Þau buðu sig fúslega fram – í Noregi
FYRIR nokkrum árum bjuggu hjónin Roald og Elsebeth í Björgvin, næststærstu borg Noregs. Þau voru þá á fimmtugsaldri og lifðu tiltölulega þægilegu lífi. Hjónin tóku samviskusamlega þátt í safnaðarstarfinu ásamt dóttur sinni og syni, þeim Isabel og Fabian. Roald var safnaðaröldungur, Elsebeth brautryðjandi og Isabel og Fabian voru duglegir boðberar.
Fjölskyldan ákvað að breyta svolítið til í september 2009 og boða fagnaðarerindið á afskekktu svæði í eina viku. Roald og Elsebeth fóru því ásamt Fabian, sem þá var 18 ára, norður fyrir heimskautsbaug til Nordkyn-skaga í Finnmörk. Þau boðuðu fagnaðarerindið í þorpinu Kjøllefjord ásamt fleiri bræðrum og systrum sem höfðu líka komið til þessa afskekkta héraðs til þess að taka þátt í boðunarstarfinu. Roald segir svo frá: „Í upphafi vikunnar var ég alsæll með að hafa hagað málum mínum þannig að ég gæti tekið þátt í þessu einstaka starfi í heila viku.“ En síðar í vikunni varð honum órótt. Hvað varð til þess?
ÓVÆNT SPURNING
Roald heldur áfram: „Mario, sem er brautryðjandi í Finnmörk, spurði okkur alveg upp úr þurru hvort við værum til í að flytja til bæjarins Lakselv og hjálpa þar 23 boðbera söfnuði.“ Spurningin kom alveg flatt upp á Roald. Hann segir: „Við Elsebeth höfðum íhugað þann möguleika að starfa þar sem mikil þörf væri fyrir boðbera – en ekki fyrr en einhvern tíma seinna þegar börnin væru farin að heiman.“ Þótt Roald hefði bara starfað á þessu afskekkta svæði í örfáa daga sá hann að fólk hafði áhuga á að fræðast um Jehóva og það þurfti hjálp við það núna – ekki seinna. „Spurningin kom við samvisku mína og ég var meira að segja andvaka nokkrar nætur,“ segir hann. Mario ók síðan Roald og fjölskyldu til Lakselv sem er 240 kílómetra suður af Kjøllefjord. Hann vildi að gestirnir sæju með eigin augum litla söfnuðinn á staðnum.
Í Lakselv sýndi Andreas gestunum umhverfið og ríkissalinn, en hann er annar tveggja öldunga á staðnum. Söfnuðurinn tók mjög hlýlega á móti gestunum og Roald og Elsebeth fengu að vita að það yrði mjög vel þegið ef fjölskyldan gæti flutt þangað til að hjálpa til við boðunarstarfið. Andreas sagði brosandi að hann hefði þegar gert ráðstafanir til að Roald og Fabian gætu farið í atvinnuviðtal. Hvað gerðu gestirnir nú?
HVAÐ ÁTTUM VIÐ AÐ GERA?
Fyrstu viðbrögð Fabians voru þessi: „Mig langar ekki til að flytja hingað.“ Honum leist ekkert á að yfirgefa vini sína sem hann hafði alist upp með í heimasöfnuði sínum og flytjast til smábæjar. Auk þess hafði hann ekki lokið starfsþjálfuninni í rafvirkjanámi sínu. Þegar Isabel (sem var 21 árs) var spurð hvað henni fyndist um að flytja sagði hún aftur á móti: „Mig hefur einmitt alltaf langað til þess.“ Síðan bætti hún við: „En þegar ég fór að íhuga málið betur fór ég að velta fyrir mér hvort þetta væri nú góð hugmynd, hvort ég myndi ekki sakna vina minna og hvort ég ætti ekki bara að vera kyrr í mínum heimasöfnuði þar sem allt var svo þægilegt og fyrirsjáanlegt?“ Hvernig brást Elsebeth við boðinu? „Mér fannst eins og Jehóva hefði fengið okkur fjölskyldunni verkefni,“ segir hún, „en ég fór líka að hugsa um nýuppgerða húsið okkar og allt sem við höfðum viðað að okkur síðustu 25 árin.“
Þegar þessi einstaka vika var á enda sneru Roald og fjölskylda aftur til Björgvinjar, en þau gátu ekki hætt að hugsa um trúsystkini sín í Lakselv, í um 2.100 kílómetra fjarlægð. Elsabeth segir: „Ég bað oft til Jehóva og hélt sambandi við nýju vinina okkar. Við skiptumst á myndum og starfsfrásögum.“ Roald segir: „Ég þurfti tíma til að venjast tilhugsuninni. Auk þess þurfti ég að ganga úr skugga um að þetta væri raunhæft fjárhagslega. Hvernig gætum við séð okkur farborða? Ég bað oft til Jehóva og ræddi við fjölskylduna og reynda bræður.“ Fabian segir: „Því meira sem ég hugsaði mig um því betur sá ég að ég hafði eiginlega ekki gilda ástæðu til að segja nei. Ég bað oft til Jehóva og smám saman varð ég spenntari fyrir því að flytja.“ En hvað um Isabel? Hún gerðist brautryðjandi í heimabæ sínum til að undirbúa sig fyrir hugsanlega búferlaflutninga. Eftir að hafa verið brautryðjandi í hálft ár og notað mikinn tíma til biblíunáms fannst henni hún vera tilbúin til að láta til skarar skríða.
