Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Að njóta sannrar velgengni

Að njóta sannrar velgengni

„Til þess að ná settu marki og þér farnist vel.“ – JÓS. 1:8.

1, 2. (a) Hvað telja margir vera velgengni? (b) Hvernig geturðu kannað viðhorf þín til velgengni?

HVAÐ merkir það að njóta velgengni í lífinu? Við fáum harla ólík svör eftir því hvern við spyrjum. Margir hugsa sem svo að velgengni sé fólgin í því að vera vel efnaður, ná sér í góða vinnu eða ganga menntaveginn. Aðrir telja það skipta miklu máli að eiga góð samskipti við ættingja, vini og vinnufélaga. Sumir sem þjóna Guði hugsa sér jafnvel að velgengni felist í því að gegna ábyrgðarstarfi í söfnuðinum eða ná góðum árangri í boðunarstarfinu.

2 Í hverju finnst þér velgengni vera fólgin? Til að kanna það gætirðu skrifað niður nöfn fólks sem þér finnst hafa gengið vel í lífinu – einstaklinga sem þú dáist að og berð mikla virðingu fyrir. Hvað eiga þeir sameiginlegt? Eru þeir ríkir eða frægir? Eru þeir áberandi í samfélaginu? Það er ekki ólíklegt að svörin leiði í ljós hvað býr í hjarta þínu, og það getur haft mikil áhrif á ákvarðanir þínar og markmið. – Lúk. 6:45.

3. (a) Hvað átti Jósúa að gera til að honum farnaðist vel? (b) Hvað skoðum við í framhaldinu?

3 Mikilvægast er að Jehóva líti svo á að okkur farnist vel vegna þess að líf okkar er undir velþóknun hans komið. Þegar Jehóva fól Jósúa það mikla ábyrgðarstarf að leiða Ísraelsmenn inn í fyrirheitna landið sagði hann honum að lesa og hugleiða Móselögin „dag og nótt“ og gæta þess að fylgja þeim. Jehóva fullvissaði hann um að þá myndi hann ,ná settu marki og honum myndi farnast vel‘. (Jós. 1:7, 8) Og Jósúa farnaðist vissulega vel eins og við vitum. Hvað um okkur? Hvernig getum við gengið úr skugga um að við lítum velgengni sömu augum og Jehóva? Til að kanna það skulum við rifja upp ævi tveggja manna sem sagt er frá í Biblíunni.

NAUT SALÓMON VELGENGNI?

4. Af hverju má með sanni segja að Salómon hafi farnast vel?

4 Salómon naut einstakrar velgengni á marga vegu því að árum saman óttaðist hann Jehóva og hlýddi honum. Fyrir vikið blessaði Jehóva hann ríkulega. Þegar Jehóva sagði Salómon að hann mætti biðja um hvað sem væri bað hann um visku til að stjórna þjóð sinni. Jehóva bænheyrði hann og veitti honum bæði visku og auðlegð. (Lestu 1. Konungabók 3:10-14.) Viska hans var „meiri en speki allra Austurlandabúa og tók fram allri speki Egypta . . . Nafn hans var þekkt meðal allra nágrannaþjóða.“ (1. Kon. 5:10, 11) Hann var stórauðugur. Til að mynda voru tekjur hans í gulli meira en 20 tonn á ári. (2. Kron. 9:13) Hann reisti margar fagrar byggingar. Hann átti góð samskipti við þjóðirnar í kring og vegnaði vel í viðskiptum. Salómon farnaðist vel meðan hann var Guði trúr. – 2. Kron. 9:22-24.

5. Hverju gerði Salómon sér grein fyrir varðandi raunverulega velgengni?

5 Orð Salómons í Prédikaranum bera með sér að hann hugsaði ekki sem svo að velgengni og hamingja byggðist á því að vera auðugur eða frægur. Síður en svo. Hann skrifaði: „Ég sá að ekkert hugnast þeim betur en að vera glaðir og njóta lífsins meðan það endist. En að matast, drekka og gleðjast af öllu erfiði sínu, einnig það er Guðs gjöf.“ (Préd. 3:12, 13) Salómon skildi að þessi gæði veittu aðeins sanna gleði að menn hefðu velþóknun Guðs, það er að segja ef þeir ættu gott samband við hann. Hann sagði réttilega: „Við skulum hlýða á niðurstöðu þessa alls: Óttastu Guð og haltu boðorð hans því að það á hver maður að gera.“ – Préd. 12:13.

