Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Áður en við hjónin kynntumst sannleikanum gengumst við undir glasafrjóvgun þar sem okkur langaði til að eignast barn. Ekki voru allar frjóvguðu eggfrumurnar notaðar heldur voru sumir fósturvísarnir settir í frystigeymslu. Þarf að geyma þá áfram eða má farga þeim?

Þetta er aðeins ein af mörgum siðfræðilegum spurningum sem hjón þurfa að taka afstöðu til ef þau kjósa að gangast undir tæknifrjóvgun. Hjón þurfa sjálf að bera ábyrgð á ákvörðunum sínum frammi fyrir Jehóva. Það getur þó verið hjálplegt fyrir þau að setja sig vel inn í hvað sé fólgið í tæknifrjóvgun.

Árið 1978 var kona í Englandi fyrst kvenna til að eignast glasabarn eins og margir kölluðu það. Hún hafði ekki getað eignast barn vegna þess að eggjaleiðararnir voru stíflaðir og sæðisfrumur náðu ekki til eggjanna. Læknar tóku úr henni þroskað egg, komu því fyrir í glerskál og frjóvguðu það með sæðisfrumu frá eiginmanni hennar. Fósturvísirinn var látinn vaxa í næringarvökva og síðan komið fyrir í leginu þar sem hann festist. Í fyllingu tímans eignaðist konan stúlkubarn. Þessi meðferð og ýmis afbrigði hennar var í framhaldinu kölluð glasafrjóvgun.

Þótt aðferðir geti verið eilítið breytilegar frá einu landi til annars fer glasafrjóvgun yfirleitt fram sem hér segir: Konunni eru gefin sterk frjósemislyf í nokkrar vikur til að örva eggjastokkana til að mynda eggbú. Eiginmaðurinn er beðinn að fróa sér og láta í té nýtt sæði. Sáðfrumurnar eru skildar frá sáðvökvanum og látnar sameinast eggfrumunum á rannsóknarstofu. Oft frjóvgast margar eggfrumur, taka að skipta sér og mynda fósturvísa. Eftir sólarhring eða svo eru hinir nýmynduðu fósturvísar skoðaðir vandlega til að reyna að greina á milli gallaðra fósturvísa og þeirra sem virðast heilbrigðir og líklegastir til að festast í legi móðurinnar og þroskast þar. Á þriðja degi er venjan að koma fyrir í legi móðurinnar tveim eða þrem bestu fósturvísunum til að auka líkurnar á þungun. Ef einn eða fleiri festast er konan barnshafandi og vonast er til að hún ali barn í fyllingu tímans.

En hvað er gert við fósturvísa sem er ekki komið fyrir í legi konunnar, þeirra á meðal fósturvísa sem virðast ekki sterkir eða eru jafnvel gallaðir? Fósturvísar lifa ekki lengi í næringarvökva. Algengt er að frysta þá sem umfram eru í fljótandi köfnunarefni. Hvers vegna? Ef fyrsta tilraunin til að koma fósturvísunum fyrir mistekst er hægt að reyna aftur með minni tilkostnaði. En það vekur vissar siðfræðilegar spurningar. Mörg hjón eiga erfitt með að ákveða hvað gera skuli við frosnu fósturvísana, rétt eins og hjónin sem báru fram spurninguna í byrjun greinarinnar. Þau vilja kannski ekki eignast fleiri börn eða telja ekki ráðlegt að reyna aftur sökum aldurs eða fjárhags. Þau óttast ef til vill áhættuna sem fylgir fjölburaþungun. * Og málið verður enn flóknara hafi annað hjónanna dáið eða annað þeirra eða bæði gifst aftur. Spurningarnar eru margar og sum hjón halda því áfram að greiða árum saman fyrir geymslu fósturvísa.

Haft var eftir fósturfræðingi árið 2008 í dagblaðinu The New York Times að það sé mikil þraut fyrir marga að ákveða hvað gera eigi við fósturvísana sem eftir eru. Í blaðinu sagði: „Að minnsta kosti 400.000 fósturvísar eru í frystigeymslu við læknastöðvar í landinu og fleiri bætast við daglega . . . Fósturvísar geta verið lífvænlegir í áratug eða lengur ef þeir eru frystir á réttan hátt en lifa þó ekki allir þegar þeir eru þíddir.“ (Leturbreyting okkar.) Það síðastnefnda er kristnum mönnum umhugsunarefni. Af hverju?