AÐ NÁ MARKMIÐINU
Þegar fjölskylduna fór að langa meira til að starfa þar sem brýn þörf var fyrir boðbera gerðu þau jafnframt ráðstafanir til að ná markmiði sínu. Roald var í vel launaðri vinnu sem honum líkað mjög vel, en bað um launalaust leyfi í eitt ár. Vinnuveitandinn bauð honum að vera áfram en í hlutastarfi. Hann átti að vinna í tvær vikur og fá sex vikna frí á milli. „Launin lækkuðu umtalsvert en þetta var ágætis fyrirkomulag,“ segir Roald.
Elsebeth segir: „Maðurinn minn bað mig um að reyna að finna hús í Lakselv og leigja út húsið okkar í Björgvin. Það kostaði mikinn tíma og fyrirhöfn en tókst að lokum. Skömmu seinna fengu börnin okkar hlutastörf og þau hjálpa okkur að standa undir matar- og ferðakostnaði.“
Isabel segir: „Bærinn, sem við fluttum til, er mjög lítill. Þar af leiðandi fannst mér langerfiðast að útvega mér hentuga vinnu til að sjá fyrir mér samhliða brautryðjandastarfinu. Stundum virtist það
vonlaust.“ En Isabel tókst að framfleyta sér með því að þiggja þau hlutastörf sem voru í boði. Þau urðu alls níu fyrsta árið. En hvernig gekk Fabian? „Ég átti eftir að fara í starfþjálfun til að ljúka námi í rafvirkjun. Það gerði ég í Lakselv. Ég lauk svo sveinsprófi og fékk hlutastarf sem rafvirki.“ÞANNIG HAFA AÐRIR AUKIÐ STARF SITT
Hjónin Marelius og Kesia höfðu líka áhuga á að starfa þar sem vantaði fleiri boðbera. Marelius er nú 29 ára og segir: „Mótsræður og viðtöl, sem fjölluðu um brautryðjandastarfið, urðu mér hvatning til að auka starf mitt.“ En Kesia, sem nú er 26 ára, gat hins vegar ekki hugsað sér að flytja burt frá fjölskyldunni. „Mér leist ekkert á að vera langt í burtu frá ástvinum mínum,“ segir hún. Auk þess var Marelius í fullri vinnu til að borga af húsinu þeirra. Hann segir: „Okkur tókst með hjálp Jehóva að hrinda þessu í framkvæmd, eftir að hafa margsinnis leitað til hans í bæn og beðið hann að hjálpa okkur að gera nauðsynlegar breytingar.“ Hjónin byrjuðu á því að nota meiri tíma til biblíunáms. Síðan seldu þau húsið sitt, sögðu upp vinnunni og fluttu svo í ágúst 2011 til bæjarins Alta í Norður-Noregi. Marelius vinnur við bókhald og Kesia í verslun. Þannig geta þau séð fyrir sér í brautryðjandastafinu.
Í árbókunum er að finna frásögur af fólki sem starfar þar sem mikil þörf er fyrir boðbera Guðsríkis. Frásögurnar hafa haft mikil áhrif á hjónin Knut og Lisbeth sem eru á fertugsaldri. „Þessar frásögur fengu okkur til að íhuga hvort við gætum starfað á erlendri grund,“ segir Lisbeth, „en ég hikaði vegna þess að ég efaðist um að venjuleg manneskja eins og ég væri fær um það.“ Þau gerðu samt eitthvað í málinu. Knut segir: „Við seldum íbúðina og fluttum inn til mömmu til að geta lagt peninga til hliðar. Seinna langaði okkur til að prófa hvernig það væri að starfa á erlendu starfssvæði. Við ákváðum að vera í enskumælandi söfnuði svo við fluttum til Björgvinjar í eitt ár og bjuggum þar hjá mömmu hennar Lisbeth.“ Áður en langt um leið voru Knut og Lisbeth tilbúin að stíga skrefið til fulls – og flytja alla leið til Úganda. Þau sjá sér farborða með því að vinna tvo mánuði á ári í Noregi og boða svo fagnaðarerindið í Úganda í fullu starfi það sem eftir er ársins.