6. Hvaða lærdóm varðandi velgengni getum við dregið af viðhorfum Salómons?

6 Salómon óttaðist Guð og hlýddi honum árum saman. Hann „elskaði Drottin og sýndi það með því að breyta samkvæmt boðum Davíðs föður síns“, segir í 1. Konungabók 3:3. Er það ekki sönn velgengni? Undir handleiðslu Guðs reisti Salómon honum mikilfenglegt musteri og skrifaði þrjár biblíubækur. Við reiknum auðvitað ekki með að feta í fótspor Salómons hvað þetta varðar. Hins vegar getum við dregið lærdóm af viðhorfum hans meðan hann var Guði trúr. Þannig getum við áttað okkur á því hvað sé sönn velgengni og hvernig hægt sé að öðlast hana. Höfum í huga að Salómon var innblásið að skrifa að frægð, frami, auðlegð og viska sé hégómi – þó að flestir ímyndi sér að það sé merki um velgengni. Allt er þetta fánýtt og „eftirsókn eftir vindi“. Þú hefur eflaust veitt því eftirtekt að þeir sem elska peninga fá aldrei nóg og eru oft hræddir um að tapa því sem þeir eiga. Og einn góðan veðurdag rennur auður þeirra til annarra. – Lestu Prédikarann 2:8-11, 17; 5:9-11.

7, 8.  Hvernig reyndist Salómon ótrúr og með hvaða afleiðingum?

7 Við vitum líka að Salómon hætti með tíð og tíma að hlýða Jehóva. Í orði Guðs stendur: „Þegar Salómon var orðinn gamall sneru konurnar hjarta hans til annarra guða svo að hann fylgdi ekki Drottni, Guði sínum, heils hugar eins og Davíð, faðir hans . . . Salómon gerði það sem illt var í augum Drottins.“ – 1. Kon. 11:4-6.

8 Jehóva var réttilega misboðið og hann sagði við Salómon: „Fyrst þú hefur farið þannig að ráði þínu að þú hefur hvorki haldið sáttmála minn né þau fyrirmæli sem ég hef gefið þér mun ég hrifsa af þér konungsríkið og fá það þjóni þínum.“ (1. Kon. 11:11) Þetta voru dapurleg endalok. Þótt Salómon hafi farnast vel á marga vegu olli hann Jehóva vonbrigðum á efri æviárum. Hann brást í því sem mikilvægast var – að vera Guði trúr. Við getum öll spurt okkur hvort við ætlum að draga lærdóm af Salómon svo að okkur farnist vel í lífinu.

FARSÆLL MAÐUR

9. Naut Páll velgengni í lífinu að mati fólks almennt? Skýrðu svarið.

9 Ævi Páls postula var harla ólík lífi Salómons konungs. Páll bjó ekki við konunglegan munað og sat ekki til borðs með þjóðhöfðingjum. Stundum var hann hungraður og þyrstur, kaldur og klæðlaus. (2. Kor. 11:24-27) Eftir að hann viðurkenndi Jesú sem Messías gegndi hann engri virðingarstöðu innan gyðingdómsins. Trúarleiðtogar Gyðinga hötuðu hann. Hann var fangelsaður, barinn, húðstrýktur og grýttur. Páll sagði að hann og aðrir kristnir menn hefðu verið hrakyrtir, ofsóttir og rægðir. „Við erum orðnir eins og sorp heimsins, afhrak allra allt til þessa,“ skrifaði hann. – 1. Kor. 4:11-13.

Sál virtist eiga sér glæsta framtíð frá mannlegum bæjardyrum séð.

