Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Metið þá hluti rétt sem máli skipta“

„Metið þá hluti rétt sem máli skipta“

„Metið þá hluti rétt sem máli skipta.“ – FIL. 1:10.

1, 2. Hvaða spádómur varðandi síðustu daga hlýtur að hafa vakið forvitni lærisveina Jesú og af hverju?

 PÉTUR, Jakob, Jóhannes og Andrés voru loksins einir með meistara sínum. Þeir voru þungt hugsi yfir því að Jesús hafði sagt þeim að musterið yrði lagt í rúst. (Mark. 13:1-4) Þeir spurðu því: „Seg þú okkur, hvenær verður þetta? Hvernig sjáum við að þú sért að koma og veröldin að líða undir lok?“ (Matt. 24:1-3) Jesús sagði þeim þá frá atburðum og aðstæðum sem myndu hafa mikil áhrif á líf fólks en jafnframt vera til merkis um að illur heimur Satans væri í þann mund að líða undir lok. Eitt hlýtur öðru fremur að hafa vakið forvitni lærisveinanna. Eftir að hafa talað um hörmungar eins og styrjaldir, matvælaskort og aukið lögleysi sagði Jesús frá einu jákvæðu sem myndi einkenna síðustu daga: „Fagnaðarerindið um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina til þess að allar þjóðir fái að heyra það. Og þá mun endirinn koma.“ – Matt. 24:7-14.

2 Lærisveinar Jesú höfðu boðað fagnaðarerindið með honum um tíma. (Lúk. 8:1; 9:1, 2) Þeir minntust þess kannski að hann hafði sagt: „Uppskeran er mikil en verkamenn fáir. Biðjið því Drottin uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar.“ (Lúk. 10:2) En hvernig áttu þeir að prédika „um alla heimsbyggðina“ til þess að „allar þjóðir“ fengju að heyra fagnaðarerindið? Hvaðan áttu allir verkamennirnir að koma? Ef þeir hefðu bara getað séð fram í tímann meðan þeir sátu þarna með Jesú. Þá hefðu þeir eflaust orðið dolfallnir að sjá hvernig orð hans í Matteusi 24:14 rættust.

3. Hvernig uppfyllist Lúkas 21:34 nú á tímum og hvaða spurninga ættum við að spyrja okkur?

3 Við lifum á þeim tíma þegar þessi spádómur Jesú er að rætast. Milljónir manna boða fagnaðarerindið um ríkið út um allan heim. (Jes. 60:22) Jesús benti þó á að sumir myndu eiga erfitt með að einbeita sér að boðunarstarfinu á síðustu dögum. Önnur hugðarefni og áhyggjur lífsins myndu draga til sín athygli þeirra. (Lestu Lúkas 21:34.) Þessi orð Jesú eiga líka við okkar tíma. Sumir þjónar Guðs eru farnir að beina kröftum sínum að öðru en boðuninni. Það má sjá af þeim ákvörðunum sem þeir taka varðandi vinnu, æðri menntun og efnislega hluti, eða af því hve miklum tíma þeir eyða í íþróttir og afþreyingu. Aðrir eru farnir að láta áhyggjur og álag lífsins íþyngja sér um of. Það er gott að spyrja sig hvernig maður sé sjálfur á vegi staddur. Að hverju einbeiti ég mér í lífinu? Hvað leiða ákvarðanir mínar í ljós?

4. (a) Hvernig bað Páll fyrir trúsystkinum sínum í Filippí og hvers vegna? (b) Um hvað er fjallað í þessari grein og þeirri næstu og hvert er markmiðið með því?

