Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig líður þessi heimur undir lok?

Hvernig líður þessi heimur undir lok?

„Þið . . . eruð ekki í myrkri svo að dagurinn geti komið yfir ykkur sem þjófur.“ – 1. ÞESS. 5:4.

1. Hvað hjálpar okkur að halda vöku okkar og standast prófraunir?

STÓRKOSTLEGIR atburðir eru í vændum. Það má sjá af spádómum Biblíunnar og uppfyllingu þeirra. Við þurfum því að halda vöku okkar. Hvað getur auðveldað okkur að gera það? Páll postuli hvetur okkur til að horfa á hið ósýnilega. Við þurfum að hafa í huga launin sem eru eilíft líf, annaðhvort á himni eða jörð. Eins og sjá má af samhenginu skrifaði Páll þetta til að hvetja trúsystkini sín til að muna alltaf eftir laununum sem fylgja því að vera Guði trúr. Það myndi einnig hjálpa þeim að standast prófraunir og ofsóknir. – 2. Kor. 4:8, 9, 16-18; 5:7.

2. (a) Hvað þurfum við að gera til að varðveita sterka von? (b) Um hvað er fjallað í þessari grein og þeirri næstu?

2 Það má draga mikilvægan lærdóm af orðum Páls. Til að varðveita sterka von er ekki nóg að horfa aðeins á hið sýnilega. Við þurfum líka að hafa skýrt í huga þýðingarmikla atburði sem eiga eftir að gerast. (Hebr. 11:1; 12:1, 2) Við skulum því beina athygli okkar að tíu ókomnum atburðum sem eru nátengdir voninni um eilíft líf. *

HVAÐ GERIST RÉTT FYRIR ENDALOKIN?

3. (a) Hvaða ókomnu atburðum er lýst í 1. Þessaloníkubréfi 5:2, 3? (b) Hvað gera stjórnmálaleiðtogar og hverjir taka hugsanlega undir með þeim?

3 Páll minnist á einn þessara ókomnu atburða í 1. Þessaloníkubréfi. (Lestu 1. Þessaloníkubréf 5:2, 3.) Hann talar þar um ,dag Drottins‘, það er að segja Jehóva. Í þessu tilviki er átt við tímabilið sem hefst með því að falstrúarbrögðunum er eytt og endar með stríðinu við Harmagedón. En rétt áður en dagur Jehóva rennur upp lýsa leiðtogar veraldar yfir að nú sé kominn „friður og engin hætta“. Þessi yfirlýsing kann að vera fólgin í einum atburði eða ákveðinni atburðarás. Þjóðirnar halda ef til vill að þær séu í þann mund að leysa sum af stóru vandamálunum í heiminum. Og hvað gera trúarleiðtogarnir? Þeir tilheyra heiminum þannig að þeir taka hugsanlega undir með stjórnmálaleiðtogunum. (Opinb. 17:1, 2) Þar með væru þeir að feta í fótspor falsspámanna í Júda forðum daga sem sögðu: „Heill, heill,“ þótt þar væri hvorki heill né friður. – Jer. 6:14; 23:16, 17.

4. Hvað skiljum við, ólíkt fólki almennt?

4 Óháð því hverjir lýsa yfir að kominn sé „friður og engin hætta“ gefur það til kynna að dagur Jehóva sé að hefjast. Það var þess vegna sem Páll gat sagt: „Þið, systkin, eruð ekki í myrkri svo að dagurinn geti komið yfir ykkur sem þjófur. Þið eruð öll börn ljóssins.“ (1. Þess. 5:4, 5) Ólíkt fólki almennt skiljum við hvað atburðirnir í heiminum merkja af því að við vitum hvað Biblían segir um þá. Hvernig rætist spádómurinn um frið og enga hættu? Við sjáum það þegar þar að kemur. Við skulum því vera staðráðin í að halda vöku okkar öllum stundum. – 1. Þess. 5:6; Sef. 3:8.

„DROTTNING“ MISREIKNAR SIG ILLILEGA

5. (a) Hvernig hefst þrengingin mikla? (b) Hvaða „drottning“ misreiknar sig illilega?

