Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Kenn mér að gera vilja þinn“

„Kenn mér að gera vilja þinn“

„Kenn mér að gera vilja þinn því að þú ert Guð minn.“ – SÁLM. 143:10.

1, 2. Hvernig er það okkur til góðs að taka mið af vilja Guðs og hvað getum við lært af Davíð konungi?

HEFURÐU einhvern tíma notað rafræn landakort eða götukort á ferðalögum? Þau geta gefið þér góða yfirsýn og auðveldað þér að velja heppilega leið frá einum stað til annars. Við getum notað hliðstæða aðferð þegar við þurfum að taka mikilvægar ákvarðanir. Að sjá hlutina frá háum sjónarhóli Jehóva er góð hjálp til að ganga þann veg sem hann hefur velþóknun á. – Jes. 30:21.

2 Mestan hluta ævinnar tók Davíð Ísraelskonungur mið af vilja Jehóva. Þar er hann okkur góð fyrirmynd. Við skulum rifja upp nokkur atvik úr ævi þessa manns sem sýndi með hegðun sinni að hann var heilshugar við Jehóva, og við skulum kanna hvað við getum lært af honum. – 1. Kon. 11:4.

DAVÍÐ BAR DJÚPA VIRÐINGU FYRIR NAFNI JEHÓVA

3, 4. (a) Hvað var Davíð hvöt til að skora Golíat á hólm? (b) Hvernig hugsaði Davíð um nafn Guðs?

3 Davíð var enn ungur að árum þegar hann barðist við Filisteann Golíat. Hvað fékk þennan unga mann til að skora á hólm þungvopnaðan risa sem var næstum þrír metrar á hæð? (1. Sam. 17:4) Var það hugrekki hans? Var það trú hans á Guð? Eflaust hefur hvort tveggja átt sinn þátt í því að hann drýgði þessa hetjudáð. Það var hins vegar virðing fyrir Jehóva og háleitu nafni hans sem var sterkasta hvötin að baki því að hann gekk fram í bardaga við risann. Davíð spurði reiðilega: „Hver er þessi óumskorni Filistei sem dirfist að hæðast að hersveitum hins lifandi Guðs?“ – 1. Sam. 17:26.

4 Davíð lýsti yfir þegar hann stóð frammi fyrir Golíat: „Þú kemur á móti mér með sverð, spjót og lensu en ég kem á móti þér í nafni Drottins hersveitanna. Hann er Guð herfylkinga Ísraels sem þú hefur smánað.“ (1. Sam. 17:45) Davíð treysti á hinn sanna Guð og felldi Filisteann með einum slöngvusteini. Alla ævi treysti hann á Jehóva og bar djúpa virðingu fyrir nafni hans. Hann hvatti samlanda sína til að ,hrósa sér af heilögu nafni‘ Jehóva. – Lestu 1. Kroníkubók 16:8-10.

5. Hvað gætum við upplifað sem væri sambærilegt við háðsglósur Golíats?

5 Ertu stoltur að eiga Jehóva að Guði? (Jer. 9:23) Hvað gerirðu þegar nágrannar, vinnufélagar, skólafélagar eða ættingjar tala illa um Jehóva og hæðast að vottum hans? Treystirðu á stuðning Jehóva og lætur í þér heyra þegar fólk lastar nafn hans? Það er vissulega rétt að ,það hefur sinn tíma að þegja‘ en við megum ekki skammast okkar fyrir að vera vottar Jehóva og fylgjendur Jesú. (Préd. 3:1, 7; Mark. 8:38) Þó svo að við eigum að vera háttvís og kurteis við fólk sem er neikvætt gagnvart okkur skulum við ekki líkjast Ísraelsmönnum sem „skelfdust . . . og urðu mjög hræddir“ þegar þeir heyrðu háðsglósur Golíats. (1. Sam. 17:11) Við skulum heldur vera óhrædd að verja heilagt nafn Jehóva. Okkur langar til að hjálpa fólki að kynnast honum og fá rétta mynd af honum. Við notum því Biblíuna til að reyna að sýna fólki fram á að það þurfi að kynnast Jehóva Guði. – Jak. 4:8.