4 Kristnir menn á fyrstu öld þurftu að leggja sig fram um að láta þjónustuna við Guð ganga fyrir. Páll postuli taldi ástæðu til að biðja þess að bræður og systur í Filippí ,gætu metið þá hluti rétt sem máli skiptu‘. (Lestu Filippíbréfið 1:9-11.) Flestir á þeim tíma höfðu „djörfung til að tala orð Guðs óttalaust“, rétt eins og Páll. (Fil. 1:12-14) Hið sama er að segja um okkar tíma. Langflest okkar boða orð Guðs með hugrekki. Engu að síður er gott að velta fyrir sér hverju söfnuður Jehóva áorkar núna. Það getur verið okkur hvatning til að einbeita okkur enn betur að boðunarstarfinu sem er svo mikilvægt. Í þessari grein skulum við skoða hvernig Jehóva beitir söfnuði sínum til að spádómurinn í Matteusi 24:14 rætist. Hver er þungamiðjan í starfi safnaðar Jehóva og hvernig getur það verið okkur og fjölskyldu okkar til hvatningar? Í greininni á eftir ræðum við hvað geti hjálpað okkur að halda ótrauð áfram og vera samstíga söfnuði Jehóva.

HIMNESKUR HLUTI ALHEIMSSAFNAÐAR JEHÓVA

5, 6. (a) Hvers vegna veitir Jehóva innsýn í himininn? (b) Hvað sá Esekíel í sýn?

5 Nefna mætti ótalmargt sem Jehóva kaus að skýra ekki í Biblíunni. Hann gaf til dæmis ekki ítarlegar upplýsingar um starfsemi mannsheilans eða gerð alheimsins, jafnvel þó að það hefði verið ákaflega athyglisvert. Hann gefur hins vegar nægar upplýsingar til að við getum skilið vilja hans og lifað samkvæmt því. (2. Tím. 3:16, 17) Það er býsna athyglisvert að Biblían skuli veita okkur örlitla innsýn í himneskan hluta safnaðar Jehóva. Það er heillandi að lesa um þetta hjá Jesaja, Esekíel, Daníel og í Opinberunarbókinni. (Jes. 6:1-4; Esek. 1:4-14, 22-24; Dan. 7:9-14; Opinb. 4:1-11) Það er rétt eins og Jehóva dragi tjaldið frá og leyfi okkur að skyggnast inn í himininn. Hvers vegna veitir hann þessar upplýsingar?

6 Jehóva vill ekki að við gleymum að við tilheyrum alheimssöfnuði hans. Himneski hlutinn vinnur stöðugt að því að vilji hans nái fram að ganga. Esekíel sá til dæmis í sýn feikimikinn vagn á himni sem táknaði ósýnilegan hluta safnaðar Jehóva. Vagninn var hraðskreiður og gat breytt um stefnu á augabragði. (Esek. 1:15-21) Hann komst langa leið í hvert sinn sem hjólin snerust. Esekíel sá vagnstjóranum bregða fyrir í sýninni og virtist hann vera úr „glóandi hvítagulli en frá lendum hans og niður úr var hann sem eldur . . . Þannig var ímynd dýrðar Drottins á að líta.“ (Esek. 1:25-28) Esekíel hlýtur að hafa verið djúpt snortinn af þessari sýn. Hann sá að Jehóva hafði fulla stjórn á söfnuði sínum og stýrði honum með heilögum anda. Vagninn í sýninni var á stöðugri ferð sem lýsir vel hvernig himneskur hluti safnaðar Jehóva starfar.

7. Hvers vegna er sýnin, sem Daníel sá, traustvekjandi fyrir okkur?

7 Daníel fékk einnig að sjá mjög traustvekjandi sýn. Hann sá ,Hinn aldna‘ sitja í hásæti sem var eldslogi og undir því voru hjól. (Dan. 7:9) Jehóva vildi sýna Daníel að söfnuður sinn væri á stöðugri ferð til að hrinda vilja hans í framkvæmd. Daníel sá einnig „einhvern . . . áþekkan mannssyni“ sem var falin umsjón með jarðneskum hluta safnaðar Jehóva. Hér er átt við Jesú. Hann stjórnar ekki aðeins í fáein ár heldur er veldi hans „eilíft og líður aldrei undir lok, á konungdæmi hans verður enginn endir“. (Dan. 7:13, 14) Sýnin er okkur hvatning til að treysta á Jehóva og opnar augu okkar fyrir því sem hann er að vinna að. Jesú var falið „valdið, tignin og konungdæmið“. Jehóva treystir syni sínum enda hefur hann sýnt að hann er traustsins verður. Við getum því hiklaust reitt okkur á fullkomna forystu Jesú.