10. Af hverju hefur sumum eflaust fundist Páll hafa sólundað þeim tækifærum sem stóðu honum til boða?

10 Páll hafði áður verið þekktur undir nafninu Sál og sem ungur maður virtist hann eiga glæsta framtíð fyrir sér. Vel má vera að hann hafi verið af framámönnum kominn og hann lærði hjá Gamalíel sem var virtur kennari. Páll skrifaði síðar: „Ég fór lengra í gyðingdóminum en margir jafnaldrar mínir.“ (Gal. 1:14) Hann talaði grísku og hebresku reiprennandi og hafði rómverskt ríkisfang og það veitti honum ýmis forréttindi sem margir sóttust eftir. Hann hefði trúlega komist til metorða og öðlast fjárhagslegt öryggi ef hann hefði kosið að koma sér áfram í heiminum. Hann valdi hins vegar lífsbraut sem margir, jafnvel sumir af ættingjum hans, töldu hreina heimsku. Af hverju?

11. Hvaða gildi og markmið voru Páli kær og hvers vegna?

11 Páll elskaði Jehóva og sóttist frekar eftir velþóknun hans en frægð og ríkidæmi í heiminum. Þegar hann kynntist sannleikanum lærði hann að meta lausnargjaldið, boðunarstarfið og vonina um líf á himnum. Ekkert af þessu er nokkurs virði í augum heimsins. Páll vissi að Satan hafði fullyrt að hann gæti gert hvern einasta mann afhuga Guði. (Job. 1:9-11; 2:3-5) Ef til vill gerði Páll sér grein fyrir því að hann gat átt þátt í að afsanna það. Hann var staðráðinn í að vera Guði trúr og halda áfram að tilbiðja hann hvað sem yrði á vegi hans. Það markmið tengist ekki velgengni í hugarheimi flestra í heiminum.

Páll var farsæll í augum Guðs.

12. Hvers vegna valdir þú að setja traust þitt á Guð?

12 Hefur þú sömu markmið og Páll? Það er ekki alltaf auðvelt að vera Jehóva trúr. En ef við gerum það hefur hann velþóknun á okkur og veitir okkur blessun sína. Og það er velgengni í raun. (Orðskv. 10:22) Þá njótum við blessunar Guðs bæði núna og í framtíðinni. (Lestu Markús 10:29, 30.) Við ættum því ekki að treysta „fallvöltum auði“ heldur „Guði sem lætur okkur allt ríkulega í té sem við þörfnumst“. Þá ,söfnum við handa sjálfum okkur fjársjóði sem er góð undirstaða til hins ókomna og getum höndlað hið sanna líf‘. (1. Tím. 6:17-19) Við getum verið þess fullviss að eftir hundrað eða jafnvel þúsund ár eða meira getum við horft um öxl og sagt: „Mér hefur sannarlega farnast vel.“

HVAR ER FJÁRSJÓÐUR ÞINN?

13. Hvað sagði Jesús um að safna sér fjársjóðum?

13 Jesús sagði: „Safnið yður ekki fjársjóðum á jörðu þar sem mölur og ryð eyðir og þjófar brjótast inn og stela. Safnið yður heldur fjársjóðum á himni þar sem hvorki eyðir mölur né ryð og þjófar brjótast ekki inn og stela. Því hvar sem fjársjóður þinn er þar mun og hjarta þitt vera.“ – Matt. 6:19-21.

14. Hvers vegna er óskynsamlegt að safna fjársjóðum á jörð?

14 Fjársjóðir manns geta verið margt annað en peningar. Í vissum skilningi gætu þeir verið allt sem Salómon sagði vera hátt skrifað hjá fólki, svo sem frægð, frami og völd. Jesús er að benda á það sama og Salómon nefnir í Prédikaranum, að veraldlegir fjársjóðir séu ekki varanlegir. Þú sérð eflaust þegar þú lítur í kringum þig að allir slíkir fjársjóðir eru forgengilegir og geta auðveldlega glatast. Prófessor F. Dale Bruner segir um slíka fjársjóði: „Valt er veraldar gengi eins og allir vita. Hetja gærdagsins er gleymd á morgun. Fjármálasnillingur þessa árs er gjaldþrota á því næsta . . . [Jesús] elskar mennina. Hann hvetur þá til að hlífa sjálfum sér við þeirri óumflýjanlegu örvæntingu sem fylgir hverfulli vegsemd. Hún endist ekki. Jesús vill ekki að lærisveinar sínir verði fyrir vonbrigðum. Á hverjum degi snýr heimurinn baki við einhverjum hamingjuhrólfi.“ Flestir taka vafalaust undir þessi orð. En hversu margir skyldu taka veruleikann að baki þeim nógu alvarlega til að breyta um stefnu í lífinu? Gerir þú það?