6. Hverju vildi Davíð áorka með því að berjast við Golíat og hvað ætti að vera okkur efst í huga?

6 Við drögum annan mikilvægan lærdóm af frásögunni um Davíð og Golíat. Þegar Davíð kom hlaupandi að víglínunni spurði hann: „Hvernig verður þeim manni launað sem drepur þennan Filistea og rekur slyðruorðið af Ísrael?“ Menn endurtóku þá það sem þeir höfðu áður sagt: „Konungur mun launa þeim manni ríkulega sem fellir hann. Hann mun gefa honum dóttur sína.“ (1. Sam. 17:25-27) En Davíð var ekki fyrst og fremst að hugsa um launin. Hann hafði göfugara markmið. Hann langaði til að upphefja hinn sanna Guð. (Lestu 1. Samúelsbók 17:46, 47.) Hvað um okkur? Er okkur efst í huga að skapa okkur nafn með því að auðgast og komast áfram í heiminum? Við viljum auðvitað líkjast Davíð sem söng: „Vegsamið Drottin [Jehóva] ásamt mér, tignum nafn hans einum hug.“ (Sálm. 34:4) Við skulum treysta á Guð og taka nafn hans fram yfir okkar eigið. – Matt. 6:9.

7. Hvernig getum við byggt upp nógu sterka trú til að ræða við fólk sem er okkur andsnúið?

7 Til að berjast gegn Golíat þurfti Davíð að treysta algerlega á Jehóva og hafa sterka trú. Þessa trú hafði hann meðal annars byggt upp með því að reiða sig á Jehóva í starfi sínu sem fjárhirðir. (1. Sam. 17:34-37) Við þurfum líka sterka trú til að halda áfram að boða fagnaðarerindið, ekki síst þegar við hittum fólk sem er okkur andsnúið. Við getum byggt upp slíka trú með því að reiða okkur á Jehóva í öllu sem við gerum. Við getum til dæmis bryddað upp á samræðum um Biblíuna við sessunauta í strætisvagni eða flugvél. Og er nokkur ástæða til að veigra sér við að tala við fólk sem við hittum á götunni þegar við störfum hús úr húsi? – Post. 20:20, 21.

DAVÍÐ VIRTI VILJA JEHÓVA Í EINU OG ÖLLU

Hvað kom í veg fyrir að Davíð réði Sál bana þegar hann hafði tækifæri til þess?

8, 9. Hvernig virti Davíð alltaf vilja Jehóva í samskiptum við Sál konung?

8 Davíð sýndi einnig að hann var fús til að treysta á Jehóva með því að sjá Sál sömu augum og Jehóva gerði. Sál, sem var fyrsti konungur Ísraels, öfundaði Davíð og reyndi þrisvar að reka hann í gegn með spjóti en Davíð tókst að víkja sér undan. Hann reyndi ekki að hefna sín og flúði að lokum frá Sál. (1. Sam. 18:7-11; 19:10) Sál fór þá með 3.000 manna einvalalið út í eyðimörkina til að leita að Davíð. (1. Sam. 24:3) Dag einn fór Sál inn í helli nokkurn en vissi ekki að Davíð og menn hans voru þar í felum. Davíð hefði getað gripið tækifærið og banað konunginum sem ógnaði lífi hans. Það var hvort eð er vilji Guðs að Davíð tæki við af Sál sem konungur Ísraels. (1. Sam. 16:1, 13) Og konungurinn hefði dáið ef Davíð hefði farið að ráði manna sinna. En Davíð sagði: „Drottinn forði mér frá því að gera annað eins og þetta gegn herra mínum, Drottins smurða.“ (Lestu 1. Samúelsbók 24:5-8.) Sál var enn þá smurður konungur Guðs. Fyrst Guð var ekki búinn að víkja honum úr embætti vildi Davíð ekki ráða honum bana. Hann skar aðeins bút af skikkju Sáls og sýndi þar með að hann ætlaði sér ekki að gera honum mein. – 1. Sam. 24:12.