„FINNIÐ OG SJÁIÐ AÐ DROTTINN ER GÓÐUR“
Hvernig vegnaði svo þessum fúsu verkamönnum? Roald segir: „Við fjölskyldan verjum mun meiri tíma saman þarna á þessum afskekkta stað heldur en við gerðum í Björgvin. Fjölskyldan er orðin nánari. Það hefur verið mikil blessun að sjá hve miklum framförum börnin hafa tekið í þjónustu Jehóva.“ Hann bætir við: „Við leggjum minna upp úr efnislegum hlutum en áður. Þeir hafa ekki eins mikið gildi og við héldum.“
Elsebeth sá að það gæti verið gagnlegt að læra annað tungumál. Ástæðan var sú að þorpið
Karasjok er á starfssvæði Lakselv-safnaðar og þar búa Samar – en svo nefnist þjóðflokkur sem byggir Samaland en það spannar yfir norðurhéruð Noregs, Svíþjóðar, Finnlands og Rússlands. Elsebeth fór því á námskeið í samísku til að ná betur til Samanna. Nú getur hún haldið uppi einföldum samræðum á samísku. Ætli hún sé ánægð á nýja starfssvæðinu? Andlit hennar ljómar þegar hún segir: „Ég er með sex biblíunámskeið. Hvar annars staðar myndi ég vilja vera en einmitt hér?“Fabian er nú brautryðjandi og safnaðarþjónn. Hann segir að þau Isabel hafi hjálpað þremur unglingum í nýja söfnuðinum að verða virkari í safnaðarlífinu. Unglingarnir þrír taka nú reglulega þátt í boðunarstarfinu. Tveir þeirra eru meira að segja skírðir og voru aðstoðarbrautryðjendur í marsmánuði 2012. Einn unglingurinn hafði fjarlægst söfnuðinn, en þakkaði Fabian og Isabel fyrir að hjálpað sér að „komast aftur í gang“. Fabian segir: „Ég varð djúpt snortinn þegar hún sagði þetta. Það er ótrúlega gaman að geta hjálpað öðrum.“ Isabel segir: „Á þessu starfssvæði hef ég svo sannarlega fundið og séð að Jehóva er góður.“ (Sálm. 34:9) Hún bætir við: „Auk þess er mjög gaman að starfa hérna.“
Marelius og Kesia lifa nú einfaldara lífi en áður en mun innihaldsríkara. Það er nú 41 boðberi í söfnuðinum í Alta þar sem þau búa. Marelius segir: „Þegar ég lít um öxl finnst mér svo uppörvandi að sjá hvað líf okkar hefur tekið miklum breytingum. Við erum Jehóva þakklát fyrir að geta starfað hér sem brautryðjendur og þjónað honum. Ekkert gæti veitt okkur meiri ánægju.“ Kesia bætir við: „Ég lærði að reiða mig betur á Jehóva og hann hefur séð vel um okkur. Eftir að ég flutti svona langt frá ættingjum mínum hef ég líka lært að meta betur þær stundir sem við eigum saman. Ég hef aldrei séð eftir að við tókum þessa ákvörðun.“
Hvernig gengur svo Knut og Lisbeth í Úganda? Knut segir: „Það tók sinn tíma að aðlagast nýju umhverfi og menningu. Vatn, rafmagn og magakveisur koma og fara – en við getum haft eins mörg biblíunámskeið og okkur langar til.“ Lisbeth segir: „Aðeins í hálftíma fjarlægð frá heimili okkar eru starfssvæði þar sem fagnaðarerindið hefur aldrei verið boðað. Þegar við förum á slík svæði hittum við samt fólk sem les í Biblíunni og biður okkur um að kenna sér. Ekkert jafnast á við það að segja þessu auðmjúka fólki frá boðskap Biblíunnar.“
Leiðtogi okkar, Jesús Kristur, hlýtur að vera ánægður þegar hann lítur niður frá himnum og sér að boðunarstarfið, sem hann hóf, er nú framkvæmt á æ fleiri stöðum út um alla jörðina. Það er vissulega einlæg ósk allra þjóna Guðs að bjóða sig fúslega fram til að gera „allar þjóðir að lærisveinum“ eins og Jesú bauð þeim. – Matt. 28:19, 20.