Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Tengjum ekki Biblíuna við hjátrú

Tengjum ekki Biblíuna við hjátrú

„ORÐ Guðs er lifandi og kröftugt.“ (Hebr. 4:12) Með þessum orðum bendir Páll postuli á að orð Guðs búi yfir krafti til að snerta hjörtu fólks og breyta lífi þess.

Með fráhvarfinu, sem varð eftir dauða postulanna, komu upp ýmsar rangar hugmyndir um hvers eðlis krafturinn í orði Guðs væri. (2. Pét. 2:1-3) Þegar fram liðu stundir fóru kirkjunnar menn að eigna orði Guðs töframátt. Prófessor Harry Y. Gamble talar um að „kristnu ritningarnar hafi verið notaðar sem verndargripir“. Hann nefnir að á þriðju öld hafi Origenes kirkjufaðir sagt að „hljómur hinna helgu orða geri gagn. Ef orð eru máttug í töfrum heiðninnar hljóta orð Guðs í Ritningunni að vera enn máttugri.“ John Chrysostom skrifaði síðla á fjórðu öld að „djöfullinn vogi sér ekki að nálgast hús þar sem guðspjall liggur“. Hann lætur þess einnig getið að sumir gangi með glefsur úr guðspjöllunum um hálsinn í þeirri trú að þær séu öflugur verndargripur. Prófessor Gamble nefnir að kaþólski guðfræðingurinn Ágústínus hafi talið „leyfilegt að sofa með Jóhannesarguðspjall undir koddanum til að lækna höfuðverk“. Biblíutextar voru sem sagt notaðir sem töfragripir. Lítur þú á Biblíuna sem verndargrip? Heldurðu að hún geti bægt frá þér illum áhrifum og fært þér gæfu?

Nú á dögum er líklega algengara að Biblían sé misnotuð á þann hátt að fólk opnar hana af handahófi og les fyrsta versið sem það sér, í þeirri trú að það veiti viðeigandi leiðsögn hverju sinni. Prófessor Gamble segir að Ágústínus hafi einhverju sinni heyrt barnsrödd í nálægu húsi segja: „Taka og lesa. Taka og lesa.“ Ágústínus trúði að hann hefði fengið bendingu frá Guði um að opna Biblíuna og lesa fyrsta versið sem hann rak augun í.

Hefurðu heyrt af því að fólk biðji til Guðs í erfiðleikum sínum og opni síðan Biblíuna af handahófi og telji að fyrsta versið, sem það sér, hjálpi sér að takast á við vandann? Það er auðvitað gott að fólk skuli sækja leiðsögn til Biblíunnar en þetta er bara ekki rétta aðferðin.

Jesús lofaði lærisveinum sínum að senda þeim ,hjálparann, andann heilaga‘ og bætti svo við: „[Hann] mun kenna yður allt og minna yður á allt það sem ég hef sagt yður.“ (Jóh. 14:26) Við nýtum okkur Biblíuna til góðs með því að fara eftir því sem við höfum lært af henni en ekki með því að opna hana af handahófi.

Margir eru haldnir einhvers konar hjátrú varðandi Biblíuna og notkun hennar. Í Biblíunni er hins vegar varað við að leita fyrirboða af einhverju tagi. (3. Mós. 19:26; 5. Mós. 18:9-12; Post. 19:19) „Orð Guðs er lifandi og kröftugt“ en við þurfum að læra að nota það rétt. Við bætum líf okkar með því að afla okkur nákvæmrar biblíuþekkingar en ekki með því að lesa ritningarstaði af handahófi eða líta á Biblíuna sem verndargrip. Þekking á leiðbeiningum Biblíunnar hefur hjálpað mörgum að temja sér gott siðferði, snúa baki við spilltu líferni, bæta fjölskyldulífið og eignast náið samband við höfund hennar.