5 Kynntu þér söguna. Sá sem vill öðlast þegnrétt í ákveðnu landi þarf hugsanlega að þekkja eitthvað til sögu þess. Þeir sem vilja verða þegnar Guðsríks ættu sömuleiðis að læra allt sem þeir geta um þetta ríki. Synir Kóra eru dæmi um það en þeir þjónuðu í Ísrael til forna. Þeim þótti ákaflega vænt um Jerúsalem og musterið og höfðu ánægju af að segja sögu borgarinnar. Það var ekki fegurð hennar sem þeir heilluðust mest af heldur það sem borgin og musterið stóðu fyrir. Jerúsalem var „borg hins mikla konungs“, Jehóva, því að hún var miðstöð hreinnar tilbeiðslu. Það var þar sem fólk lærði lög hans. Jehóva, konungurinn í Jerúsalem, sýndi þjóðinni, sem hann ríkti yfir, umhyggju sína. (Lestu Sálm 48:2, 3, 10, 13, 14.) Jehóva á sér líka skipulagðan söfnuð á jörð nú á tímum. Langar þig til að kynna þér sögu hans og segja frá henni? Því meira sem þú lærir um söfnuð Jehóva og kynnir þér hvernig Jehóva styður þjóna sína því raunverulegra verður þér ríki hans. Og þá langar þig enn meira til að boða fagnaðarerindið um ríkið. – Jer. 9:23; Lúk. 4:43.

6. Af hverju er sanngjarnt að Jehóva skuli ætlast til þess að við kynnum okkur lög hans og ákvæði?

6 Þekktu lögin. Stjórnir manna gera þá kröfu að þegnarnir kynni sér landslög og hlýði þeim. Það er ekki nema sanngjarnt að Jehóva skuli ætlast til þess að við þekkjum þau lög og ákvæði sem gilda um alla þegna ríkis hans. (Jes. 2:3; Jóh. 15:10; 1. Jóh. 5:3) Lög manna eru oft ófullkomin og stundum jafnvel ósanngjörn. Lög Jehóva eru hins vegar lýtalaus. (Sálm. 19:8) Höfum við yndi af lögum Guðs? Lesum við daglega í orði hans? (Sálm. 1:1, 2) Við getum ekki þekkt lög Guðs nema við kynnum okkur þau vandlega. Enginn getur gert það fyrir okkur.

ÞEGNAR GUÐSRÍKIS HAFA MÆTUR Á LÖGUM GUÐS

7. Hvers vegna fylgja þegnar Guðsríkis lögum Guðs?

7 Til að fá að vera þegnar Guðsríkis þurfum við að þekkja lög Guðs og hafa mætur á þeim. Margir segjast vera sammála lögum og reglum þess lands þar sem þeir búa. En svo brjóta þeir lögin ef þeim þykja þau óþægileg eða halda að enginn sjái til þeirra. Oft fara þeir að lögum aðeins til að þóknast mönnum. (Kól. 3:22) Þegnar Guðsríkis fylgja háleitari lífsreglum. Við hlýðum lögum Guðs fúslega jafnvel þegar menn sjá ekki til okkar. Við gerum það vegna þess að við elskum löggjafann. – Jes. 33:22; lestu Lúkas 10:27.

8, 9. Hvernig er hægt að ganga úr skugga um að maður hafi í raun og veru mætur á lögum Guðs?

8 Hvernig er hægt að ganga úr skugga um að maður hafi í raun og veru mætur á lögum Guðs? Hugleiddu hvernig þú bregst við þegar þú færð leiðbeiningar um mál sem þér finnst vera smekksatriði, til dæmis um klæðaburð og útlit. Áður en þú gerðist þegn Guðsríkis varstu kannski druslulega eða ögrandi til fara. Þegar þú fórst að elska Guð lærðirðu að sýna með klæðaburði þínum að þú vildir vera honum til sóma. (1. Tím. 2:9, 10; 1. Pét. 3:3, 4) Líklega finnst þér að þú sért sómasamlega til fara núna. En setjum sem svo að öldungur segi þér að margir í söfnuðinum hneykslist á klæðaburði þínum. Hvernig myndirðu bregðast við? Myndirðu fara í vörn, reiðast eða þrjóskast við? Það er ein af meginreglum Guðsríkis að allir þegnar þess líki eftir Kristi. (1. Pét. 2:21) Páll postuli sagði um fordæmi Jesú: „Sérhvert okkar hugsi um náunga sinn, það sem honum er til góðs og til uppbyggingar. Kristur hugsaði ekki um sjálfan sig.“ (Rómv. 15:2, 3) Þroskaður kristinn maður tekur tillit til samvisku annarra og er fús til að gefa eftir til að stuðla að friði í söfnuðinum, og hann gerir það gremjulaust. – Rómv. 14:19-21.

