Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað gerum við nú eftir að hafa kynnst Guði?

Hvað gerum við nú eftir að hafa kynnst Guði?

„Þið þekkið Guð.“ – GAL. 4:9.

1. Hvers vegna fer flugmaður yfir gátlista fyrir flugtak?

 ÁÐUR en flugvél fer í loftið fer flugmaðurinn yfir gátlista til að ganga úr skugga um að allt sé í lagi. Á gátlista einhverrar vinsælustu flugvélar, sem smíðuð hefur verið, eru meira en 30 liðir sem skoða þarf. Ef ekki er farið vandlega yfir listann fyrir flugtak aukast líkurnar á alvarlegu slysi. Veistu hverjir eru hvattir sérstaklega til að fara yfir gátlistann fyrir hvert einasta flugtak? Það eru reyndustu flugmennirnir. Gamalreyndir flugmenn geta nefnilega orðið kærulausir og trassað að fara vandlega yfir öll öryggisatriði.

2. Hvers konar gátlista ættu kristnir menn að fara yfir?

2 Þú getur líkt eftir varkárum flugmanni og notað eins konar gátlista til að tryggja sem best að trúin bili ekki þegar mest á ríður. Hvort sem maður er nýskírður eða hefur þjónað Jehóva árum saman er mikilvægt að skoða með vissu millibili hvort trúin og sambandið við Jehóva sé sterkt. Ef við gerum það ekki samviskusamlega er hætta á að við bíðum skipbrot á trúnni. Í Biblíunni segir: „Sá er hyggst standa gæti því vel að sér að hann falli ekki.“ – 1. Kor. 10:12.

3. Hvað þurftu kristnir menn í Galatíu að gera?

3 Kristnir menn í Galatíu þurftu að ganga úr skugga um að þeir hefðu sterka trú og kynnu að meta frelsið sem þeir bjuggu við. Lausnarfórn Jesú gerði þeim kleift að tengjast Guði miklu nánari böndum en áður. Nú gátu þeir orðið synir hans! (Gal. 4:9) Sumir í söfnuðinum héldu því hins vegar fram að kristnir menn ættu að halda Móselögin. Til að varðveita hið sérstaka samband við Guð þurftu Galatamenn að hafna kenningum þessara manna. Í söfnuðinum voru óumskornir menn af öðrum þjóðum sem höfðu aldrei nokkurn tíma verið undir Móselögunum. Bæði þeir og Gyðingar þurftu að þroskast í trúnni. Þeir þurftu meðal annars að átta sig á að það var ekki hægt að ávinna sér réttlæti með því að halda lögmál Móse.

FYRSTU SKREFIN TIL AÐ KYNNAST GUÐI

4, 5. Hvað ráðlagði Páll kristnum mönnum í Galatíu og af hverju skiptir það máli fyrir okkur?

4 Páll postuli skrifaði Galatabréfið í ákveðnum tilgangi. Það átti að forða sannkristnum mönnum frá því að snúa nokkurn tíma baki við sannleika Biblíunnar og taka aftur upp fyrri siði og trúariðkanir. Jehóva innblés postulanum að hvetja bæði kristna menn í söfnuðunum í Galatíu og alla aðra þjóna sína til að vera staðfastir í trúnni.

5 Við ættum öll að rifja upp hvernig við vorum leyst úr trúarlegum fjötrum og urðum vottar Jehóva. Manstu hvaða skref þú þurftir að stíga til að geta látið skírast? Manstu hvernig þú kynntist Guði og hvernig þér var innanbrjósts þegar þú vissir að hann þekkti þig? Þessar spurningar geta hjálpað þér að skoða málið.

