Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ævisaga

Sextíu ára vinátta rétt að byrja

Sextíu ára vinátta rétt að byrja

Sumarkvöld nokkurt árið 1951 stóðu fjórir ungir menn á tvítugsaldri í símaklefum í bænum Ithaca í New York-fylki í Bandaríkjunum. Þeir höfðu pantað langlínusamtöl til Michigan, Iowa og Kaliforníu og biðu spenntir eftir að fá samband því að þeir höfðu góðar fréttir að færa.

Í FEBRÚARMÁNUÐI höfðu 122 brautryðjendur komið saman í South Lansing í New York til að sækja nám í 17. nemendahópi Gíleaðskólans. Á meðal væntanlegra trúboða voru Lowell Turner, William (Bill) Kasten, Richard Kelsey og Ramon Templeton. Lowell og Bill komu báðir frá Michigan, Richard frá Iowa og Ramon frá Kaliforníu. Þeir urðu fljótt mjög góðir vinir.

Frá vinstri til hægri: Richard, Lowell, Ramon og Bill urðu vinir í Gíleaðskólanum.

Fimm mánuðum síðar var mikil spenna í loftinu þegar tilkynnt var að bróðir Nathan Knorr frá aðalstöðvunum kæmi til að tala við nemendurna. Bræðurnir fjórir höfðu látið í ljós ósk sína að fá að starfa í sama landi ef mögulegt væri. Skyldu þeir núna fá að vita meira um það hvar þeir ættu að starfa sem trúboðar erlendis? Sú var reyndin.

Eftirvæntingin magnaðist þegar bróðir Knorr byrjaði að tilkynna nemendunum í hvaða landi þeir ættu að starfa. Fyrstir sem kallaðir voru upp á sviðið voru þessir fjórir taugaspenntu ungu menn. Þeim létti þegar þeir komust að lokum að því að þeir fengju að halda hópinn. En hvert færu þeir? Undrun og fagnaðarlæti brutust út meðal bekkjarfélaganna þegar tilkynnt var að þeir yrðu sendir til Þýskalands.

Vottar Jehóva um allan heim höfðu dáðst að trúfesti votta Jehóva í Þýskalandi frá árinu 1933 og áfram í stjórnartíð Hitlers. Margir nemendanna minntust þess að eftir seinni heimsstyrjöldina hafi þeir undirbúið pakkasendingar með fötum og öðrum nauðsynjum á vegum CARE-samtakanna til bræðra sinna í Evrópu. Þjónar Jehóva í Þýskalandi voru fyrirmyndir um framúrskarandi trú, hugrekki, staðfestu og traust á Jehóva. Lowell minnist þess að hafa hugsað að nú myndu þeir fá að kynnast þessum kæru bræðrum og systrum af eigin raun. Ekki er að undra hvað allir voru uppnumdir og fjórmenningarnir þurftu svona mikið að hringja þetta kvöld.

FERÐIN TIL ÞÝSKALANDS

Ramon kennir í skólanum fyrir safnaðaröldunga.

Hinn 27. júlí 1951 lét gufuskipið Homeland úr höfn frá East River í New York og vinirnir fjórir áttu fyrir höndum 11 daga sjóferð til Þýskalands. Bróðir Albert Schröder hafði kennt þeim fyrstu setningarnar í þýsku en hann var einn kennaranna í Gíleaðskólanum og síðar starfandi í hinu stjórnandi ráði. Nú gætu þeir kannski lært meira í tungumálinu þar sem sumir farþeganna voru þýskir. En þeir töluðu greinilega mismunandi mállýskur. Það var mjög svekkjandi.

Bræðurnir höfðu verið meira og minna sjóveikir alla leiðina og á þriðjudagsmorgni hinn 7. ágúst stigu þeir loksins á land í Hamborg í Þýskalandi. Alls staðar sáu þeir ummerki sem stríðið skildi eftir sig en það hafði endað sex árum áður. Þeir voru mjög daprir yfir því sem þeir sáu þegar þeir stigu upp í næturlestina til Wiesbaden þar sem deildarskrifstofan var.