8. Hvaða áhrif höfðu sýnir Esekíels og Jesaja á þá og hvaða áhrif ættu þær að hafa á okkur?

8 Hvaða áhrif ættu þessar sýnir um himneskan hluta safnaðar Jehóva að hafa á okkur? Það sem Jehóva er að hrinda í framkvæmd fyllir okkur lotningu og auðmýkt, ekki síður en Esekíel. (Esek. 1:28) Sýnin, sem Jesaja sá, hvatti hann til dáða og getur haft sömu áhrif á okkur. Þegar honum var boðið að segja öðrum frá því sem Jehóva var að gera hikaði hann ekki heldur greip tækifærið. (Lestu Jesaja 6:5, 8.) Jesaja vissi að Jehóva stóð með honum og því myndi ekkert verkefni í þjónustu hans reynast honum ofviða. Þessi innsýn í ósýnilegan hluta safnaðar Jehóva ætti sömuleiðis að fylla okkur lotningu og brýna okkur til dáða. Það er ákaflega hvetjandi að hugleiða hvernig söfnuður Jehóva einbeitir sér að því að hrinda vilja hans í framkvæmd.

JARÐNESKUR HLUTI ALHEIMSSAFNAÐAR JEHÓVA

9, 10. Hvers vegna þarf Jehóva að eiga sér söfnuð á jörð sem starfar með himneskum söfnuði hans?

9 Fyrir atbeina sonar síns myndaði Jehóva söfnuð á jörð sem vinnur með himneskum söfnuði hans. Þetta var nauðsynlegt til að hrinda í framkvæmd verkinu sem lýst er í Matteusi 24:14. Hvers vegna? Lítum á þrjár ástæður.

10 Fyrsta ástæðan er sú að lærisveinar Jesú áttu að boða fagnaðarerindið „allt til endimarka jarðarinnar“ eins og Jesús sagði. (Post. 1:8) Í öðru lagi þurftu boðberarnir að fá biblíufræðslu og góða umsjón. (Jóh. 21:15-17) Í þriðja lagi þurftu þeir sem boðuðu fagnaðarerindið að geta safnast saman til að tilbiðja Jehóva og fá leiðbeiningar um boðunina. (Hebr. 10:24, 25) Ekkert af þessu gat gerst af sjálfu sér. Þetta tækist ekki nema fylgjendur Krists störfuðu með skipulegum hætti.

11. Hvernig getum við stutt söfnuð Jehóva?

11 Hvernig getum við stutt söfnuð Jehóva? Ein mikilvæg leið er að treysta alltaf bræðrunum sem Jehóva og Jesús trúa fyrir því að fara með forystuna í boðunarstarfinu. Þessir bræður gætu hæglega notað tíma sinn og krafta til að styðja ýmis góð málefni í þessum heimi. En þeir eru uppteknir af öðru. Að hverju hefur sýnilegur hluti safnaðar Jehóva alltaf einbeitt sér?

EINBEITUM OKKUR AÐ ÞVÍ SEM MÁLI SKIPTIR

12, 13. Hvernig rækja öldungarnir skyldur sínar og af hverju er það hvetjandi fyrir okkur?

12 Reyndum safnaðaröldungum um allan heim hefur verið falið að skipuleggja boðun fagnaðarerindisins og taka forystuna í þeim löndum þar sem þeir starfa. Áður en þeir taka ákvarðanir leita þeir ráða í Biblíunni og biðja einlæglega um leiðsögn Jehóva. Þeir nota orð Guðs sem ,lampa fóta sinna og ljós á vegum sínum‘. – Sálm. 119:105; Matt. 7:7, 8.

