Þér er treyst fyrir ráðsmennsku
„Þið eigið ykkur ekki sjálf.“ – 1. KOR. 6:19.
1. Hvernig líta margir á þjónustufólk?
HVAÐ kemur upp í huga þér þegar talað er um þjónustufólk? Mörgum þykir það ekki ýkja virðuleg staða. Þeir sjá fyrir sér fólk sem býr við lítið frjálsræði og verður að leggja hart að sér en fær ekki að njóta ávaxtar erfiðis síns. Fáir vilja vera í þeirri stöðu að þurfa að þjóna öðrum.
2, 3. (a) Hvers myndu fúsir þjónar Krists njóta? (b) Hvaða spurningar varðandi ráðsmennsku verður rætt um í framhaldinu?
2 Jesús sagði að lærisveinar sínir ættu að vera auðmjúkir þjónar. Það yrði þó hvorki litið niður á þá né farið illa með þá. Þessir þjónar njóta virðingar og það er borið mikið traust til þeirra. Tökum sem dæmi það sem Jesús sagði um einn slíkan þjón skömmu fyrir dauða sinn. Hann kallaði hann ,trúan og hygginn þjón‘ og sagðist myndu veita honum mikla ábyrgð. – Matt. 24:45-47.
3 Það er eftirtektarvert að í frásögn Lúkasar er þjónninn kallaður „ráðsmaður“. (Lestu Lúkas 12:42-44.) Fæstir núlifandi þjónar Guðs tilheyra hópnum sem kallast trúr og hygginn ráðsmaður. Af Biblíunni er þó ljóst að allir sem þjóna Guði fara með ráðsmennsku. Hvaða skyldur felast í því? Hvernig eigum við að líta á þær? Til að svara því skulum við kynna okkur hlutverk ráðsmanna á biblíutímanum.
HLUTVERK RÁÐSMANNA
4, 5. Hvaða ábyrgðarstörfum gegndu ráðsmenn til forna? Nefndu dæmi.
4 Til forna voru gjarnan valdir tryggir þjónar til að gegna stöðu ráðsmanns og stjórna búi húsbóndans eða annast rekstur hans. Ráðsmaður hafði nokkuð víðtækt umboð til að sýsla með eigur og fjármuni 1. Mós. 13:2; 15:2; 24:2-4.
húsbóndans og fara með forræði yfir öðrum þjónum hans. Elíeser, þjónn Abrahams, er dæmi um það. Abraham fól honum umsjón með eigum sínum og þær voru miklar. Hugsanlega var það Elíeser sem Abraham sendi til Mesópótamíu til að velja eiginkonu handa Ísak, syni sínum. Þetta var greinilega mikið ábyrgðarstarf. –5 Jósef, sonarsonarsonur Abrahams, var ráðsmaður Pótífars. (1. Mós. 39:1, 2) Síðar meir hafði Jósef sinn eigin ráðsmann. Ráðsmaðurinn tók á móti bræðrum hans tíu og annaðist þá. Og að boði Jósefs kom hann því í kring sem honum var falið varðandi „stolna“ silfurbikarinn. Það er greinilegt að ráðsmönnum var sýnt mikið traust. – 1. Mós. 43:19-25; 44:1-12.
6. Hvaða ráðsmennska er safnaðaröldungum falin?
6 Mörgum öldum síðar skrifaði Páll postuli að kristnir umsjónarmenn væru ,ráðsmenn Guðs‘. (Tít. 1:7) Umsjónarmennirnir eru skipaðir til að vera hirðar hjarðar Guðs. (1. Pét. 5:1, 2) Þeir eiga að fara með forystuna í söfnuðunum. Verkefnin geta auðvitað verið misjöfn. Flestir umsjónarmenn þjóna einum söfnuði. Farandumsjónarmenn þjóna mörgum söfnuðum. Og þeir sem sitja í deildarnefndum hafa umsjón með söfnuðum í einu eða fleiri löndum. Allir eiga engu að síður að rækja skyldur sínar af trúmennsku og allir þurfa að „lúka [Guði] reikning“. – Hebr. 13:17.