Richard vinnur við adressuvélina á Betel í Wiesbaden.

Snemma morguns á miðvikudegi hittu þeir í fyrsta sinn þýskan trúbróður. Hann hét meira að segja dæmigerðu þýsku nafni. Bróðir Hans ók þeim frá lestarstöðinni til Betel og lét þá í hendur eldri trúsystur. Hún var mjög ákveðin en talaði enga ensku. Hún hélt greinilega að hægt væri að sigrast á tungumálaörðugleikum aðeins með því að brýna raustina. En því meir sem hún hækkaði róminn því ergilegri varð hún og vinirnir fjórir. Að lokum birtist Erich Frost sem var starfsmaður á Betel og heilsaði þeim hlýlega á ensku. Ástandið fór batnandi.

Í lok ágúst sóttu fjórmenningarnir fyrsta mót sitt í Þýskalandi. Það hét „Hrein tilbeiðsla“ og var haldið í Frankfurt am Main. Hámark viðstaddra var 47.432 og alls 2.373 létu skírast. Þetta endurnýjaði brennandi áhugann á trúboði og löngunina til að boða fagnaðarerindið. En fáum dögum síðar gerði bróðir Knorr þeim ljóst að þeir ættu að vera um kyrrt á Betel og þeim væri ætlað að starfa þar.

Gleðin, sem þeir nutu í starfi sínu, sannfærði þá um að Jehóva veit alltaf hvað mönnum er fyrir bestu.

Ramon hafði eitt sinn afþakkað boð um að fara á Betel í Bandaríkjunum því að trúboðsstarfið var honum mjög kært. Hvorki Richard né Bill höfðu nokkurn tíma leitt hugann að því að starfa á Betel. En gleðin, sem þeir áttu eftir að hafa af starfi sínu, sannfærði þá um að Jehóva veit alltaf hvað mönnum er fyrir bestu. Það er því skynsamlegra að reiða sig á handleiðslu Jehóva en eigin langanir. Sá sem hefur lært það verður ánægður að þjóna Jehóva hvar sem er og í hvaða verkefni sem er.

VERBOTEN!

Margir í Betelfjölskyldunni í Þýskalandi voru mjög ánægðir að Ameríkanar væru meðal þeirra því að þá gætu þeir æft sig í ensku. En vonir þeirra brugðust fljótt einn morguninn í matsalnum. Bróðir Frost, sem var mjög ákafur maður að eðlisfari, fór að segja eitthvað á þýsku sem var greinilega mjög alvarlegt. Flestir í fjölskyldunni voru hljóðir og mændu fast á diskana. Hinir nýkomnu vinir skildu ekki hvað sagt var en áttuðu sig smám saman á því að það snerti þá á einhvern hátt. Bróðir Frost sagði með þrumuraust „VERBOTEN“ („Bannað!“) og þeim leið ónotalega þegar hann endurtók það enn hærra til áherslu. Hvað höfðu þeir gert til að valda slíku uppnámi?

Bróðir Frost (til hægri) þegar bróðir Knorr (til vinstri) heimsótti Þýskaland.

Máltíðinni lauk og allir hröðuðu sér upp á herbergin. Seinna útskýrði annar bróðir fyrir þeim: „Þið verðið að kunna þýsku til að geta hjálpað okkur. Þess vegna sagði bróðir Frost að það væri VERBOTEN að tala við ykkur á ensku áður en þið hefðuð lært þýsku.“

Betelfjölskyldan hlýddi strax. Þetta hjálpaði hinum nýkomnu bræðrum ekki aðeins að læra þýsku heldur kenndi þeim líka að ráðlegging frá kærleiksríkum bróður er oftast til góðs þótt í fyrstu hafi verið erfitt að fylgja henni. Ráðlegging bróður Frosts endurspeglaði áhuga hans á velferð safnaðar Jehóva og kærleika hans til bræðra sinna. * Það var því engin furða að fjórmenningunum fór að þykja mjög vænt um hann.