9 Davíð sýndi hinum smurða konungi einnig virðingu þegar hann sá hann í síðasta sinn. Hann kom þá ásamt Abísaí að herbúðum Sáls og gekk fram á konunginn sofandi. Abísaí hugsaði sem svo að nú hefði Guð búið svo um hnútana að Davíð gæti ráðið óvin sinn af dögum. Hann bauðst til að reka hann í gegn með spjóti en Davíð leyfði það ekki. (1. Sam. 26:8-11) Davíð treysti á leiðsögn Guðs eins og endranær og var staðráðinn í að láta vilja hans ráða ferðinni, hvað sem Abísaí sagði.

10. Í hvaða stöðu gætum við lent og hvað hjálpar okkur að láta ekki undan?

10 Við getum líka lent í þeirri stöðu að aðrir þrýsti á okkur að láta mannleg rök ráða ferðinni í stað þess að styðja okkur í að gera vilja Jehóva. Sumir gætu kannski hvatt okkur til að gera eitthvað án þess að hugleiða hvernig Guð lítur á málin, rétt eins og Abísaí gerði. Til að láta ekki undan þurfum við að hafa sjónarmið Jehóva skýrt í huga og vera ákveðin í að gera eins og hann vill.

11. Hvernig sýndi Davíð að hann hafði vilja Guðs alltaf efst í huga og hvað má læra af því?

11 Davíð bað til Jehóva Guðs: „Kenn mér að gera vilja þinn.“ (Lestu Sálm 143:5, 8, 10.) Davíð reiddi sig hvorki á eigið hyggjuvit né fylgdi óviturlegum ráðum annarra heldur sóttist eftir leiðsögn Guðs. Hann ,hugleiddi allar gjörðir Jehóva og ígrundaði verk handa hans‘. Við getum kynnt okkur vilja Jehóva með því að grafa eftir honum í Biblíunni og hugleiða hinar mörgu frásögur hennar af samskiptum hans við mennina.

DAVÍÐ SKILDI MEGINREGLURNAR AÐ BAKI LÖGMÁLINU

12, 13. Af hverju hellti Davíð niður vatninu sem mennirnir þrír færðu honum?

12 Davíð skildi meginreglurnar að baki lögmálinu og þráði að lifa í samræmi við þær. Þar er hann okkur einnig dæmi til eftirbreytni. Einhverju sinni hafði hann á orði að hann sárlangaði í „vatn úr brunninum við borgarhliðið í Betlehem“. Filistear höfðu hernumið borgina en þrír kappar Davíðs brutust inn í hana til að sækja vatn. Davíð „vildi þó ekki drekka vatnið“ heldur hellti því niður. Af hverju gerði hann það? „Guð minn forði mér frá að gera slíkt,“ sagði hann. „Á ég að drekka blóð þessara manna sem hættu lífi sínu til að sækja vatnið?“ – 1. Kron. 11:15-19.

Hvað má læra af því að Davíð skyldi ekki vilja drekka vatnið sem menn hans færðu honum?

13 Davíð vissi að samkvæmt lögmálinu mátti ekki neyta blóðs heldur átti að hella því á jörðina frammi fyrir augliti Jehóva. Hann skildi líka ástæðuna. Hann vissi að „lífskraftur holdsins er í blóðinu“. En þetta var ekki blóð heldur vatn. Af hverju vildi Davíð þá ekki drekka það? Hann skildi meginregluna að baki þessu lagaákvæði. Í augum hans var vatnið jafn dýrmætt og blóð mannanna þriggja af því að þeir hættu lífinu til að ná í það. Þess vegna var óhugsandi að hann drykki það og hann ákvað að hella því niður. – 3. Mós. 17:11; 5. Mós. 12:23, 24.