7. Hvernig vitum við að allir kristnir menn eru í vissum skilningi ráðsmenn?
7 En hvað um þá mörgu trúu þjóna Guðs sem eru ekki umsjónarmenn? Pétur postuli skrifaði bréf til safnaðarmanna almennt og sagði þar: „Sérhvert ykkar hefur fengið náðargáfu. Notið þær og þjónið hvert öðru eins og góðir ráðsmenn margvíslegrar náðar Guðs.“ (1. Pét. 1:1; 4:10) Guð hefur sýnt þá gæsku að gefa okkur öllum vissar gáfur, færni, getu og hæfileika sem við getum notað í þágu trúsystkina okkar. Allir sem þjóna Guði eru því ráðsmenn hans. Hann virðir okkur og treystir og væntir þess að við notum vel það sem við höfum fengið í vöggugjöf.
VIÐ TILHEYRUM GUÐI
8. Nefndu eina meginreglu sem við þurfum að hafa hugfasta.
8 Við skulum nú líta á þrjár meginreglur sem við þurfum öll að hafa í heiðri sem kristnir ráðsmenn. Sú fyrsta er þessi: Öll tilheyrum við Guði og erum ábyrg gagnvart honum. Páll skrifaði: „Þið eigið ykkur ekki sjálf. Þið eruð verði keypt,“ það er að segja með fórnarblóði Krists. (1. Kor. 6:19, 20) Þar sem við tilheyrum Jehóva ber okkur skylda til að hlýða boðorðum hans og þau eru ekki þung. (Rómv. 14:8; 1. Jóh. 5:3) Við erum líka þjónar Krists. Líkt og ráðsmenn til forna höfum við mikið frjálsræði en frelsið er samt takmörkunum háð. Við verðum að rækja skyldur okkar í samræmi við fyrirmæli og leiðbeiningar. Við erum þjónar Guðs og Krists óháð því hvaða verkefni við höfum í söfnuðinum.
9. Hvernig lýsti Jesús sambandi húsbónda og þjóns?
9 Jesús auðveldar okkur að skilja hvernig sambandi húsbónda og þjóns er háttað. Einu sinni sagði hann lærisveinunum dæmisögu um þjón sem kemur heim eftir að hafa unnið bústörf allan daginn. Segir húsbóndinn þá: „Kom þegar og set þig til borðs?“ Nei, hann segir: „Bú þú mér kvöldverð, tak þig til og þjóna mér meðan ég et og Lúk. 17:7-10.
drekk, síðan getur þú etið og drukkið.“ Hvernig heimfærði Jesús dæmisöguna? Hann sagði: „Eins skuluð þér segja, þá er þér hafið gert allt sem yður var boðið: Ónýtir þjónar erum vér. Vér höfum gert það eitt sem oss bar að gera.“ –10. Hvað sýnir að Jehóva kann að meta það sem við gerum í þjónustu hans?
10 Jehóva kann auðvitað að meta það sem við gerum í þjónustu hans. Í Biblíunni segir: „Guð er ekki ranglátur. Hann gleymir ekki verki ykkar og kærleikanum sem þið auðsýnduð honum.“ (Hebr. 6:10) Jehóva gerir aldrei ósanngjarnar kröfur til okkar. Allt sem hann fer fram á er sjálfum okkur fyrir bestu og er aldrei íþyngjandi. En þjónn hugsar ekki fyrst og fremst um sjálfan sig eins og sjá má af dæmisögu Jesú. Kjarni málsins er sá að þegar við vígjumst Guði ákveðum við að láta vilja hans ganga fyrir okkar eigin. Ertu ekki sammála því?
HVAÐA KRÖFUR GERIR JEHÓVA TIL OKKAR ALLRA?
11, 12. Hvaða eiginleika þurfum við að sýna og hvað verðum við að forðast?
11 Önnur meginreglan er þessi: Í meginatriðum eru gerðar sömu kröfur til allra ráðsmanna Guðs. Vissulega eru nokkrum í söfnuðinum falin ákveðin verkefni. En að mestu leyti gerir Guð sömu kröfur til okkar allra. Svo dæmi sé tekið eiga allir þjónar Jehóva að elska hver annan. Jesús sagði að lærisveinar sínir þekktust á því. (Jóh. 13:35) En kærleikur okkar takmarkast ekki við trúsystkini okkar. Við leggjum okkur líka fram við að elska þá sem eru ekki í söfnuðinum. Það getum við öll gert og það eigum við líka að gera.
