Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvaða áhrif hefur það á þig að Jehóva skuli fyrirgefa?

Hvaða áhrif hefur það á þig að Jehóva skuli fyrirgefa?

„Drottinn er miskunnsamur og náðugur Guð, seinn til reiði . . . fyrirgefur misgjörðir, afbrot og syndir.“ – 2. MÓS. 34:6, 7.

1, 2. (a) Hvernig reyndist Jehóva Ísraelsmönnum? (b) Um hvaða spurningu er fjallað í þessari grein?

HÓPUR Levíta á dögum Nehemía viðurkenndi í bæn í allra áheyrn að forfeður þeirra hefðu margsinnis sýnt að „þeir vildu ekki hlýða“ boðorðum Jehóva. En Jehóva reyndist æ ofan í æ vera „Guð sem fyrirgefur, náðugur og miskunnsamur, seinn til reiði og gæskuríkur“. Hann var áfram gæskuríkur við þjóð sína á tímum Nehemía, eftir útlegðina í Babýlon. – Neh. 9:16, 17.

2 Við höfum hvert og eitt ástæðu til að velta fyrir okkur eftirfarandi spurningu: Hvaða áhrif hefur það á mig að Jehóva skuli fyrirgefa? Til að fá svar við þessari mikilvægu spurningu skulum við kynna okkur hvernig Jehóva tók á málum tveggja manna og hvernig þeir nutu góðs af því að hann skyldi vera fús til að fyrirgefa. Þetta voru konungarnir Davíð og Manasse.

ALVARLEGAR SYNDIR DAVÍÐS

3-5. Hvaða alvarlegu syndir drýgði Davíð?

3 Þótt Davíð væri guðhræddur maður drýgði hann alvarlegar syndir. Tvær þeirra snertu hjónin Úría og Batsebu. Þessar syndir höfðu sársaukafullar afleiðingar fyrir þau öll. Við lærum hins vegar heilmikið um fyrirgefningu Jehóva af því hvernig hann tók á málum Davíðs. Rifjum söguna upp.

4 Davíð sendi her Ísraels til að setjast um Rabba, höfuðborg Ammoníta. Borgin var handan Jórdanar, um 80 kílómetra austur af Jerúsalem. Meðan á umsátrinu stóð vildi svo til að Davíð var uppi á hallarþakinu og sá þaðan Batsebu þar sem hún var að baða sig. Batseba var gift kona og maðurinn hennar var fjarverandi. Davíð fannst hún svo eggjandi að hann lét færa hana í höll sína og drýgði síðan hór með henni. – 2. Sam. 11:1-4.

5 Þegar Davíð uppgötvaði að Batseba var barnshafandi lét hann senda Úría, eiginmann hennar, heim til Jerúsalem í von um að hann myndi hafa kynmök við hana. En Úría fór ekki einu sinni heim til sín þótt Davíð hvetti hann ítrekað til þess. Konungur skrifaði því herforingja sínum leynilegt bréf með fyrirmælum um að Úría skyldi settur „í fremstu víglínu þar sem bardaginn er harðastur“, og síðan skyldu hinir hermennirnir hörfa frá honum. Úría var berskjaldaður og féll í bardaganum, rétt eins og Davíð hafði ætlað sér. (2. Sam. 11:12-17) Nú var konungurinn ekki aðeins búinn að drýgja hór heldur hafði hann í þokkabót látið drepa saklausan mann.

HUGARFAR DAVÍÐS BREYTIST

6. Hvernig brást Jehóva við syndum Davíðs og hvað segir það um hann?

6 Jehóva sér auðvitað allt og vissi því hvernig Davíð hafði farið að ráði sínu. (Orðskv. 15:3) „Það sem Davíð hafði gert var illt í augum Drottins“ og það breytti engu þótt hann gengi að eiga Batsebu eftir þetta. (2. Sam. 11:27) Hvernig brást Jehóva við þessum alvarlegu syndum Davíðs? Hann sendi Natan spámann til hans. Þar sem Jehóva er fús til að fyrirgefa vildi hann athuga hvort það væri grundvöllur til að miskunna Davíð. Finnst þér ekki traustvekjandi að sjá hvernig Jehóva fór að? Hann þvingaði ekki Davíð til að játa synd sína heldur lét hann Natan segja sögu sem leiddi konungi fyrir sjónir hve alvarlega hann hafði brotið af sér. (Lestu 2. Samúelsbók 12:1-4.) Þetta var góð leið til að taka á þessu vandmeðfarna máli.