14. Hvernig tileinkaði Davíð sér sjónarmið Jehóva?

14 Lögmál Guðs hafði djúpstæð áhrif á líf Davíðs. Hann söng: „Að gera vilja þinn, Guð minn, er mér yndi og lögmál þitt er innra með mér.“ (Sálm. 40:9) Davíð las og hugleiddi lögmál Guðs vandlega. Hann treysti boðorðum hans af því að hann vissi að þau byggðust á visku hans. Þar af leiðandi var honum mikið í mun að halda bæði ákvæði Móselaganna og virða andann að baki þeim. Þegar við lesum í Biblíunni ættum við líka að hugleiða efnið og varðveita það í hjörtum okkar þannig að Jehóva hafi velþóknun á þeim ákvörðunum sem við tökum í daglega lífinu.

15. Hvernig braut Salómon lög Guðs?

15 Jehóva blessaði Salómon, son Davíðs, á marga vegu. En þegar fram liðu stundir hætti Salómon að virða lög Guðs. Hann hélt ekki það boðorð Jehóva að konungur Ísraels skyldi ekki „taka sér of margar konur“ heldur eignaðist fjölda erlendra eiginkvenna. (5. Mós. 17:17) Þegar hann var orðinn gamall „sneru konurnar hjarta hans til annarra guða“. Hann „fylgdi Drottni ekki af sömu heilindum og Davíð, faðir hans,“ heldur „gerði það sem illt var í augum Drottins“, hvernig svo sem hann afsakaði það fyrir sjálfum sér. (1. Kon. 11:1-6) Það er ákaflega mikilvægt að við fylgjum þeim lögum og meginreglum sem er að finna í orði Guðs. Það skiptir til dæmis mjög miklu máli þegar við leitum okkur að maka.

16. Hvaða áhrif hefur það á þá sem hyggja á hjónaband að hugleiða meginregluna að baki boðinu um að giftast aðeins trúsystkini?

16 Segjum að einhver utan safnaðarins geri hosur sínar grænar fyrir þér. Endurspegla þá viðbrögð þín hugarfar Davíðs eða hugarfar Salómons? Þjónum Guðs er sagt að giftast aðeins þeim sem er „trúaður“, það er að segja í söfnuðinum. (1. Kor. 7:39) Ef vottur ákveður að ganga í hjónaband ætti hann að finna sér maka innan safnaðarins. Og ef við virðum meginregluna að baki þessu ákvæði Biblíunnar leyfum við okkur ekki heldur að láta í ljós að við höfum áhuga á einhverjum utan safnaðarins sem gefur okkur undir fótinn.

17. Hvað getur hjálpað okkur að forðast þá gildru að horfa á klám?

17 Ef við líkjum eftir Davíð og reynum að sjá hlutina frá sjónarhóli Jehóva getur það hjálpað okkur að berjast gegn þeirri freistingu að horfa á klám. Lestu eftirfarandi biblíuvers, hugleiddu meginreglurnar sem þau hafa að geyma og reyndu að koma auga á sjónarmið Jehóva í málinu. (Lestu Sálm 119:37; Matteus 5:28, 29; Kólossubréfið 3:5.) Við getum forðast þá gildru að horfa á klám með því að hugleiða háleitar siðferðisreglur Jehóva.

REYNUM ALLTAF AÐ SJÁ HLUTINA FRÁ SJÓNARHÓLI GUÐS

18, 19. (a) Hvernig varðveitti Davíð velþóknun Guðs þótt hann væri ófullkominn? (b) Hvað ætlar þú að gera?

18 Þótt Davíð hafi verið til fyrirmyndar á marga vegu syndgaði hann alvarlega nokkrum sinnum. (2. Sam. 11:2-4, 14, 15, 22-27; 1. Kron. 21:1, 7) En Davíð iðraðist alltaf eftir að hafa syndgað. Hann þjónaði Jehóva „af heilum huga“. (1. Kon. 9:4) Við sjáum það á því að hann reyndi alltaf að lifa í samræmi við vilja Jehóva.

19 Við getum varðveitt velþóknun Jehóva þó að við séum ófullkomin. Við skulum þess vegna vera iðnir biblíunemendur, hugleiða vel það sem við lærum og vera ákveðin í að breyta eftir því. Þá erum við í rauninni að biðja þess sama og sálmaskáldið sem bað í einlægni: „Kenn mér að gera vilja þinn.“