12 Við þurfum líka að hegða okkur vel. Við viljum forðast hvers kyns hegðun og líferni sem er fordæmt í Biblíunni. Páll skrifaði: „Enginn sem er saurlífur, dýrkar falsguði eða lifir í hórdómi, enginn karlmaður sem lætur nota sig eða notar aðra til ólifnaðar, enginn þjófur eða fégráðugur, vínsvallari, rógberi eða fjársvikari fær að erfa Guðs ríki.“ (1. Kor. 6:9, 10) Við þurfum vissulega að leggja eitthvað á okkur til að fylgja réttlátum meginreglum Guðs. En það er erfiðisins virði og er okkur til góðs á marga vegu. Það stuðlar að góðri heilsu, góðum samskiptum við aðra og góðu sambandi við Guð. – Lestu Jesaja 48:17, 18.
13, 14. Hvaða ábyrgð hvílir á öllum kristnum mönnum og hvernig eigum við að líta á hana?
13 Munum að ráðsmaður hafði verk að vinna. Það höfum við líka. Guð hefur gefið okkur þá dýrmætu gjöf að þekkja sannleikann. Hann ætlast til þess að við deilum þessari þekkingu með öðrum. (Matt. 28:19, 20) Páll skrifaði: „Þannig líti menn á okkur sem þjóna Krists og ráðsmenn yfir leyndardómum Guðs.“ (1. Kor. 4:1) Páll vissi að þessi ráðsmennska fól í sér að honum var trúað fyrir leyndardómum Guðs og falið að miðla þeim til annarra, í samræmi við leiðbeiningar húsbóndans Jesú Krists. – 1. Kor. 9:16.
14 Það er kærleiksverk að segja öðrum frá sannleikanum. Aðstæður eru auðvitað breytilegar frá manni til manns og það geta ekki allir tekið jafn mikinn þátt í boðunarstarfinu. Jehóva skilur það. Það sem mestu máli skiptir er að gera eins mikið og við getum. Þá sýnum við Guði og náunganum óeigingjarnan kærleika.
VIÐ VERÐUM AÐ VERA TRÚ
15-17. (a) Hvers vegna þarf ráðsmaður að vera trúr? (b) Hvernig sýndi Jesús fram á hvaða afleiðingar það hefði að vera ótrúr?
15 Þriðja meginreglan er nátengd hinum tveim. Hún er þessi: Við verðum að vera trú og traustsins verð. Þótt ráðsmaður hafi margt til brunns að bera er það einskis virði ef hann er óábyrgur eða ótrúr húsbónda sínum. Ráðsmaður verður að vera trúr til að vera dugmikill og farsæll í starfi. Munum að Páll skrifaði: „Nú er þess krafist af ráðsmönnum að sérhver reynist trúr.“ – 1. Kor. 4:2.
16 Ef við erum trú er líka öruggt að okkur verður umbunað fyrir. Ef við erum ótrú kemur það okkur í koll. Þessi meginregla kemur skýrt fram í dæmisögu Jesú um talenturnar. Þjónarnir, sem ávöxtuðu fé húsbóndans eins og þeim bar, fengu hrós og ríkulega umbun. Þjónninn, sem gerði ekki eins og húsbóndinn ætlaðist til, fékk hins vegar þann dóm að hann væri ,illur, latur og ónýtur‘. Talentan, sem honum hafði verið trúað fyrir, var tekin af honum og hann var rekinn út. – Lestu Matteus 25:14-18, 23, 26, 28-30.
17 Jesús sagði aðra dæmisögu til að benda á hvaða afleiðingar það hefði að vera ótrúr. Hann sagði: „Maður nokkur ríkur hafði ráðsmann og var honum sagt að ráðsmaðurinn sóaði eigum hans. Ríki maðurinn lét kalla ráðsmanninn fyrir sig og sagði við hann: Hvað er þetta er ég heyri um þig? Gerðu grein fyrir störfum þínum því að þú getur ekki verið ráðsmaður lengur.“ (Lúk. 16:1, 2) Ráðsmaðurinn var rekinn úr starfi vegna þess að hann sólundaði eigum húsbóndans. Við getum dregið alvarlegan lærdóm af þessari dæmisögu. Við viljum alltaf reynast trú og leysa vel af hendi allt sem okkur er falið.