VIÐ LÆRÐUM AF VINUM OKKAR

Sumarfrí í Sviss árið 1952.

Við getum dregið mikinn lærdóm af guðræknum vinum og það getur síðan hjálpað okkur að styrkja vináttuböndin við Jehóva. Fjórmenningarnir lærðu margt af hinum trúföstu þýsku bræðrum okkar og systrum, sem eru of mörg til að nafngreina, en þeir lærðu líka hver af öðrum. Richard segir: „Lowell hafði þónokkra kunnáttu í þýsku og spjaraði sig vel en við hinir áttum í mesta basli með hana. Hann var elstur í hópnum og varð því sá sem við leituðum sjálfkrafa til þegar kom að tungumálinu og forystunni.“ Ramon segir: „Ég varð mjög ánægður þegar svissneskur bróðir bauð okkur að fá til afnota fjallakofann sinn í Sviss í fyrsta fríinu okkar eftir að hafa dvalið eitt ár í Þýskalandi. Tvær vikur út af fyrir okkur án þess að þurfa að eiga í basli með þýskuna! En Lowell kom mér óvart. Hann krafðist þess að við læsum og ræddum dagstextann á hverjum morgni og það á þýsku! Mér til mikillar gremju gaf hann ekkert eftir. En við lærðum þá mikilvægu lexíu að fylgja forystu þeirra sem vilja manni aðeins það besta þótt maður sé stundum ósammála. Þessi afstaða hefur komið að góðu gagni í áranna rás og hefur auðveldað okkur að fylgja leiðbeiningunum sem við fáum í söfnuðinum.“

Vinirnir fjórir lærðu einnig að meta hinar sterku hliðar hver annars. Það er í samræmi við það sem stendur í Filippíbréfinu 2:3: „Verið lítillát og metið hvert annað meira en ykkur sjálf.“ Þess vegna fékk Bill að sjá um verkefni sem þeir töldu að hann gæti leyst betur af hendi en þeir. Lowell segir: „Þegar þurfti að taka á erfiðum og óþægilegum málum snerum við okkur til hans. Hann hafði lag á að fást við óþægilegar aðstæður á þann hátt sem við vorum allir hlynntir en okkur hina skorti til þess kjark eða hæfni.“

HAMINGJUSÖM HJÓNABÖND

Fjórmenningarnir ákváðu einn af öðrum að ganga í hjónaband. Vinátta þeirra var byggð á gagnkvæmum kærleika til Jehóva og þjónustunnar í fullu starfi. Þeir voru því staðráðnir í að finna sér eiginkonur sem voru fúsar til að láta Jehóva skipa fyrsta sætið í lífinu. Þjónusta í fullu starfi hafði kennt þeim að það er sælla að gefa en þiggja. Persónulegar óskir og langanir ættu með réttu að víkja fyrir hagsmunum Guðsríkis. Þeir völdu því systur sem voru þegar í þjónustu í fullu starfi. Það leiddi til fjögurra traustra og hamingjusamra hjónabanda.

Hafa verður Jehóva með þegar stofnað er til vináttu og hjónabands til að það geti orðið varanlegt. (Préd. 4:12) Þótt Bill og Ramon hafi síðar misst eiginkonur sínar höfðu báðir fengið að njóta gleðinnar og þess stuðnings sem trúföst eiginkona getur gefið. Lowell og Richard njóta áfram slíks stuðnings. Bill giftist aftur og vandaði valið svo að hann gæti haldið áfram í fullu starfi.

Síðar meir fengu þeir verkefni á ýmsum stöðum, aðallega í Þýskalandi, Austurríki, Lúxemborg, Kanada og Bandaríkjunum. Það hafði í för með sér að vinirnir gátu ekki varið eins miklum tíma saman og þá hefði langað til. En þrátt fyrir fjarlægðina, sem aðskildi þá, héldu þeir alltaf sambandi og samglöddust hver öðrum þegar vel gekk og grétu hver með öðrum þegar sorgin knúði dyra. (Rómv. 12:15) Vinir sem þessir eru gersemar og við ættum aldrei að ganga að þeim sem vísum. Þeir eru dýrmætar gjafir frá Jehóva. (Orðskv. 17:17) Nú á tímum eru sannir vinir svo sannarlega sjaldgæfir í heiminum. En allir sannkristnir menn geta eignast marga slíka vini. Vottar Jehóva njóta vináttu trúsystkina út um allan heim og það sem meira máli skiptir, vináttu Jehóva Guðs og Jesú Krists.