7. Hvernig brást Davíð við dæmisögu Natans?

7 Dæmisaga Natans hreyfði við réttlætiskennd Davíðs. Hann reiddist ríka manninum í sögunni og sagði við Natan: „Svo sannarlega sem Drottinn lifir er sá sem þetta gerði dauðasekur.“ Síðan sagði hann að sá sem var órétti beittur ætti að fá bættan skaðann. En þá kom reiðarslagið. „Þú ert maðurinn,“ sagði Natan. Hann sagði síðan Davíð að „sverðið“ myndi fylgja fjölskyldu hans þaðan í frá og ógæfa koma yfir hana. Hann yrði auðmýktur frammi fyrir öllum Ísrael vegna syndar sinnar. Davíð gerði sér grein fyrir hve alvarlega hann hafði brotið af sér og viðurkenndi fullur iðrunar: „Ég hef syndgað gegn Drottni.“ – 2. Sam. 12:5-14.

BÆN DAVÍÐS OG FYRIRGEFNING GUÐS

8, 9. Hvernig lýsir Sálmur 51 innstu tilfinningum Davíðs og hvað lærum við þar um Jehóva?

8 Iðrun Davíðs konungs lýsir sér vel í ljóði sem hann orti eftir þetta. Sálmur 51 hefur að geyma innilegar bænir til Jehóva og ber greinilega vitni um að Davíð lét sér ekki nægja að játa sekt sína. Hann iðraðist líka þess sem hann hafði gert. Mest var honum í mun að varðveita sambandið við Guð. „Gegn þér einum hef ég syndgað,“ játaði hann og sárbændi Jehóva: „Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð, og veit mér nýjan, stöðugan anda . . . Veit mér aftur fögnuð þíns hjálpræðis og styð mig með fúsleiks anda.“ (Sálm. 51:3-6, 9-14) Ert þú svona einlægur og opinskár við Jehóva þegar þú talar við hann um það sem þér hefur orðið á?

9 Jehóva hlífði ekki Davíð við sársaukafullum afleiðingum syndanna sem hann drýgði. Þær fylgdu honum það sem eftir var ævinnar. En Jehóva fyrirgaf honum vegna þess að hann iðraðist. Hjarta hans var „sundurmarið og sundurkramið“. (Lestu Sálm 32:5; Sálm. 51:19) Alvaldur Guð skilur hvaða hvatir búa að baki þegar fólk syndgar. Hann lét ekki mennska dómara dæma Davíð og Batsebu til dauða samkvæmt Móslögunum heldur sýndi þá miskunn að dæma þau sjálfur. (3. Mós. 20:10) Salómon, sonur þeirra, varð næsti konungur Ísraels. – 1. Kron. 22:9, 10.

10. (a) Hvaða ástæðu til að fyrirgefa Davíð gæti Jehóva hafa séð? (b) Hvað þarf fólk að gera til að hljóta fyrirgefningu Jehóva?

10 Önnur ástæða fyrir því að Jehóva fyrirgaf Davíð var ef til vill sú hve Davíð hafði verið miskunnsamur við Sál. (1. Sam. 24:5-8) Jesús benti á að Jehóva komi fram við okkur eins og við komum fram við aðra. „Dæmið ekki svo að þér verðið ekki dæmd,“ sagði hann. „Því að með þeim dómi, sem þér dæmið, munuð þér dæmd verða og með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður mælt verða.“ (Matt. 7:1, 2) Það er mikill léttir að vita að Jehóva fyrirgefur syndir okkar – jafnvel mjög alvarlegar syndir eins og hjúskaparbrot og morð. Hann gerir það ef við erum fús til að fyrirgefa, ef við játum syndir okkar fyrir honum og ef við breytum um hugarfar og sjáum syndir okkar sömu augum og hann. Ef syndari iðrast í einlægni lætur Jehóva „upp renna endurlífgunartíma“ og það hjálpar honum að hafa hreina samvisku. – Lestu Postulasöguna 3:19, 20.

