Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Tökumst hugrökk á við mótlæti

Tökumst hugrökk á við mótlæti

„Guð er oss hæli og styrkur, örugg hjálp í nauðum.“ – SÁLM. 46:2.

1, 2. Hvaða mótlæti hefur leikið mennina grátt og hvað þrá þjónar Guðs?

VIÐ lifum á erfiðum tímum. Áföllin dynja yfir eitt af öðru. Jarðskjálftar, eldgos, flóðbylgjur, eldsvoðar, flóð, fellibyljir og fárviðri hafa leikið mennina grátt. Fjölskylduerfiðleikar og sálarkreppur valda ómældum sorgum og ótta. Það er hverju orði sannara að „tími og tilviljun“ hittir okkur öll fyrir. – Préd. 9:11.

2 Þjónum Guðs hefur á heildina litið gengið vel að glíma við erfiðleikana. En við viljum líka vera viðbúin þeim raunum sem kunna að verða á vegi okkar áður en þessi heimur líður undir lok. Hvernig getum við haldið áfram að þjóna Guði án þess að guggna? Hvernig getum við verið hugrökk þegar á móti blæs?

LÆRUM AF FÓLKI SEM SÝNDI HUGREKKI Í MÓTLÆTI

3. Hvert getum við sótt hughreystingu í raunum lífsins, samanber Rómverjabréfið 15:4?

3 Erfiðleikar og bágindi eru engin nýlunda þó að þau leggist vissulega á fleiri en nokkru sinni fyrr. Við skulum nú kanna hvað við getum lært af nokkrum þjónum Guðs til forna sem voru hugrakkir þrátt fyrir mótlæti. – Rómv. 15:4.

4. Hvað mátti Davíð þola en hvað hjálpaði honum?

4 Lítum á sumt af því sem Davíð mátti þola. Sál konungur vildi hann feigan, hann sætti árásum óvina og einu sinni rændu þeir konum hans. Sumir af vinum hans, ættingjum og liðsmönnum sviku hann og tilfinningaálagið var stundum óbærilegt. (1. Sam. 18:8, 9; 30:1-5; 2. Sam. 17:1-3; 24:15, 17; Sálm. 38:5-9) Frásagnir Biblíunnar af Davíð lýsa vel þeirri kvöl sem þetta olli honum. En aldrei glataði hann trúnni á Jehóva. „Drottinn er vígi lífs míns, hvern ætti ég að hræðast?“ sagði hann. – Sálm. 27:1; lestu Sálm 27:5, 10.

5. Hvernig tókst Abraham og Söru að halda gleði sinni þrátt fyrir að lífið væri ekki auðvelt?

5 Abraham og Sara bjuggu mestan hluta ævinnar í tjöldum sem útlendingar í framandi löndum. Líf þeirra var enginn dans á rósum. En þau voru staðföst þrátt fyrir hungursneyð og hættur af völdum þjóðanna umhverfis. (1. Mós. 12:10; 14:14-16) Hvernig tókst þeim það? Í Biblíunni segir að Abraham „vænti þeirrar borgar sem hefur traustan grunn, þeirrar sem Guð hannaði og reisti“. (Hebr. 11:8-10) Abraham og Sara létu ekki aðstæður draga úr sér kjarkinn heldur einbeittu sér að því sem var fram undan.

6. Hvernig getum við líkt eftir Job?

6 Job mátti þola hinar ægilegustu þjáningar. Hugsaðu þér hvernig honum hefur liðið þegar veröldin virtist hrynja í kringum hann. (Job. 3:3, 11) Og ekki bætti úr skák að hann skildi ekki fyllilega af hverju allt þetta dundi yfir. En hann gafst ekki upp heldur var ráðvandur og varðveitti trúna á Guð. (Lestu Jobsbók 2:3.) Hann er okkur einstaklega góð fyrirmynd til eftirbreytni.