Kristin hjón, sem eru að velta fyrir sér siðfræðilegum spurningum varðandi tæknifrjóvgun, gætu tekið mið af annars konar aðstæðum sem geta komið upp. Kristinn maður gæti þurft að ákveða hvað gera skuli ef ástvinur hans er dauðvona en honum er haldið lifandi með hjálp tækjabúnaðar, svo sem öndunarvélar. Sannkristnir menn bera mikla virðingu fyrir lífinu í samræmi við 2. Mósebók 20:13 og Sálm 36:10. Þeir trassa því ekki að láta ástvini sína fá nauðsynlega læknishjálp. Í tímaritinu Vaknið! (á ensku) 8. maí 1974 sagði: „Þeir sem vilja fylgja meginreglum Biblíunnar myndu aldrei fallast á líknarmorð vegna þess að þeir virða það sjónarmið Guðs að lífið sé heilagt, hlusta á samviskuna og hlýða landslögum.“ Í sumum tilfellum er staðan hins vegar sú að sjúklingur lifir ekki nema með hjálp tækjabúnaðar. Ættingjar verða þá að ákveða hvort eigi að halda ástvini þeirra á lífi áfram með hjálp tækja eða hætta notkun þeirra.

Þetta er auðvitað ekki sama staða og hjá hjónum sem hafa farið í tæknifrjóvgun og eiga nú fósturvísa í geymslu. Hins vegar getur þeim boðist sá kostur að láta taka fósturvísana úr frystigeymslunni og leyfa þeim að þiðna. Fósturvísarnir spillast fljótlega eftir að þeir eru komnir úr frysti og lifa ekki lengi. Hjónin verða að ákveða hvort þau leyfa það. – Gal. 6:7.

Hjón, sem hafa farið í tæknifrjóvgun í von um að eignast barn, gætu ákveðið að bera kostnaðinn af því að geyma hina fósturvísana í frysti eða notað þá til að reyna aftur síðar að eignast barn. Önnur hjón gætu komist að þeirri niðurstöðu að þau geti hætt að láta geyma fósturvísana því að þau hugsa sem svo að þeir séu ekki lífvænlegir nema með hjálp tækjabúnaðar. Kristnir menn, sem þurfa að taka ákvörðun um þetta mál, bera þá ábyrgð fyrir Guði að taka tillit til biblíufræddrar samvisku sinnar. Þeir ættu bæði að varðveita hreina samvisku og gæta þess að angra ekki samvisku annarra. – 1. Tím. 1:19.

Kristnir menn, sem þurfa að taka ákvörðun um þetta mál, bera þá ábyrgð fyrir Guði að taka tillit til biblíufræddrar samvisku sinnar.

Kvensjúkdómalæknir og sérfræðingur í hormónafræði segir að flest hjón séu „ráðvillt og áhyggjufull yfir því hvað eigi að gera við [frosnu] fósturvísana“. Hann segir að mörgum hjónum „finnist ekki vera til neinn góður valkostur“.

Ljóst er að sannkristnir menn, sem hefur flogið í hug að fara í tæknifrjóvgun, ættu að íhuga vel og vandlega öll þau alvarlegu álitamál sem fylgja henni. Biblían gefur eftirfarandi ráð: „Vitur maður sér ógæfuna og felur sig en einfeldningarnir halda áfram og gjalda þess.“ – Orðskv. 22:3.

Karl og konu, sem búa saman og eru í biblíunámi, langar til að láta skírast en geta ekki gengið í lögformlegt hjónaband vegna þess að maðurinn er ólöglegur innflytjandi. Stjórnvöld gefa ólöglegum innflytjendum ekki kost á að gifta sig í landinu. Geta þau þá undirritað yfirlýsingu um að vera maka sínum trú og síðan látið skírast?

Fljótt á litið gæti það virst góð lausn en það er þó ekki rétta leiðin samkvæmt Biblíunni til að leysa vandann. Til að glöggva okkur á ástæðunni skulum við byrja á því að kanna hvaða tilgangi umrædd yfirlýsing um að vera maka sínum trúr þjónar og í hvaða tilvikum hún á við.

Um er að ræða skriflega yfirlýsingu karls og konu sem geta ekki fengið að giftast af ástæðum sem lýst er hér í framhaldinu. Í yfirlýsingunni heita þau að vera hvort öðru trú og ganga í lögformlegt hjónaband ef það verður gerlegt einhvern tíma síðar. Yfirlýsingin er undirrituð í votta viðurvist. Söfnuðurinn lítur svo á að þau hafi heitið frammi fyrir Guði og mönnum að vera hvort öðru trú þannig að sambúð þeirra er litin sömu augum og hefðu borgaraleg yfirvöld fullgilt hana.

