Hegðum okkur eins og gestir og útlendingar
„Ég áminni ykkur sem gesti og útlendinga að halda ykkur frá holdlegum girndum.“ – 1. PÉT. 2:11.
1, 2. Hverjir eru það sem Pétur kallar ,hina útvöldu‘ og af hverju kallar hann þá gesti og útlendinga?
UM 30 árum eftir að Jesús steig upp til himna skrifaði Pétur postuli bréf þar sem hann heilsaði ,hinum útvöldu sem lifðu sem útlendingar dreifðir meðal þjóðanna í Pontus, Galatíu, Kappadókíu, Asíu og Biþýníu‘. (1. Pét. 1:1) Þegar Pétur talar um ,hina útvöldu‘ á hann greinilega við þá sem voru smurðir heilögum anda eins og hann sjálfur og Guð hafði „endurfætt . . . til lifandi vonar“ til að ríkja með Kristi á himnum. (Lestu 1. Pétursbréf 1:3, 4.) En hvers vegna kallar hann þá síðan „gesti og útlendinga“? (1. Pét. 2:11) Og hvaða þýðingu hefur það fyrir okkur sem nú lifum þar sem aðeins um 1 af hverjum 650 vottum í heiminum telur sig andasmurðan og útvalinn?
2 Það var vel við hæfi að tala um hina andasmurðu á fyrstu öldinni sem gesti og útlendinga. Þeir áttu ekki að búa á jörðinni til frambúðar frekar en hinir andasmurðu sem eftir eru á jörðinni núna. Páll postuli tilheyrði sjálfur ,lítilli hjörð‘ hinna andasmurðu og hann sagði: „Föðurland okkar er á himni og frá himni væntum við frelsarans, Drottins Jesú Krists.“ (Lúk. 12:32; Fil. 3:20) Þetta þýðir að hinir andasmurðu yfirgefa jörðina þegar þeir deyja og lifa eftir það sem ódauðlegar andaverur í föðurlandi sínu á himni. (Lestu Filippíbréfið 1:21-23.) Þeir eru því bókstaflega gestir og útlendingar sem búa tímabundið á jörðinni þar sem Satan fer með völdin.
3. Hvaða spurning vaknar varðandi „aðra sauði“?
3 En hvað um „aðra sauði“? (Jóh. 10:16) Kennir ekki Biblían að þeir eigi sér þá von að búa á jörðinni til frambúðar? Jú, hún á að vera heimili þeirra að eilífu. En í vissum skilningi má líka segja að þeir séu gestir og útlendingar á jörðinni nú sem stendur. Í hvaða skilningi?
„ÖLL SKÖPUNIN STYNUR“
4. Hverju geta menn ekki breytt þrátt fyrir góðan vilja?
4 Meðan illur heimur Satans fær að standa þjást allir, einnig þjónar Guðs, vegna afleiðinganna af uppreisn Satans gegn Jehóva. Við lesum í Rómverjabréfinu 8:22: „Við vitum að öll sköpunin stynur líka og hefur fæðingarhríðir allt til þessa.“ Þjóðarleiðtogar, vísindamenn og fólk sem starfar að mannúðarmálum geta engu um það breytt, þrátt fyrir góðan vilja.
5. Hvað hafa milljónir manna gert síðan 1914 og af hverju?
5 Síðan 1914 hafa milljónir manna því kosið að gerast þegnar Jesú Krists, konungsins sem Jehóva hefur skipað. Þá langar ekki til að tilheyra heimi Satans og þeir neita að styðja hann. Í staðinn nota þeir krafta sína og fjármuni til að styðja ríki Guðs. – Rómv. 14:7, 8.
6. Í hvaða skilningi má kalla votta Jehóva gesti og útlendinga í heiminum?