7. Hvað mátti Páll þola í þjónustu sinni við Guð og hvað gaf honum hugrekki til að halda ótrauður áfram?

7 Að síðustu skulum við nefna Pál postula. Hann lenti í háska í borgum, í óbyggðum og á sjó. Hann sagðist hafa verið „hungraður og þyrstur og . . . kaldur og klæðlaus“. Hann nefnir einnig að hann hafi verið „sólarhring í sjó“, sennilega í eitt af skiptunum sem hann beið skipbrot. (2. Kor. 11:23-27) En tökum eftir að þrátt fyrir allt varðveitti hann jákvætt hugarfar. Eitt sinn eftir að hann hafði verið í bráðri lífshættu í þjónustu Guðs sagði hann: „Mér átti að lærast að treysta ekki sjálfum mér heldur Guði sem uppvekur hina dauðu. Úr slíkri dauðans hættu frelsaði hann mig.“ (2. Kor. 1:8-10) Fáir hafa lent í viðlíka hættum og Páll postuli. Mörgum okkar hefur engu að síður liðið eins og honum og við getum dregið lærdóm af hugrekki hans.

LÁTUM EKKI ERFIÐLEIKANA BUGA OKKUR

8. Hvaða áhrif gætu erfiðleikar lífsins haft á okkur? Lýstu með dæmi.

8 Mörgum fallast hendur andspænis öllum hörmungunum og álaginu í lífinu. Þjónum Guðs getur jafnvel liðið þannig. Lani * starfaði sem brautryðjandi í Ástralíu ásamt eiginmanni sínum þegar hún greindist með brjóstakrabbamein. Það var reiðarslag fyrir hana. „Ég var fárveik meðan á meðferðinni stóð og sjálfstraustið var ekkert,“ segir hún. Og eins og það væri ekki nóg þurfti hún líka að annast manninn sinn sem var nýbúinn að gangast undir hryggaðgerð. Hvað getum við gert ef við lendum í aðstæðum sem þessum?

9, 10. (a) Hvað megum við ekki leyfa Satan að gera? (b) Hvernig eigum við að líta á þann veruleika sem nefndur er í Postulasögunni 14:22?

9 Við skulum hafa hugfast að Satan reynir að nýta sér erfiðleika lífsins til að spilla trú okkar. En við skulum ekki leyfa honum að ræna okkur gleðinni. Í Orðskviðunum 24:10 segir: „Látir þú hugfallast á degi neyðarinnar er máttur þinn lítill.“ Ef við hugleiðum frásögur Biblíunnar af þjónum Guðs, eins og hér að framan, hjálpar það okkur að vera hugrökk í erfiðleikunum.

10 Það er líka gott að minna sig á að það er ekki hægt að losna við alla erfiðleika. Við megum búast við þeim. (2. Tím. 3:12) Í Postulasögunni 14:22 segir: „Við verðum að þola margar þrautir áður en við komumst inn í Guðs ríki.“ En í stað þess að verða niðurdregin væri ráð að líta á mótlætið sem tækifæri til að vera hugrökk og treysta að Jehóva geti hjálpað okkur.

11. Hvað getum við gert til að láta ekki erfiðleika lífsins buga okkur?

11 Við þurfum að einbeita huganum að því sem er jákvætt. Í orði Guðs segir: „Glatt hjarta gerir andlitið hýrlegt en sé hryggð í hjarta er hugurinn dapur.“ (Orðskv. 15:13) Læknar hafa lengi vitað að jákvætt hugarfar er góð heilsubót. Ef sjúklingum eru gefnar „platpillur“ (lyfleysa) er algengt að þeim líði betur vegna þess að þeir halda að lyfin virki. Hið gagnstæða er einnig þekkt. Sjúklingum getur hrakað ef þeim er sagt að lyf, sem þeir fá, hafi neikvæð áhrif á heilsuna. Við getum orðið niðurdregin ef við hugsum í sífellu um erfiðleika sem við getum engu um breytt. En Jehóva gefur okkur engar „platpillur“. Hann veitir okkur hjálp sem virkar, jafnvel á miklum erfiðleikatímum. Hann uppörvar okkur með orði sínu, styrkir okkur með anda sínum og lætur trúsystkini styðja okkur. Það er hvetjandi og uppörvandi að minna sig á það. Í stað þess að einblína á erfiðleikana skulum við venja okkur á að takast á við hvert vandamál eftir bestu getu og hugsa um hið jákvæða í lífinu. – Orðskv. 17:22.