MANASSE SYNDGAR ALVARLEGA EN IÐRAST

11. Hvað gerði Manasse sem var illt í augum Jehóva?

11 Önnur frásaga í Biblíunni sýnir greinilega fram á að Jehóva er fús til að fyrirgefa syndir af versta tagi. Manasse varð konungur í Júda um 360 árum eftir að Davíð tók við völdum og ríkti í 55 ár. Hann var alræmdur fyrir illsku sína og Jehóva fordæmdi hann fyrir þá andstyggilegu siði sem hann fylgdi. Meðal annars reisti hann ölturu handa Baal, „dýrkaði allan himinsins her“, lét syni sína ganga gegnum eldinn og hvatti til dulspekiiðkana. „Hann gerði margt sem illt var í augum Drottins.“ – 2. Kron. 33:1-6.

12. Hvernig sneri Manasse aftur til Jehóva?

12 Um síðir var Manasse tekinn, fluttur til Babýlonar og varpað í fangelsi. Kannski minntist hann þá þess sem Móse sagði við Ísrael: „Í neyð þinni mun allur þessi boðskapur ná eyrum þínum, á komandi tímum munt þú snúa aftur til Drottins, Guðs þíns, og hlýða boðum hans.“ (5. Mós. 4:30) Manasse sneri aftur til Jehóva. Hvernig? „Hann auðmýkti sig mjög“ fyrir Guði og „bað til hans“ (sjá mynd á bls. 21). (2. Kron. 33:12, 13) Í Biblíunni kemur ekki fram hvað Manasse sagði í bænum sínum en við getum ímyndað okkur að það hafi að sumu leyti verið hliðstætt orðum Davíðs í Sálmi 51. Hvað sem því líður tók Manasse algerum sinnaskiptum.

13. Hvers vegna fyrirgaf Jehóva Manasse?

13 Hvernig brást Jehóva við bænum Manasse? Hann „hlýddi á hann“ og „bænheyrði hann“. Manasse gerði sér grein fyrir hve alvarlega hann hafði syndgað og iðraðist í einlægni líkt og Davíð. Þess vegna fyrirgaf Guð honum og leyfði honum að snúa heim til Jerúsalem og endurheimta konungdóminn. „Þannig komst Manasse að raun um að Drottinn er hinn sanni Guð.“ (2. Kron. 33:13) Það er ákaflega traustvekjandi að geta lesið þessa frásögu því að hún staðfestir svo greinilega að Jehóva er miskunnsamur og fyrirgefur þeim sem iðrast í einlægni.

Manasse endurheimti konungdóminn í Jerúsalem vegna þess að Jehóva fyrirgaf honum.

FYRIRGEFUR JEHÓVA ENDALAUST?

14. Hvað ræður því hvort Jehóva fyrirgefur þeim sem syndga?

14 Það er ólíklegt að þjónar Guðs nú á tímum þurfi nokkurn tíma að biðja hann að fyrirgefa sér jafn alvarlegar syndir og þeir Davíð og Manasse drýgðu. Að Jehóva skyldi fyrirgefa konungunum tveim minnir okkur hins vegar á að hann er fús til að fyrirgefa mjög alvarlegar syndir ef syndarinn iðrast í einlægni.

15. Hvernig vitum við að það er ekki sjálfsagt að Jehóva fyrirgefi?

15 Við megum auðvitað ekki álykta sem svo að Jehóva fyrirgefi sjálfkrafa öllum sem syndga. Hugarfar Davíðs og Manasse var harla ólíkt þrjósku og óhlýðni Ísraels- og Júdamanna. Guð sendi Natan til Davíðs til að leiða honum fyrir sjónir hvað hann hafði gert og gefa honum tækifæri til að breyta hugarfari sínu. Davíð var þakklátur og iðraðist. Manasse iðraðist einlæglega þegar hann var í nauðum staddur. En oft iðruðust Ísraelsmenn og Júdamenn ekki vondra verka sinna. Þess vegna fyrirgaf Jehóva þeim ekki, heldur lét spámenn sína segja þeim æ ofan í æ hvernig hann liti á óhlýðni þeirra. (Lestu Nehemíabók 9:30.) Jehóva hélt áfram að senda trúa sendiboða eins og Esra prest og Malakí spámann til Ísraelsmanna eftir að þeir sneru heim úr útlegðinni í Babýlon. Fólkið upplifði mikla gleði þegar það breytti í samræmi við vilja Jehóva. – Neh. 12:43-47.