5 Hvað gerist þessu næst? Páll segir: „Þegar menn segja: ,Friður og engin hætta,‘ þá kemur snögglega tortíming yfir þá.“ Þessi snögglega tortíming hefst með því að ráðist er á heimsveldi falstrúarbragðanna, en það er nefnt „Babýlon hin mikla“ og „skækjan“. (Opinb. 17:5, 6, 15) Þessi árás á falstrúarbrögðin í heild, þar á meðal kristna heiminn, er upphaf ,þrengingarinnar miklu‘. (Matt. 24:21; 2. Þess. 2:8) Þessi atburður kemur mörgum í opna skjöldu. Ástæðan er sú að skækjan hefur fram að þeim tíma verið örugg með sig og ímyndað sér að hún væri „drottning“ og myndi aldrei upplifa neina sorg. En skyndilega uppgötvar hún að hún hefur misreiknað sig illilega því að hún verður afmáð í einni svipan. Það er eins og það gerist „á einum degi“. – Opinb. 18:7, 8.

6. Hverjir eyða falstrúarbrögðunum?

6 Í orði Guðs kemur fram að ,skarlatsrautt dýr‘ með „tíu horn“ ræðst á skækjuna. Þegar við rannsökum Opinberunarbókina komumst við að raun um að dýrið táknar Sameinuðu þjóðirnar. „Hornin tíu“ tákna öll þau ríki sem styðja þetta ,dýr‘. * (Opinb. 17:3, 5, 11, 12) Hve mikil verður eyðingin? Aðildarríki Sameinuðu þjóðanna ræna skækjuna auðæfum hennar, afhjúpa illsku hennar, rífa hana í sig og „brenna hana í eldi“. Tortímingin verður alger og endanleg. – Lestu Opinberunarbókina 17:16.

7. Hvað hrindir árás ,dýrsins‘ af stað?

7 Í spádómum Biblíunnar kemur einnig fram hvað hrindi þessari árás af stað. Með einhverjum hætti leggur Jehóva valdhöfum heims í brjóst að „gera vilja sinn“, það er að segja að eyða skækjunni. (Opinb. 17:17) Trúarbrögðin kynda undir stríðsátökum og sundrung þannig að þjóðirnar telja ef til vill að það sé þeirra hagur að útrýma þeim. Valdhafarnir halda meira að segja að það sé þeirra eigin hugmynd að gera þetta. En í rauninni eru þeir verkfæri í hendi Guðs þegar þeir útrýma öllum falstrúarbrögðum. Kerfi Satans ræðst skyndilega gegn sjálfu sér, ein fylking á aðra, og Satan getur ekki stöðvað það. – Matt. 12:25, 26.

ÁRÁS Á FÓLK GUÐS

8. Hvað er átt við þegar talað er um árás ,Gógs í landinu Magóg‘?

8 Fólk Guðs býr enn „áhyggjulaust“ og „án varnarmúra“ eftir að falstrúarbrögðunum hefur verið útrýmt. (Esek. 38:11, 14) Hvað verður um þennan hóp sem tilbiður Jehóva og virðist algerlega varnarlaus? Svo er að sjá sem „margar þjóðir“ geri árás á þjóna Guðs. Í Biblíunni er talað um að það sé „Góg í landinu Magóg“ sem geri árásina. (Lestu Esekíel 38:2, 15, 16.) Þurfum við að óttast þessa árás?

9. (a) Hvað er kristnum manni efst í huga? (b) Hvað ættum við að gera núna til að styrkja trúna?