Hvers vegna og hvenær er yfirlýsing um að vera maka sínum trúr notuð? Jehóva er höfundur hjónabandsins og það er afar verðmætt í augum hans. Sonur hans sagði: „Það sem Guð hefur tengt saman má eigi maðurinn sundur skilja.“ (Matt. 19:5, 6; 1. Mós. 2:22-24) Hann bætti við: „Sá sem skilur við konu sína, nema sakir hórdóms, og kvænist annarri drýgir hór.“ (Matt. 19:9) Hórdómur, það er að segja kynferðislegt siðleysi, er því eina leyfilega ástæðan samkvæmt Biblíunni til að binda enda á hjónaband. Ef maður hefur kynmök utan hjónabands, svo dæmi sé tekið, getur eiginkonan ákveðið hvort hún vill skilja við hann eða ekki. Ef hún skilur við hann er henni frjálst að giftast öðrum.

Í sumum löndum var staðan sú, einkum fyrr á árum, að ráðandi kirkjudeild viðurkenndi ekki skýra afstöðu Biblíunnar. Því var haldið fram að hjónaskilnaður væri ekki leyfilegur undir nokkrum kringumstæðum. Sums staðar, þar sem kirkjan hefur haft mikil ítök, er því ekki hægt að fá skilnað samkvæmt landslögum, ekki einu sinni á þeim grundvelli sem Jesús tiltók. Í öðrum löndum, þar sem skilnaður er leyfður, getur verið afar erfitt, tímafrekt og flókið fyrir fólk að skilja. Það getur tekið mörg ár. Það má segja að kirkjan eða stjórnvöld standi gegn því sem Guð leyfir. – Post. 11:17.

Segjum sem svo að karl og kona búi í landi þar sem það er ógerlegt eða ákaflega erfitt að fá hjónaskilnað, og það tekur jafnvel mörg ár. Þau geta þá undirritað yfirlýsingu um að vera hvort öðru trú, að því tilskildu að þau hafi gert allt sem eðlilegt má telja til að slíta fyrra hjónabandi og þeim sé frjálst í augum Guðs að ganga í hjónaband að nýju. Þetta er umhyggjusöm ráðstöfun sem söfnuðurinn hefur gert í slíkum löndum. Þessa yfirlýsingu á að jafnaði ekki að nota í þeim löndum þar sem hjón geta fengið skilnað, jafnvel þó að það sé nokkuð flókið og kostnaðarsamt.

Í sumum löndum, þar sem hægt er að fá skilnað, hefur fólk óskað eftir að fá að undirrita yfirlýsingu um að vera hvort öðru trú og losna þar með við þau óþægindi og erfiðleika sem fylgja því að fá hjónaskilnað. En það er ekki hugmyndin að yfirlýsingin sé notuð í slíkum tilvikum.

Í dæminu, sem spurt er um, búa karl og kona í óvígðri sambúð og vilja nú giftast. Báðum er frjálst að ganga í hjónaband samkvæmt Biblíunni því að hvorugt þeirra á annan maka. Maðurinn hefur hins vegar ekki dvalarleyfi í landinu og yfirvöld leyfa ekki hjónavígslu ólöglegra innflytjenda. (Í mörgum löndum leyfa yfirvöld hjónavígslu þó að annað hjónanna eða bæði hafi ekki dvalarleyfi í landinu.) Í dæminu, sem um ræðir, er hægt að fá hjónaskilnað í landinu. Þar af leiðandi er það ekki valkostur í þessu tilfelli að undirrita áðurnefnda yfirlýsingu um að vera maka sínum trúr. Ekki er um það að ræða að annað hvort þeirra þurfi að fá skilnað en geti ekki fengið hann. Báðum er frjálst að giftast. En hvernig geta þau gert það þar sem maðurinn er ólöglegur innflytjandi? Þau gætu þurft að fara til annars lands þar sem staða hans stendur ekki í vegi fyrir því að ganga í hjónaband. Eins mætti hugsa sér að þau gætu gifst í landinu þar sem þau búa núna ef maðurinn gerir ráðstafanir til að fá dvalarleyfi þar.

Biblíunemendurnir, sem hér um ræðir, geta gert viðeigandi breytingar í samræmi við siðferðisreglur Guðs og lög keisarans. (Mark. 12:17; Rómv. 13:1) Vonandi gera þau það. Að því búnu má vera að þau séu hæf til að láta skírast. – Hebr. 13:4.

^ gr. 6 Segjum sem svo að fóstrið virðist vanskapað eða að nokkrir fósturvísar nái að festast. Það er að sjálfsögðu fóstureyðing að binda af ásettu ráði enda á þungun. Þegar um tæknifrjóvgun er að ræða er fjölburaþungun (tvíburar, þríburar eða fleiri) fremur algeng, og henni fylgir aukin hætta á fyrirburafæðingu og blæðingum á meðgöngu eða alvarlegum blæðingum við fæðingu. Kona, sem gengur með mörg fóstur, er hugsanlega hvött til að fækka þeim með því að láta eyða einu eða fleirum. Það væri auðvitað fóstureyðing en hún jafngildir morði. – 2. Mós. 21:22, 23; Sálm. 139:16.