16. (a) Hvaða afleiðingar hafði það fyrir Ísraelsþjóðina í heild að iðrast ekki? (b) Hvaða tækifæri stendur afkomendum Ísraelsþjóðarinnar til boða?

16 Eftir að Jehóva sendi Jesú til jarðar til að færa fullkomna lausnarfórn hætti hann að taka við dýrafórnum Ísraelsmanna. (1. Jóh. 4:9, 10) Jesús endurspeglaði sjónarmið föður síns þegar hann sagði þessi hjartnæmu orð: „Jerúsalem, Jerúsalem! Þú sem líflætur spámennina og grýtir þá sem sendir eru til þín! Hversu oft vildi ég safna börnum þínum, eins og hænan safnar ungum sínum undir vængi sér, og þér vilduð eigi?“ Þess vegna bætti hann við: „Guð mun yfirgefa musteri yðar og það verður lagt í rúst.“ (Matt. 23:37, 38) Þessi synduga þjóð, sem iðraðist einskis, var því látin víkja fyrir andlegu Ísraelsþjóðinni. (Matt. 21:43; Gal. 6:16) En geta einstaklingar, sem eru afkomendur Ísraelsþjóðarinnar, fengið fyrirgefningu? Já, Jehóva er fús til að miskunna þeim og fyrirgefa ef þeir trúa á hann og fórn Jesú Krists. Hið sama gerist þegar fólk verður reist upp til lífs hér á jörð. Þeir sem dóu án þess að iðrast synda sinna geta einnig fengið fyrirgefningu. – Jóh. 5:28, 29; Post. 24:15.

HVERNIG GETUM VIÐ NOTIÐ GÓÐS AF FYRIRGEFNINGU JEHÓVA?

17, 18. Hvernig getum við fengið fyrirgefningu Jehóva?

17 Hvaða áhrif ætti það að hafa á okkur að Jehóva skuli vera fús til að fyrirgefa? Við ættum auðvitað að sýna iðrunarhug eins og Davíð og Manasse. Við ættum að viðurkenna að við séum syndug, iðrast þegar okkur verður á, sárbæna Jehóva um að fyrirgefa okkur og biðja hann að skapa í okkur hreint hjarta. (Sálm. 51:12) Ef við höfum drýgt alvarlega synd ættum við einnig að leita aðstoðar öldunganna. (Jak. 5:14, 15) Hvað svo sem okkur hefur orðið á er hughreystandi að minna sig á hvernig Jehóva lýsti sjálfum sér þegar hann talaði við Móse. Hann er „miskunnsamur og náðugur Guð, seinn til reiði, gæskuríkur og trúfastur. Hann sýnir þúsundum gæsku, fyrirgefur misgjörðir, afbrot og syndir.“ Jehóva hefur ekki breyst. – 2. Mós. 34:6, 7.

18 Jehóva brá upp sterkum andstæðum þegar hann lofaði iðrandi Ísraelsmönnum að afmá syndir þeirra. Hann sagði að þær væru eins og „skarlat“ en skyldu verða hvítar „sem mjöll“. (Lestu Jesaja 1:18.) Fyrirgefning Jehóva þýðir að hann gefur okkur upp sakir að fullu, svo framarlega sem við erum þakklát og iðrunarfull.

19. Um hvað er fjallað í næstu námsgrein?

19 Hvernig getum við líkt eftir Jehóva og verið fús til að fyrirgefa hvert öðru? Hvað getum við gert til að vera ekki langrækin gagnvart þeim sem syndga alvarlega en iðrast í einlægni? Í næstu grein er rætt hvernig við getum rannsakað hjörtu okkar og líkst betur Jehóva, föður okkar, sem er „góður og fús til að fyrirgefa“. – Sálm. 86:5.