6. Hvaða gátlista ætlum við að taka til skoðunar?

6 Við höfum öll þurft að stíga níu skref til að verða vottar Jehóva. Þau eru talin upp á bls. 17 undir yfirskriftinni:  „Skref sem þarf að stíga til að skírast og taka framförum.“ Ef við minnum okkur á þessi níu skref dregur það úr hættunni á að við snúum aftur til þess sem í heiminum er. Við getum haldið áfram að þjóna Jehóva dyggilega með því að fara af og til yfir þennan andlega gátlista, ekki ósvipað og reyndur en varkár flugmaður fer alltaf yfir gátlista áður en hann tekur á loft.

ÞEIR SEM GUÐ ÞEKKIR STYRKJA TRÚNA JAFNT OG ÞÉTT

7. Hvaða heildarmynd þurfum við að fylgja og af hverju?

7 Gátlisti flugmannsins minnir hann á að hann þarf að gera ákveðna hluti í hvert sinn áður en hann tekur á loft. Við getum líka prófað sjálf okkur reglulega og skoðað hvaða venjur við höfum tamið okkur síðan við létum skírast. Páll skrifaði Tímóteusi: „Farðu eftir heilnæmu orðunum sem þú heyrðir mig flytja og tileinka þér þá trú og þann kærleika sem Kristur Jesús veitir.“ (2. Tím. 1:13) Þessi heilnæmu orð er að finna í Biblíunni. (1. Tím. 6:3) Heilnæmu orðin geta gefið okkur góða heildarmynd af því sem Jehóva ætlast til af okkur, ekki ósvipað og skissa í teikniblokk listamanns gefur allgóða mynd af því sem hann ætlar sér að mála. Við skulum nú líta á skrefin sem voru undanfari þess að við létum skírast og kanna hve gaumgæfilega við fylgjum heildarmynd sannleikans.

8, 9. (a) Hvers vegna þurfum við að bæta við þekkingu okkar og trú? (b) Af hverju þurfum við að vaxa sem kristnir menn? Lýstu með dæmi.

8 Fyrsti liðurinn á gátlistanum er að afla sér þekkingar en hún er forsenda trúar. Hvort tveggja þarf að vaxa, það er að segja að aukast og dafna jafnt og þétt. (2. Þess. 1:3) Samband okkar við Guð þarf að halda áfram að styrkjast og þroskast eftir að við látum skírast til að það dragi ekki úr andlegum vexti okkar.

Tré vex jafnt og þétt. Við ættum einnig að vaxa í andlegum skilningi.

9 Vöxtur okkar í trúnni er að mörgu leyti sambærilegur við tré. Tré geta orðið ótrúlega stór, ekki síst ef ræturnar teygja sig djúpt og breiða vel úr sér. Hin tígulegu sedrustré í Líbanon geta verið á við 12 hæða hús, ummál stofnsins einir 12 metrar og rótarkerfið sterkt og öflugt. (Ljóðalj. 5:15) Vöxturinn er hraður fyrst í stað en verður ekki eins áberandi með tímanum. Tréð heldur engu að síður áfram að vaxa. Bolurinn gildnar ár frá ári og ræturnar teygja sig dýpra og lengra svo að tréð verður stöðugra. Við getum vaxið á sama hátt sem kristnir menn. Vöxturinn getur verið frekar hraður meðan við erum í biblíunámi og þangað til við látum skírast. Aðrir í söfnuðinum sjá greinilega hve okkur fer fram. Við getum jafnvel orðið brautryðjendur eða fengið önnur verkefni. Þegar fram líða stundir er kannski ekki eins augljóst að við tökum framförum. Við þurfum engu að síður að vaxa í trú og þekkingu svo að við „verðum fullþroska og náum vaxtartakmarki Krists fyllingar“. (Ef. 4:13) Við þroskumst sem kristnir menn, breytumst úr litlum sprota í sterkt og gróskumikið tré.