9 Lítum á tvennt til viðbótar sem gefa þarf gaum, það er að segja viðhorf okkar til kynlífs og hjónabands. Þeir sem eru ekki orðnir þegnar Guðsríkis ímynda sér kannski að það sé ekkert athugavert við samkynhneigð, að klám sé bara skaðlaus skemmtun og að framhjáhald og hjónaskilnaður séu einkamál hvers og eins. Þegnar Guðsríkis hafa látið af slíkri skammsýni og eigingjörnum hugsunarhætti. Margir þeirra lifðu siðlausu lífi áður fyrr en líta núna á kynlíf og hjónaband sem gjöf frá Guði. Þeim þykir vænt um háleit lög Jehóva og eru hjartanlega sammála því að þeir sem haldi áfram að brjóta lög hans um kynlíf og hjónaband verðskuldi ekki að vera þegnar ríkis hans. (1. Kor. 6:9-11) En þeim er líka ljóst að hjartað er svikult. (Jer. 17:9) Þeir eru því þakklátir fyrir skýrar viðvaranir sem hjálpa þeim að halda siðferðislög Guðs í heiðri.

ÞEGNAR GUÐSRÍKIS ERU ÞAKKLÁTIR FYRIR VIÐVARANIR

10, 11. Hvaða tímabæru viðvaranir fáum við frá ríki Guðs og hvað finnst þér um þær?

10 Heilbrigðisyfirvöld vara stundum við ákveðnum matvælum og lyfjum. Það þýðir auðvitað ekki að öll matvæli og lyf séu hættuleg. En ef hætta stafar af ákveðinni vöru er fólk varað við að neyta hennar. Ef það væri ekki gert myndu yfirvöld gera sig sek um vanrækslu. Ríki Guðs varar líka oft við ákveðnum hættum af siðferðilegu og andlegu tagi. Netið er til dæmis orðið gagnleg samskiptaleið og vettvangur fræðslu og skemmtiefnis. Söfnuður Guðs notfærir sér líka Netið til góðra hluta. En mörg vefsetur eru beinlínis hættuleg þeim sem vilja þjóna Jehóva. Öllum þegnum Guðsríkis stafar augljóslega hætta af vefsvæðum sem innihalda klámfengið efni. Hinn trúi þjónn hefur árum saman varað við slíku efni á Netinu. Við erum innilega þakklát fyrir viðvaranir hans.

11 Á síðustu árum hafa annars konar vefsíður náð miklum vinsældum. Þetta eru samskiptasíður. Þær geta verið nytsamlegar en líka skaðlegar. Það þarf að nota þær af mikilli varúð vegna þess að þær geta valdið því að við lendum í vondum félagsskap. (1. Kor. 15:33) Það er ástæða fyrir því að söfnuður Guðs hefur varað við þeim hættum sem geta stafað af slíkum vefsíðum. Hefurðu lesið allt efnið sem hinn trúi þjónn hefur gefið út um samskiptasíður undanfarið? Það væri óskynsamlegt af okkur að nota þessar síður án þess að lesa greinarnar. * Það væri ekki ósvipað og að taka inn sterkt lyf án þess að lesa varnaðarorðin sem fylgja lyfinu.

12. Af hverju er heimskulegt að sinna ekki viðvörunum?

12 Þeir sem sinna ekki viðvörunum hins trúa þjóns kalla óhjákvæmilega erfiðleika yfir sjálfa sig og ástvini sína. Sumir hafa ánetjast klámi eða gert sig seka um kynferðislegt siðleysi og síðan talið sér trú um að Jehóva sjái ekki til þeirra. Það er heimskulegt að halda að við getum falið verk okkar fyrir Jehóva. (Orðskv. 15:3; lestu Hebreabréfið 4:13.) Jehóva vill hjálpa þessum einstaklingum og notar öldungana til að reyna að leiðrétta þá. (Gal. 6:1) En Jehóva getur afturkallað ríkisfang þeirra sem brjóta lög hans og iðrast einskis, rétt eins og gert er í sumum löndum ef þegnarnir gerast brotlegir við ákveðin lög. * (1. Kor. 5:11-13) En Jehóva er miskunnsamur. Þeir sem iðrast og breyta um stefnu geta endurheimt vináttu hans og haldið þegnrétti sínum í ríki hans. (2. Kor. 2:5-8) Það er mikill heiður að fá að þjóna þessum kærleiksríka konungi.