6 Vottar Jehóva eru löghlýðnir borgarar í meira en 200 löndum, en óháð því hvar þeir búa eru þeir eins og gestir og útlendingar. Þeir eru algerlega hlutlausir í stjórnmálum og þjóðfélagsdeilum samtímans. Þeir líta nú þegar á sjálfa sig sem þegna nýs heims sem Guð hefur lofað að gangi í garð innan tíðar. Þeir bíða með óþreyju þess dags þegar þeir verða ekki lengur gestir og útlendingar í ófullkomnum heimi.
7. Hvar hljóta þjónar Guðs varanlega búsetu og hvernig?
7 Innan skamms lætur Jesús til skarar skríða og eyðir illu heimskerfi Satans. Fullkomin stjórn hans útrýmir síðan synd og sorg af jörðinni. Hún upprætir allt, bæði sýnilegt og ósýnilegt, Opinberunarbókina 21:1-5.) Sköpunin hefur þá verið leyst að fullu úr „ánauð sinni undir hverfulleikanum“ og fengið „frelsið í dýrðinni með börnum Guðs“. – Rómv. 8:21.
sem stendur gegn réttmætu drottinvaldi Jehóva. Í framhaldi af því fá trúir þjónar Guðs tækifæri til að hljóta varanlega búsetu í paradís á jörð. (LestuHVERS ER VÆNST AF SANNKRISTNUM MÖNNUM?
8, 9. Hvað á Pétur við þegar hann talar um að halda sér frá „holdlegum girndum“?
8 Pétur bendir á hvers sé vænst af kristnum mönnum. Hann segir: „Þið elskuðu, ég áminni ykkur sem gesti og útlendinga að halda ykkur frá holdlegum girndum sem heyja stríð gegn sálunni.“ (1. Pét. 2:11) Hann beinir orðum sínum til hinna andasmurðu en þau eiga jafn mikið erindi til annarra sauða Jesú.
9 Langanir fólks eru ekki allar rangar sé þeim fullnægt í samræmi við leiðbeiningar skaparans. Þær eru okkur til yndis og ánægju. Það tilheyrir eðlilegum löngunum okkar að njóta góðs matar og drykkjar, stunda heilnæma afþreyingu og hafa ánægju af góðum félagsskap. Það er líka eðlileg og réttmæt löngun að vilja njóta kynlífs með maka sínum. (1. Kor. 7:3-5) Pétur er hins vegar að tala um holdlegar girndir sem „heyja stríð gegn sálunni“. Í sumum biblíuþýðingum er talað um „holdlegan losta“ (King James Version) og „syndugar langanir“ (New International Version). Ljóst er að við þurfum að hafa hemil á hvers kyns löngunum sem stríða gegn yfirlýstum vilja Jehóva og geta haft skaðleg áhrif á samband okkar við hann. Að öðrum kosti gæti kristinn maður fyrirgert voninni um að varðveita líf sitt.
10. Hvernig reynir Satan að freista kristinna manna til að samlagast heiminum?
10 Markmið Satans er að veikja okkur í þeim ásetningi að hugsa um sjálf okkur sem gesti og útlendinga í þessu heimskerfi. Efnislegir hlutir, siðlaust kynlíf, frægð og frami, þjóðernishyggja og það að hugsa fyrst og fremst um sjálfan sig – allt hefur þetta sitt aðdráttarafl. En við þurfum að átta okkur á að þetta eru gildrur sem Satan leggur fyrir okkur. Ef við erum ákveðin í að láta ekki þessar holdlegu girndir ná tökum á okkur sýnum við greinilega að við viljum ekki tilheyra illum heimi Satans. Þannig látum við í ljós að við lifum eins og gestir og útlendingar í heiminum. En við þráum heitt að fá fasta búsetu í nýjum réttlátum heimi Guðs og vinnum markvisst að því.
HEGÐUM OKKUR VEL
11, 12. Hvernig er stundum litið á útlendinga og hvað hugsa sumir um votta Jehóva?