15. Hvers konar velgengni ættum við að sækjast eftir?

15 Sumir prestar og trúarkennarar hafa prédikað að það sé rangt að sækjast eftir velgengni og það beri að bæla niður alla slíka viðleitni. En Jesús sagði ekki að það væri rangt að reyna að vera farsæl. Hann hvatti lærisveina sína öllu heldur til að keppa eftir velgengni af réttu tagi. Hann sagði þeim að safna sér „fjársjóðum á himni“ því að þeir væru varanlegir. Við ættum umfram allt að reyna að vera farsæl í augum Jehóva. Orð Jesú minna okkur á að við getum valið hvaða markmiði við keppum að. Sannleikurinn er sá að við sækjumst eftir því sem er hjartanu kærast, því sem okkur finnst hafa mest gildi.

16. Hvaða ráðum getum við treyst?

16 Ef okkur langar til að þóknast Jehóva megum við vera viss um að hann sjái okkur fyrir öllu sem við þurfum. Vissulega getur hann leyft að við þolum hungur og þorsta um tíma, rétt eins og Páll postuli. (1. Kor. 4:11) Við getum engu að síður treyst viturlegum ráðum Jesú en hann sagði: „Segið því ekki áhyggjufull: Hvað eigum vér að eta? Hvað eigum vér að drekka? Hverju eigum vér að klæðast? Allt þetta stunda heiðingjarnir og yðar himneski faðir veit að þér þarfnist alls þessa. En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki.“ – Matt. 6:31-33.

VERUM FARSÆL Í AUGUM GUÐS

17, 18. (a) Hverju er raunveruleg velgengni háð? (b) Hverju er velgengni ekki háð?

17 Kjarni málsins er sá að raunveruleg velgengni er ekki fólgin í því sem við afrekum í augum heimsins eða stöðu okkar þar. Og hún byggist ekki heldur á því að gegna ábyrgðarstörfum í söfnuðinum. Ef við fáum slík verkefni getur það hins vegar verið afleiðing þess að við hlýðum Guði og erum honum trú. Í Biblíunni stendur: „Nú er þess krafist af ráðsmönnum að sérhver reynist trúr.“ (1. Kor. 4:2) Og trúfestin þarf að endast. „Sá sem staðfastur er allt til enda mun frelsast,“ sagði Jesús. (Matt. 10:22) Það er óneitanlega merki um farsæld að hljóta frelsun.

18 Af framansögðu má ljóst vera að trúfesti við Guð er hvorki háð frama, menntun, fjárhag né þjóðfélagsstöðu, og hún er ekki komin undir gáfum, hæfileikum eða færni. Við getum verið Guði trú óháð aðstæðum okkar. Sumir voru ríkir og sumir fátækir í kristna söfnuðinum á fyrstu öld. Páll hvatti hina fyrrnefndu til að „gera gott, vera ríkir að góðum verkum, örlátir, fúsir að miðla öðrum“. Jafnt ríkir sem fátækir gátu „höndlað hið sanna líf“. (1. Tím. 6:17-19) Það hefur ekki breyst. Við höfum öll sama tækifæri og sömu ábyrgð: Við verðum að vera trúföst og vera ,rík að góðum verkum‘. Þá erum við farsæl í augum skaparans og getum glaðst yfir þeirri vitneskju að hann sé ánægður með okkur. – Orðskv. 27:11.

19. Hvað ætlar þú að gera til að vera farsæll?

19 Við ráðum ekki aðstæðum okkar að öllu leyti en við ráðum því hvernig við tökumst á við þær. Gerðu þitt ýtrasta til að vera trúr hverjar sem aðstæður þínar eru. Það er þess virði. Treystu að Jehóva blessi þig ríkulega, bæði núna og um alla eilífð. Gleymdu aldrei orðunum sem Jesús beindi til hinna andasmurðu: „Vertu trúr allt til dauða og ég mun gefa þér kórónu lífsins.“ (Opinb. 2:10) Er það ekki velgengni í raun?