13 Safnaðaröldungar, sem hafa umsjón með boðuninni nú á dögum, helga sig „þjónustu orðsins“ rétt eins og þeir sem fóru með forystuna á fyrstu öld. (Post. 6:4) Þeir gleðjast yfir framgangi boðunarstarfsins í heimalandi sínu og um heim allan. (Post. 21:19, 20) Þeir fylgja Biblíunni og leiðsögn heilags anda Guðs til að greiða fyrir boðun fagnaðarerindisins, en gæta þess að setja ekki endalausar reglur. (Lestu Postulasöguna 15:28.) Þannig eru þeir öllum í heimasöfnuði sínum góð fyrirmynd. – Ef. 4:11, 12.

14, 15. (a) Hvað er gert til að greiða fyrir boðun fagnaðarerindisins? (b) Hvað finnst þér um framlag þitt til boðunarstarfsins?

14 Fjöldi bræðra og systra vinnur hörðum höndum að því að semja fræðsluefni og undirbúa samkomur og mót. Þúsundir sjálfboðaliða þýða þetta efni á hér um bil 600 tungumál til að sem flestir geti fræðst um „stórmerki Guðs“ á móðurmáli sínu. (Post. 2:7-11) Ungir bræður og systur vinna við hraðvirkar prent- og bókbandsvélar í prentsmiðjum þar sem ritin eru framleidd. Ritunum er síðan dreift til allra safnaða Votta Jehóva, jafnvel til afskekktustu staða.

15 Margt er gert til að auðvelda okkur að boða fagnaðarerindið með heimasöfnuði okkar. Til dæmis bjóða þúsundir bræðra og systra fram krafta sína til að reisa ríkissali og mótshallir og hjálpa þeim sem eiga um sárt að binda eftir náttúruhamfarir eða lenda óvænt á spítala. Sumir vinna við að skipuleggja mót eða kenna í skólum á vegum safnaðarins, svo fátt eitt sé nefnt. Hvaða markmiði þjónar öll þessi vinna? Að greiða fyrir boðun fagnaðarerindisins, hjálpa okkur að varðveita sterkt samband við Jehóva og hjálpa fleirum að gerast þjónar hans. Hefur jarðneskur hluti safnaðar Jehóva einbeitt sér að því sem mestu máli skiptir? Já, svo sannarlega.

TÖKUM OKKUR SÖFNUÐ JEHÓVA TIL FYRIRMYNDAR

16. Hvað gæti verið fróðlegt námsefni fyrir fjölskyldur og einstaklinga?

16 Gefum við okkur af og til stund til að íhuga hvernig söfnuður Jehóva starfar? Sumir nota hluta af tilbeiðslustund fjölskyldunnar eða eigin námsstund til að kynna sér það betur. Sýnir Esekíels, Daníels og Jóhannesar eru spennandi rannsóknarefni. Finna má margan fróðleik um söfnuð Jehóva í ritum eins og Jehovah’s Witnesses – Proclaimers of God’s Kingdom og á ýmsum mynddiskum.

17, 18. (a) Hvaða gagn hefurðu haft af þessari grein? (b) Hvaða spurningar ættum við að íhuga?

17 Það er hollt fyrir okkur að hugleiða hverju Jehóva áorkar fyrir atbeina safnaðar síns. Við skulum vera ákveðin í að einbeita okkur að því sem máli skiptir, rétt eins og söfnuður Jehóva. Þá verður okkur innanbrjósts eins og Páli sem skrifaði: „Guð hefur sýnt mér miskunn og falið mér þessa þjónustu. Þess vegna læt ég ekki hugfallast.“ (2. Kor. 4:1) Hann hvatti samverkamenn sína og sagði: „Þreytumst ekki að gera það sem gott er því að á sínum tíma munum við uppskera ef við gefumst ekki upp.“ – Gal. 6:9.

18 Þarft þú eða fjölskylda þín að gera einhverjar breytingar til að láta það sem mestu máli skiptir ganga fyrir í daglega lífinu? Geturðu lagt meira af mörkum í boðunarstarfinu með því að einfalda lífið? Í næstu grein er rætt um fimm atriði sem geta hjálpað okkur að vera samstíga söfnuði Jehóva.