11 Pétur heldur áfram að ræða hvað það merki að kristnir menn séu gestir og útlendingar. Hann segir í 12. versi: „Hegðið ykkur vel meðal þjóðanna, til þess að þeir sem nú hallmæla ykkur sem illgjörðamönnum sjái góðverk ykkar og vegsami Guð þegar hann kemur.“ Útlendingar mega stundum þola gagnrýni af þeirri einu ástæðu að þeir eru ólíkir heimamönnum. Stundum eru þeir jafnvel álitnir hættulegir. Þeir skera sig úr með máli sínu og oft einnig í hátterni, klæðaburði og jafnvel útliti. En þegar þeir hegða sér vel og gera gott sýnir það sig að gagnrýnin á ekki við rök að styðjast.
12 Sannkristnir menn eru sömuleiðis ólíkir nágrönnum sínum að sumu leyti. Þeir geta verið ólíkir þeim í tali og valið sér annars konar skemmtiefni. Oft skera þeir sig úr fjöldanum með klæðaburði sínum og útliti. Fyrir vikið hefur illa upplýst fólk stundum sakað þá um að vera hættulegir samfélaginu. Aðrir fara hins vegar lofsamlegum orðum um góða hegðun þeirra.
13, 14. Hvernig ,sannast spekin af verkum sínum‘? Nefndu dæmi.
13 Við getum unnið gegn óréttmætri gagnrýni með góðri hegðun okkar. Jesús er eini maðurinn sem hefur verið Guði trúr í öllu en hann var engu að síður sakaður um sitthvað misjafnt. Hann var kallaður „mathákur og vínsvelgur, vinur tollheimtumanna og bersyndugra“. Hann sýndi hins vegar með breytni sinni að þessar ásakanir voru tilhæfulausar. „Spekin sannast af verkum sínum,“ sagði hann. (Matt. 11:19) Hið sama er uppi á teningnum núna. Lítum á Betel í Selters í Þýskalandi sem dæmi. Sumum af nágrönnunum þykja þeir sem starfa þar vera eitthvað skrýtnir. Bæjarstjórinn tók hins vegar upp hanskann fyrir þá og sagði: „Vottarnir, sem starfa þarna, lifa sínu lífi en það ónáðar á engan hátt aðra í samfélaginu.“
14 Mannréttindadómstóll Evrópu í Strassborg í Frakklandi komst að svipaðri niðurstöðu fyrir nokkru í sambandi við votta Jehóva í Moskvu. Þeir höfðu verið sakaðir um margs konar misferli. Í júní 2010 kvað dómstóllinn upp eftirfarandi úrskurð: „Dómstóllinn kemst að þeirri niðurstöðu að það hafi ekki verið réttmætt [af Moskvuborg] að meina stefnanda að njóta funda- og trúfrelsis. Innlendir dómstólar tilgreindu ekki ,viðeigandi og næg‘ rök fyrir því að stefnandi“ hafi gerst sekur um að sundra fjölskyldum, ýta undir sjálfsvíg eða meina fólki að fá læknismeðferð, svo dæmi séu tekin. „Refsingin, sem innlendir dómstólar ákváðu, var óhóflega þung í ljósi þess hve landslög eru ósveigjanleg og úr öllu samhengi við réttmæt markmið dómstólanna, hver sem þau hafa verið.“
VERUM YFIRVÖLDUM HLÝÐIN
15. Hvaða meginreglu Biblíunnar fylgja sannkristnir menn um heim allan?
15 Vottar Jehóva í Moskvu, og reyndar um heim allan, fylgja líka öðru boði sem Pétur sagði að kristnir menn þyrftu að halda. Hann skrifaði: „Verið Drottins vegna hlýðin allri mannlegri skipan, bæði keisara, hinum æðsta, og landshöfðingjum.“ (1. Pét. 2:13, 14) Enda þótt sannkristnir menn tilheyri ekki þessum illa heimi hlýða þeir yfirvöldum fúslega eins og Páll sagði þeim að gera, svo framarlega sem lög þeirra stangast ekki á við lög Guðs. – Lestu Rómverjabréfið 13:1, 5-7.