10. Hvers vegna þarf kristinn maður að halda áfram að bæta við sig þó að hann hafi náð góðum trúarþroska?

10 En vöxturinn á ekki að stöðvast. Við þurfum að bæta við biblíuþekkingu okkar og trúin þarf að skjóta enn dýpri og sterkari rótum. (Orðskv. 12:3) Fjöldi bræðra og systra í söfnuðinum hefur gert það. Tökum sem dæmi bróður sem hefur verið safnaðaröldungur í meira en þrjá áratugi. Hann segist enn vera að bæta við sig. „Ég hef fengið miklu meiri mætur á Biblíunni,“ segir hann. „Ég kem sífellt auga á ný tækifæri til að heimfæra meginreglur Biblíunnar á ýmsa vegu. Ég hef líka fengið meiri mætur á boðunarstarfinu.“

STYRKTU VINÁTTUBÖNDIN VIÐ GUÐ

11. Hvernig getum við kynnst Jehóva betur?

11 Við ættum einnig að tengjast Jehóva nánari böndum sem vini og föður. Hann vill að við finnum að hann elski okkur og við séum örugg og óhult með honum. Okkur ætti að líða eins og barni í faðmi föður síns eða eins og við séum með tryggum og traustum vini. Vináttubönd sem þessi myndast ekki á einum degi. Það tekur sinn tíma að kynnast Jehóva og læra að elska hann. Gefðu þér tíma til að lesa daglega í orði hans. Þannig kynnist þú honum betur. Og lestu líka öll tölublöð Varðturnsins og Vaknið! ásamt öðrum biblíutengdum ritum.

12. Hvað þurfum við að gera til að Jehóva þekki okkur?

12 Vinir Guðs styrkja sambandið við hann með einlægum bænum og með því að sækja samkomur. (Lestu  Malakí 3:16.) Eyru hans „hneigjast að bænum þeirra“. (1. Pét. 3:12) Jehóva er eins og ástríkur faðir því að hann hlustar þegar við áköllum hann. Þess vegna þurfum við að vera „staðföst í bæninni“. (Rómv. 12:12) Við getum ekki varðveitt vináttu Guðs án hjálpar hans. Álagið frá þessum heimi er meira en svo að við getum staðist það í eigin krafti. Ef við hættum að biðja til Jehóva hættum við að fá kraftinn sem hann er bæði fús til og fær um að veita okkur. Biðurðu til Jehóva eins og þú sért að tala við náinn vin eða geturðu bætt þig á því sviði? – Jer. 16:19.

13. Hvers vegna er mikilvægt að vera með trúsystkinum til að viðhalda sterku sambandi við Jehóva?

13 Jehóva er ánægður með þá sem „leita hælis hjá honum“. (Nah. 1:7) Þess vegna viljum við vera nátengd söfnuði þeirra sem þekkja Jehóva, jafnvel eftir að við höfum kynnst honum. Heimurinn er ekki sérlega uppörvandi þannig að það er skynsamlegt af okkur að vera umkringd trúsystkinum sem hafa uppbyggileg áhrif á okkur. Þau hvetja okkur „til kærleika og góðra verka“. (Hebr. 10:24, 25) Það er ekki hægt að rækta gagnkvæman kærleika, eins og Páll talaði um í Hebreabréfinu, nema við eigum náin tengsl við söfnuð annarra sem tilbiðja Jehóva. Við þurfum að eiga samskipti við trúsystkini. Þú þarft að hafa það með á gátlistanum að sækja samkomur reglulega og taka þátt í þeim.