12, 13. (a) Hvað hefur hjálpað þjónum Guðs að halda út þegar náttúruhamfarir hafa orðið? Lýstu með dæmi. (b) Hvernig sýnir það sig þegar náttúruhamfarir verða hvað er mikilvægast í lífinu?

12 Miklar náttúruhamfarir hafa gengið yfir sum lönd á síðustu árum. Fjöldi bræðra og systra í þessum löndum hefur sýnt einstaka þrautseigju. Ekki svo að skilja að það hafi verið þeim auðvelt. Fjöldi votta í Síle missti heimili sín í miklum jarðskjálfta og flóðbylgju snemma árs 2010. Sumir misstu einnig lífsviðurværi sitt. En þeir héldu áfram að þjóna Jehóva. Heimili Samuels gereyðilagðist en hann segir samt: „Jafnvel þótt ástandið væri skelfilegt hættum við hjónin aldrei að sækja samkomur og boða fagnaðarerindið. Ég held að þessar föstu venjur hafi komið í veg fyrir að við örvæntum.“ Þau létu ekki erfiðleikana buga sig heldur héldu áfram að þjóna Jehóva dyggilega, og hið sama er að segja um marga aðra.

13 Miklar rigningar ollu flóðum á Filippseyjum í september 2009. Meira en 80 prósent höfuðborgarinnar Manila voru undir vatni. Auðugur maður, sem varð fyrir miklu tjóni, sagði: „Flóðið gerði sér engan mannamun. Það hafði erfiðleika og þjáningar í för með sér jafnt fyrir ríka sem fátæka.“ Þessi orð minna okkur á viturlegt ráð Jesú: „Safnið yður heldur fjársjóðum á himni þar sem hvorki eyðir mölur né ryð og þjófar brjótast ekki inn og stela.“ (Matt. 6:20) Það er ávísun á vonbrigði að leggja mest upp úr efnislegum hlutum sem geta horfið á augabragði. Það er miklu skynsamlegra að láta sambandið við Jehóva ganga fyrir í lífinu því að það helst, óháð því hvað gerist í kringum okkur. – Lestu Hebreabréfið 13:5, 6.

AF HVERJU ÆTTUM VIÐ AÐ VERA HUGRÖKK?

14. Af hverju höfum við fulla ástæðu til að vera hugrökk?

14 Jesús sagði lærisveinunum að þeir mættu búast við erfiðleikum meðan nærvera hans stæði yfir en bætti við: „Skelfist ekki.“ (Lúk. 21:9) Við höfum fulla ástæðu til að vera hugrökk vegna þess að konungurinn Jesús og Jehóva, skapari alheims, styðja okkur. Páll skrifaði Tímóteusi þessi uppörvandi orð: „Ekki gaf Guð okkur anda hugleysis heldur anda máttar og kærleiks og stillingar.“ – 2. Tím. 1:7.

15. Hvernig lýstu sumir þjónar Guðs sannfæringu sinni og hvernig getum við líkt eftir þeim?

15 Í Biblíunni má lesa hvernig margir þjónar Guðs lýstu trausti sínu til hans. Davíð sagði: „Drottinn er styrkur minn og skjöldur, honum treystir hjarta mitt. Ég hlaut hjálp, því fagnar hjarta mitt.“ (Sálm. 28:7) Páll lýsti yfir óhagganlegri sannfæringu sinni þegar hann sagði: „Í öllu þessu vinnum við fyllsta sigur í krafti hans sem elskaði okkur.“ (Rómv. 8:37) Jesús tók af allan vafa á hættustund um að hann ætti sterkt samband við Guð. Hann sagði við postulana: „Þó er ég ekki einn því faðirinn er með mér.“ (Jóh. 16:32) Hvað bera orð þessara þjóna Jehóva með sér? Allir báru þeir óhagganlegt traust til hans. Ef við lærum að treysta Jehóva með svipuðum hætti fáum við hugrekki til að taka hvaða mótlæti sem er. – Lestu Sálm 46:2-4.