16, 17. (a) Hvað sannar að við erum ekki andsnúin stjórnvöldum? (b) Hvað hafa sumir stjórnmálamenn viðurkennt?
16 Það er ekki í mótmælaskyni við yfirvöld sem vottar Jehóva hegða sér eins og gestir og útlendingar. Fólk hefur sínar eigin skoðanir í stjórnmálum og þjóðfélagsmálum og vottar Jehóva reyna hvorki að hafa áhrif á þær né beita sér gegn þeim. Þeir blanda sér ekki í stjórnmál, ólíkt sumum trúfélögum. Þeir reyna aldrei að hafa áhrif á stefnumál stjórnvalda. Það er fráleitt að þeir reyni að æsa til almennra mótmæla eða grafa undan stjórnvöldum.
17 „Heiðrið keisarann,“ skrifaði Pétur. (1. Pét. 2:17) Með því að hlýða þessu boði sýna kristnir menn að þeir virða ráðamenn og þá stöðu sem þeir gegna. Stjórnmálamenn hafa stundum látið í ljós að það sé engin ástæða til að gera sér áhyggjur af vottum Jehóva. Steffen Reiche er fyrrverandi ráðherra í Brandenburg í Þýskalandi og hefur einnig setið á þingi. Hann sagði: „Framferði votta Jehóva í fangabúðunum og fangelsum vitnar um dyggðir sem eru jafn nauðsynlegar nú sem fyrr í lýðræðis- og réttarríki. Þar á ég við staðfestu þeirra gegn SS-mönnum og mannúð þeirra í garð samfanga sinna. Þessar dyggðir eru ákaflega mikilvægar borgurum landsins þegar litið er til vaxandi hörku gagnvart útlendingum og fólki sem aðhyllist aðrar stjórnmálaskoðanir eða hugmyndafræði.“
ELSKUM TRÚSYSTKINI OKKAR
18. (a) Af hverju er okkur eiginlegt að elska trúsystkini okkar? (b) Hvað hafa sumir sagt um votta Jehóva?
18 Pétur postuli skrifaði einnig: „Elskið samfélag þeirra sem trúa, óttist Guð.“ (1. Pét. 2:17) Vottar Jehóva óttast Guð á heilnæman hátt og vilja ekki vanþóknast honum, og það er þeim sterk hvatning til að gera vilja hans. Þeir njóta þess að tilheyra alþjóðlegu samfélagi bræðra og systra sem þjóna Jehóva í sameiningu. Það er því eðlilegt fyrir þá að elska hver annan. Slík bróðurást er orðin svo fágæt í allri eigingirninni í samfélaginu að hún kemur þeim sem standa utan safnaðarins stundum á óvart. Kona, sem var leiðsögumaður á vegum bandarískrar ferðaskrifstofu, var furðu lostin að sjá ástúðina og umhyggjuna sem vottarnir sýndu erlendum gestum á alþjóðamóti í Þýskalandi árið 2009. Hún sagðist aldrei hafa kynnst öðru eins á ferli sínum sem leiðsögumaður. Einn af vottunum sagði síðar: „Allt sem hún sagði um okkur var sagt í undrunartón og af ákafa.“ Hefurðu orðið vitni að svipuðum viðbrögðum hjá fólki sem hefur fylgst með vottum Jehóva safnast saman á mótum?
19. Hvað ættum við að vera staðráðin í að gera og hvers vegna?
19 Eins og fram hefur komið sýna vottar Jehóva á marga vegu að þeir eru gestir og útlendingar í heimi Satans. Og þeir eru staðráðnir í að vera það áfram. Þeir hafa sterka og örugga von um að bráðalega hljóti þeir varanlega búsetu í nýjum réttlátum heimi Guðs. Hlakkarðu ekki til þess?