9 Við erum ekki kvíðin um of þó að við vitum að ráðist verði á þjóna Guðs. Það er okkur mikilvægara að nafn Jehóva helgist og drottinvald hans sé réttlætt en að við björgumst sjálf. Jehóva segir meira en 60 sinnum í Esekíelsbók: „Þá skuluð þið skilja að ég er Drottinn,“ það er að segja Jehóva. (Esek. 6:7) Við erum því mjög spennt að sjá hvernig þessi mikilvægi þáttur í spádómi Esekíels rætist. Við treystum líka að Jehóva viti hvernig hann á að frelsa hina guðhræddu. (2. Pét. 2:9) En þangað til viljum við gera allt sem hægt er til að styrkja trúna þannig að við getum verið Jehóva ráðvönd hvað sem á dynur. Hvernig gerum við það? Við skulum biðja, lesa og hugleiða orð Guðs og segja öðrum frá fagnaðarerindinu um ríkið. Þannig varðveitum við sterka von um eilíft líf og hún er „eins og akkeri“ fyrir okkur. – Hebr. 6:19; Sálm. 25:21.

ÞJÓÐIRNAR ÞURFA AÐ VIÐURKENNA HVER JEHÓVA ER

10, 11. Með hvaða atburði hefst Harmagedón? Lýstu atburðarásinni nánar.

10 Hvað gerir Jehóva þegar ráðist verður á þjóna hans? Hann skerst í leikinn á afdrifaríkan hátt og bjargar fólki sínu fyrir atbeina Jesú og himneskra hersveita hans. (Opinb. 19:11-16) Þá brestur á ,stríðið á hinum mikla degi Guðs hins alvalda‘ sem nefnt er Harmagedón. – Opinb. 16:14, 16.

11 Jehóva segir fyrir munn Esekíels um þetta stríð: „Ég mun bjóða út hvers kyns ógnum gegn Góg, segir Drottinn Guð, hver maður mun beita sverði mínu gegn náunga sínum.“ Þeir sem standa Satans megin verða skelfingu lostnir og í ringulreiðinni beina þeir vopnum sínum hver gegn öðrum. Jehóva segist munu fullnægja refsidómi sínum með eldi og bætir svo við: „Ég helli brennisteini yfir [Góg] og liðssveitir hans og hinar fjölmörgu þjóðir sem fylgja honum.“ (Esek. 38:21, 22) Hvað hefur það í för með sér?

12. Hvað neyðast þjóðirnar til að gera?

12 Þjóðirnar þurfa að gera sér grein fyrir að það er Jehóva sjálfur sem hefur fyrirskipað að þeim skuli eytt. Þá má vera að þeir sem standa með Satan geri eins og Egyptar gerðu þegar þeir höfðu elt Ísraelsmenn út í Rauðahafið. Þeir hrópuðu í örvæntingu: „Það er Jehóva sem berst fyrir þá.“ (2. Mós. 14:25, NW) Já, þjóðirnar verða að viðurkenna hver Jehóva er. (Lestu Esekíel 38:23.) Er stutt í að þessi atburðarás hefjist?

SÍÐASTA HEIMSVELDIÐ ER KOMIÐ FRAM

13. Hvað vitum við um fimmta hluta líkneskisins sem Daníel lýsir?

13 Spádómur í Daníelsbók gerir okkur kleift að sjá hvar við stöndum í tímans rás. Daníel lýsir líkneski í mannsmynd sem gert er úr ólíkum málmum. (Dan. 2:28, 31-33) Líkneskið táknar þau heimsveldi sem hafa haft veruleg áhrif á þjóð Guðs, bæði fyrr og nú. Þetta eru Babýlon, Medía-Persía, Grikkland, Róm og að síðustu heimsveldið sem er uppi núna. Af spádómi Daníels má sjá að síðasta heimsveldið er táknað með fótum og tám líkneskisins. Bretland og Bandaríkin bundust sérstökum böndum í fyrri heimsstyrjöldinni. Ensk-ameríska heimsveldið er sem sagt fimmti hluti líkneskisins sem Daníel lýsti. Fæturnir eru neðst á líkneskinu og það gefur til kynna að síðasta heimsveldið sé komið fram. Fæturnir og tærnar eru að hluta úr járni og að hluta úr leir sem lýsir veikleikum ensk-ameríska heimsveldisins.