ÞEGNAR GUÐSRÍKIS ERU ÞAKKLÁTIR FYRIR AÐ FÁ MENNTUN

13. Hvernig geta þegnar Guðsríkis sýnt að þeir séu þakklátir fyrir að fá menntun?

13 Stjórnvöld margra ríkja leggja áherslu á að mennta þegnana. Þau reka skóla til að veita börnum grunnmenntun. Þegnar Guðsríkis eru þakklátir fyrir að geta sótt þessa skóla, og þeir leggja sig fram við að læra lestur og skrift ásamt öðru sem þarf til að geta séð sér farborða. En þeim þykir enn verðmætara að fá menntunina sem fylgir því að vera þegnar Guðsríkis. Jehóva stuðlar að læsi fyrir milligöngu safnaðarins. Foreldrar eru hvattir til að byrja snemma á því að lesa fyrir börnin. Hinn trúi þjónn gefur út heilmikið af biblíutengdu efni í Varðturninum og Vaknið! Með því að lesa um tvær blaðsíður á dag nærðu að nýta þér allt þetta mikilvæga fræðsluefni sem ríki Guðs lætur í té.

14. (a) Hvaða fræðslu fáum við? (b) Hvaða tillögur um fjölskyldunámið hefurðu getað nýtt þér?

14 Í hverri viku fá þegnar Guðsríkis fræðslu á safnaðarsamkomum. Til dæmis hefur Boðunarskólinn þjálfað nemendur síðastliðna sex áratugi svo að þeir geti kennt orð Guðs með góðum árangri. Hefurðu skráð þig í Boðunarskólann? Undanfarin ár hefur hinn trúi þjónn lagt mikla áherslu á að fjölskyldur taki frá eitt kvöld í viku til sameiginlegs biblíunáms. Það styrkir fjölskylduböndin. Hefurðu getað nýtt þér tillögurnar sem birst hafa í ritum okkar? *

15. Hvaða heiðurs erum við aðnjótandi?

15 Fólk beitir sér oft á opinberum vettvangi til að afla fylgis við ákveðinn stjórnmálaflokk og gengur jafnvel í hús í því skyni. Þegnar Guðsríkis um heim allan styðja ríki Guðs með því að boða það bæði hús úr húsi og á götum úti. Eins og nefnt er í námsgreininni á undan er Varðturninn, sem kunngerir ríki Jehóva, útbreiddasta tímarit í heimi! Það er varla hægt að hugsa sér meiri heiður en þann að fá að segja öðrum frá ríki Guðs. Tekur þú dyggilega þátt í að boða það? – Matt. 28:19, 20.

16. Hvernig geturðu sýnt að þú sért góður þegn Guðsríkis?

16 Áður en langt um líður verður ríki Guðs eina stjórnin sem fer með völd á jörðinni. Það mun hafa umsjón með öllum þáttum daglegs lífs, bæði þeim sem snúa að trúnni og að samfélaginu. Verður þú góður þegn Guðsríkis á þeim tíma? Þú hefur tækifæri núna til að sýna að þú verðir það. Láttu allar ákvarðanir þínar endurspegla að þú gerir allt Guði til dýrðar. Þannig geturðu sýnt að þú hegðir þér eins og þegnum Guðsríkis ber. – 1. Kor. 10:31.

[Neðanmáls]

^ gr. 14 Sjá Varðturninn 15. ágúst 2011, bls. 6-7, og Ríkisþjónustu okkar í janúar 2011, bls. 3-6.

[Spurningar]

[Innskot á bls. 14]

Tekurðu mark á trúa þjóninum þegar hann varar við hættum á Netinu?

[Mynd á bls. 12]

Hefurðu yndi af sannri tilbeiðslu og ánægju af að kynna þér sögu hennar, líkt og synir Kóra?

[Mynd á bls. 15]

Biblíunámskvöldið getur átt drjúgan þátt í að þið fjölskyldan séuð góðir þegnar Guðsríkis.