ER SKYNSAMLEGT AÐ BERA SIG SAMAN VIÐ AÐRA?
18. Hvers vegna ættum við ekki að bera okkur saman við aðra?
18 Við ættum öll að spyrja okkur hvernig við lítum á ráðsmennsku okkar. Við getum sett okkur í vanda ef við berum okkur saman við aðra. Í Biblíunni er ráðlagt: „Sérhver rannsaki breytni sjálfs sín og þá mun hann hafa hrósunarefni í samanburði við sjálfan sig en ekki í samanburði við aðra.“ (Gal. 6:4) Í stað þess að bera okkur saman við aðra ættum við að íhuga hvað við erum sjálf fær um að gera. Það getur bæði komið í veg fyrir að við verðum montin og að við verðum niðurdregin. Þegar við leggjum mat á þjónustu okkar skulum við hafa hugfast að aðstæður breytast. Við getum kannski ekki gert eins mikið og áður vegna heilsuleysis, aldurs eða ýmissa skyldna sem hvíla á okkur. En það gæti líka komið í ljós að við hefðum tök á að gera meira. Væri þá ekki ráð að nýta tækifærið?
19. Af hverju ættum við ekki að verða niðurdregin þó að við fáum ekki ákveðin verkefni?
19 Við ættum ekki heldur að bera okkur saman við aðra sem eru með verkefni sem við vildum gjarnan fá líka. Bróður langar kannski til að vera öldungur í söfnuðinum eða fá að flytja ræður á svæðis- og umdæmismótum. Það er ágætt að leggja sig fram um að uppfylla þau skilyrði sem þarf til að fá slík verkefni. Við ættum samt ekki að verða niðurdregin þó að það gerist ekki eins fljótt og við höfðum vonast til. Það geta verið ástæður, sem við áttum okkur ekki á, fyrir því að við þurfum að bíða töluvert lengi eftir að fá viss verkefni. Mundu að Móse virtist vera reiðubúinn að leiða Ísraelsmenn út úr Egyptalandi en þurfti að bíða í 40 ár áður en til þess kom. Það gaf honum tækifæri til að þroska með sér eiginleika sem þurfti til að leiða þverúðuga og uppreisnargjarna þjóð. – Post. 7:22-25, 30-34.
20. Hvaða lærdóm getum við dregið af Jónatan?
20 Verið getur að okkur verði aldrei falið að sinna ákveðnum verkefnum. Þannig fór það hjá Jónatan. Hann var sonur Sáls og átti í vændum að erfa konungdóminn yfir öllum Ísrael. En Guð valdi Davíð, sem var miklu yngri en hann, til að verða konungur. Hvernig brást Jónatan við? Hann sætti sig við ákvörðun Guðs og studdi Davíð jafnvel þó að hann setti sig í lífshættu með því. Hann sagði við Davíð: „Þú verður konungur yfir Ísrael og ég mun ganga næst þér.“ (1. Sam. 23:17) Hvað lærum við af þessu? Jónatan var sáttur við hlutskipti sitt og öfundaði ekki Davíð, ólíkt föður sínum. Við ættum ekki að öfunda aðra af þeim verkefnum sem þeim hafa verið falin heldur skulum við öll einbeita okkur að því að rækja þær skyldur sem við höfum. Við megum treysta að Jehóva fullnægi öllum réttmætum löngunum þjóna sinna í nýja heiminum.
21. Hvaða augum ættum við að líta ráðsmennsku okkar?
21 Við skulum hafa hugfast að okkur er trúað fyrir ráðsmennsku. Það er hvorki litið niður á okkur né erum við svipt frelsinu heldur er okkur sýndur mikill heiður. Okkur er trúað fyrir verki sem aldrei verður endurtekið – að boða fagnaðarerindið á síðustu dögum þessa heimskerfis. Við höfum mikið svigrúm til að velja hvernig við leysum þetta verkefni af hendi. Við skulum því vera trúir ráðsmenn. Og gleymum aldrei hvílíkur heiður það er að mega þjóna Jehóva sem er æðstur allra í alheimi.