14. Hvaða heimsveldi verður ráðandi á jörð þegar Harmagedón skellur á?

14 Í þessum sama spádómi er sagt frá stórum steini sem losnar úr fjalli. Steinninn táknar ríki Guðs og fjallið drottinvald hans. Steinninn losnaði árið 1914. Hann stefnir nú á fætur líkneskisins og mölbrýtur þá í Harmagedón ásamt líkneskinu í heild. (Lestu Daníel 2:44, 45.) Ensk-ameríska heimsveldið verður því enn ráðandi á jörð þegar Harmagedón skellur á. Það verður spennandi að sjá þennan spádóm rætast að fullu. * En hvað ætlar að Jehóva að gera við Satan?

HVAÐ VERÐUR UM ERKIÓVIN GUÐS?

15. Hvað verður um Satan og illu andana eftir Harmagedón?

15 Fyrst þarf Satan að horfa upp á hvernig heimskerfi hans á jörð verður þurrkað út fyrir full og allt. Síðan kemur röðin að honum sjálfum. Jóhannes postuli lýsir því sem þá gerist. (Lestu Opinberunarbókina 20:1-3.) Jesús Kristur, engillinn sem heldur á „lykli undirdjúpsins“, handsamar Satan og illu andana, kastar þeim í undirdjúpið og geymir þá þar í þúsund ár. (Lúk. 8:30, 31; 1. Jóh. 3:8) Þar með er stigið mikilvægt skref í þá átt að merja höfuð höggormsins. * – 1. Mós. 3:15.

16. Hvað þýðir það fyrir Satan að vera kastað í „undirdjúpið“?

16 Hvert er „undirdjúpið“ sem Satan og illu öndunum er kastað í? Gríska orðið abyssos, sem Jóhannes notar, merkir „ákaflega eða feikilega djúpur“. Það má einnig þýða „botnlaus, endalaus“ og „hyldýpið mikla“. Þetta er staður utan seilingar allra nema Jehóva og engilsins sem heldur á „lykli undirdjúpsins“. Satan er tekinn úr umferð og geymdur þar ,svo að hann leiði ekki framar þjóðirnar afvega‘. Þetta „öskrandi ljón“ er þagnað. – 1. Pét. 5:8.

ATBURÐIR SEM ERU UNDANFARI FRIÐAR

17, 18. (a) Hvaða ókomnu atburði höfum við rætt um? (b) Hvaða tímar taka við eftir að þessir atburðir hafa átt sér stað?

17 Stórkostlegir og þýðingarmiklir atburðir eru fram undan. Við bíðum þess spennt að sjá hvernig lýst verður yfir að það sé kominn „friður og engin hætta“. Síðan horfum við á hvernig Babýlon hinni miklu verður eytt, Góg í landinu Magóg gerir árás og stríðið við Harmagedón verður háð. Satan og illu öndunum verður kastað í undirdjúpið. Þegar þar er komið sögu og öll illska er horfin ganga nýir tímar í garð undir þúsund ára stjórn Krists. Þá fáum við að „gleðjast yfir ríkulegri gæfu“. – Sálm. 37:10, 11, Biblían 1981.

18 Í þessari grein höfum við rætt um fimm ókomna atburði. En það eru fleiri óorðnir atburðir sem við viljum hafa augun opin fyrir. Rætt er um þá í greininni á eftir.

^ gr. 2 Rætt er um þessa tíu atburði í þessari grein og þeirri næstu.

^ gr. 6 Sjá bókina Revelation – Its Grand Climax at Hand! bls. 251-258.

^ gr. 14 Setningin „það mun eyða öllum þessum ríkjum“ vísar til ríkjanna eða heimsveldanna sem líkneskið táknar. (Dan. 2:44) Í hliðstæðum biblíuspádómi kemur hins vegar fram að ,allir konungar í veröldinni‘ muni fylkja liði gegn Guði á „hinum mikla degi Guðs hins alvalda“. (Opinb. 16:14; 19:19-21) Öllum ríkjum þessa heims verður því útrýmt í Harmagedón, ekki aðeins ríkjunum sem líkneskið táknar.

^ gr. 15 Höfuð höggormsins verður endanlega kramið eftir að þúsund árunum er lokið en þá verður Satan og illu öndunum kastað í „díkið elds og brennisteins“. – Opinb. 20:7-10; Matt. 25:41.