Lífið hjá fjórmenningunum hefur ekki alltaf verið dans á rósum eins og segja má um flest okkar, hvort sem það tengist þjáningu vegna ástvinamissis, álagi samfara alvarlegum veikindum, áhyggjum sem fylgja því að annast aldraða foreldra, erfiðleikum við uppeldi barna samhliða því að vera í þjónustu í fullu starfi, kvíða sem fylgir nýjum verkefnum í þjónustu Jehóva og vaxandi vandamálum ellinnar. En reynslan hefur kennt þeim að vinir, bæði nær og fjær, hjálpa þeim sem elska Jehóva að takast farsællega á við hvaða erfiðleika sem er.

VIÐ SJÁUM FRAM Á EILÍFA VINÁTTU

Það var góð ákvörðun hjá Lowell, Ramon, Bill og Richard að vígja sig Jehóva þegar þeir voru 18, 12, 11 og 10 ára og hefja þjónustu í fullu starfi á aldrinum 17 og 21 árs. Þeir gerðu eins og hvatt er til í Prédikaranum 12:1: „Mundu eftir skapara þínum á unglingsárum þínum.“

Ef þú ert ungur bróðir skaltu þiggja boð Jehóva ef þú mögulega getur og taka upp þjónustu í fullu starfi. Vegna náðar Jehóva áttu þá kannski eftir að upplifa sömu gleðina og vinirnir fjórir. Þú gætir til dæmis þjónað sem farandhirðir, umdæmishirðir eða umsjónarmaður við eina af deildarskrifstofum Votta Jehóva. Þú gætir unnið á Betel, þar á meðal setið í deildarnefnd, kennt í skóla fyrir safnaðaröldunga eða brautryðjendur og haldið ræður bæði á stórum og minni mótum. Fjórmenningarnir vissu að starf þeirra kom fjölda fólks að gagni og sú vitneskja veitti þeim mikla gleði. Allt þetta gátu þeir gert eingöngu vegna þess að þeir tóku sem ungir menn við kærleiksríku boði Jehóva um að þjóna honum af heilum huga. – Kól. 3:23.

Frá vinstri til hægri: Richard, Bill, Lowell og Ramon hittast í Selters þegar nýjar byggingar deildarskrifstofunnar voru vígðar árið 1984.

Núna starfa Lowell, Richard og Ramon aftur saman á deildarskrifstofunni í Selters í Þýskalandi. Því miður lést Bill árið 2012 en hann þjónaði þá sem sérbrautryðjandi í Bandaríkjunum. Með dauða hans var höggvið skarð í vináttu þessara fjögurra trúbræðra sem höfðu verið vinir í 60 ár. En Jehóva, Guð okkar, gleymir aldrei vinum sínum. Við getum verið viss um að í Guðsríki mun Jehóva endurnýja vináttusambönd sem dauðinn hefur tímabundið rofið.

„Þau 60 ár, sem við höfum verið vinir, man ég ekki eftir neinu óþægilegu augnabliki.“

Bill skrifaði stuttu fyrir dauða sinn: „Þau 60 ár, sem við höfum verið vinir, man ég ekki eftir neinu óþægilegu augnabliki. Vinátta okkar hefur alla tíð verið mér einkar kær.“ Hinir voru fljótir til svara: „Og hún er bara rétt að byrja,“ og höfðu þá í huga áframhaldandi vináttu í nýja heiminum.

^ gr. 17 Spennandi ævisaga bróður Frosts var birt í Varðturninum á ensku 15. apríl 1961, bls. 244-249.