Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvers vegna er Varðturninn gefinn út á einföldu máli?

Hvers vegna er Varðturninn gefinn út á einföldu máli?

ÁRATUGUM saman hefur fólk um heim allan notið góðs af því biblíutengda efni sem birst hefur í Varðturninum. Í júlí 2011 hóf svo göngu sína námsútgáfa blaðsins á einfaldri ensku. Í blaðinu sagði að það yrði gefið út í eitt ár til reynslu og útgáfunni yrði haldið áfram ef viðtökurnar yrðu góðar.

Það er ánægjulegt að geta tilkynnt að ákveðið hefur verið að halda útgáfunni áfram. Enn fremur hefur verið ákveðið að blaðið verði gefið út á einfaldri frönsku, portúgölsku og spænsku.

ÞAKKLÁTIR LESENDUR

Eftir að einfalda útgáfan hóf göngu sína hafa margir á Suður-Kyrrahafssvæðinu sagt: Núna geta bræður og systur skilið Varðturninn til fulls. Annar lesandi skrifar: „Áður notuðum við talsverðan tíma í að fletta upp á orðum og reyna að skilja orðalagið en núna notum við þennan tíma til að skilja hvað ritningarstaðirnir merkja og hvernig þeir tengjast efninu.“

„Áður notuðum við talsverðan tíma í að fletta upp á orðum og reyna að skilja orðalagið en núna notum við þennan tíma til að skilja hvað ritningarstaðirnir merkja og hvernig þeir tengjast efninu.“

Háskólamenntuð systir í Bandaríkunum segir: „Í 18 ár talaði ég og skrifaði snúið mál menntamanna. Ég vandi mig á að tala og hugsa á óþarflega flókinn hátt. Ég áttaði mig á að ég þyrfti að læra að hugsa og tala allt öðruvísi.“ Hún hefur tekið góðum framförum sem boðberi og kennari og segir: „Varðturninn á einföldu máli hefur hjálpað mér mikið. Ég hef lært af blaðinu hvernig hægt er að segja hlutina á einfaldan hátt.“

Systir í Englandi, sem lét skírast árið 1972, skrifar um Varðturninn á einfaldri ensku: „Þegar ég las fyrsta tölublaðið fannst mér Jehóva sitja við hliðina á mér, halda utan um mig og lesa blaðið með mér. Mér leið eins og barni að hlusta á pabba sinn lesa sögu undir svefninn.“

Systir á Betel í Bandaríkjunum, sem lét skírast fyrir meira en 40 árum, segir að einfalda útgáfan hafi stundum veitt sér gleggri skilning á málum. Hún nefnir sem dæmi ramma þar sem gefin er skýring á ýmsum orðum og hugtökum. Í blaðinu 15. september 2011 var til dæmis skýring á orðalaginu „cloud of witnesses“ („fjölda votta“) í Hebreabréfinu 12:1. Skýringin var svona: „Þeir voru óteljandi.“ Hún segir: „Þetta varpaði nýju ljósi á versið.“ Um Varðturnsnámið sagði hún: „Þó svo að barn lesi svarið beint upp úr einföldu útgáfunni er orðalagið annað en í venjulegri útgáfu Varðturnsins sem flestir eru með fyrir framan sig. Svar barnsins er því athyglisvert fyrir viðstadda.“

Önnur systir á Betel skrifar: „Ég hlakka til að heyra svör barnanna í söfnuðinum. Einföld útgáfa Varðturnsins hefur hjálpað þeim að tjá sig af mikilli sannfæringu. Það hefur verið hvetjandi fyrir mig að hlusta á þau.“

Systir, sem lét skírast árið 1984, er afar þakklát fyrir einföldu útgáfuna: „Mér finnst blaðið vera skrifað sérstaklega handa mér. Ég á mjög auðvelt með að skilja það sem ég les. Nú treysti ég mér fyllilega til að svara í Varðturnsnáminu.“

MIKIL HJÁLP FYRIR FORELDRA

Móðir, sem á sjö ára dreng, segir: „Það var seinlegt og lýjandi að þurfa að útskýra margar setningar fyrir honum þegar við bjuggum okkur undir Varðturnsnámið.“ Hún segir um einföldu útgáfuna: „Ég er alveg undrandi að hann skuli geta lesið greinarnar og skilið merkinguna. Það vex honum ekki í augum af því að orðin eru fremur auðveld og setningarnar stuttar. Hann er byrjaður að undirbúa sjálfur svörin fyrir samkomurnar og hann einbeitir sér að blaðinu alla samkomuna.“

„Ég er alveg undrandi að hann skuli geta lesið greinarnar og skilið merkinguna.“

Móðir níu ára stúlku skrifar: „Áður þurftum við að hjálpa henni að undirbúa svör. Núna gerir hún það sjálf. Við þurfum sjaldan að útskýra efnið fyrir henni eða kryfja setningar til mergjar. Efnið er ekki ofvaxið skilningi hennar þannig að núna finnst henni hún vera þátttakandi í Varðturnsnáminu.“

HVAÐ SEGJA BÖRNIN?

Mörgum börnum finnst einföld útgáfa Varðturnsins vera skrifuð sérstaklega fyrir sig. „Haldið endilega áfram að prenta nýju útgáfuna,“ skrifar Rebecca sem er 12 ára. „Mér finnst frábært hvernig þið skýrið ýmis orð og hugtök. Það er svo gott fyrir krakka.“

Nicolette tekur í sama streng en hún er sjö ára: „Mér fannst erfitt að skilja Varðturninn. Núna get ég svarað meira sjálf.“ Emma, sem er níu ára, skrifar: „Það hefur hjálpað mér og bróður mínum heilmikið en hann er sex ára. Við skiljum efnið miklu betur núna. Takk fyrir.“

Margir hafa greinilega mikið gagn af nýrri útgáfu Varðturnsins þar sem notuð eru auðskilin orð og einfaldar setningar. Það var augljóslega þörf fyrir hana og hún verður gefin út áfram samhliða venjulegu útgáfunni sem hefur gagnast fjölmörgum síðan blaðið hóf göngu sína árið 1879.