NOTFÆRUM OKKUR HJÁLP GUÐS

16. Hvers vegna er biblíunám mikilvægt?

16 Hugrekki kristins manns byggist ekki á sjálfstrausti heldur á því að kynnast Guði og reiða sig á hann. Reglulegt sjálfsnám í Biblíunni er nauðsynlegt til þess. Systir, sem á við þunglyndi að stríða, segir að það hjálpi sér að lesa hughreystandi biblíuvers aftur og aftur. Tökum við okkur tíma í hverri viku til fjölskyldunáms eins og hvatt er til? Það hjálpar okkur að hugsa eins og sálmaskáldið sem sagði: „Hve mjög elska ég lögmál þitt, allan daginn íhuga ég það.“ – Sálm. 119:97.

17. (a) Hvað getur veitt okkur hugrekki? (b) Nefndu dæmi um ævisögu sem hefur verið þér til gagns.

17 Við höfum einnig aðgang að biblíutengdum ritum sem geta styrkt traust okkar til Jehóva. Ævisögur bræðra og systra, sem birst hafa í tímaritunum okkar, hafa hjálpað mörgum. Systur í Asíu, sem þjáist af geðhvarfasýki, fannst uppörvandi að lesa ævisögu fyrrverandi trúboða sem átti við sama sjúkdóm að stríða en tókst að halda honum í skefjum. „Greinin veitti mér skilning á mínum eigin sjúkdómi og veitti mér von,“ segir hún.

Notfærðu þér þá hjálp sem Jehóva sér okkur fyrir þegar þú verður fyrir mótlæti.

18. Af hverju ættum við að biðja sem oftast?

18 Við getum leitað til Jehóva í bæn og það getur hjálpað okkur við margs konar aðstæður. Páll postuli benti á gildi bænarinnar þegar hann sagði: „Verið ekki hugsjúk um neitt heldur gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar í Kristi Jesú.“ (Fil. 4:6, 7) Nýtum við okkur til fulls þessa hjálp þegar við verðum fyrir mótlæti? Alex er bróðir í Bretlandi og hefur átt við þunglyndi að stríða árum saman. Hann segir: „Það hefur verið mér haldreipi að tala við Jehóva í bæn og hlusta á hann með því að lesa orð hans.“

19. Hvernig eigum við að líta á samkomurnar?

19 Samkomurnar eru líka mikilvæg hjálp sem Jehóva lætur í té. Sálmaskáldið orti: „Sálu mína langaði til, já, hún þráði forgarða Drottins.“ (Sálm. 84:3) Hugsum við þannig? Lani, sem áður er getið, segir um samkomurnar og félagsskapinn við trúsystkini: „Það var engin spurning hvort ég ætti að sækja samkomur. Ég vissi að ég yrði að gera það til að Jehóva hjálpaði mér að halda út.“

20. Hvernig hjálpar það okkur að taka þátt í boðunarstarfinu?

20 Við fáum einnig hugrekki með því að boða fagnaðarerindið. (1. Tím. 4:16) Systir í Ástralíu, sem hefur átt við margs konar erfiðleika að stríða, segir: „Allra síst langaði mig til að boða fagnaðarerindið en öldungur bauð mér að starfa með sér. Ég þáði boðið. Jehóva hlýtur að hafa hjálpað mér því að ég var svo ánægð í hvert sinn sem ég fór í starfið.“ (Orðskv. 16:20) Margir hafa komist að raun um að trú þeirra styrkist við það að hjálpa öðrum að öðlast trú á Jehóva. Meðan á því stendur eru þeir ekki með hugann við sín eigin vandamál heldur einbeita sér að því sem meira máli skiptir. – Fil. 1:10, 11.

21. Hverju getum við treyst varðandi það mótlæti sem við verðum fyrir?

21 Jehóva hjálpar okkur á margvíslegan hátt að takast hugrökk á við mótlæti lífsins. Við skulum nýta okkur þá aðstoð sem hann veitir. Við getum byggt upp hugrekki með því að íhuga gott fordæmi annarra þjóna Guðs og líkja eftir þeim. Þó að búast megi við margs konar erfiðleikum áður en þetta heimskerfi líður undir lok skulum við hugsa eins og Páll en hann sagði: „Ég er . . . felldur til jarðar en tortímist þó ekki. Fyrir því læt ég ekki hugfallast.“ (2. Kor. 4:8, 9, 16) Við megum treysta að með hjálp Jehóva getum við tekist hugrökk á við mótlæti lífsins. – Lestu 2. Korintubréf 4:17, 18.

^ gr. 8 Sumum nöfnum er breytt.