14. Hvers vegna þurfum alltaf að vera tilbúin til að iðrast og breyta um stefnu?

14 Til að verða þjónar Guðs þurftum við á sínum tíma að iðrast synda okkar og taka sinnaskiptum. En það er ekki nóg að gera það einu sinni. Við þurfum alltaf að vera tilbúin til að iðrast og breyta um stefnu. Þar sem við erum ófullkomin býr syndin í okkur. Hún er eins og höggormur sem bíður færis að bíta. (Rómv. 3:9, 10; 6:12-14) Við þurfum að vera á varðbergi öllum stundum gagnvart veikleikum okkar. Jehóva er sem betur fer þolinmóður við okkur þegar við reynum að berjast gegn veikleikunum og breyta okkur til batnaðar. (Fil. 2:12; 2. Pét. 3:9) Það er mikilvægt að nota tíma sinn og krafta til að þjóna Jehóva en ekki eigingjörnum löngunum. Systir nokkur skrifar: „Ég ólst upp í sannleikanum en ég sá ekki Jehóva sömu augum og flestir. Ég var mjög hrædd við hann og hélt að ég gæti aldrei þóknast honum.“ Henni varð ýmislegt á og hún missti fótanna í sannleikanum. „Það var ekki vegna þess að ég elskaði ekki Jehóva,“ segir hún, „heldur hitt að ég þekkti hann ekki í raun og veru. Eftir margar heitar bænir tókst mér að snúa við blaðinu.“ Hún bætir við: „Ég komst að raun um að Jehóva leiddi mig eins og barn. Hann hjálpaði mér blíðlega að komast yfir hvern hjallann á fætur öðrum og sýndi mér hvað ég þurfti að gera.“

15. Eftir hverju taka Jesús og faðir hans?

15 „Flytjið fólkinu öll þessi lífsins orð.“ Engill Guðs sagði Pétri og hinum postulunum þetta eftir að hafa hleypt þeim út úr fangelsi. (Post. 5:19-21) Að boða fagnaðarerindið í hverri viku ætti einnig að vera með á gátlistanum. Jesús og faðir hans gefa bæði gaum að trú okkar og boðun. (Opinb. 2:19) „Lífið snýst um boðunarstarfið,“ segir öldungurinn sem vitnað var til áðan.

16. Hvers vegna er gott að hugsa oft um vígsluheitið sem þú gafst Jehóva?

16 Hugsaðu oft um vígsluheit þitt. Sambandið við Jehóva er það dýrmætasta sem við eigum. Hann þekkir þá sem tilheyra honum. (Lestu Jesaja 44:5.) Veltu fyrir þér hve sterkt samband þú átt við hann og ræddu það við hann í bæn. Og mundu líka eftir deginum sem þú lést skírast. Það minnir þig á að skírnin er tákn um mikilvægustu ákvörðun sem þú hefur tekið á lífsleiðinni.

VERUM ÞOLGÓÐ OG HÖLDUM NÁNUM TENGSLUM VIÐ JEHÓVA

17. Af hverju þurfum við að vera þolgóð til að halda nánum tengslum við Jehóva?

17 Í bréfinu til kristinna manna í Galatíu lagði Páll áherslu á að þeir þyrftu að vera þolgóðir. (Gal. 6:9) Við þurfum líka að vera þolgóð. Þú átt eftir að verða fyrir prófraunum en Jehóva hjálpar þér. Biddu hann oft að gefa þér heilagan anda. Þú finnur muninn þegar hann gefur þér gleði í stað hryggðar og frið í stað angistar. (Matt. 7:7-11) Mundu að Jehóva er annt um fuglana en honum er miklu annara um þig sem elskar hann og hefur helgað honum líf þitt. (Matt. 10:29-31) Gefstu aldrei upp þó að þú lendir í margs konar erfiðleikum. Við eigum okkur dýrmætan fjársjóð vegna þess að Jehóva þekkir okkur.

18. Hvað ættirðu að gera þar sem þú hefur kynnst Guði?

18 Hvað ættirðu þá að gera ef þú hefur nýlega kynnst Guði og látið skírast? Haltu áfram að kynnast honum betur og taka framförum sem þjónn hans. Og hvað ættirðu að gera ef þú hefur verið skírður árum saman? Þú þarft líka að halda áfram að styrkja ræturnar með því að bæta við þekkinguna á Jehóva. Verðum aldrei kærulaus um samband okkar við hann. Við skulum frekar fara af og til yfir andlega gátlistann til að ganga úr skugga um að við séum að styrkja sambandið við Jehóva, ástríkan föður okkar, vin og Guð. – Lestu 2. Korintubréf 13:5, 6.